fbpx

564. fundur stjórnar SASS 
Haldinn í fjarfundi 
6. nóvember 2020, kl. 13:00 – 15:50

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Helgi Kjartansson, Arna Ír Gunnarsdóttir, Lilja Einarsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Ari Björn Thorarensen, Grétar Ingi Erlendsson og Einar Freyr Elínarson. Fundarmenn tengdust fundinum í gegnum fjarfundarhugbúnað. Einnig tóku þátt í gegnum fjarfundarhugbúnað Björg Árnadóttir formaður stjórnar Markaðsstofu Suðurlands og Dagný Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands undir dagskrárlið 3.b. og Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð.

Formaður setur fundinn og býður fundarmenn velkomna og þakkar fráfarandi formanni Evu Björk Harðardóttur og stjórnarmanninum Björk Grétarsdóttur fyrir frábært samstarf og býður nýkjörna stjórn samtakann velkomna til starfa. Í stað Evu Bjarkar og Bjarkar koma ný í stjórn Lilja Einarsdóttir og Einar Freyr Elínarson.

1. Fundargerðir

Fundargerð 563. fundar staðfest en hún verður undirrituð á næsta fundi.

2. Niðurstöður ársþings, ályktanir og starfið framundan

Formaður kynnti drög að ályktunum nýliðins ársþing SASS en samþykkt var á þinginu að fela stjórn samtakanna að ganga frá þeim. Ályktanir ársþingsins eru eftirfarandi:
Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar
Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) tóku í ágúst sl. saman hagtölur um atvinnulíf á Suðurlandi með sérstakri áherslu á ferðaþjónustu en umsvif atvinnugreina frá einu tímabili til annars gefa ágætar vísbendingar um þróun efnahagsmála á einstökum svæðum. Við skoðun á greiningunni má sjá hvernig vægi ferðaþjónustu af umsvifum atvinnugreina á Suðurlandi hefur aukist á síðustu árum en í einstökum sveitarfélögum er hún ríflega 50% s.s. í Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi. COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft veruleg áhrif á samfélögin á Suðurlandi líkt og á efnhagsástandið í heiminum.
Óumdeilt er að ferðaþjónustan hefur staðið undir verulegum hluta hagvaxtar á Íslandi síðustu ár. Eigi ferðaþjónustan áfram að geta gegnt því hlutverki sem henni er ætlað er afar mikilvægt að koma henni ólaskaðri í gegnum COVID-19 tímabilið þannig að greinin geti brugðist hratt við breyttu ástandi.
Mikilvægt er að hafa í huga að ferðaþjónustan skilar ekki einvörðungu beinum tekjum. Hún bætir einnig stöðu annarra atvinnugreina og ruðningsáhrifin skila sér í bættri verslun og þjónustu. Neysla ferðamanna er gjaldeyrisskapandi og viðbót við innlenda neyslu. Áhrifanna gætir víðar en oft kemur fram í almennri umræðu.
Fjárhagslegur stuðningur við samfélögin
Afar brýnt er að gripið verði til almennra aðgerða vegna ástandsins sem klárlega hefur áhrif á öll sveitarfélögin í landinu. Tryggja þarf að ekki verði skerðing á framlögum úr Jöfnunarsjóði með því að veita viðbótarfjármagni til sjóðsins. Þannig verði tryggt að fyrirsjáanlegar sveiflur í tekjum sjóðsins vegna efnahagsástandsins muni ekki hafa áhrif á framlög til sveitarfélaganna og þannig að þau geti betur ræktað hlutverk sitt í endurreisn samfélaganna og haldið úti nauðsynlegri þjónustu fyrir íbúa. Auk þess þarf ríkið að grípa til sértækra aðgerða til að mæta tekjutapi og kostnaðarauka vegna áhrifa COVID-19. Ríkisvaldið er jafnframt hvatt til að ráðast í frekari aðgerðir til hjálpar einstaklingum og fyrirtækjum.
Nýsköpun er leiðin út
Yfirskrift nýliðins ársþings SASS, sem fram fór í fjarfundi 29. – 30. október sl., var nýsköpun. Þingfulltrúar sveitarfélaga á Suðurlandi á ársþinginu eru þeirrar skoðunar að leiðin út úr þeim efnahagslegu erfiðleikum sem nú dynja á felist í að horfa til framtíðar og fjölga eggjunum í körfunni. Nýsköpun skiptir þar lykilmáli þar sem stuðlað er að framförum með nýjum hugmyndum, verklagi eða uppgötvunum. Stjórn SASS er sannfærð um að með samstilltu átaki takist að skapa aukin og fjölbreyttari tækifæri til verðmætasköpunar á Suðurlandi. Til að örva þetta enn frekar eru stjórnvöld hvött til að auka stuðning og framlög sín enn frekar til nýsköpunar- og þróunarverkefna en með því má snúa vörn í sókn á Suðurlandi og í raun landinu öllu.
ART verkefnið
Tryggja þarf áframhaldandi rekstur ART verkefnisins en núverandi samningur við félags- og barnamálaráðuneytið rennur út í lok árs 2020. Framlag ríkisins til ART verkefnisins er á ársgrundvelli 30 m.kr. Stjórn SASS áréttar nauðsyn ART verkefnisins og mikilvægi þess sem forvarnar og meðferðarúrræðis á þeim erfiðu tímum sem landsmenn ganga í gegnum í heimsfaraldrinum. Stjórn SASS hvetur félags- og barnamálaráðherra til að ganga strax frá nýjum samningi og að gildistími samningsins sé til fimm ára þannig að hægt verði að eyða óvissu og halda áfram þessu mikilvæga verkefni í þágu fjölskyldna og barna. Þörfin fyrir ART verkefnið er alltaf til staðar og COVID-19 ástandið hefur enn frekar undirstrikað mikilvægi þess.
Rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila
Nauðsynlegt er tryggja rekstrargrundvöll hjúkrunar- og dvalarheimila í landshlutanum. Fjárframlög til rekstrar hjúkrunar- og dvalarheimila hafa á fjárlögum verið skorin niður síðustu ár og það hefur haft í för með sér mikinn taprekstur. Tvö sveitarfélög á Suðurlandi, Sveitarfélagið Hornafjörður og Vestmannaeyjabær, treysta sér ekki lengur til að sinna þjónustunni og hafa því sagt upp samningi sínum við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Uppsögnin tekur að óbreyttu gildi um komandi áramót. Nauðsynlegt er tryggja rekstrargrundvöll hjúkrunaheimila í landshlutanum en eins og fram hefur komið eru þau vanfjármögnuð. Þá þarf að bæta hjúkrunarheimilum þann kostnað sem þau hafa orðið fyrir í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins vegna sóttvarnaraðgerða og fleira.
Ljósleiðaravæðing þéttbýliskjarna
Mikilvægt að ljósleiðaravæða þéttbýliskjarna í dreifbýli sem búa við markaðsbrest. Átaksverkefnið Ísland ljóstengt, sem felst í uppbyggingu fjarskiptainnviða í dreifbýli, hefur heppnast vel og nú er svo komið að velflest svæði sem falla undir skilgreininguna eru komin með gott netsamband. Félög sem koma að uppbyggingu fjarskiptainnviða áttu á markaðslegum forsendum að bæta stöðuna á minni þéttbýlisstöðum í dreifbýli. Markaðsbrestur ríkir hins vegar á þessum stöðum og þjónustuveitendur sjá sér ekki hag í hefja uppbyggingu fjarskiptainnviða. Verði ekki brugðist við þessu er viðbúið að minni þéttbýlisstaðir hafi verri nettengingu en þau svæði sem falla undir átaksverkefnið. Ágætt dæmi um þéttbýlisstað sem býr við fyrrgreindan markaðsbrest er Vestmannaeyjabær.
Uppbygging góðra fjarskiptainnviða er lykilatriði í byggðaþróun og COVID-19 ástandið hefur enn betur undirstrikað mikilvægi þeirra. Nauðsynlegt er að tryggja áframhaldandi uppbyggingu fjarskiptainnviða þannig að íbúar þéttbýliskjarna í hinum dreifðu byggðum sitji ekki eftir.

Fundir stjórnar á komandi starfsári verða haldnir fyrsta föstudag í hverjum mánuði á milli kl. 13:00 og 16:00.

3. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka.

Lögð fram til kynningar, fundargerð 509. fundar stjórnar SSH, fundargerð 30. fundar stjórnar Vestfjarðastofu, fundargerð 762. fundar stjórnar SSS, fundargerð 60. fundar stjórnar SSNV og fundargerð 890. fundar stjórnar sambandsins.

b. Áfangastaðastofur og skipulag

Formaður kynnti málið en meðal fundargagna er tölvubréf sem samtökunum barst frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Ráðuneytið er með hugmyndir um stofnun á áfangastaðastofum í landshlutunum og vill gera samstarfssamning við landshlutasamtökin um uppbyggingu og rekstur þeirra. Einnig er meðal fundargagna minnisblað sem Markaðsstofa Suðurlands tók saman um áfangastaðastofur og hvernig uppbygging og skipulag þeirra gæti verið. Minnisblaðið var sent á atvinnuvegaráðuneytið í október sl. en ráðuneytið hafði óskað eftir samantektinni.
Björg Árnadóttir formaður stjórnar Markaðsstofu Suðurlands og Dagný Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar tóku þátt í umræðum undir þessum lið.
Niðurstaða stjórnar SASS er að óska eftir nánari skýringum á samningsdrögunum m.a. hvort hér sé frekar um viljayfirlýsingu en samstarfssamning að ræða ; hvort hann ætti að vera þríhliða og þá með atvinnugreininni ; hversu hátt framlag ríkisins yrði og hvaða hlutverki og verkefnum áfangastaðastofan eigi að sinna. Framkvæmdastjóra falið að kalla eftir svörum og senda erindið til uppl. á Markaðsstofu Suðurlands.

c. Laun í stjórnum og nefndum

Formaður kynnti málið en á ársþingi samtakanna var samþykkt tillaga um þóknun til stjórna, ráða og nefnda sem starfa fyrir SASS. Hins vegar hafa ekki verið mótaðar reglur um fyrir setu í hvaða stjórnum, ráðum og nefndum skuli greiða þóknunina. Framkvæmdastjóra falið að taka saman uppl. út frá umræðum á fundinum og leggja fyrir næsta fund stjórnar.

d. Skipan í stjórn Markaðsstofu Suðurlands

Stjórn SASS leggur til að nýkjörnir fulltrúar samtakanna taki þegar sæti í stjórn Markaðsstofu Suðurlands í stað þess að beðið sé til næsta aðalfundar Markaðsstofunnar.

e. Skipan verkefnisstjórnar í gerð svæðisskipulags fyrir Suður hálendið

Stjórn SASS staðfestir áframhaldandi setu Evu Bjarkar Harðardóttur í verkefnisstjórn fyrir áhersluverkefnið svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið.

f. Verkefni um ævimenntun á Höfn

Formaður og framkvæmdastjóri kynntu hugmyndir Nýheima þekkingarseturs um að verða viðurkenndur fræðsluaðili til að auka tækifæri til menntunar í Sveitarfélaginu Hornafirði. Forstöðumaður Nýheima er að vinna að mótun umsóknar.

g. Leigufélagið Bríet

Formaður kynnti erindi fyrirsvarsmanns Leigufélagsins Bríetar um að fá tækifæri til kynna félagið fyrir sveitarstjórnum á Suðurlandi. Markmið leigufélagsins Bríetar að stuðla að auknu húsnæðisöryggi á landsbyggðinni í samstarfi við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Leigufélaginu Bríeti er ætlað að stuðla að uppbyggingu á heilbrigðum leigumarkaði á landsbyggðinni og rjúfa þá stöðnun sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði víða um land. Leigufélagið starfar í þágu almannahagsmuna samkvæmt markmiðum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun setur. Boðað veður til kynningarfundarins 12. nóvember n.k.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 4. desember kl. 13:00.

Fundi slitið kl. 14:35.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Helgi Kjartansson
Arna Ír Gunnarsdóttir
Lilja Einarsdóttir
Einar Freyr Elínarson
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Grétar Ingi Erlendsson
Friðrik Sigurbjörnsson
Ari Björn Thorarensen

564. fundur stj. SASS