fbpx

Ferðamálastofa er aðili að Evrópska EDEN-verkefninu, sem stendur fyrir „European Destination of Excellence“. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta áfangastaði, vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni. Af þessu tilefni er haldin annað hvert ár, samkeppni um gæða áfangastaði í Evrópu, með nýju þema í hvert sinn, en þema ársins 2015 var matartengd ferðaþjónusta. Sveitarfélagið Skagafjörður var útnefnt sem gæðaáfangastaður Íslands 2015 fyrir verkefnið Matarkistan Skagafjörðu og Friður og frumkraftar í Skaftárhreppi varð í öðru sæti fyrir verkefnið – Hvað er í matinn? – Í niðurstöðu valnefndar segir:

“Hvað er í matinn? er afar áhugavert og metnaðarfullt verkefni sem nefndin telur eiga góða möguleika á að vaxa og dafna. Sérstaka athygli vekur sú áhersla verkefnisins að endurvekja gamlar matarhefðir á svæðinu og efla atvinnulíf með því að þróa frekari fullvinnslu afurða í heimabyggð. Gott dæmi um þetta eru nýstofnað handverkssláturhús á Seglbúðum og endurvakning gamalla hefða við vinnslu og neyslu melgresis. Nefndin telur fullvíst að spennandi verði að fylgjast með framþróun þessa metnaðarfulla verkefnis á næstu misserum.“