599. fundur stjórnar SASS
Fjarfundur
1. september 2023, kl. 12:00-15:30
Þátttakendur: Grétar Ingi Erlendsson varaformaður, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Árni Eiríksson, Arnar Freyr Ólafsson, Einar Freyr Elínarson, Brynhildur Jónsdóttir og Njáll Ragnarsson. Ásgerður Kristín Gylfadóttir boðaði forföll og Gauti Árnason tekur þátt í hennar stað. Undir dagskrárlið 2 taka þátt Elísabet Sveinsdóttir forseti bæjarstjórnar Kópavogs, frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) Margrét Björk Björnsdóttir fagstjóri og Kristján Guðmundsson verkefnisstjóri áfangastaða- og markaðssviðs og frá Ferðamálastofu Elías Bj. Gíslason forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs. Einnig tekur þátt Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð. Fundarmenn tengjast fundinum í gegnum fjarfundar hugbúnað.
Varaformaður býður fundarmenn velkomna.
1.Fundargerð
Bíður afgreiðslu til næsta fundar.
2. Skipulag og rekstur á áfangastaðastofu
Varaformaður fer yfir umræður frá síðasta fundi um stoðkerfið á Suðurlandi en á þeim fundi var ákveðið að fjalla nánar um hvernig skipulagi og rekstri áfangastaðastofu er háttað í öðrum landshlutum og hver sýn Ferðamálstofu er. Eftirtaldir tengjast fundinum:
a. Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins
Elísabet Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs, kynnir aðdragandann að stofnun Markaðsstofu Höfuðborgarsvæðisins sem öll sjö sveitarfélögin á svæðinu standa að. Hún fer yfir rökin fyrir skipulaginu en hlutverk markaðsstofunnar er að þróa og markaðssetja áfangastaðinn í heild með áhersla á að efla atvinnustarfsemi og auka gjaldeyristekjur. Hún kynnir helstu áherslur og þau verkefni sem fram undan eru s.s. gerð áfangastaðaáætlunar. Meginþemað er að samstarf eykur slagkraft.
b. Skipulag og rekstur hjá SSV á Vesturlandi
Margrét Björk Björnsdóttir fagstjóri og Kristján Guðmundsson verkefnisstjóri áfangastaða- og markaðssviðs hjá landshlutasamtökunum á Vesturlandi kynna starfið í landshlutanum og aðdraganda þess að skipulaginu var breytt. Áfangastaðastofan sinnir stoðþjónustu við ferðamál í landshlutanum og er í dag alfarið í eigu og rekið af SSV, enda felst í því samlegð. Þau vinna að framþróun, eflingu og auknum gæðum ferðamála í landshlutanum. Þau kynna helstu áherslur og þau verkefni sem unnið er að í samstarfi við hagaðila.
c. Samstarf Ferðamálastofu við markaðs- og áfangastaðastofur
Elías Bj. Gíslason forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs hjá Ferðamálastofu kynnir samstarf stofnunarinnar við áfangastaðastofur sem almennt er mjög gott. Hann tiltók fyrimyndarverkefni sem unnin hafa verið á Suðurlandi s.s. vita- og hjólaleiðir. Hann fer yfir hlutverk áfangastaðastofu og hvað lá til grundvallar stofnunar þeirra.
Fyrrgreindir aðilar svöruðu spurningum og hugleiðingum stjórnarmanna.
Niðurstaða stjórnar er að fá stjórn og framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands til fundar til að fara nánar yfir málið og er framkvæmdastjóra falið að boða til hans.
3. Ársþing SASS 2023
a. Dagskrá ársþings og aðalfundar 2023
Varaformaður kynnir undirbúning fyrir ársþing samtakanna kynnir nokkrar hugmyndir að mögulegu þema og umræðuefni. Niðurstaða stjórnar er að skoða nánar umfjöllun um eftirfarandi: lýðfræðilega þróun, stafræna þróun og stjórnsýslu, húsnæðismál og orkumál – aðgengi að orku. Unnið er út frá þemanu „Hvar liggja ofurkraftar sunnlensks samfélags?“ Formanni og framkvæmdastjóra falinn undirbúningur og útfærsla skv. umræðum á fundinum.
b. Starfsskýrsla SASS 2022 – 2023
Er í vinnslu.
c. Fjárhagsáætlun 2024
Er í vinnslu og stjórn vísar henni til umræðu í Fjárhagsnefnd samtakanna.
d. Tillaga að launum stjórnar, ráða og nefnda
Tillaga liggur fyrir fundinum sem stjórn vísar til umræðu í Fjárhagsnefnd.
e. Milliþinganefndir
Varaformaður kynnir að í vikunni hafi kynningarfundur verið haldinn fyrir formenn og starfsmenn milliþinganefnda. Á fundinum var farið yfir skipan nefnda, efnistök, verklag, hlutverk og hvernig skila skyldi niðurstöðum nefnda til SASS til að þau geti fylgt gögnum til þingfulltrúa. Boðað hefur verið til fyrstu funda hjá nefndum í næstu viku.
4. Menningarverðlaun Suðurlands 2023
Stjórn SASS samþykkir að halda áfram veitingu Menningarverðlauna Suðurlands og skipar Magnús Karel Hannesson, Margréti Hörpu Guðsteinsdóttur og Gauta Árnason í valnefnd um úthlutun menningarverðlauna 2023. Til vara eru Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Arnar Freyr Ólafsson. Ingvi Már Guðnason hjá SASS verður nefndinni til aðstoðar.
5. Menntaverðlaun Suðurlands 2023
Stjórn SASS samþykkir að skipa Ingunni Jónsdóttir hjá Háskólafélagi Suðurlands og Einar Frey Elínarson í samstarfshóp um úthlutun Menntaverðlauna Suðurlands 2023. Til vara eru Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Arnar Freyr Ólafsson. Ingvi Már Guðnason hjá SASS verður nefndinni til aðstoðar.
6. Önnur mál til kynningar og umræðu
a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka
Lagðar fram til kynningar; fundargerðir 560. og 561. funda stjórnar SSH, fundargerð fagráðs atvinnu- og nýsköpunar hjá SSNE, fundargerð 175. fundar stjórnar SSV og fundargerð 931. fundar stjórnar sambandsins.
b. Skýrsla framkvæmdastjóra
Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni og hvað fram undan er en meðal atriða má nefna: Frágang á samstarfssamningum um byggðaþróun og atvinnuráðgjöf. Stefán Friðriksson hefur verið ráðinn byggðaþróunarfulltrúi í Rangárvallasýslu og Lína Björg Tryggvadóttir hefur verið ráðin fyrir sveitarfélögin í Uppsveitum. Opnað verður fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Suðurlands í næstu viku. Undirbúningur fyrir ársþing samtakanna. Umsögn um samgönguáætlun 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 og umsögn um tillögu Landsnets að kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi 2023-2032.
c. Sóknaráætlun Suðurlands
Varaformaður kynnir að opnað verði fyrir umsóknir í síðari úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands þann 5. september nk. Umsóknarfrestur verður til kl. 16:00, þriðjudaginn 3. október nk. Til úthlutunar verða um 40 m.kr. að þessu sinni.
Stjórn SASS tekur til umfjöllunar úthlutunarreglur Uppbyggingarsjóðs Suðurlands og samþykkir nýjar úthlutunarreglur með þeim breytingum að reiknað tímagjald vegna eigin vinnu styrkþega hækkar og verður eftir breytinguna kt. 5.700.- Endurskoðaðar úthlutunarreglur taka strax gildi og verða birtar á heimasíðu SASS samhliða því að opnað verður fyrir umsóknir í sjóðinn.
d. Sinfóníuhljómsveit Suðurlands
Varaformaður kynnir að svar hafi borist frá fyrirsvarsmönnum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands við spurningum stjórnar þar sem óskað var eftir nánari upplýsingum um rekstraráætlun, útgjöld og sjálfbærniáætlun áður en erindi hljómsveitarinnar yrði sent áfram til sveitarfélaganna.
Niðurstaða stjórnar er að fresta afgreiðslu málsins.
Næsti fundur stjórnar verður aukafundur haldinn í fjarfundi föstudaginn 15. eða 29. september nk.
Fundi slitið kl. 15:10
Grétar Ingi Erlendsson
Einar Freyr Elínarson
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Njáll Ragnarsson
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Brynhildur Jónsdóttir
Arnar Freyr Ólafsson
Árni Eiríksson
Gauti Árnason