567. fundur stjórnar SASS
Haldinn í fjarfundi
5. febrúar 2021, kl. 13:00 – 15:00
Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Helgi Kjartansson, Lilja Einarsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Ari Björn Thorarensen, Arna Ír Gunnarsdóttir og Einar Freyr Elínarson. Grétar Ingi Erlendsson boðaði forföll. Fundarmenn tengjast fundinum í gegnum fjarfundarhugbúnað. Undir dagskrárlið 2. taka þátt eftirtaldir fulltrúar frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU): Díana Óskarsdóttir forstjóri, Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar, Ari Sigurðsson fjármálastjóri og Sigurður Böðvarsson framkvæmdastjóri lækninga, og undir dagskrárlið 3.g. Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri Þróunarsviðs SASS og Elísabet Björney Lárusdóttir umhverfisfræðingur. Einnig tekur þátt Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð.
Formaður setur fundinn og býður fundarmenn velkomna.
1. Fundargerðir
Fundargerð 566. fundar staðfest en hún verður undirrituð síðar.
2. Kynning á málefnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu)
Díana kynnir nýtt stjórnskipulag HSU sem tók gildi 1. febrúar sl. Hún kynnir starfsemi HSU í landshlutanum, þ.m.t. rekstur og mönnun, helstu áskoranir, lýðheilsuvísa og stefnu stofnunarinnar. Kynnir starfsáætlun HSU fyrir árið 2021, húsnæðiskost og þær endurbætur sem framundan eru, fjárhag stofnunarinnar og ársreikning. Verkefni tengd fjarheilbrigðisþjónustu sem eru í gangi og hvað hafi áunnist í málaflokknum. Gert er ráð fyrir að stjórn fái sérstaka kynningu á stöðu fjarheilbrigðisþjónustu sem hefur verið í gangi og næstu skref. Loks kynna fulltrúar HSU hvaða áhrif COVID hefur haft á reksturinn og styrkingu á sérfræðiþjónustu m.a. á sviði geðheilbrigðismála og krabbameinslækninga, þ.m.t. forvarnarstarfi. Formaður þakkar fulltrúum HSU fyrir þátttökuna, ágæta kynningu og hlakkar til áframhaldandi góðs samstarfs.
3. Önnur mál til kynningar og umræðu
a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka.
Lagðar fram til kynningar, fundargerð 518. fundar stjórnar SSH, fundargerðir 20. og 21. funda stjórnar SSNE, fundargerð 764. fundar stjórnar SSS, fundargerðir 62. og 63. funda
stjórnar SSNV, fundargerð 67. fundar stýrihóps Stjórnarráðsins og fundargerðir 893. og 894. funda stjórnar sambandsins.
b. Áfangastaðastofur
Formaður kynnir frumdrög að samningi á milli SASS og Markaðsstofu Suðurlands (MSS) um rekstur áfangastaðastofu.
Niðurstaða fundarins er að fela formanni og framkvæmdastjóra að vinna málið áfram með MSS og kynna hugmyndir um stofnun og rekstur áfangastaðastofu fyrir aðildarsveitarfélögum samtakanna.
c. Vinna starfshópa á milli ársþinga
Formaður kynnir hugmyndir um skipulag vinnu starfshópa og hvaða málefni þurfi helst að yfirfara fram að næsta ársþingi. Megináherslur Sóknaráætlunar Suðurlands tengjast flokkunum umhverfi, samfélag og atvinnu- og nýsköpun.
Niðurstaðan er að fela starfshópum að fjalla nánar um eftirfarandi málefni: samgöngur; rafmagn og fjarskipti; menntun; menningu; velferð; atvinnu- og nýsköpun og erlenda fjárfestingu.
Framkvæmdastjóra falið að vinna málið áfram.
d. Fundir með þingmönnum Suðurkjördæmis
Á næstu þremur mánuðum ráðgerir stjórn SASS að halda tvo til þrjá fundi með þingmönnum Suðurkjördæmis til að fara yfir málefni sem tengjast landshlutanum. Á hverjum fundi er ráðgert að samtökin verði með framsögu á tveimur mikilvægum málum með það að markmiði að styrkja sunnlenskt samfélag.
e. Samstarfsvettvangur EFTA og EES
Formaður greinir frá fundi sem hún sat og haldinn var í fjarfundi 28. – 29. janúar sl. Þar var fjallað um hagsmunagæslu vettvangsins á næstu misserum gagnvart Grænum sáttmála ESB (European Green Deal). Einnig var fjallað um tillögur framkvæmdastjórnar ESB um setningu tilskipunar um lágmarkslaun í Evrópu.
f. Landsbyggðirnar: vald og fjölmiðlar
Formaður kynnir niðurstöður rannsóknar sem Hilda Jana Gísladóttir bæjafulltrúi á Akureyri vann í námi sínu við HÍ og HA og ber yfirskriftina „Horft út um glugga borgarmúrsins”, en þar er fjallað um birtingarmynd íbúa landsbyggðanna í fjölmiðlum.
Stjórn tekur undir mikilvægi þess að landshlutasamtökin og fleiri haldi málþing til að vekja athygli á misvægi í aðgengi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis að almennri umræðu í fjölmiðlum.
g. Úrgangssetur á Laugarvatni – Kynning
Elísabet Björney Lárusdóttir umhverfisfræðingur og Þórður Freyr kynna hugmyndir um rekstur á rannsóknarsetri um úrgangsmál á Laugarvatni. Stjórn er þeirrar skoðunar að um verðugt mál sé að ræða sem leggja skuli áherslu á.
h. Boð á landsþing sambandsins
Formaður kynnir boðun til landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið verður 26. mars n.k. Þingið verður haldið á Grand Hótel í Reykjavík.
i. Frumvarp um hringrásarhagkerfið
Formaður kynnir drög sambandsins að umsögn um frumvarpið.
Næsti fundur stjórnar verður vinnufundur sem haldinn verður 26. – 27. febrúar n.k. kl. 14:00 í Hoffelli, Sveitarfélaginu Hornafirði.
Fundi slitið kl. 15:25.
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Helgi Kjartansson
Lilja Einarsdóttir
Einar Freyr Elínarson
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Ari Björn Thorarensen
Arna Ír Gunnarsdóttir