fbpx

Boðinn verður út á næstu vikum vegarkaflinn á Suðurlandsvegi. Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tilkynnti þetta á málstofu Vegagerðarinnar og ráðuneytisins 27. Janúar sl. Verkið felst í breikkun milli Fossvalla í Lögbergsbrekku ofan við Lækjarbotna og Draugahlíðarbrekku austan við Litlu kaffistofuna. Lengd útboðskafla er um 6,5 km. Að vestan tengist kaflinn núverandi þriggja akreina vegi um Lögbergsbrekku og að austan tengist hann núverandi 2+1 vegi um Svínahraun. Í verkinu er einnig lagfæring á öxlum núverandi vegar sem verður suðurakbraut. Eftir framkvæmdina verður Suðurlandsvegur með aðskildar akstursstefnur samfellt allt milli Fossvalla og vegamóta við Hamragilsveg eða um 11,3 km kafli alls. Útboðsgögn verða tilbúin í febrúar og boðið verður út á Evrópska efnahagssvæðinu. Miðað er við að semja við verktaka í maí. Verklok eru áætluð 1. október 2011.