fbpx

363. stjórnarfundur SASS haldinn að Austurvegi 56, Selfossi, miðvikudaginn 5. mars 2003, kl. 16:00

Mætt: Valtýr Valtýsson, Torfi Áskelsson, Ágúst Ingi Ólafsson, Sveinn A. Sæland, Þorvaldur Guðmundsson, Ragnheiður Hergeirsdóttir, Þorsteinn Hjartarson, Sigurður Bjarnason, Sveinn Pálsson og Þorvarður Hjaltason.

Dagskrá:

Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 5. og 19. febrúar sl.

Til kynningar.

Frá Samgöngunefnd SASS

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir fundi sem Samgöngunefnd átti með þingmönnum Suðurlands 24. febrúar sl.

Bréf frá Villingaholtshreppi, dags. 8. febrúar 2003.

Í bréfinu er tilkynnt að hreppurinn hafi samþykkt endurskoðaðan stofnsamning Skólaskrifstofu Suðurlands.

Erindi frá Sveitarfélaginu Árborg.

a. Bókun bæjarráðs 13. febrúar 2003 vegna Menningarsalar Suðurlands.

Stjórn SASS tekur undir bókunina og vísar til eftirfarandi samþykktar síðasta aðalfundar SASS: ,, Aðalfundur SASS, haldinn á Selfossi 30. og 31. ágúst 2002 fagnar áformum um uppbyggingu menningarsalar Suðurlands á Selfossi og ítrekar nauðsyn þess að ríkisvaldið styðji vel við verkefnið. Aðalfundurinn samþykkir að sveitarfélög á Suðurlandi leggi allt að kr. 10.000.000.- í verkefnið enda verði önnur fjármögnun tryggð. “

b. Bókun bæjarráðs 13. febrúar 2003 varðandi kostnað við rekstur Skólaskrifstofu Suðurlands, þar sem tekið er undir bókun stjórnar SASS 5. febrúar sl. um sama efni.

Bréf frá Sveitarfélaginu Ölfusi, dags. 13. febrúar 2003, varðandi ákvörðun ríkisstjórnarinnar um 6.3 milljarða framlag til vegamála, sérstaks atvinnuátaks og menningarhúsa.

Lagt fram til kynningar.

Bréf frá Félagsmálaráðuneytinu, dags. 12. febrúar 2003, þar sem óskað er eftir tilnefningu þriggja fulltrúa og jafnmargra til vara í svæðisráð um málefni fatlaðra á Suðurlandi.

Samþykkt var að skipa eftirtalda:

Aðalmenn: Helga Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur Mýrdalshreppi, Guðjón Ægir Sigurjónsson lögfræðingur Árborg og Kristinn Kristinsson félagsmálastjóri Ölfusi.

Varamenn: Kristjana Sigmundsdóttir Árborg, Sveinn Ingvarsson Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Agnes Antonsdóttir Rangárþingi Eystra .

Ragnheiður tók ekki þátt í afgreiðslu málsins vegna vanhæfis.

Bréf frá Björgunarsveitinni Björg Eyrarbakka, dags. 18. febrúar 2003, þar sem óskað er fjárstuðnings vegna kaupa á svifnökkva.

Samþykkt að hafna erindinu.

Bréf frá Úrvinnslusjóði, dags. 11. febrúar 2003, varðandi samstarf úrvinnslusjóðs og sveitarfélaga/sorpsamlaga um endurnýtingu úrgangs.

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir málinu. Um það hefur verið fjallað í stjórn Sorpstöðvarinnar og mun Sorpstöðin verða í sambandi við sveitarfélögin um þær ráðstafanir sem hugsanlega þarf að grípa til vegna gildistöku laga um Úrvinnslusjóð.

Bréf frá Fráveitunefnd Umhverfisráðuneytisins, dags. 21. febrúar 2003, þar sem kynnt er fyrirhuguð ráðstefna um fráveitumál sveitarfélaga 7. mars nk.

Lagt fram.

Erindi frá Alþingi.

a. Tillögur til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003 – 2006, 563. mál, og samgönguáætlun fyrir árin 2003 – 2014, 469. mál.

Eftirfarandi umsögn var samþykkt að tillögu samgöngunefndar SASS:

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga benda á á að við afgreiðslu samgönguáætlananna verður að taka tillit til nýlegra ákvarðana ríkisstjórnarinnar um viðbótarfjarmagn til samgönguframkvæmda ( Gjábakkavegur, Suðurlandsvegur um Hellisheiði og Suðurstrandarvegur) á næstu tveimur árum og jafnframt að séð verði til þess að þeim framkvæmdum verði tryggt viðbótarfjármagn í samgönguáætluninni þannig að hægt verði að vinna við þær í einni samfellu með eðlilegum framkvæmdahraða.

Þrátt fyrir þær viðbótarframkvæmdir sem nú hafa verið samþykktar er ljóst að hlutur Suðurlands í framkvæmdum næstu 12 ár er ekki í samræmi við mikilvægi samgangna fyrir landshlutann sem birtist í umferðarmagni og vegalengdum. Þegar kostnaður vegna jarðgangna er tekinn með í reikninginn verður hlutur Sunnlendinga enn rýrari, sbr. meðfylgjandi töflur í greinargerð. Þetta verður enn ljósara þegar þróun samgangna á síðustu árum er skoðuð, en mjög mikil aukning hefur orðið á umferð um Suðurland bæði vegna sívaxandi ferðamannastraums og sumarhúsabyggðar og einnig vegna stóraukinna landflutninga. Allt bendir til að þessi þróun haldi áfram og sömuleiðis sú fjölgun íbúa og efling atvinnulífs sem orðið hefur á Suðurlandi á undanförnum árum. Í þessu sambandi benda Samtök sunnlenskra sveitarfélaga á nauðsyn þess að taka upp mun ítarlegri mælingar á umferð en verið hefur og er í raun vandséð hvernig á að byggja samgöngukerfið upp á skynsamlegan hátt án þess.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga benda á að á Suðurlandi er fjöldi tengivega í lélegu ásigkomulagi með mikla umferð. Og einnig að huga þurfi að skilgreiningum tengivega og stofnvega og

sömuleiðis hvort bæta eigi fleiri tengivegum inn í grunnnetið á Suðurlandi m.t.t. mikils umferðarþunga. Stórauknar umferðarmælingar eru grundvallaratriði í þessu sambandi.

Einnig er bent á nauðsyn þess að auka umferðaröryggi verulega með lagfæringum á þeim samgöngumannvirkjum þar sem slys eru tíð, en arðsemi slíkra framkvæmda er gríðarleg, sbr. fyrirliggjandi skýrslu Vegagerðarinnar frá 1999 um lagfæringu slysastaða á þjóðvegum á Suðurlandi og Reykjanesi.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga óska eindregið eftir því að við afgreiðslu samgönguáætlananna á Alþingi verði þessar tillögur endurskoðaðar og þess gætt að hlutur Suðurlands verði bættur verulega frá því sem nú er.

Greinargerð

Í ljós kemur þegar framlög til vegamála á Suðurlandi á árunum 1998 – 2002 eru skoðuð að þau eru hvorki í samræmi við umferðarþunga né lengd vegakerfisins eins og sést í eftirfarandi töflu:

Tafla 1

Tegund vega Lengd Hlutfall Hlutfall Eknir Viðhaldvegakerfis útgjalda km

Stofnvegir:

Suðurland 629 km 15% 10% 19%

Landið allt 4.306 km 16%

Tengivegir:

Suðurland 1.006 km 26% 25% 32%

Landið allt 3.929 km

 

Þegar heildarframlög til vegamála á Suðurlandi á árunum 1998 – 2002 eru skoðuð, er þá einnig tekið tillit til annarra vega og brúarframkvæmda, þá nema þau samtals kr. 2.838 mkr. sem eru um 11% af heildarútgjöldum.

Hlutur Suðurlands til ársins 2014

Í áðurnefndri þingsályktunartillögu verða framlög til vegamála á Suðurlandi eftirfarandi, ásamt nýákveðnum viðbótarframlögum:

Tafla 2

2003 – 2006 2007 – 2010 2011 – 2114 Samtals Hlutfall

Landsbyggð í heild 11.700 9.319 8.914 29.933

Suðurland 1.308 1.158 1.280 3.746 12.5%

Landsbyggð í heild

með jarðgangakostn. 20.900 14.319 10.914 46.133

Hlutur Suðurlands 1.308 1.158 1.280 3.746 8.1%

 

Allar tölur eru í milljónum króna

Sé aðeins litið til næstu fjögurra ára þá verður hlutur Suðurlands 11.2% af framlögum til vegamála á landsbyggðinni en einungis 6.3% ef kostnaður við jarðgöng er tekinn með í reikninginn.

 

b. Frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun, 600. mál, heildarlög, EES-reglur.

Ekki eru gerðar athugasemdir við frumvarpið

c. Frumvarp til laga um fjarskipti, 599. mál, heildarlög, EES-reglur.

Ekki eru gerðar athugasemdir við frumvarpið.

d. Frumvörp til raforkulaga, 462. mál, heildarlög,EES-reglur og breyt. á ýmsum lögum á orkusviði, 463. mál.

Eftirfarandi umsögn var samþykkt:

Stjórn SASS gerir ekki athugasemdir við einstakar efnisgreinar frumvarpanna, en vill að eftirfarandi sjónarmiða verði gætt við afgreiðslu þeirra:

1. Jafnhliða nýjum raforkulögum verði gerðar varanlegar ráðstafanir til jöfnunar orkuverðs og jafnframt að tryggð verði fjármögnun hins félagslega hluta raforkukerfisins. Ekki er viðunandi að ákvörðunum um þau atriði verði slegið á frest.

2. Leiðrétta verður þá mismunun sem hefur verið við lýði á milli almenningsrafveitnanna, annars vegar þeirra sem hafa haft bein viðskipti við Landsvirkjun og hins vegar þeirra sem hafa keypt raforku í heildsölu af Rarik. Ekki verður við það unað að dagar löngu úrelts heildsölukerfis verði framlengdir.

3. Áður en frumvörpin verða samþykkt þarf að ganga rækilega úr skugga um að breytingarnar sem lögin fela í sér leiði til raunverulegs hagræðis. Helstu leiðarljósin í því sambandi eru að raforkuverð til almennings og fyrirtækja lækki frá því sem nú er og að afhendingaröryggi raforkunnar skerðist ekki.

e. Frumvörp til laga um Orkustofnun, 544. mál, heildarlög, og íslenskar orkurannsóknir, 545. mál.

Ekki er tekin afstaða til frumvarpanna.

f. Tillaga til þingsályktunar um færeyska fiskveiðistjórnarkerfið, 56. mál.

Ekki er tekin afstaða til tillögunnar.

 

Efni til kynningar:

a. Fundargerð Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands frá 25. febrúar sl.

b. Ársskýrsla Fræðslunets Suðurlands fyrir árið 2002.

Stjórn SASS fagnar öflugu starfi Fræðslunetsins og hvetur sveitarfélögin til að nýta sér þjónustu þess og möguleika.

Önnur mál.

a. Framkvæmdastjóri lagði fram tillögu að breytingu á gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnareftirlit á Suðurlandi þess efnis að gjalddagi eftirlitsgjaldanna verði 1. apríl í stað 1. júlí.

Samþykkt að óska eftir umsögn Heilbrigðisnefndar Suðurlands.

b. Lagt fram bréf Stéttarfélags sálfræðinga, dags. 27. febrúar 2003, varðandi greiðslu yfirvinnuorlofs.

Samþykkt að afla álits lögfræðinga.

Fundi slitið kl. 18:05

Valtýr Valtýsson

Ágúst Ingi Ólafsson

Þorvaldur Guðmundsson

Sveinn Pálsson

Ragnheiður Hergeirsdóttir

Þorsteinn Hjartarson

Sveinn A. Sæland

Sigurður Bjarnason

Torfi Áskelsson

Þorvarður Hjaltason