fbpx

SAMTÖK SUNNLENSKRA SVEITARFÉLAGA

532. fundur stjórnar SASS
Haldinn á Hótel Höfn
3. maí 2018, kl. 12:30-22:00
4. maí 2018, kl. 08:00-09:45

Mætt: Gunnar Þorgeirsson formaður, Unnur Þormóðsdóttir, Eva Björk Harðardóttir, Sandra Dís Hafþórsdóttir, Anna Björg Níelsdóttir, Ágúst Sigurðsson og Sæmundur Helgason. Lilja Einarsdóttir, Eggert Valur Guðmundsson og Páll Marvin Jónsson forfölluðust. Einnig sat fundinn Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritaði fundargerð. Á fundinn komu einnig fulltrúar sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar, þ.e. Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri, Ragnheiður Hrafnkelsdóttir, Kristján Guðnason og Páll Róbert Matthíasson.

Formaður bauð fundarmenn velkomna á fund stjórnar í Sveitarfélaginu Hornafirði.

1. Fundargerð

Fundargerð 531. fundar undirrituð.

2. Ársreikningur SASS 2017

Framkvæmdastjóri kynnti ársreikning SASS fyrir árið 2017. Rekstrarafkoma samtakanna var neikvæð um 21,7 m.kr. sem skýrist af tapi á rekstri almenningssamgangna sem var 22,7 m.kr. Af öðrum gjaldaliðum má nefna að lífeyrisskuldbindingar samtakanna hækkuðu milli ára um 6,6 m.kr. Samkvæmt efnahagsreikningi er bókfært eigið fé neikvætt um 27,5 m.kr. í lok ársins. Ársreikningur lagður fram og staðfestur með undirskrift stjórnar og framkvæmdastjóra.

3. Drög að dagskrá auka aðalfundar SASS 2018

Formaður kynnti drög að dagskrá auka-aðalfundar SASS í Vestmannaeyjum 26. – 27. júní nk.
Stjórn staðfesti dagskrána.

4. Umsagnarbeiðnir frá Alþingi

a. Umsögn um frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða, 425. mál.

Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0607.html

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið frá 4. maí.

Stjórn SASS áréttar sérstaklega að í 5. mgr. 5. gr. frumvarpsins er tilgreint að allir fulltrúar ríkisins í svæðisráði verði að vera samþykkir afgreiðslu ráðsins. Verði lögin samþykkt óbreytt hafa fulltrúar ríkisins í raun neitunarvald. Fulltrúar í ráðinu sitja þar með ekki á jafnræðisgrundvelli og segja má að einstaka fulltrúar ríkisins ráði för. Leysa mætti framangreint með sem dæmi að við samþykkt mála sé gerð krafa um aukinn meirihluta atkvæða í ráðinu. Það fangar betur þá meginreglu að efla skuli staðbundið vald og ákvarðanatöku með tilliti til almannahagsmuna og skynsamrar meðferðar valds og opinberra fjármuna.

b. Umsögn um frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun o.fl. (gjaldtaka fyrir tíðnir og alþjónusta), 454. mál.

Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0653.html 

Lagt fram til kynningar.

c. Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.), 457. mál.

Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0656.html

Lagt fram til kynningar.

d. Umsögn um frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum (EES-reglur, stjórnvaldssektir o.fl.), 467. mál.

Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0673.html

Stjórn SASS tekur undir sameiginlegt sérálit fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins sem komu að gerð frumvarpsins.

Stjórn SASSS vill sérstaklega árétta að hún telur of langt gengið í innleiðingu tilskipunarinnar þar sem skylt er að gera matsáætlun samkvæmt lögum nr. 106/2000 en það er ekki fortakslaus skylda samkvæmt tilskipuninni. Ennfremur eru gerðar athugasemdir við þá tillögu frumvarpsins að stytta gildistíma umhverfismats úr tíu árum í fimm ár. Tíu ár er ekki langur tími þegar um er að ræða flóknar framkvæmdir. Lagt er til að gildistími haldist óbreyttur frá núgildandi lögum eða 10 ár.

e. Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018 – 2029, 479 mál.

Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0689.html

Lagt fram til kynningar.

f. Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2018 – 2024, 480. mál.

Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0690.html

Stjórn SASS lýsir yfir ánægju með framkomna tillögu að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.

g. Umsögn um tillögu til þingsályktunar um um fjármálaáætlun 2019-2022, 494. mál.

Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0716.html

Lagt fram til kynningar.

h.Umsögn um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónusta o.fl. (dvalarrými og dagdvöl), 426. mál.

Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0608.html

b. (16. gr. b.) Dagdvöl.

Í dagdvöl skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Um frekari þjónustu í dagdvöl vísast til 3. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um málefni aldraðra. Enginn getur notið þjónustu í dagdvöl nema að undangengnu mati faglegs teymis heilbrigðisstofnunar samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

Í dag er ekkert faglegt teymi heilbrigðisstofnana sem metur fólk til veru í dagdvalar. Þetta hefur verið þannig að félagsþjónustan metur fólk þarna inn og / eða heilbrigðisstofnun óskar eftir að fólk fari inn. Það virðist eiga að vera með sérstakt mat og heilbrigðisstarfsfólk eigi að meta inn. Dagdvalir eru á herðum sveitarfélaga í dag. Þetta er svo áréttað í kafla II í 3. gr. og III kafla í 6. gr.

Það er svo tekið fram í útskýringum að hér sé bara verið að tala um mat fyrir þá sem eru 67 ára og yngri. Það er mjög gott að hér sé verið að opna á það að fólk undir 67 ára geti notað dagdvöl og dvalarrými.

5. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerð annarra landshlutasamtaka, Sambandsins og stýrihóps stjórnarráðsins

Lagðar fram til kynningar, fundargerð SSA frá 9. apríl sl., fundargerð 44. fundar stýrihóps stjórnarráðsins frá 26. mars sl. og fundargerð Sambandsins nr. 859 frá 27. apríl sl.

b. Fyrirkomulag ART verkefnisins – erindi frá NOS og niðurstaða úttektar

Formaður og framkvæmdastjóri kynntu erindi frá NOS, nefndar oddvita og sveitarstjóra í Árnessýslu utan Áborgar, dags. 27. mars sl. Þar er óskað eftir viðræðum við SASS um að kanna möguleika á að samtvinna rekstur ART verkefnisins við Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Ekki þykir tilefni til að hefja viðræður fyrr en ljóst er hvort gerður verði lengri samningur við ríkið um verkefnið.

Háskóli Íslands, Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd (RBF), gerði nýlega úttekt á ART úrræðinu. Titill skýrslunnar er „Mat á reiðistjórnunarúrræðinu ART út frá sjónarhóli þátttökubarna, foreldra þeirra og kennara“, dags. mars 2018.

Niðurstöðurnar eru ánægjulegar en í útdrættinum kemur m.a. fram að: „Marktækur munur var á vandkvæðum barna fyrir og eftir beitingu úrræðisins og upplifðu börnin marktækt betri líðan og minni hegðunarvandkvæði og árásarhneigð í kjölfar þátttöku sinnar í því að mati foreldra og kennara. Það má því fullyrða að með úrræðinu náist það markmið að draga úr hegðunarvandkvæðum og árásarhneigð barna en niðurstöður sýndu þó ekki að félagsleg hæfni ykist marktækt frá fyrri mælingu.“

Stjórn SASS lýsir yfir ánægju með jákvæða umsögn skýrsluhöfunda um ART verkefnið en ljóst er að það skilar samfélaginu miklum ávinningi.

c. Hugmyndasamkeppni um nýtingu á varmaorku

Formaður kynnti stöðu málsins en 20 tillögur bárust í samkeppnina. Dómnefnd hefur farið yfir tillögurnar og verða niðurstöður kynntar 24. maí nk. kl. 13:00. Athöfnin fer fram í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði.

d. Almenningssamgöngur

Framkvæmdastjóri kynnti niðurstöðu rekstrar fyrstu fjóra mánuði ársins 2018 í samanburði við sama tímabil á liðnu ári. Tapið í fyrra var á umræddu tímabili 9,2 m.kr. en er í ár 13,8 m.kr. Rekstrartapið er með öðrum orðum 4,6 m.kr. meira í ár en í fyrra og það skýrist helst af fækkun farþega.

e. Ný drög að frumvarpi til laga um persónuvend og kynning á framlagi úr Jöfununarsjóði til kaupa á sérfræðiráðgjöf vegn innleiðingar

Lagt fram til kynningar.

f. Sorporkustöð á Vestfjörðum

Lagt fram til kynningar.

g. Landbúnaðarmálefni

Formaður kynnti hugmyndir Sigmundar Einars Ófeigssonar, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Hann leggur til að landshlutasamtökin / atvinnuþróunarfélögin kortleggi hvert í sínum landshluta hver áhrif breyttra áherslan í landbúnaðarmálum hafi á atvinnulíf heima í héraði.

Stjórn SASS telur nauðsynlegt að afla upplýsinga um áætlaða ársveltu tengda landbúnaði á Suðurlandi og hver sé heildarfjöldi starfa að meðtöldum afleiddum störfum. Til að upplýsingarnar séu samanburðarhæfar á milli landshluta er lagt til að þetta verði unnið í nánu samstarfi við hin samtökin. Framkvæmdastjóra falið að ræða við Sigmund hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.

h. Nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2018

Lagt fram til kynningar.

i. Erindi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Framkvæmdastjóri kynnti erind frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Ráðuneytið er að kalla eftir sjónarmiðum hagaðila en ríkið ætlar að setja sér stefnu og markmið fyrir ferðaþjónustu til næstu fimm ára. Framkvæmdastjóra falið að svara erindinu með ráðgjöfum.

j. Fundur með mennta- og menningarmálaráðherra

Formaður og framkvæmdastjóri sögðu frá fundi sem þeir og Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri HfSu, áttu með Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn á Selfossi föstudaginn 1. júní nk. kl. 12:00 – 15:00.

Fundi slitið kl. 09:45.

Gunnar Þorgeirsson                      Sæmundur Helgason
Unnur Þormóðsdóttir                   Anna Björg Níelsdóttir
Eva Björk Harðardóttir                  Ágúst Sigurðsson
Sandra Dís Hafþórsdóttir             Bjarni Guðmundsson

532. fundur stjórnar SASS (.pdf)