605. fundur stjórnar SASS
fjarfundur
12. janúar 2024 kl. 12:30-15:00
Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Grétar Ingi Erlendsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Árni Eiríksson, Arnar Freyr Ólafsson, Brynhildur Jónsdóttir, Einar Freyr Elínarson og Njáll Ragnarsson. Einnig taka þátt Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri þróunarsviðs SASS og Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri, sem jafnframt ritar fundargerð. Fundarmenn tengjast fundinum með fjarfundarhugbúnaði.
Formaður býður fundarmenn velkomna og óskar aðilum gleðilegs árs og þakkar fyrir gott og ánægjulegt samstarf nýliðnu ári. Tilhlökkun að takast á við verkefni á árinu.
1. Fundargerð
Fundargerð 604. fundar staðfest og undirrituð síðar.
2. Ársþing SASS 2024
Formaður kynnir undirbúning fyrir auka- og aðalfund SASS 2024 en aukaaðalfundur samtakanna er ráðgert að halda í Vestmannaeyjum 7. júní nk. og ársþing og aðalfund SASS 31. október til 1. nóvember nk. í Hveragerði.
Á aukaaðalfundinum verður kosið í stjórn og gert er ráð fyrir að leggja fram tillögur að breyttum samþykktum fyrir fundinn. Fyrir fundinn þarf því að yfirfara núgildandi samþykktir en við þá vinnu verður, m.a. horft til umræðu á nýliðnu ársþingi. Stjórn samþykkir að fela formanni og Árna Eiríkssyni, stjórnarmanni sem fór fyrir Allsherjarnefnd á ársþingi samtakanna 2023, í samvinnu við starfsmenn að hefja þessa vinnu og leggja tillögur sínar fyrir stjórnarfund.
3. Sóknaráætlun Suðurlands
a) Skipan í fagráð
Stjórn ræðir skipan fagráða sem meta umsóknir í Uppbyggingarsjóð Suðurlands. Stjórn samþykkir að skipan fagráðs atvinnuþróunar- og nýsköpunarstyrkja verður óbreytt 2024 en í ráðinu sitja:
- Helga Björk Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri leikskólans Sóla
- Bergsteinn Einarsson, eigandi og framkvæmdarstjóri Set ehf.
- Laufey Helgadóttir, ferðaþjónustubóndi að Smyrlabjörgum
Varamaður: Guðmundur H. Gunnarsson, aðstoðarmaður forstjóra, Skinney-Þinganes hf.
Breyting verður á skipan varamanns í fagráði menningarstyrkja og er afgreiðslu frestað til næsta fundar stjórnar
b) Fjárhagsáætlun 2024
Framkvæmdastjóri fer yfir drög að fjárhagsáætlun Sóknaráætlunar Suðurlands 2024.
Framlag ríkisins verði óbreytt frá fyrra ári eða ríflega 115 m.kr., framlag sveitarfélaganna verður tæplega 14,4 m.kr. og endurúthlutun og eftirstöðvar frá fyrra ári nemi um 21 m.kr. Samtals er því áætluð fjárhæð til ráðstöfunar um 152 m.kr. Á árinu er gert ráð fyrir að verja 84 m.kr. í Uppbyggingarsjóð Suðurlands, þ.e. 42 m.kr. í hvora úthlutun. Til áhersluverkefna er gert ráð fyrir að verja samtals 57 m.kr. og 12 m.kr. fara í umsýslu og annan kostnað tengdan Sóknaráætlun Suðurlands.
c) Tillögur að áhersluverkefnum
Sviðsstjóri kynnir uppfærðar tillögur að áhersluverkefnum 2024. Þegar hefur verið samþykktar 15 m.kr. í Orkídeu, 5 m.kr. í Sigurhæðir og 0,4 m.kr. í Upptaktur 2024.
Stjórn samþykkir eftirtalin 14 áhersluverkefni að meðtöldum fyrrgreindum verkefnum, samtals að fjárhæð 56,4 m.kr.
Áhersluverkefni – 2024 | Fjárhæð í kr. |
Orkídea | 15.000.000 |
Starfastefnumót á Suðurlandi | 4.000.000 |
Jafningjafræðsla | 6.500.000 |
Matarauður Suðurlands – sögur og sýnleiki | 2.500.000 |
Menningarperlur Suðurlands – sögur og sýnileiki | 2.000.000 |
Atvinnubrú háskólanema | 2.500.000 |
Skjálftinn – hæfileikakeppni grunnskóla á Suðurlandi | 7.000.000 |
Sigurhæðir | 5.000.000 |
Stefnumörkun fyrir Sóknaráætlun 2025-2029 | 3.000.000 |
Upptakturinn 2024 | 400.000 |
Kynningarátak um hlutverk byggðaþróunarfulltrúa | 2.000.000 |
Sjúkraþyrla – greining | 3.000.000 |
Lýðfræðileg þróun – mótframlag – framhaldsverkefni | 2.500.000 |
Katla jarðvangur mótframlag vegna þekkingartengdrar ferðaþjónustu | 1.000.000 |
Samtals | 56.400.000 |
d) Starfsáætlun atvinnu- og byggðaþróunar
fyrir fundinum liggur til kynningar starfsáætlun atvinnu- og byggðaþróunar 2024 sem send hefur verið til Byggðastofnunar. Áætlunin er skýr og greinargóð.
4. Starfshópur um samhæfða svæðaskipan málaflokkar er lúta að þjónustu við börn
Framkvæmdastjóri kynnir að mennta- og barnamálaráðherra hafi skipað sprettstarfshóp sem er ætlað að skoða möguleika þess að samhæfa svæðaskipan málaflokka sem lúta að þjónustu við börn. Í hópnum sitja fulltrúar frá mennta- og barnamálaráðuneyti, innviðarráðuneytinu, fagaðilar í málaflokknum frá sveitarfélögum og aðrir hagaðilar s.s. frá ÍSÍ, UMFÍ, BVS, Byggðastofnun, sambandinu og landshlutasamtökunum (LHS). Framkvæmdastjóri eru fulltrúi LHS í vinnuhópnum.
Verkefnið felst í að skoða möguleika þess að koma upp sameiginlegum starfsstöðvum með hliðsjón af svæðaskiptum verkefnum ríkis og sveitarfélaga. Það er í samræmi við nýlega viljayfirlýsingu mennta- og barnamálaráðherra, ÍSÍ og UMFÍ um eflingu íþróttastarfs á landsvísu með áherslu á þátttöku barna með fötlun og barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn.
5. Önnur mál til kynningar og umræðu
a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka
Lagðar fram til kynningar; ; fundargerð 16. fundar stjórnar SSA, fundargerð 145. fundar stjórnar Austurbrúar, fundargerðir 177. – 178. funda stjórnar SSV, fundargerð 796. fundar stjórnar SSS, fundargerðir 57. – 58. funda stjórnar SSNE, fundargerðir 99. – 101. funda stjórnar SSNV, fundargerðir 569. – 570. funda stjórnar SSH, fundargerð 940. fundar stjórnar sambandsins og fundargerð 92. fundar stýrihóps stjórnarráðsins.
b. Skýrsla framkvæmdastjóra
Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni frá síðasta fundi s.s.: ársuppgjör og undirbúningur að gerð ársreikninga, þátttaka í sprettstarfshópi sem skipaður var af mennta- og barnamálaráðherra og undirbúningur áhersluverkefna.
c. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands
Formaður kynnir bókun Heilbrigðisnefndar Suðurlands varðandi fyrirhugaðar breytingar tengdar „Ármanns skýrslunni” svo kölluðu, sbr. hér.
Stjórn SASS tekur undir bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Árborgar 16. nóvember sl. um að mörgum spurningum sé enn ósvarað varðandi fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælaeftirliti.
Stjórn SASS leggur áherslu á að fyrirhugaðar breytingar muni ekki fela í sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélög og að í áframhaldandi vinnu sé haft náið samráð við sveitarfélög, heilbrigðiseftirlitsnefndir og aðra hagaðila.
d. Tilnefningar í Minjaráð Suðurlands
Formaður kynnir erindi frá minjaverði Suðurlands um tilnefningar í Minjaráð Suðurlands.
Stjórn samþykkir að tilefna til áframhaldandi setu Ásborgu Arnþórsdóttur sem aðalmann og Ara Björn Thorarensen sem varamann.
Stjórn SASS gerir athugasemd við að fulltrúum í ráðinu skuli ekki greitt fyrir fundarsetu og fer fram á breytingu á því enda óumdeilt að sá sem tilnefndur er mun skila vinnuframlagi.
Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 2. febrúar nk. kl. 12:30.
Fundi slitið kl. 15:00
Ásgerður K. Gylfadóttir
Grétar Ingi Erlendsson
Einar Freyr Elínarson
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Njáll Ragnarsson
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Arnar Freyr Ólafsson
Árni Eiríksson
Brynhildur Jónsdóttir