fbpx

1. fundur verkefnastjórnar Sóknaráætlunar – 2019 
Fjölheimum við Tryggvagötu, 6. febrúar, kl. 14:00 

Boðuð á fund: Arna Ír Gunnarsdóttir formaður verkefnastjórnar, Arna Ósk Harðardóttir, Runólfur Sigursveinsson, Elís Jónsson og Sveinn A. Sæland.
Mætt á fund: Arna Ír Gunnarsdóttir formaður verkefnastjórnar, Arna Ósk Harðardóttir, Runólfur Sigursveinsson og Elís Jónsson. Sveinn A. Sæland boðaði forföll. Einnig sátu fundinn Bjarni Guðmundsson framkvæmarstjóri og Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.
Arna Ír Gunnarsdóttir setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1. Fjárhagsáætlun Sóknaráætlunar Suðurlands 2019

Fjárhagsáætlun Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir árið 2019 lögð fram til kynningar og hún samþykkt.

2. Fyrri úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands á árinu 2019

Sviðsstjóri kynnti áform við fyrri úthlutun ársins. Opnað verður fyrir umsóknir í fyrri úthlutun ársins að loknum fundi. Umsóknarfrestur verður til kl. 16:00 þann 5. mars n.k. Ráðgert er að úthluta um 50 mkr. að þessu sinni.

Kynningarmálum verður helst háttað á þann veg að auglýst verður með reglubundnum hætti fram að umsóknarfresti; í héraðsmiðlum, samfélagsmiðlum, með póstlistum og með aðstoð sveitarfélaganna, s.s. með tilkynningum inn á heimasíðum og meðal félagasamtaka.

Auglýst verður viðvera ráðgjafa á nokkrum stöðum, sérstaklega á þeim svæðum sem lengra er til ráðgjafa, s.s. í uppsveitum Árnessýslu. Eins vegna tímabundinna mannabreytinga á Klaustri og í Vík.

Einnig samþykkt að umsóknarfrestur vegna síðari úthlutunar ársins verði til kl. 16:00, 8. október. Ráðgert að opnað verði fyrir umsóknir í síðari úthlutun ársins um mánuði fyrr eða í byrjun september.

3. Skipan fagráða Uppbyggingarsjóðs Suðurlands

Skipan fagráða fyrir hvorn flokk Uppbyggingarsjóðs Suðurlands fyrir árið 2019.

Verkefnastjórn skipar eftirtalda aðila í fagráð Uppbyggingarsjóðs Suðurlands;

Fagráð menningarstyrkja:
Inga Lára Baldvinsdóttir, safnvörður myndasafns Þjóðminjasafns Íslands
Marteinn Steinar Þórsson, kvikmyndagerðarmaður
Aðalheiður M. Gunnarsdóttir, tónlistarkennari og söngkona

Fagráð atvinnuþróunar- og nýsköpunarstyrkja:
Helga Björk Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri leikskólans Sóla
Bergsteinn Einarsson, eigandi og framkvæmdarstjóri Set ehf.
Laufey Helgadóttir, ferðaþjónustubóndi að Smyrlabjörgum

4. Úthlutunarreglur Uppbyggingarsjóðs Suðurlands

Lögð fram tillaga sviðsstjóra um breytingu á úthlutunarreglum Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. Tillagan snýr að hækkun á tímagjaldi á vinnuframlagi styrkþega.

Málsgreinin í úthlutunarreglunum sem tekur breytingum er undir flokknum „Laun og launatengd gjöld“ og er eftirfarandi; „Aðeins verður tekinn til greina sá tími sem unnin er í verkefninu. Við mat á vinnuframlagi skal reikna hverja vinnustund á krónur 3.500. Tímaskýrslur skulu haldnar og eru forsenda útgreiðslu.“

Lögð er til hækkun á tímajaldi, úr 3.500, kr. í 4.500, kr. Verður málsgreinin þá eftirfarandi;

„Aðeins verður tekinn til greina sá tími sem unnin er í verkefninu. Við mat á vinnuframlagi skal reikna hverja vinnustund á krónur 4.500. Tímaskýrslur skulu haldnar og eru forsenda útgreiðslu.“

Tillagan samþykkt og tekur gildi frá og með deginum í dag.

5. Staða styrktra verkefna Uppbyggingarsjóðs Suðurlands

Sviðsstjóri kynnti stöðu eldri verkefna Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. Á árinu 2018 var úthlutað til 156 verkefna. Í fyrri úthlutun síðasta árs var 89 verkefnum veittur styrkur og er 48 verkefnum lokið. Þeim verkefnum sem er ólokið úr þeirri úthlutun styttist í lokaskil skv. samningum. Hefur þegar verið haft samband við alla styrkþega vegna þessa. Af 67 verkefnum úr síðari úthlutun síðasta árs er 7 verkefnum þegar lokið en samningar þeirra verkefna ná fram á síðari hluta þessa árs.

Á árinu 2017 voru í heildina 144 styrkveitingar í tveimur úthlutunum. Af styrkveitingum frá árinu 2017  er öllum verkefnum lokið úr fyrri úthlutun þess árs, hvort sem það hefur verið með niðurfellingu eða verkefnalokum. 12 verkefni frá síðari úthlutun ársins 2017 er ólokið og eru komin fram yfir skil skv. samningi. Í öllum þeim tilvikum hefur verið sótt um frest með rökstuðningi og frestur veittur til allt að 6 mánaða.

6. Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða landshluta 2019

Til kynningar. Opnað hefur verið fyrir umsóknir um sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða á árinu 2019. Umsóknarfrestur er til miðnættis 14. mars n.k. Nánari upplýsingar hér á vef Byggðastofnunar.

Um er að ræða sjóð sem einungis landshlutasamtök sveitarfélaga geta sótt um styrk. Úr þessum sjóði fékk SASS styrkveitingu upp á 13,5 mkr. á síðasta ári. Stefnt er að umsókn um framhald og aukið fjármagn til þess verkefnis.

Jafnframt er lagt til að sviðsstjóri auglýsi eftir tillögum að verkefnahugmyndum á Suðurlandi.

7. Samtal um stefnur ríkisins í landshlutum

Til kynningar. Upplýsingar og fundargögn af ráðstefnunni „Samtal um stefnur ríkisins í landshlutum“, sem haldin var í Hveragerði dagana 22. og 23. janúar s.l. Sjá hér á heimasíðu Byggðastofnunar.

8. Stefnumörkun Sóknaráætlunar Suðurlands til 2024

Sviðsstjóri og framkvæmdarstjóri fóru yfir hugmyndir að nýjum málefnasviðum sóknaráætlana landshluta, sem ræddar hafa verið á vettvangi landshlutasamtaka og á ráðsstefnunni í Hveragerði sem getið er til hér að framan í fundargerðinni. Hjálagt er minnisblað af fundi framkvæmdarstjóra landshlutasamtaka um málefnasviðin til kynningar. Áréttað er mikilvægi þess að niðurstaða um ný málefnasvið muni liggja fyrir hið fyrsta, áður en vinna við mótun nýrra sóknaráætlana landshluta verður komin lengra.

Lagt er til að halda fund samráðsvettvangs Sóknaráætlunar Suðurlands 4. apríl n.k. Verður það eitt fyrsta skrefið í að móta nýja Sóknaráætlun Suðurlands til ársins 2024. Sviðsstjóra er falið að kalla eftir tilnefningum að þátttakendum á fundinn, frá sveitarfélögunum á Suðurlandi. Lagt er upp með að samráðsvettvangurinn verði skipaður breiðum hópi íbúa, með jafnri kynjasamsetningu, breiðu aldursbili og þátttakendum úr öllum sveitarfélögum. Að auki með þátttöku fulltrúa úr Ungmennaráði Suðurlands, stjórn SASS og verkefnastjórn Sóknaráætlunar Suðurlands.

9. Aðgerð C.9. í Byggðaáætlun; Náttúruvernd og efling byggða

Um er að ræða verkefni Byggðaáætlunar hjá umhverfis- og auðlundaráðuneytinu.  Til ráðstöfunar til verkefnisins eru alls 57 milljónir á tímabilinu 2019-2022. Reiknað er  með að hvert verkefni hafi til ráðstöfunar allt að 7 milljónum kr. Gert er ráð fyrir að verkefnin séu unnin á tveimur tímabilum, 2019-2020 eða 2021-2022. Gerður verður samningur milli viðkomandi landshlutasamtaka og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna verkefnisins. Óskað er eftir tillögum að verkefnum og skulu þær berast eigi síðar en 18. febrúar n.k.

Sviðsstjóra falið að auglýsa eftir tillögum að verkefnum á Suðurlandi og senda ráðuneytinu í kjölfarið.

10. Staða áhersluverkefna

Sviðsstjóri kynnti stöðu og framgang áhersluverkefna Sóknaráætlunar Suðurlands.

Ráðgert er að fundurinn standi til kl. 15:45.