fbpx

SAMTÖK SUNNLENSKRA SVEITARFÉLAGA

526. fundur stjórnar SASS
haldinn að Austurvegi 56 Selfossi
10. nóvember 2017, kl. 12:00-15:00

Mætt: Gunnar Þorgeirsson formaður, Unnur Þormóðsdóttir, Eggert Valur Guðmundsson, Eva Björk Harðardóttir, Lilja Einarsdóttir og Jón Páll Kristófersson. Páll Marvin Jónsson og Lovísa Rósa Bjarnadóttir tengdust fundinum með fjarfundabúnaði. Anna Björg Níelsdóttir, Sandra Dís Hafþórsdóttir og Sæmundur Helgason, forfölluðust. Einnig sat fundinn Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritaði fundargerð. Gestur fundarins undir lið 2 var Sigurður Hjörtur Kristjánsson framkvæmdastjóri lækninga hjá HSU.

Formaður bauð fundarmenn velkomna á fund stjórnar.

1. Fundargerð
Fundargerð 525. fundar undirrituð.

2. Fjarheilbrigðisþjónusta á Suðurlandi

Sigurður Hjörtur Kristjánsson framkvæmdastjóri lækninga hjá HSU kynnti málið. Nýlega undirrituðu forstjórar Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) yfirlýsingu um samstarf HSA og HSU á sviði fjarheilbrigðisþjónustu
Fram kom að miklar framfarir hafa orðið í fjarheilbrigðisþjónustu á undanförnum árum, enda er hún notuð í vaxandi mæli víða um heim. Sérstaklega kemur hún að góðu gagni þar sem erfitt er að sækja heilbrigðisþjónustu með hefðbundnum hætti vegna fjarlægða. Meginmarkmið með fjarheilbrigðisþjónustu er að auka og tryggja aðgengi skjólstæðinga að heilbrigðisþjónustu sem ekki er aðgengileg í heimahéraði, ásamt því að styðja við ráðgjöf og samvinnu heilbrigðisstarfsfólks. Með þessum hætti er unnt að auðvelda aðgengi að hverskyns þjónustu og ráðgjöf án tillits til búsetu, tryggja frekara mat á ástandi sjúklings og meðferð, fá aðstoð við sjúkdómsgreiningar og meðferð þegar þess gerist þörf og draga úr óþægindum og kostnaði vegna ferðalaga, enda oft um langan veg að fara.
Til að geta betur sinnt framangreindu var eins og fyrr segir skrifað undir yfirlýsingu um að hefja samstarf á sviði fjarheilbrigðsþjónustu. Samstarfið er tvíþætt og felur í sér:
Nýtingu fjarheilbrigðisþjónustu í heilsugæslu. Það felur í sér að nýta tækni til að auðvelda og bæta aðgang fólks að skilvirkri og öruggri grunn heilbrigðisþjónustu.
Samstarf á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu. Það felur í sér að nýta þjónustu sérfræðinga milli stofnana HSA og HSU. Til að byrja með munu stofnanirnar deila samstarfi á sviði líknandi meðferðar og verkjameðferðar og á sviði meðferðar vegna húðsjúkdóma.
Fyrirhugað er að efla enn frekar þetta samstarf á sviði fjarheilbrigðisþjónustu með aðkomu fleiri sérgreina og hópa fagmanna og stofnana.
Tilgangurinn með þessu nú er að tryggja sem besta heilbrigðisþjónustu með þeim fjármunum, mannafla og fagþekkingu sem til staðar er á landsbyggðinni. Þetta er spennandi verkefni og bíður upp á ný tækifæri í útfærslu á heilbrigðisþjónustu.
Sigurður Hjörtur kynnti einnig búnað og tæki sem heibrigðisstarfmenn nota á vettvangi og sérhæfðan búnað sem sérfræðingar nota til að skoða myndir og gögn sem berast frá sjúklingnum.
Stjórn SASS fagnaði framtakinu og ítrekaði að góð heilbrigðisþjónusta væri mikilvæg fyrir landsbyggðirnar.

3. Sóknaráætlun Suðurlands

Uppbyggingarsjóður Suðurlands
Formaður verkefnastjórnar Sóknaráætlunar Suðurlands, Unnur Þormóðsdóttir, kynnti niðurstöðu úr seinni úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands árið 2017. Sjóðnum bárust samtals 98 umsóknir, 62 menningarverkefni og 36 nýsköpunarverkefni. Fagráðin tvö hafa farið yfir innsendar umsóknir og metið þær. Verkefnisstjórn hefur jafnframt fjallað um þær á fundi sínum 6. nóvember sl. Verkefnisstjórn leggur til að úthlutað verði samtals um 36,62 m.kr. til 71 verkefna og það skiptist þannig að úthlutað verði um 14,92 m.kr. til 24 nýsköpunarverkefna og um 21,7 m.kr. til 47 menningarverkefna.
Stjórnin staðfesti fyrirliggjandi tillögur verkefnastjórnar Sóknaráætlunar Suðurlands um seinni úthlutanir úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands 2017.
Varðandi úthlutun Uppbyggingarsjóðs á næsta ári var stjórnin þeirrar skoðunar að veita ætti hárri fjárhæð t.d. 10 – 20 m.kr. í eitt verkefni. Með því að veita mjög háan styrk í eitt verkefni vonast stjórnin til að hjá nýjum og/eða þegar starfandi fyrirtækjum verði til verkefni sem skipti máli í atvinnu og nýsköpun á Suðurlandi.

Áhersluverkefni 2018
Formaður verkefnastjórnar kynnti málið. Hún vakti m.a. athygli á að tölvupóstur hafi verið sendur á sveitarstjórnarfólk á Suðurlandi þar sem kynntur var sá möguleiki að senda inn tillögur að áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands 2018. Tillögur að áhersluverkefnum þurfa að berast fyrir 21. nóvember nk. Sunnlendingar geta sent inn tillögur beint af vef samtakanna og þar er jafnframt hægt að kynna sér markmið stefnumörkunar Suðurlands sem áhersluverkefnunum er ætlað að uppfylla. Þar er einnig að finna upplýsingar um þau áhersluverkefni sem hafa verið unnin eða eru nú í vinnslu á vegum samtakanna. Formaðurinn hvetur hagaðila á Suðurlandi að senda inn hugmyndir að áhersluverkefnum 2018.
Auk hugmynda sem rætt hefur verið um að undanförnu, m.a. á ársþinginu og vinnufundum stjórnar, var rætt um möguleika á áhersluverkefnum sem tengdust vinnslu veðurgagna fyrir flug á Suðurlandi, mikilvægi hreinsunarátaks Suðurlands á fullveldisárinu 2018, aðkoma að framgangi fjarheilbrigðisþjónustu og að farið yrði í hugmyndasamkeppni um nýtingu jarðvarma og að það yrði gert í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Framangreindu var vísað til verkefnisstjórnar Sóknaráætlunar til nánari útfærslu.

4. Önnur mál til kynningar og umræðu

  1. Fundargerð annarra landshlutasamtaka
    Lagðar fram til kynningar, fundargerðir FV frá 28. september og 19. október sl., fundargerð Eyþings nr. 300 frá 25. október sl. og fundargerð samráðsfundar Sambandsins og landshlutasamtakanna frá 6. október sl. og Sambandsins nr. 853 frá 27. október sl.
  2. Stöðugreining hjúkrunarheimila á Suðurlandi
    Unnur Þormóðsdóttir kynnti uppfærða skýrslu um stöðugreiningu hjúkrunarheimila á Suðurlandi en fyrri skýrslan var gefin út í apríl 2015.
    Stjórn þakkaði Unni fyrir skýrsluna.
  3. Stefnumótun í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða
    Formaður kynnti tillögur starfshóps til heilbrigðisráðherra um stefnumótun í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða til ársins 2035. Skýrsla starfshópsins lögð fram til kynningar.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn á Selfoss fimmtudaginn 7. desember nk. kl. 12:00 – 15:00.

Fundi slitið kl. 15:10.

Gunnar Þorgeirsson
Unnur Þormóðsdóttir
Eva Björk Harðardóttir
Páll Marvin Jónsson
Lilja Einarsdóttir
Eggert Valur Guðmundsson
Jón Páll Kristófersson
Lovísa Rósa Bjarnadóttir
Bjarni Guðmundsson

526. fundur stjórnar SASS (.pdf)