Úthlutun úr Sóknarfærum ferðaþjónustunnar hjá SASS
Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hafði til umfjöllunar þær 211 umsóknir sem bárust í áhersluverkefnið Sóknarfæri ferðaþjónustunnar, nýjan sjóð á vegum SASS til stuðnings ferðaþjónustunni á Suðurlandi. Fagráð Sóknaráætlunar Suðurlands skilaði af sér tillögu til stjórnar SASS og samþykkti stjórn SASS tillöguna einróma á fundi sínum þann 22. maí s.l. Alls var úthlutað 48 milljónum króna. Hlutu 96 fyrirtæki styrk að fjáhæð 500.000, kr. ásamt frekari stuðningi. Þessi sértæka úthlutun á fjármunum Sóknaráætlunar Suðurlands tilkomin vegna áhrifa Covid-19 veirunnar á atvinnulíf á Suðurlandi.
Nú þegar styrkþegum hefur verið tilkynnt um úthlutunina gefst þeim tækifæri á að hrinda þeim verkefnum í framkvæmd sem lagt var upp með í umsóknum sínum. Flest verkefnin snéru að eflingu markaðssóknar á innlendum markaði ferðamanna á næstu misserum. Markmiðið nú er að hámarka þann árangur sem náðst getur. Mun SASS styðja þau enn frekar í þeirri vegferð.
Þrátt fyrir að sjóðurinn hafi getað stutt við svo mörg fyrirtæki er hópurinn einnig stór sem ekki fékk úthlutað fjármagni. Verður sérstaklega horft til þess að styðja þann hóp og metnaðarfull verkefni þeirra. Flest fyrirtæki í ferðaþjónustunni standa í svipuðum sporum þessa dagana og verður horft til þess að bjóða öllum umsækjendum stuðning í formi ráðgjafar og þátttöku á námskeiðum. Unnið er að því að móta fræðsluverkefni út frá þörfum og viðfangsefnum fyrirtækjanna, út frá greiningum á eðli og viðfangsefnum þeirra sem lesa mátti út úr þeim 211 umsóknum sem bárust. Verða þær aðgerðir kynntar umsækjendum á næstu dögum. SASS óskar styrkþegum og umsækjendum góðs gengist við að vinna að framgangi sinna verkefna.
Hér má sjá fundargerð SASS um málið ásamt lista yfir styrkþega.