Fréttatilkynning 11.11.2010
Í dag afhentu Sunnlendingar Guðbjarti Hannessyni heilbrigðisráðherra lista með mótmælum íbúa á Suðurlandi gegn áformuðum niðurskurði á fjárframlögum til heilbrigðisþjónustunnar á Suðurlandi. Við sama tækifæri voru ráðherra einnig afhentir undirskriftalistar úr fleiri heilbrigðisumdæmum. Alls skrifaði10.071 íbúi nafn sitt á mótmælalistana á Suðurlandi sem jafngildir því að liðlega helmingur kosningabærra manna í heilbrigðisumdæmi Suðurlands hafi skrifað undir mótmælin en alls eru um 19.200 íbúar á svæðinu 18 ára og eldri. Þá höfðu 2560 eintaklingar einnig skráð mótmæli sín á Facebooksíðu gegn ….. niðurskurðinum á hádegi í dag.
Sunnlendingar fjölmenntu að Alþingishúsinu í rútum og einkabílum og fór gamall sjúkrabíll fyrir lestinni sem tákn um að með boðuðum niðurskurði sé verið að færa heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi 60 ár aftur í tímann. Undirskriftirnar voru færðar ráðherra á sjúkrabörum og var heilbrigðisráðherra, ríkisstjórn og öðrum alþingismönnum jafnframt flutt drápa sem var samin og flutt af Sigurgeiri Hilmari Friðþjófssyni.Mjög mikill stuðningur hefur verið við þessi mótmæli á öllu Suðurlandi en auk sveitarfélaganna stóðu stéttarfélögin á Suðurlandi, félög heilbrigðisstarfsfólks og Samband sunnlenskra kvenna að undirskriftasöfnuninni auk fjölmargra annarra félaga og samtaka á Suðurlandi. Þá hafa fyrirtæki og stofnanir á svæðinu lagt þessu átaki lið sitt. Elfa Dögg Þórðardóttir formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga ávarpaði heilbrigðisráðherra fyrir hönd landsbyggðarinnar. Í ávarpi sínu sagði Elfa Dögg m.a. að ef boðaður niðurskurður næði fram að ganga fæli hann í sér gróf mannréttindabrot gagnvart íbúum landsbyggðarinnar. Skoraði hún á ríkisstjórnina að standa með sjúkrahúsunum á landsbyggðinni og tryggja að íbúar þar fengju áfram að njóta þeirra grundvallarmannréttinda sem lög kveða á um.