fbpx

Náttúran.is hlaut styrk til að vinna að „Grænu korti“ fyrir Suðurland. Markmiðið er að koma út appi sem auðveldar aðgengi að upplýsingum Græna kortsins um Suðurland.

Flokkar á rafrænu útgáfu Græna kortsins á Íslandi eru um 150 talsins og raðast í yfirflokkana Náttúru, Menningu og Hagkerfi. Á kortinu eru upplýsingar um merkilega staði og áhugaverða í náttúrunni. Náttúruvætti, þjóðgarðar og náttúruminjar, friðlönd  og fuglaskoðunarstaðir svo fátt eitt sé nefnt. Í flokki Menningar eru torfbæir, söfn, þjóðleg tónlist, mannvirki og stjórnsýsla. Og undir Hagkerfi eru skráðir þjónsutuaðilar sem á einn eða annan hátt starfa með umhverfisvænum hætti eða stuðla að vænna umhverfi. Þar eru m.a. almenningssamgöngur, veitingar, gisting, orkuframleiðsla, nýsköpun í heimabyggð og svo má lengi telja.

Græna kortið er unnið eftir kerfi Green Map Systems ® sem er upprunnið í New York og notað á um 900 stöðum um allan heim. Markmiðið er að Græn kort stuðli að betri upplýsingum til ferðamanna og heimafólks um umhverfisvæna kosti sem finnast á hverjum stað og stuðli að samvinnu þeirra sem vilja leggja sitt að mörkum til að draga úr mengun, sóun og neikvæðum áhrifum á umhverfið.

Náttúran.is hefur unnið að verkefninu í samvinnu við fjölmarga aðila allt frá árinu 2008 og náð því að verða fyrsta landið sem kortlagt er í heild með þessari hugmyndafræði.Frumkvöðull verkefnisins á alþjóðavísu, Wendy Brawer, er væntanleg til landsins í haust og dagkrá í tegnslum við þá heimsókn verður kynnt síðar. Grænt Íslandskort fyrir Ísland má nálgast á http://natturan.is/gm/ og eru upplýsingarnar á fimm tungumálum.