fbpx

SAMTÖK SUNNLENSKRA SVEITARFÉLAGA

533. fundur stjórnar SASS
Haldinn að Austurvegi 56, Selfossi
1. júní 2018, kl. 12:00-15:00

Mætt: Gunnar Þorgeirsson formaður, Lilja Einarsdóttir, Unnur Þormóðsdóttir, Eva Björk Harðardóttir, Sandra Dís Hafþórsdóttir, Anna Björg Níelsdóttir og Arna Ír Gunnarsdóttir. Sæmundur Helgason tengdist fundinum með fjarfundabúnaði. Eggert Valur Guðmundsson og Páll Marvin Jónsson forfölluðust. Einnig sat fundinn Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritaði fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna á fundinn.

1. Fundargerð

Fundargerð 532. fundar undirrituð.

2. Dagskrá aukaaðalfundar í Vestmannaeyjum 26. – 27. júní nk.

Formaður og framkvæmdastjóri kynntu uppfærð drög að dagskrá aukaaðalfundarins en ljóst er að ráðherra sveitarstjórnar- og samgöngumála kemst ekki og því getur hann ekki ávarpað þingið 27. júní nk.

Stjórn er sammála um að nauðsynlegt sé að fjalla um umhverfis-, skipulags- og atvinnumál og á áhrif þessara þátta á byggðaþróun og að umfjöllunina megi m.a. byggja á íbúakönnun sem gerð var á Suðurlandi nýlega.

Framkvæmdastjóra falið að fá ráðherra til að ávarpa þingið.

3. Húsnæðismál SASS

Formaður kynnti að tilboð hafi borist í fasteign samtakanna að Austurvegi 56 á Selfossi. Um staðgreiðslutilboð er að ræða með möguleika á að samtökin geti leigt til baka hluta fasteignarinnar.

Formaður kynnti jafnframt hugmyndir um að í stað þess að samtökin selji frá sér húseignina þá myndu þau leigja frá sér hluta hennar en viðræður hafa átt sér stað um þann möguleika.

Ákveðið að hafna tilboðinu í fasteignina og fela framkvæmdastjóra að gera leigusamning um eignina.

4. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerð annarra landshlutasamtaka og sambandsins

Lagðar fram til kynningar, fundargerð SSA frá 14. maí sl., fundargerð Eyþings frá 2. maí sl., fundargerð sambandsins nr. 860 frá 18. maí sl. og fundargerðir stjórnar FV frá 20. og 30. apríl sl. og 2. maí sl.

b. Upplýsingar um ferð atvinnuráðgjafa til Kanada

Framkvæmdastjóri fjallaði í máli og myndum um ferð sem hann og sviðsstjóri þróunarsviðs SASS fóru til Kanada með fulltrúum frá öðrum landshlutasamtökum, atvinnuþróunarfélögum og Byggðastofnun. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja systursamtök á Toronto svæðinu í Kanada til að læra af þeim en jafnframt að miðla af reynslu okkar. Byggðastofnun skipulagði ferðina og það var samdóma álit þeirra sem fóru að vel hefði tekist til. Þó stærðarmunur sé á löndunum og fjölda íbúa sé mun meiri í Kanada eru vandamálin og málefnin sem verið væri að kljást við þau sömu í báðum löndunum.

c. Kynningarfundur sambandsins fyrir fulltrúa í sveitarstjórnum á stjórnsýslu sveitarfélaga

Formaður og frmkvæmdastjóri kynntu hugmynd um að starfsmenn sambandsins stæðu fyrir kynningarfundi, á stjórnsýslu sveitarfélaga, fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum. Ákall hefur komið frá sveitarstjórnum um nauðsyn þessa og er ætlunin að halda fundinn á Suðurlandi 15. ágúst nk.

d. Almenningssamgöngur

Framkvæmdastjóri kynnti að þessa dagana væri ráðgjafafyrirtæki að vinna að úttekt á skipulagi almenningssamgangna fyrir landshlutasamtökin. Gert er ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir um 15. júní nk.

Einnig kom fram að 21. júní nk. verður samgönguþing haldið en þar á að fjalla um almenningssamgöngur á landi, flug og ferjusiglingar.

e. Hugmyndasamkeppni um nýtingu varmaorku á Suðurlandi

Formaður kynnti niðurstöður dómnefndar í samkeppninni um nýtingu varmaorku á Suðurlandi en 20 tillögur bárust. Úrslitin voru kunngerð 24. maí sl. við hátíðlega athöfn í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði og kom það í hlut Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, ráðherra atvinnu- og nýsköpunar- og ferðamála að afhenda verðlaunin.

Hugmyndin „Black Beach Lagoon“ (Lón á svörtum sandi) eftir Martein Möller og Reynar Ottósson, fékk fyrstu verðlaun í samkeppninni. Þrjár aðrar tillögur fengu aukaverðlaun en það voru; Jarðorkueldavélar eftir Ólaf Inga Reynisson, lág gróðurhús og ræktun nýrra tegunda eftir Hafstein Helgason og Eflu verkfræðistofu og hampræktun eftir Hinrik Jóhannesson. Grunnskólanemar á Hellu fengu sérstök verðlaun en nemendurnir lögðu til að brennisteinsvetni sem kemur upp með heitri gufu á jarðhitasvæðum verði nýtt til að framleiða brennistein. Um leið myndi magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti minnka.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn í Þekkingarsetrinu í Vestmannaeyjum 26. júní nk. kl. 14:00 – 16:00.

Fundi slitið kl. 13:15.

Gunnar Þorgeirsson
Unnur Þormóðsdóttir
Eva Björk Harðardóttir
Lilja Einarsdóttir
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Sæmundur Helgason
Anna Björg Níelsdóttir
Arna Ír Gunnarsdóttir
Bjarni Guðmundsson

533. fundur stjórnar SASS