fbpx

SAMTÖK SUNNLENSKRA SVEITARFÉLAGA

523. fundur stjórnar SASS
haldinn að Vatnsholti í Flóahreppi
7. september, kl. 17:30-21:00 og
8. ágúst 2017, kl. 09:00-11:30

 

Mætt: Gunnar Þorgeirsson formaður, Sandra Dís Hafþórsdóttir, Sæmundur Helgason, Unnur Þormóðsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Arna Ír Gunnarsdóttir og Eva Björk Harðardóttir. Anna Björg Níelsdóttir, Lilja Einarsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson forfölluðust. Einnig sátu fundinn Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri þróunarsviðs SASS (undir dagskrárlið tvö) og Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritaði fundargerð. Björg Ágústsdóttir rágjafi hjá ráðgjafafyrirtækinu Alta sat einnig fundinn undir dagskrárlið tvö.

Formaður bauð fundarmenn velkomna á fund stjórnar í Vatnsholti í Flóahreppi.

  1. Fundargerð

Fundargerð 522. fundar undirrituð.

  1. Vinnufundur stjórnar

Björg Ágústsdóttir, ráðgjafi hjá Alta, leiddi umræður um starfsemi SASS. Farið var yfir hlutverk samtakanna eins og það er í dag og horft til framtíðar. Fjallað var um verkefni sem samtökin hafa verið að sinna og þau mátuð við hlutverk og stefnu. Einnig var farið yfir stjórnskipulagið og hvað hefði áunnist með breytingunum sem komu til framkvæmda í árslok 2015 og hverjar eru helstu áskoranirnar. Loks var farið yfir verklagið og hvað hægt er að gera til að ná betri árangri. Niðurstaða umræðu af fundinum verður send til þingfulltrúa fyrir komandi ársþing samtakanna.

  1. Drög að dagskrá ársþings og aðalfundar SASS

Formaður og framkvæmdastjóri kynntu uppfærð drög að dagskrá komandi ársþings og aðalfundar SASS sem fram fer á Hótel Selfossi 19. – 20. október nk.

  1. Menntaverðlaun Suðurlands 2017

Stjórn SASS samþykkir að skipa Sigurð Sigursveinsson og Elínu Einarsdóttur í samstarfshóp um úthlutun Menntaverðlauna Suðurlands 2017. Til vara er Sæmundur Helgason. Guðlaug Svansdóttir, ráðgjafi hjá HfSu, er hópnum til aðstoðar.

  1. Almenningssamgöngur

Mikil óvissa ríkir um reksturinn á seinni hluta ársins. Ef fyrstu átta mánuðir yfirstandandi árs eru bornir saman við sömu mánuði árið 2016 hefur staðan versnað um 17 m.kr. og þar munar mestu um stöðugt minnkandi farþegatekjur. Fram kom að önnur landshlutasamtök eru einnig að berjast við versnandi afkomu af rekstri almenningssamgangna. Stjórn SASS lýsir yfir þungum áhyggjum af rekstri almenningssamgangna á Suðurlandi.

  1. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Landshlutasamtök sveitarfélaga

Lagðar fram til kynningar, fundargerð FV frá 23. ágúst sl., fundargerð SSV nr. 132 frá 23. ágúst sl., fundargerð SSA nr. 12 frá ágúst sl.

b. Samgönguáætlun Suðurlands 2017 – 2026

Samgöngunefnd SASS hefur undanfarna mánuði unnið að gerð samgönguáætlunar Suðurlands 2017 – 2026. Áætlunin lögð fram til kynningar.

c. Ný heimasíða SASS

Ný heimasíða SASS var kynnt. Stjórn lýsir yfir ánægju með heimsíðuna.

d. Vandi sauðfjárbænda

Stjórn SASS lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu sauðfjárbænda í ljósi þeirra gríðarlegu lækkana á afurðaverði og framkominna tillagna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um lausn vandans. Ljóst er að verði af boðuðum aðgerðum mun það hafa gífurleg áhrif á stöðu sauðfjárræktar og búsetu í dreifbýli og þá sérstaklega á veikari svæðum.

Víða er sauðfjárræktin hryggjarstykkið í hinum dreifðu byggðum, og á það einnig við á Suðurlandi þar sem margir hafa sauðfjárrækt að sinni atvinnu.

Stjórn SASS leggur áherslu á að vandinn verði leystur til að tryggja áframhaldandi búskap á landinu öllu.

e. Hjúkrunarrými á Suðurlandi

Stjórn SASS ítrekar kröfu sína til heilbrigðisráðuneytisins þess efnis að fyrirhugað hjúkrunarheimili á Selfossi, sem nú er í undirbúningsferli, verði hannað miðað við að rúma 60 einstaklinga með stækkunarmöguleika upp í 80-90 hjúkrunarrými, en ekki 50 eins og kveðið er á um í samningi aðila. Núverandi áætlun um 50 rými gerir ráð fyrir að rýmum á Suðurlandi fjölgi um 15, þar sem 35 rými sem voru fyrir á Blesastöðum og Kumbaravogi gangi inn í hið nýja heimili. Fjölgunin er engan veginn næg til að mæta þörf fyrir hjúkrunarrými á svæðinu. Þá verður að horfa til þess að brýn þörf er fyrir rými til að nýta til hvíldarinnlagna í Árnessýslu en nú eru einungis þrjú skilgreind hvíldarrými fyrir íbúa hennar. Íbúum fjölgar mjög hratt í sýslunni og brýnt að horfa til framtíðar hvað fjölda rýma varðar og þeirrar hagkvæmni sem fælist í því að reka fleiri rými í einni og sömu einingunni.

Stjórn SASS þykir miður að niðurstaða varðandi fjölgun rýma liggi enn ekki fyrir, nú þegar talsvert er liðið á undirbúningsferlið og skil gagna vegna hönnunarsamkeppni fara fram í vikunni. Stjórn SASS þykir það bera vott um skammsýni að ekki sé tekin ákvörðun um fjölgun rýma.

f. Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Vandi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er að aðsókn að þjónustu hjá HSU vex hraðar en föst fjárframlög. Aðgerða er þörf til að bregðast við auknum verkefnum á bráðamóttöku og sjúkrahúsi á Selfossi en sem dæmi má nefna að á bráðmóttökunni á Selfossi hefur fjöldi koma vaxið á tveggja ára tímabili frá 2014 til 2016 um 34%. Það er augljóst að rekstarfé á föstum fjárlögum dugar ekki fyrir mönnunarþörf sem fylgir viðlíka aukningu. Stjórn SASS skorar á ríkið að tillit verði tekið til þessa við gerð fjárlaga fyrir árið 2018.

 

Næsti fundur stjórnar verður haldinn á Hilton hótel Nordica í Reykjavík 4. október nk. kl. 12:00 – 14:00.

Fundi slitið föstudaginn 8. september kl. 11:30.

Gunnar Þorgeirsson
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Arna Ír Gunnarsdóttir
Sæmundur Helgason
Unnur Þormóðsdóttir
Eva Björk Harðardóttir
Páll Marvin Jónsson
Bjarni Guðmundsson

523. fundur stjórnar SASS (.pdf)