fbpx

4. fundur verkefnastjórnar Sóknaráætlunar – 2018
Austurvegi 56, 13. nóvember, kl. 12:00

Boðuð á fund; Páll Marvin Jónsson, Runólfur Sigursveinsson, Unnur Þormóðsdóttir, Sveinn Sæland og Bryndís Björk Hólmarsdóttir.
Fundinn sátu Páll Marvin Jónsson, Runólfur Sigursveinsson, Unnur Þormóðsdóttir, Sveinn Sæland og Bryndís Björk Hólmarsdóttir.
Einnig sátu fundinn Bjarni Guðmundsson framvæmdarstjóri og Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.
Unnur Þormóðsdóttir setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1. Rekstraryfirlit Sóknaráætlunar Suðurlands
Lagt fram til kynningar á fundinum ásamt yfirliti yfir stöðu niðurfelldra styrkveitinga á árinu.

2. Síðari úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands á árinu 2018
Til umfjöllunar tillögur fagráða menningarverkefna og atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna. Alls bárust sjóðnum 120 umsóknir í síðari úthlutun ársins. Umsóknir vegna menningarverkefna voru 69 og 51 umsókn vegna atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna. Samþykkt var að veita styrk til 47 menningarverkefna að upphæð 20.600.000, kr. og 20 atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefnum að upphæð 17.440.000, kr. Samtals úthlutun að upphæð 38.040.000, kr. Sjá nánar lista yfir styrkveitingar í viðauka fundargerðar.

3. Tillögur að áhersluverkefnum 2019
Sviðsstjóri kynnti framgang vinnu við mótun tillagna að áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir árið 2019. Ráðgert er að á næstu tveimur fundum verkefnastjórnar komi þær til umfjöllunar.

4. Umsókn SASS um sértæk verkefni sóknaráætlana landshluta
Byggðastofnun auglýsti nýverið eftir umsóknum um styrki til sértækra verkefna sóknaráætlana landshluta, með umsóknarfrest til 30. september s.l. Verkefnastjórn Sóknaráætlunar Suðurlands samþykkti á síðasta fundi að mótuð yrði tillaga að verkefni um eflingu byggðar á miðsvæðinu, á svæðinu frá Markarfljóti að Öræfum, til að stuðla að sjálbærri lýðfræðilegri þróun svæðisins til lengri tíma.

Unnin var umsókn um aðgerðaráætlun um eflingu lýðfræðilegrar þróunar svæðisins. Greining var lögð til grundvallar sem gefur tilefni til að vinna nánar að greiningu á íbúaþróun svæðisins, íbúaveltu meðal erlendra ríkisborgara og hvernig stuðla megi að fjölgun fjölskyldufólks á svæðinu til lengri tíma.

Niðurstaða liggur fyrir og hefur SASS verið veittur styrkur að upphæð 13,5 mkr. til verkefnisins. Möguleiki er á framhaldi. Eins og segir í svarinu; „Styrktur verður fyrsti áfangi rannsóknarinnar og staðan á verkefninu verði síðan skoðuð út frá niðurstöðum þeirrar rannsóknar, verði sótt um á næsta ári.“

Til kynningar umsókn SASS um sértæk verkefni sóknaráætlana landshluta og svarbréf um styrkveitinguna.

5. Aðgerðir byggðaáætlunar
Ný byggðaáætlun var samþykkt á sumarmánuðum. Í henni eru margar aðgerðir sem gera ráð fyrir þátttöku landshlutasamtaka og þar með SASS. Má segja að með nýrri byggðaáætlun séu áhrif nýrra laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta fyrst að koma fram, með samvinnu þessara áætlana.

Verkefni sem hafa komið inn á borð SASS til þessa eru aðgerð C.1. – Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða, aðgerð B.8 – Fjarvinnslustöðvar og aðgerð A.9 – Framlög vegna verslunar í strjálbýli.

Fyrsta verkefnið hefur skilað sér í styrkveitingu til SASS, eins og fram kemur hér að ofan í fundargerðinni.

Verkefni um fjarvinnslustöðvar eru styrkveitingar til opinberra stofnana á Suðurlandi með það að markmiði að til verði sérhæfð störf á landsbyggðinni við yfirfærslu gagna yfir á stafrænt form. Hafa ráðgjafar hvatt stofnanir á Suðurlandi til að sækja um og verið til aðstoðar við mótun umsókna. Umsóknarfrestur er liðinn en ekki liggur fyrir að svo stöddu með úthlutanir.

Enn er opið fyrir umsóknir vegna verkefnisins um verslanir í strjálbýli. Eins og segir í úthlutunarreglum; „… verslanirnar þurfa að vera í a.m.k. 150 km akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, 75 km akstursfjarlægð frá Akureyri og 40 km akstursfjarlægð frá byggðakjörnum með yfir 1.000 íbúa…“. Geta þá verslanir sótt um styrki sem eru á ákveðnum skilgreindum svæðum á Suðurlandi eða í austasta hluta Rangárþings Eystra, Mýrdalshrepp, Skaftárhrepp og vestari hluta Hornafjarðar. Unnið er að því að kynna verkefnið og aðstoða aðila við mótun umsókna. Umsóknarfestur er til 19. nóvember.

6. Skýrslur og útgefið efni í tengslum við áhersluverkefni
Sviðsstjóri gerir grein fyrir fundi sem hann átti ásamt Unni Þormóðsdóttur form. verkefnastjórnar, Evu Björk Harðardóttur form. stjórnar SASS og Bjarna Guðmundssyni framkv.stj. SASS með stýrihópi stjórnarráðsins um byggðamál, þann 31. október sl.

Á fundinum var starfsemi SASS kynnt fyrir stýrihópnum. Stýrihópur stjórnarráðsins um byggðamál fer fyrir verkefninu um sóknaráætlanair landshluta. Stýrihópnum er einnig ætlað að samhæfa aðgerðir ráðuneyta er snúa að byggðamálum og hefur jafnframt það hlutverk að staðfesta áhersluverkefni landshluta.

7. Sóknaráætlanir landshluta – greinargerð 2017
Lagt fram til kynningar.

8. Fundargerðir stýrihóps stjórnarráðsins um byggðamál
Til kynningar fundargerðir 46. og 47. fundar stýrihóps stjórnarráðsins um byggðamál.

Fundi slitið kl. 15:15

Fundur verkefnastjórnar nr. 4 2018 (.pdf)