haldinn að Austurvegi 56, Selfossi, föstudaginn 20. maí 2011, kl. 11.00
Mætt: Elfa Dögg Þórðardóttir, Aðalsteinn Sveinsson, Reynir Arnarson, Elín Einarsdóttir, Páley Borgþórsdóttir varamaður Elliða Vignissonar og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.
Sigríður Lára Ásbergsdóttir og Guðfinna Þorvaldsdóttir boðuðu forföll.
Formaður setti fund og bauð Páley Borgþórsdóttur sérstaklega velkomna til fyrsta fundar.
1. Sóknaráætlun fyrir Suðurland.
Fundargerðir frá 8. apríl, 18. apríl og 10. maí. Einnig lagt fram yfirlit um fjárframlög á fjárlögum 2009 til 2011
Fundargerðir ræddar. Nú þegar er hafin vinna við tvö af áætluðum verkefnum þ.e. almenningssamgöngum á Suðurlandi og eflingu sveitarstjórnarstigsins og vinna við önnur verkefni er að hefjast. Stjórn SASS leggur áherslu á að sem fyrst liggi fyrir af hálfu fjármálaráðuneytisins með hvaða hætti staðið verði að vinnulagi við fjáfestingaráætlun nk. haust til að hægt sé að vinna með markvissum hætti að verkefnum Sóknaráætlunar fyrir Suðurland. Stjórnin samþykkti einnig að kynna verkefnið á heimasíðu SASS.
2. Efling sveitarstjórnarstigsins á Suðurlandi.
Fundargerðir verkefnisstjórnar frá 8. apríl, 18. apríl og 5. maí.
Þar kemur fram að nefndin er sammála um vinnan beinist að þremur meginþáttum; auknu samstarfi sveitarfélaganna, núverandi samstarfsstofnunum og skipulagi þeirra og sameiningarkostum sveitarfélaganna. Stefnt er að fundi fulltrúa allra sveitarfélaganna sem eiga aðild að verkefninu 31. maí nk.
3. Menningarsamningur fyrir Suðurland.
Lagður fram samningur um samstarf ríkis og sveitarfélaga um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu, dags. 15. apríl 2011. Framlag sveitarfélaganna hækkar um 2,8 milljónir króna frá því sem áætlað var.
Til kynningar.
4. Almenningssamgöngur á Suðurlandi.
Samgönguráðuneyti og Vegagerðin hafa lagt til að SASS verði falin umsjón og rekstur almenningssamgangna á starfssvæði samtakanna. Oddvitum aðildarsveitarfélaganna hefur verið kynnt umfang og núverandi kostnaður við almenningssamgöngur á svæðinu.
Samþykkt að tilnefna eftirtalda í starfshóp um almenningssamgöngur á Suðurlandi: Elfu Dögg Þórðardóttur, Aldís Hafsteinsdóttur, Ástu Stefánsdóttur, Ísólf Gylfa Pálmason, Björn Inga Jónsson og Gunnar Örn Marteinsson. Starfshópnum falið að undirbúa samninga við Vegagerðina um yfirtöku á almenningssamgöngum á Suðurlandi frá
1. janúar 2012.
5. Ályktun fundar samráðsnefndar heilbrigðisumdæmis Suðurlands með rekstraraðilum hjúkrunarheimila frá 14. apríl sl.
Stjórn SASS tekur undir ályktun fundarins og samþykkir að boða til fundar með öllum rekstraraðilum hjúkrunarheimila á starfssvæði SASS, þingmönnum kjördæmisins og sveitarstjórnarmönnum. Velferðarráðherra verði boðið að sitja fundinn.
6. Bréf frá Sveitarfélaginu Árborg, dags. 3. maí 2011, varðandi áframhaldandi aðild að Skólaskrifstofu Suðurlands.
Stjórn SASS lýsir yfir ánægju með þessa ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar og lítur á hana sem mikilvægt framlag til traustrar og góðrar samvinnu sveitarfélaga á Suðurlandi.
7. Bréf frá Sveitarfélaginu Árborg, dags. 28. apríl 2011, varðandi atvinnu- og orkumálaráðstefnu 29. apríl.
Til kynningar.
8. Bréf frá Sveitarfélaginu Árborg, dags. 17. maí 2011, varðandi hugsanlega þátttöku SASS í sameiginlegri þekkingarmiðstöð sem hugmyndir eru um að koma á í Sandvíkurskóla á Selfossi.
Samþykkt að sækja fund 1. júní nk. þar sem málið verður kynnt af hálfu sveitarfélagsins.
9. Afrit af bréfi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 10. maí 2011, til Umhverfisráðuneytisins með umsögn um drög að reglugerð um flokkun vatnshlota og vöktun.
Stjórn SASS tekur undir umsögn heilbrigðiseftirlitsins og krefst þess að nýjum verkefnum sem eftirlitinu er ætlað að vinna fylgi tilsvarandi fjármunir frá ríkinu.
10. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 11. apríl 2011, varðandi framlag sjóðsins til landshlutasamtakanna 2011 o.fl. atriði þar að lútandi.
Til kynningar.
11. Erindi frá Alþingi þar sem óskað er umsagnar um eftirfarandi þingmál:
-
- Frumvarp til sveitarstjórnarlaga, 726. mál. http://www.althingi.is/altext/139/s/1250.html
- Frumvarp til laga um barnalög, 708. mál
http://www.althingi.is/altext/139/s/1374.html
Lagt fram.
- Frumvarp til laga um breyt. á lögreglulögum (fækkun lögregluumdæma o.fl.) http://www.althingi.is/altext/139/s/1305.html
Eftirfarandi umsögn var samþykkt:
,,Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga leggst eindregið gegn fyrirliggjandi frumvarpi um breytingu á lögregluumdæmum.
Ástæður þessarar afstöðu eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi er óljóst hvernig útfærslu laganna verður háttað þar sem sérstakri verkefnisstjórn er ætlað að móta meginstefnu um uppbyggingu, skipulag og viðfangsefni lögregluembættanna. Alþingi framselur þar með vald sitt í hendur embættismanna. Í öðru lagi liggur ekki fyrir hagkvæmniathugun vegna þessara skipulagsbreytinga og því alls óvíst að tilgangi skipulagsbreytinganna verði náð. Í þriðja lagi liggur fyrir að Suðurland hefur ákveðna sérstöðu varðandi náttúrurvá og nægir þar að minna á jarðskjálftana á Suðurlandi árin 2000 og 2007 og nýhafið eldgos í Grímsvötnum , eldgos í Eyjafjallajökli 2010 og á Heimaey 1973 auk fleiri eldgosa á svæðinu. Tekist hefur að byggja upp mikla þekkingu hjá starfsfólki embættanna á vettvangi almannvarna. Mikilvægir þættir í því sambandi er þekking á staðháttum og nánd við íbúana. Með stækkun embættis lögreglustjóra lengjast boðleiðir hjá embætti sem stjórnað er lengra frá hinum raunverulegu atburðum og íbúum áhrifasvæða. Á Suðurlandi hafa Vestmannaeyjar sérstöðu vegna landfræðilegrar stöðu sinnar. Samgöngur eru ótryggar við Eyjarnar auk þess sem íbúafjöldi í Eyjum margfaldast oft á ári vegna ferðamanna eins og gildir raunar um allt Suðurland. Í fjórða lagi bendir stjórn SASS á að ekki virðist samræmi í tillögunum hvað varðar fjölda embætta eftir kjördæmum. Þannig verða 3 embætti í Norðvesturkjördæmi, fámennasta kjördæmi landsins, en tvö í hinum landsbyggðarkjördæmunum. Í fimmta og síðasta lagi bendir stjórn SASS á að hér er verið taka enn eitt skrefið sem veikir stöðu landsbyggðarinnar með óhjákvæmilegri fækkun opinberra starfa en sem er í andstöðu við yfirlýstan vilja stjórnvalda í byggðamálum.
Stjórn SASS gerir einnig alvarlegar athugasemdir við framlagningu frumvarpsins sem kemur mjög seint fram og mjög skamman umsagnarfrest sem umsagnaraðilum er gefinn. Grundvallaratriði er þegar ráðist er í viðamiklar skipulagsbreytingar á mikilvægum opinberum stofnunum að vel sé vandað til verka og nægur tími gefinn til nauðsynlegrar umræðu um breytingarnar. Stjórn SASS hvetur því Alþingi að hafna frumvarpinu eða fresta afgreiðslu þess og gera á því nauðsynlegar breytingar með mun nánara samráði við þá sem í hlut eiga.“
12. Skýrsla um um starfsemi orlofs húsmæðra í Árnes- og Rangárvallasýslum, dags. 18. apríl 2011.
Til kynningar.
13. Fundargerðir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtökunum.
Til kynningar.
14. Önnur mál
Stjórn SASS þakkar öllum sem komu að undirbúningi og framkvæmd atvinnu- og orkumálaráðstefnu, sem haldin var 29. apríl sl fyrir afar fróðlega og metnaðarfulla ráðstefnu.