558. fundur stjórnar SASS
Fundur haldinn að Austurvegi 56, Selfossi
22. maí 2020, kl. 13:00 – 15:00
Mætt: Eva Björk Harðardóttir formaður, Helgi Kjartansson, Arna Ír Gunnarsdóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Björk Grétarsdóttir, Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Ari Björn Thorarensen. Grétar Ingi Erlendsson tengist fundinum með fjarfundabúnaði. Þá eru á fundinum Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri Þróunarsviðs og Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð. Dagný Hulda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, tengist fundinum með fjarfundarbúnaði undir dagskrárlið 5.b. og Einar Freyr Elínarson, oddviti og formaður starfshóps um heimavist við FSu, tengist fundinum með fjarfundarbúnaði undir dagskrárlið 5.c.
Sitjandi formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna á fund stjórnar.
1. Sóknaráætlun Suðurlands
Sóknarfæri ferðaþjónustunnar – sértæk úthlutun
Eva Björk og Grétar eru ekki á fundinum þegar þessi liður er á dagskrá þar sem fyrirtæki sem þau tengjast eiga umsóknir í sjóðnum. Þetta er gert til að tryggja málsmeðferð í þessari sértæku úthlutun og er til samræmis við sveitarstjórnarlög nr. 138/2011.
Starfandi formaður kynnti að samtals hafi 211 umsóknir borist frá 194 fyrirtækjum en 8 fyrirtæki sendu fleiri en eina umsókn. Fyrirtæki í öllum 15 sveitarfélögunum á Suðurlandi, sem aðild eiga að samtökunum, sendu inn umsókn. Þessi sértæka úthlutun á fjármunum Sóknaráætlunar Suðurlands er tilkomin vegna áhrifa COVID-19 veirunnar á atvinnulíf á Suðurlandi.
Fagráð atvinnu- og nýsköpunar hefur fjallað um innsendar umsóknir og leggur til við stjórn að 96 starfandi ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi sé úthlutað styrk. Hvert fyrirtæki fær styrk að fjárhæð kr. 500.000.-
Stjórn SASS fjallaði um framkomna tillögu fagráðsins og samþykkir hana einróma. Stjórn vekur athygli á að samtökin munu veita fyrirtækjum á Suðurlandi fræðslu óháð því hvort þau hafi fengið styrk eða ekki. Stjórn vill koma á framfæri þökkum til fagráðs og ráðgjafa fyrir vel unnin störf.
Styrkúthlutun Sóknaráætlunar ferðaþjónustunnar
Eva Björk og Grétar komu á fundinn að lokinni umfjöllun.
2. Leyfi formanns
Eva Björk Harðardóttir kom aftur til starfa í sveitarstjórn Skaftárhrepps 14. maí s.l. og tekur á þessum fundi að nýju við sem formaður SASS. Staðfest af stjórn SASS.
3. Fundargerðir
Fundargerð 557. fundar staðfest og undirrituð. Jafnframt voru fundargerðir frá fundum 555. og 556. funda undirritaðar.
4. Ársreikningur SASS 2019
Framkvæmdastjóri kynnti drög að ársreikningi SASS fyrir árið 2019. Rekstrarafkoma samtakanna af reglulegri starfsemi er jákvæð um ríflega 3 m.kr. Að teknu tilliti til aflagðrar eða breyttra starfsemi er afkoman jákvæð um 42,5 m.kr. Þessi jákvæða niðurstaða skýrist af að í lok árs 2019 gerði Vegagerðin, f.h. ríkisins, upp við samtökin tap á rekstri almenningssamgangna fyrir árið 2018. Framlagið frá Vegagerðinni tengist því ekki rekstri samtakanna árið 2019 en hefur eðli málsins samkvæmt áhrif á rekstrarniðurstöðu á árinu 2019. Af öðrum gjaldaliðum má nefna að lífeyrisskuldbindingar samtakanna hækkuðu á milli ára um 10 m.kr. Samkvæmt efnahagsreikningi er bókfært eigið fé jákvætt um 4 m.kr. í lok ársins.
Ársreikningur staðfestur af stjórn og framkvæmdastjóra en hann verður formlega frágenginn með undirritun 5. júní n.k.
5. Önnur mál til kynningar og umræðu
Fundargerðir stjórna annarra landshlutasamtaka og fleiri
Lagðar fram til kynningar, fundargerðir 152. og 153. funda stjórnar SSV, 9. fundar stjórnar SSNE, 245. fundur AFE, 755. fundar stjórnar SSS, 25. fundar Vestfjarðastofu, 494., 495. og 496. funda SSH, 107. fundar stjórnar Austurbrúar og 882. og 883. funda stjórnar sambandsins.
Markaðsstofa Suðurlands – Gagnvirkt ferðalag
Dagný Hulda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, tengist fundinum með fjarfundarbúnaði. Hún kynnir verkefnið Gagnvirkt ferðalag en fyrirtækið Tjarnargatan er að vinna að nýrri tæknilausn eða appi með markaðsstofum landshlutanna sem kallast Gagnvirkt ferðalag. Appið miðar að því að bjóða gestum í stafrænt ferðalag um landshlutann eftir vali hvers og eins, út frá áhugasviði og lengd dvalar. Verkefnið er að hluta fjármagnað með framlagi Markaðsstofunnar og Sóknaráætlunar Suðurlands. Það hefur hins vegar ekki tekist að fullfjármagna Suðurlandshluta þess og því hefur Markaðsstofan sent erindi á sveitarfélögin þar sem óskað er eftir stuðningi þeirra. Fjárhæð hvers sveitarfélags byggir á 75.000 kr. grunnframlagi og síðan 80 kr. á hvern íbúa.
Stjórn SASS hvetur sveitarfélögin til að taka þátt í verkefninu en auk tæknilausnarinnar skilar þetta svæðinu fjölmörgum myndum og myndbandsskotum sem sveitarfélögin fá bæði tækifæri til að móta, sem og í framhaldinu nýta að vild í markaðssetningu. Jóna Sigríður sat hjá við afgreiðsluna.
Heimavist við FSu
Einar Freyr Elínarson, oddviti í Mýrdalshreppi og formaður starfshóps um heimavist við FSu, kynnti stöðu málsins og bréf sem SASS hefur borist frá mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 11. maí s.l. Ráðuneytið hefur tekið til skoðunar þau gögn sem starfshópurinn og samtökin hafa lagt fyrir það varðandi heimavist við FSu. Niðurstaða ráðneytisins er að kanna möguleika á því að taka á leigu hentugt húsnæði á Selfossi og starfrækja þar heimavist til reynslu í 3-5 ár. Áhersla verði lögð á að þjóna ólögráða nemendum. Að reynslutíma loknum verður tekin ákvörðun um framhaldið.
Stjórn SASS fagnar niðurstöðu mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um að starfrækt skuli heimavist við Fjölbrautarskóla Suðurlands (FSu). Mikilvægum áfanga er þannig náð til þess að tryggja að ungmenni á Suðurlandi, sem búa á upptökusvæði skólans, njóti jafnréttis til náms.
Í ljósi þess einbeitta pólitíska vilja sem nú liggur fyrir af hálfu bæði ríkis og sveitarfélaga brýnir stjórn SASS stjórnendur Fjölbrautarskóla Suðurlands til þess að tryggja að undirbúningur hefjist nú þegar svo hægt verði að bjóða upp á heimavistarúrræði við skólann haustið 2020.
Stjórn SASS þakkar starfshópnum, starfsmönnum og ráðgjöfum sem komu að undirbúningi málsins fyrir vel unnin störf.
Bréf landshlutasamtaka sveitarfélaga til mennta- og menningarmálaráðherra
Framkvæmdastjóri kynnti bréf sem sent var 8. maí s.l. til mennta- og menningarmálaráðherra fyrir hönd landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þar lýsa framkvæmdastjórar landshlutasamtaka sveitarfélaga yfir miklum vonbrigðum með að ráðuneytið hafi ekki úthlutað fjármunum til Sóknaráætlana landshlutanna. Sú niðurstaða er á skjön við orð ráðherra á fundi með menningarfulltrúum landshlutasamtakanna. Í bréfinu er farið fram á að við gerð næsta björgunarpakka ríkisins verði fjármunum til menningar úthlutað til Sóknaráætlunar.
Önnur mál
- Formaður sagði frá sunnlenskum samráðsfjarfundum sem haldnir voru 24. apríl s.l. með ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, 8. maí s.l. með ráðherra ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunar og 19. maí s.l. með ráðherra félags- og barnamála. Auk fyrrgreindra ráðherra tóku þingmenn Suðurkjördæmis, stjórn SASS og bæjar- og sveitarstjórar á Suðurlandi þátt á fundunum. Fundarpunktum frá fundunum hefur verið dreift á fundarmenn.
- Boðað hefur verið til fundar fulltrúa Lánasjóðs sveitarfélaga með sveitar- og fjármálastjórum sveitarfélaganna mánudaginn 25. maí nk.
- Stjórn ákvað að fá fulltrúa Byggðastofnunar á næsta sunnlenska samráðsfjarfundinn til að fjalla um nýútkomið minnisblað stofnunarinnar sem kallast Mörg sveitarfélög illa stödd vegna hruns ferðaþjónustu.
- Stjórn samþykkir eftirfarandi ályktun til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vegna áhrifa COVID-19 veirunnar á fjárhag sveitarfélaganna.
- Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga lýsir yfir miklum áhyggjum af áhrifum COVID-19 faraldursins á fjárhagsstöðu sveitarfélaga á starfssvæði samtakanna og þeim áhrifum á framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem ástandið mun hafa vegna versnandi stöðu ríkissjóðs.
- Nýleg greining Byggðastofnunar á áhrifum faraldursins á sveitarfélög í landinu sýnir að þau verða mikil. Lausafjárstaða sveitarfélaga mun breytast til hins verra. Tekjur munu dragast saman vegna breytts atvinnustigs með hruni ferðaþjónustunnar og afleiddra atvinnugreina og þannig hafa áhrif á útsvarsstofn sveitarfélaga til lækkunar. Auk þess mun kostnaður við félagsaðstoð aukast. Til viðbótar við framangreint eru mörg sveitarfélög að bregðast við ástandinu með ýmiskonar átaksverkefnum og flýta framkvæmdum með tilheyrandi auknum kostnaði. Allt þetta mun óhjákvæmilega leiða til aukinnar skuldsetningar sveitarfélaganna. Í fyrrnefndri greiningu Byggðastofnunar kemur jafnframt fram að verði 10% samdráttur í skatttekjum ríkisjóðs gætu tekjur Jöfnunarsjóðs dregist saman um 4-5 milljarða sem hefur veruleg áhrif á rekstur sveitarfélaga í landinu. Sú skerðing til viðbótar við tekjuskerðingu vegna þeirra þátta sem nefndir voru hér að framan hefur umtalsverð áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og viðbúið er að einhver sveitarfélög munu eiga í erfiðleikum með að halda úti lögbundinni þjónustu. Ástandið hefur mismikil áhrif á sveitarfélögin. Vafalaust munu fjárhagserfiðleikar einhverra sveitarfélaga kalla á sértækar aðgerðir af hálfu ríkisins en ríkið þarf einnig að grípa til almennra aðgerða vegna ástandsins þar sem öll sveitarfélög verða fyrir tekjufalli. Að mati stjórnar SASS er vænlegasta almenna aðgerðin að tryggja að ekki verði skerðing á framlögum úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna með því að veita viðbótarfjármagni til sjóðsins. Þannig verði tryggt að fyrirsjáanlegar sveiflur í tekjum sjóðsins vegna efnahagsástandsins muni ekki hafa áhrif á framlög til sveitarfélaganna. Stjórn SASS skorar á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og ríkisstjórnina að um leið og gripið er almennra aðgerða til að styðja sveitarfélögin í landinu er nauðsynlegt að huga vandlega að sértækum aðgerðum fyrir þau sveitarfélög sem verst fara út úr áhrifum COVID-19. Mikilvægt er að gott samtal verði við þau sveitarfélög svo aðgerðirnar skili sem bestum árangri. Með þessum aðgerðum geta sveitarfélögin sinnt sínu afar mikilvæga hlutverki í nærumhverfinu. Samkvæmt skýrslu OECD um svæðabundin áhrif COVID-19 faraldursis munu sveitarstjórnir leika lykilhlutverk í því endurreisnarstarfi sem mun þurfa að eiga sér stað á næstu misserum. Það er því gríðarlega mikilvægt að sveitarfélögin hafi til þess fjárhagslega burði og þar eru framlög Jöfnunarsjóðs mikilvægur þáttur. Þau framlög mega ekki skerðast eigi sveitarfélögin að geta rækt hlutverk sitt í endurreisninni og haldið úti nauðsynlegri þjónustu fyrir íbúa.
Næstu fundir stjórnar verða haldnir 5. og 25. júní n.k.
Fundi slitið kl. 14:55.
Eva Björk Harðardóttir
Helgi Kjartansson
Arna Ír Gunnarsdóttir
Björk Grétarsdóttir
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Ari Björn Thorarensen
Grétar Ingi Erlendsson
Friðrik Sigurbjörnsson