fbpx

 

573. fundur stjórnar SASS

Hótel Nordica í Reykjavík

8. október 2021, kl. 14:00 – 16:00

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Helgi Kjartansson, Lilja Einarsdóttir, Arna Ír Gunnarsdóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Ari Björn Thorarensen og Grétar Ingi Erlendsson. Einar Freyr Elínarsonar tengdist fundinum í gegnum fjarfundahugbúnað. Þá taka þátt Þórður Freyr Sigurðsson og Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð.

1. Fundargerðir

Fundargerð 572. fundar staðfest.

2. Ársþing SASS

a. Dagskrá ársþings og aðalfundar

Formaður kynnir dagskrá ársþings samtakanna sem fram fer á Stracta hótelinu á Hellu í Rangárþingi ytra 28. – 29. október nk. Þema ársþingsins er Suðurland í sókn – Látum verkin tala. Fyrirliggjandi dagskrá staðfest af stjórn.

Formaður fer einnig yfir undirbúning milliþinganefnda sem eru að störfum.

b. Starfsskýrsla SASS 2020 – 2021

Er áfram í vinnslu hjá starfsmönnum samtakanna.

c. Drög að fjárhagsáætlun SASS 2022

Framkvæmdastjóri kynnir drög að fjárhagsáætlun samtakanna fyrir árið 2022. Farið yfir forsendur áætlunarinnar en sem fyrr hefur stjórn SASS nokkrar áhyggjur af að fjárframlög ríkisins til atvinnuráðgjafar hafi ekki hækkað í takt við verðlagsþróun og að nauðsyn þess að breyta reiknireglu sóknaráætlunar, en breytingin sem innleidd var 2019 leiddi til lækkunar framlaga til landshlutans. Ef ekki verður snúið við af þessari braut minnkar geta samtakanna í landshlutanum til að veita atvinnuráðgjöf af sama krafti og verið hefur og Uppbyggingarsjóður Sóknaráætlunar Suðurlands hefur minni fjármuni til að styrkja verkefni á svið menningar og atvinnu- og nýsköpunar.

Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að uppfæra drög að fjárhagsáætlun SASS 2022 með skýringum til samræmis við umræður á fundinum og leggja þau síðan fyrir fjárhagsnefnd.

3. Sóknaráætlun Suðurlands

Formaður, framkvæmdastjóri og sviðsstjóri kynna stöðuna. Farið yfir fjárhagsgrunn Sóknaráætlunar Suðurlands 2022 en athygli ráðuneytisins hefur aftur verið vakin á skertu framlagi til Sóknaráætlunar Suðurlands.

Kynning á samantekt á umsóknarferlinu í Uppbyggingarsjóð Suðurlands og hversu miklir fjármunir eru til endurúthlutunar. Yfirferð á núverandi úthlutunarreglum og matsþáttum, þeim verður breytt til samræmis við umræður á fundinum. Auk þess var farið yfir áherslur stjórnar gagnvart fagráðum.

Í seinni úhlutun ársins 2021 bárust sjóðnum 112 umsóknir. Í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna eru 41 umsókn og í flokki menningarverkefna 71 umsókn. Heildarfjárhæð sem sótt er um er ríflega 152 m.kr. Heildarfjárhæð sem sótt er um vegna atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna er um 80 m.kr. eða að meðaltali um 2 m.kr. fyrir hverja verkefnisumsókn. Heildarfjárhæð sem sótt er um til menningarverkefna er um 70 m.kr. eða að meðaltali um 1 m.kr. á umsókn.

Auglýst var eftir umsóknum í sjóðinn frá því í byrjun september sl. með umsóknarfresti til kl. 16:00 þann 5. október sl. Haldinn var opinn kynningarfundur (fjarfundur) fyrir umsækjendur 21. september sl. Einnig var upptaka af fundinum gerð aðgengileg öllum að fundi loknum. Auglýsingar voru birtar í öllum héraðsmiðlum, á vef og í blöðum. Einnig var sérstaklega stuðst við markaðssetningu á samfélagsmiðlum og með beinni kynningu ráðgjafa í þeirra nærumhverfi. Að þessu sinni komu fimm nýjir ráðgjafar að ferlinu í ráðgjöf og til leiðbeiningar við umsækjendur. Fjöldi umsókna var aðeins undir meðaltali miðað við umsóknarferli síðustu ára.

Verkefni sem hafa verið felld niður á þessu ári, þ.e. verkefni sem hætt hefur verið við eða ekki verið lokið að fullu innan tiltekins frests eru 28 talsins. Þar af eru 6 verkefni sem ekki hefur verið lokið við að fullu eða eftirstöðvar afþakkaðar eða verið látnar niður falla. Eftirstöðvar þessara verkefna, til endurúthlutunar, eru samtals 10,3 m.kr. þann 6. október 2021.

Greinargerð sóknaráætlana landshluta fyrir árið 2020 er komin út en slóðin að henni er hér. Fyrirhugaður er fjarfundur fulltrúa SASS með stýrihóp stjórnarráðsins í byrjun nóvember nk.

4. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka

Lagðar fram til kynningar; fundargerð 29. fundar stjórnar SSNE, fundargerð 528. fundar stjórnar SSH, fundargerð 771. fundar SSS, fundargerð 163. fundar SSV, fundargerðir 68. og 69. funda SSNV, fundargerðir 38. og 39. funda Vestfjarðastofu, fundargerð 73. fundar stýrihóps stjórnarráðsins og fundargerð 900. fundar stjórnar sambandsins.

b. Kynnisferð til Danmerkur

Formaður kynnir niðurstöður könnunar sem gerð var meðal þeirra sem skráð hafa sig í kynnisferðina til Danmerkur. Ferðalangar voru spurðir um eftirfarandi:

  1. Er vilji til að fara í kynnisferðina á árinu og ef svo er hentar þá dagsetningin 15. – 18. nóvember nk.
  2. Er vilji til að fara í ferðina á nýju ári
    1. fyrir sveitarstjórnarkosningar
    2. eftir sveitarstjórnarkosningar
  3. Hætta alfarið við kynnisferðina og fá hluta af útlögðum ferðakostnaði endurgreiddann

Niðurstaðan er sú að 16 vilja reyna að fara í nóvember nk., 13 að beðið verði fram á nýtt ár en ferð farin fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, 2 að farið verði á á nýju ári eftir kosningar og 7 að hætt verði við ferðina.

Út frá framangreindum niðurstöðum er niðurstaða stjórnar að reynt verði að fara í ferðina í nóvember nk.

c. Ölfus cluster

Formaður kynnir að SASS hefur fengið boð um að gerast stofnaðili að Ölfus cluster (ÖC) en fyrir eru samtökin sem dæmi stofnaðilar að Nýheimum á Höfn, Þekkingarsetri Vestmannaeyja og Háskólafélagi Suðurlands.

Niðurstaða stjórnar er að gerast stofnaðili að þessu mikilvæga þekkingarsetri Ölfus cluster og leggja þekkingarsetrinu til 200.000 kr. í stofnfé. Stjórn SASS fagnar stofnun ÖC og væntir mikils af samstarfi þekkingarsetursins við samtökin, önnur þekkingarsetur í landshlutanum og aðra í sunnlensku samfélagi.

d. Skýrsla framkvæmdarstjóra

Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni í liðnum mánuði.

e. Art samningur

Formaður kynnir nýgerðan samning við félagasmálaráðuneytið um áframhaldandi rekstur á ART verkefninu en gildistími hans er þrjú ár. Ánægja er hjá stjórn SASS með samninginn og þeirri viðurkenningu sem í honum felst.

f. Þekkingarsetur á Laugavatni – samningur við SNR

Formaður kynnir nýgerðan samning við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um rekstur á þekkingarsetri á Laugarvatni. Ánægja er hjá stjórn SASS með samninginn og þeirri vðurkenningu sem í honum felst.

g. Fundur formanna og framkvæmdarstjóra LHS og fundur með stjórn sambandsins

Formaður fjallar um helstu atriði sem fram komu á fundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka en fundurinn var haldinn í Svartsengi á Reykjanesi 6. október sl.

Formaður kynnir helstu atriði sem fram komu á fundi sem formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna áttu með stjórn sambandsins fyrr í dag.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn miðvikudaginn 27. október nk. á Stracta hótelinu á Hellu kl. 18:00.

 

Fundi slitið kl. 15:30.

 

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Helgi Kjartansson

Lilja Einarsdóttir

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

Friðrik Sigurbjörnsson

Arna Ír Gunnarsdóttir

Eva Björk Harðardóttir

Grétar Ingi Erlendsson

Ari Björn Thorarensen

Einar Freyr Elínarson

573. fundur stj. SASS