582. fundur stjórnar SASS
Fjarfundur haldinn
3. júní 2022, kl. 13:00-14:20
Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Helgi Kjartansson varaformaður, Arna Ír Gunnarsdóttir, Ari Björn Thorarensen, Einar Freyr Elínarson, Grétar Ingi Erlendsson, Lilja Einarsdóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson. Þá tekur þátt Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna.
1. Fundargerð
Fundargerð 581. fundar staðfest. Verður undirrituð síðar.
2. Aukaaðalfundur SASS 2022
Formaður kynnir uppfærð drög að dagskrá komandi aukaaðalfundar SASS sem fram fer á Hótel Selfossi 15. og 16. júní nk.
Formanni og framkvæmdastjóra falið að uppfæra dagskrá til samræmis við umræður á fundinum.
3. Stöðugreining hjúkrunarheimila á Suðurlandi
Lilja kynnir skýrslu um stöðu hjúkrunarheimila á Suðurlandi. Uppfært stöðumat var unnið af Lilju Einarsdóttur sveitarstjóra Rangárþings eystra og Sigríði Lind Þorbjörnsdóttur starfsmanni SASS. Upplýsingar um viðkomandi heimili voru m.a. fengnar með spurningakönnun sem lögð var fyrir forstöðumenn heimila í lok árs 2014. Árið 2017 var farið yfir hluta upplýsinganna aftur þar sem miklar breytingar höfðu orðið frá því upphaflega skýrslan var skrifuð.
Vorið 2022 ákvað stjórn að fara ítarlega í gegnum upprunalegu skýrsluna til að varpa sem bestu ljósi á stöðu hjúkrunarheimila á Suðurlandi í dag. Fengin var aðstoð frá Jóhönnu Valgeirsdóttur formanni færni- og heilsumatsnefndar HSU um stöðuna á biðlistum og kallað var eftir upplýsingum um stöðu hjúkrunarheimila frá forstöðumönnum þeirra. Stöðumatið byggir á upplýsingum sem fengnar voru á tímabilinu mars til maí 2022. Upplýsingar fengust frá öllum forstöðumönnum hjúkrunarheimila á Suðurlandi og er þeim þakkað fyrir að hafa veitt þær svo möguleiki væri á að uppfæra stöðugreininguna.
Stjórn óskar eftir að skýrslan verði uppfærð til samræmis við umræður á fundinum. Opinberir aðilar og sveitarstjórnir eru hvött til að kynna sér efni hennar þegar hún verður birt. Stjórn SASS þakkar fyrir vel unna skýrslu og þeim sem komu að gerð hennar fyrir vel unnin störf.
4. Almenningssamgöngur á Suðurlandi
Formaður kynnir skýrslu um viðhorf notenda til almenningssamgangna á Suðurlandi. Rannsóknarfyrirtækið Maskína, f.h. SASS, lagði ítarleg könnun fyrir notendur þjónustunnar og þeir spurðir um hvert viðhorf þeirra væri til Strætó. Markmið rannsóknarinnar var að kanna viðhorf íbúa á Suðurlandi til þessa forms almenningssamgangna. Könnuð var ánægja með Strætó almennt á Suðurlandi og til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þá var kannaður ferðamáti og hvaða ferðamáta íbúar mundu helst kjósa. Skoðað var hversu oft íbúar Suðurlands notuðu Strætó til að komast milli staða á Suðurlandi og til og frá höfuðborgarsvæðinu. Athugað var í hvaða erindum íbúar nota strætó og að lokum var kannað hvernig mætti bæta þjónustu Strætó fyrir þá sem nota hana nú þegar, og hvað þyrfti til að þeir færu að nota þetta form almenningssamgangna.
Framkvæmdastjóri SASS segir frá fundi sem haldinn var í morgun með fulltúum Vegagerðarinnar (Vg) og öðrum landshlutasamtökum en þar var Vg að kynnar gjaldskrárbreytingar.
Stjórn SASS fagnar útkomu skýrslunnar og hvetur sveitarstjórnir til að kynna sér efni hennar en hana má finna hér og á vef samtakanna. Stjórn SASS þakkar þeim sem komu að gerð hennar fyrir vel unnin störf.
5. Önnur má til kynningar og umræðu
a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka
Lagðar fram til kynningar; fundargerð 539. fundar stjórnar SSH, fundargerð 36. eigendafundar Strætó, fundargerð 37. fundar stjórnar SSNE, fundargerð 77. fundar stjórnar SSNV, fundargerð aðalfundar Sorpurðunar Vesturlands, aðalfundar SSV 2022, fundargerð 778. fundar stjórnar SSS og vorfundar SSS, fudargerðir 7. og 8. funda Markaðsstofu Suðurlands (MSS), aðalfundar MSS og 1. fundar stjórnar MSS á nýju starfsári og 80. fundur Stýrihóps stjórnarráðsins.
b. Skýrsla framkvæmdarstjóra
Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni í liðnum mánuði og hvað framundan sé.
c. Bókun sveitarstjórnar Rangárþings eystra um stafræna þróun
Formaður kynnir að verkefnið Starfrænt Suðurland var tekið fyrir á 297. fundi sveitarstjórnar Rangárþings eystra. Verkefnið var sett á laggirnar í kjölfar sameiningaviðræðna sveitarfélaganna Ásahrepps, Rangárþings ytra, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Það hófst 1. ágúst 2021 og mun standa til 31. júlí nk. Markmið verkefnisins er að undirbúa sveitarfélögin undir veitingu stafrænnar þjónustu og stjórnsýslu. Margrét Helgadóttir, verkefnastjóri verkefnisins, kom á fyrrgreindan fund sveitarstjórnar til að kynna framgang þess. Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða á fundinum: „Sveitarstjórn þakkar Margréti fyrir greinagóða kynningu á verkefninu. Ljóst er að mikil tækifæri felast í innleiðingu stafrænna lausna í stjórnsýslu sveitarfélaga. Margrét hefur lagt sérstaka áherslu á ávinning meðalstórra og minni sveitarfélaga í vinnu sinni og samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sveitarstjórn leggur til við stjórn SASS að þessu mikilvæga verkefni verði haldið áfram á vettvangi SASS. Sú vinna sem nú þegar hefur verið unnin mun nýtast lang flestum sveitarfélögum á starfssvæði SASS. Jafnframt er lagt til að Margrét V. Helgadóttir verði fengin til að kynna verkefnið og stöðu þess fyrir stjórninni.“
Lagt fram til kynningar en þar sem kosning til sveitarstjórna er nýafstaðin vísar stjórn SASS erindinu til afgreiðslu hjá komandi stjórn samtakanna.
d. Erindi Mannlífs
Formaður kynnir að erindi hafi borist frá markaðs- og sölustjóra Mannlífs um gerð 10 þátta sem bera heitið Komin á kortið.
Stjórn SASS þakkar fyrir erindið, en þar sem fjalla á um sveitarfélögin sem aðild eiga að samtökunum er eðlilegra að hvert og eitt taki afstöðu til þess á sínum vettvangi. Samtökin munu ekki leggja þáttunum til fjármuni.
e. Stefnumótandi byggðaáætlun 2022-2036
Formaður kynnir að fyrir Alþingi liggi drög að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036. Stjórn SASS fagnar framkominni byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 og því mikla samráði sem ráðuneyti byggðamála, einstaka fagráðuneyti og Byggðastofnun hefur haft við almenning í gegnum samráðsgátt stjórnvalda, sambandið og landshlutasamtökin um mótun þeirra tillagna sem settar eru fram í áætluninni. Þetta hefur skilað sér í raunhæfum tillögum sem eru í ágætu samhengi við aðra stefnumótun stjórnvalda.
Stjórn SASS lýsir hins vegar yfir miklum vonbrigðum með lækkandi fjárframlög til bæði atvinnuráðgjafar og Sóknaráætlana landshluta. Áætlunin gerir m.ö.o. ráð fyrir að landshlutasamtök sveitarfélaga taki að sér stærra hlutverk en áður, sem er ánægjulegt, en á sama tíma er lagt til að dregið verði úr fjárveitingum. Það fer ekki saman og kallast ekki á við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla eigi málaflokkinn byggðamál. Nauðsynlegt er því að hækka fjárframlög til málaflokksins áður en áætlunin verður samþykkt.
Lögð er áhersla á að áætlunin verði samþykkt á vorþingi svo hægt sé að hrinda í framkvæmd þeim fjölmörgu mikilvægu verkefnum sem þar eru tiltekin.
Eins og fyrr segir er brýnt að gætt sé að í fjármálaáætlun og fjárlögum að viðkomandi ráðuneytum sé áætlað fjármagn til verkefnanna og nauðsynlegt er að hækka fjárframlög til málaflokksins áður en áætlunin verður samþykkt
f. Ungmennaráð Suðurlands
Formaður kynnir fundargerð 9. fundar Ungmennaráðs Suðurlands. COVID hefur sett töluvert mark á starfið síðustu tvö ár. Á fundi ráðsins var eftirfarandi bókað: „Ungmennaráð Suðurlands vill hvetja til þess að Jafningjafræðsla verðir áfram í boði fyrir ungmenni á Suðurlandi í gegnum grunnskólana í landshlutanum. Ráðið vill beina því til allra sveitarfélaga á Suðurlandi að taka aftur upp jafningafræðslu og stuðla að því að á Suðurlandi verði starfandi jafningjafræðarar og gera þannig sunnlenskum ungmennum kleift að sitja við saman borð og ungmenni í öðrum landshlutum. Gerð var könnun meðal allra ungmenna sem fengu fræðslu hjá jafningjafræðurunum á Suðurlandi og ljóst er að mikil ánægja var með jafningjafræðsluna, niðurstöður könnunarinnar er aðgengileg á heimasíðu SASS undir Ungmennaráð Suðurlands.“
Ný stjórn var kjörin á fundinum og skipar hún þannig með sér verkum; Sólmundur M. Sigurðarson formaður, Haukur Castaldo Jóhannesson varaformaður og Elín Karlsdóttir ritari.
Stjórn SASS þakkar fyrir bókunina, það góða starf sem Ungmennaráð Suðurlands hefur unnið á undaförnum árum og hún hvetur sveitarfélögin til að hafa jafningafræslu í huga við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023. Einnig óskar stjórn SASS nýkjörinni stjórn Ungmennaráðs Suðurlands með kjörið.
g. Tilnefning í starfshóp um framtíðarfyrirkomulag á Reykjum og Reykjatorfunni
Formaður kynnir að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi með bréfi dagsettu 31. maí sl. óskað eftir tilnefningu SASS á einum aðila af hvoru kyni í starfshóp um framtíðarfyrirkomulag á Reykjum og Reykjatorfunni. Stjórn SASS samþykkir að fela sveitarstjórnum í Ölfusi og Hveragerðisbæ að komast að sameiginlegri niðurstöðu um tilnefningu á einum karli og einni konu í starfshópinn. Ráðherra sem skipar í starfshópinn velur svo úr tilnefningum svo kynjaskipting sé sem jöfnust.
Stjórn SASS furðar sig á að ráðuneyti greiði ekki sérstaklega fyrir störf í starfshópum og hvetur hið opinbera til að greiða fyrir vinnuframlagið.
Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 15. júní nk. kl. 17:00
Fundi slitið kl. 14:20
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Helgi Kjartansson
Lilja Einarsdóttir
Arna Ír Gunnarsdóttir
Grétar Ingi Erlendsson
Ari Björn Thorarensen
Einar Freyr Elínarson
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson