fbpx

546. fundur stjórnar SASS 
haldinn á Hótel Selfossi 
16. maí 2019, kl. 18:00 – 22:00 

Mætt: Eva Björk Harðardóttir, formaður, Ari Björn Thorarensen, Helgi Kjartansson, Grétar Erlendsson, Arna Ír Gunnarsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Ásgerður Kristín Gylfadóttir og Lilja Einarsdóttir sem varamaður Bjarkar. Njáll Ragnarsson, varamaður Jónu Sigríðar, tengdist fundinum með fjarfundabúnað. Björk Grétarsdóttir og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir boðuðu forföll. Þá sat fundinn Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritaði fundargerð.

Formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

.1. Fundargerðir

Fundargerð 545. fundar undirrituð

2. Ársreikningur SASS 2018

Framkvæmdastjóri kynnti drög að ársreikningi SASS fyrir árið 2018. Rekstrarafkoma samtakanna er neikvæð um 11 m.kr. sem skýrist af tapi á rekstri almenningssamgangna sem var ríflega 36 m.kr. Þar sem samtökin fengu árið 2018 viðbótarframlag frá Vegagerðinni að fjárhæð 13 m.kr. en það kom til vegna taps af rekstri almenningssamgangna fram til loka árs 2017. Ef ekki hefði komið til þess væri samtals tap SASS á árinu 2018 um 24 m.kr. Viðbótarframlagið tengist ekki rekstrinum árið 2018 og því er, eins og fyrr greinir, tapið af rekstri almenningssamgangna á árinu 2018 ríflega 36 m.kr. og það tap er óuppgert af hálfu Vegagerðarinnar f.h. ríkisins. Af öðrum gjaldaliðum má nefna að lífeyrisskuldbindingar samtakanna lækkuðu milli ára um 1,6 m.kr. Samkvæmt efnahagsreikningi er bókfært eigið fé neikvætt um 38,5 m.kr. í lok ársins. Ársreikningur lagður fram en hann verður staðfestur með undirskrift stjórnar og framkvæmdastjóra þegar hann liggur endanlega fyrir.

3. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir stjórna annarra landshlutasamtaka og sambandsins

Lagðar fram til kynningar, fundargerð 319. fundar stjórnar Eyþings, 470. funda stjórnar SSH, 43. fundar stjórnar SSNV, 144. fundur stjórnar SSV, 11. fundur stjórnar SSA, 870. fundar sambandsins og 52. fundar stýrihóps um byggðamál.

b. Erindi frá Markaðsstofu Suðurlands

– Fulltrúi SASS í stjórn Markaðsstofunnar
Formaður kynnti svohljóðandi erindi frá stjórnarformanni Markaðsstofu Suðurlands (MSS):
„Undanfarna mánuði hafa mikilvægi tengsla Markaðsstofu Suðurlands við SASS oft komið til umræðu á stjórnarfundum MSS. Á fundi MSS þann 11. mars var ákveðið að óska eftir því við SASS að formlega yrði skerpt a tengslum stjórna SASS og MSS.
SASS, sem stofnaðili MSS, hefur á að skipa 2 fulltrúum í stjórn MSS hverju sinni, sem tilnefndir eru á ársfundi SASS. Stjórn MSS telur mjög mikilvægt að skýr tenging sé milli stjórna SASS og MSS til að tryggja skilvirkt samtal og upplýsingaflæði þar á milli. Stjórn MSS óskar eftir því við stjórn SASS að gætt verði að þessum þáttum við skipan fulltrúa SASS í stjórn Markaðsstofunnar.“
Niðurstaða umræðu að formaður SASS sitji sem áheyrnarfulltrúi í stjórn MSS fram að komandi ársþingi samtakanna. Stjórn leggur áherslu á að framvegis verði tryggt að formaður SASS verði einn af skipuðum fulltrúum samtakanna í stjórn MSS.
– Áfangastaðastofa á Suðurlandi
Formaður og Grétar kynntu málið en markaðsstofur landshlutanna (MAS) áttu nýlega fund með ferðamálastjóra og framkvæmdastjóra stjórnstöðvar ferðamála. Tilgangur fundarins var að fara yfir þá vinnu sem framundan er en ætlunin er að stofna áfangastaðastofur (DMO) í landshlutunum. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvernig skipulaginu verður háttað en hugmyndin er að tengja þær sem mest við atvinnuráðgjöf, vöruþróun og nýsköpun. Á Suðurlandi sinnti Markaðsstofa Suðurlands gerð áfangastaðaáætlunar fyrir landshlutann. Samstarf SASS og Markaðsstofunnar er mikið um framangreinda málaflokka og vilji stjórnar er að sú samvinna haldi áfram.

c. 50 ára afmæli SASS

Formaður fór yfir umræður frá síðasta fundi en stofnfundur SASS var haldinn 12. apríl 1969. Fyrir liggur ákvörðun ársþings SASS um að að minnast afmælisársins með því að fara í áhersluverkefni um forvarnir gegn vímuefnum og verið er að undirbúa það áhersluverkefni í samstarfi Ungmennaráðs Suðurlands, lögreglu og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Auk framangreinds ákvað stjórn að minnast afmælsins á komandi ársþingi. Formanni og framkvæmdastjóra falið að hefja undirbúning ársþingsins í samræmi við umræðu á fundinum.

d. Almenningssamgöngur

Framkvæmdastjóri kynnti frumhugmyndir sem upp hafa komið um að stofnað verði félag til að sinna rekstri almenningssamgangna og þá á landsvísu. Fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins telja að með einu félagi megi tryggja betur framgang almenningssamgangna um land allt.

e. Fræðsluferð sveitarstjórnarmanna

Formaður kynnti hugmyndir um að á haustmánuðum yrði efnt til fræðsluferðar sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi. Rætt var um möguleika á því að fara í ferð til Norðurlandanna, Skotlands eða Englands.Formanni og framkvæmdastjóra falið að undirbúa málið en stefnt er heimsókn til sveitarstjórna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð eða Finnlandi.

f. Sóknaráætlun

Í tengslum við stefnumörkun í Sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024 hafa íbúafundir verið haldnir á Suðurlandi en þeir tengjast menningar- og atvinnumálum. Rétt tæplega 200 íbúar hafa sótt fundina. Verkefnastjórn mun á fundi sínum 20. maí nk. fjalla um helstu niðurstöður þeirra. Samráðsvettvangur Sóknaráætlunar Suðurlands verður haldinn á Hótel Selfossi 23. maí nk.

g. Fundur með fjárlaganefnd Alþingis

Formaður sagði frá fundi sem hún og framkvæmdastjóri áttu með fjárlaganefnd 15. maí sl. en þar var fjalla um fjármálaáætlun ríksins 2020 – 2024 og áhrif hennar á samfélagið á Suðurlandi. Á fundinum var farið yfir mikilvæga málaflokka s.s. heilbrigðis- og velferðarþjónustu, löggæslu og samgöngur en fjölgun íbúa og ferðamanna hefur mikil áhrif á þá. Ítrekuð voru mótmæli við áformum, sem fram koma í fjármálaáætluninni, um að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um rösklega 3,3 ma.kr. á árunum 2020 og 2021. Jafnframt var fjallað um umhverfismál (úrgangsmál og fráveitur) og loks um mikilvægi almenningssamgangna í byggðaþróun.
Stjórn SASS áréttar nauðsyn þess að ríkið og opinberar stofnanir standi vörð um störf á landsbyggðunum.
Nauðsynlegt er að auka fjárframlög til sýslumannsembættanna þannig að þau geti sinnt hlutverki sínu. Bág fjárhagsstaða embættanna undanfarin ár hefur haft í för með sér fækkun starfa á landsbyggðunum.
Varðandi ný störf áréttar stjórn SASS að í nýsamþykktri þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun til ársins 2024, um störf án staðsetningar, kemur fram að stefnt sé að því að árið 2024 verði 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra án staðsetningar. Eigi þetta markmið að ná fram að ganga þarf viðhorfsbreytingu en fjöldi vel menntaðra einstaklinga um land allt er þegar tilbúinn að takast á við krefjandi störf sem hægt er í rauninni að vinna hvar sem er á landinu. Ljóst er að fjórða iðnbyltingin mun stórauka framboð á störfum án staðsetningar.

h. Samgöngunefnd

Ari Björn, nefndarmaður í samgöngnefnd SASS, kynnti starf nefndarinnar en á síðasta fund hennar komu fulltrúar Vegagerðarinnar og var sá fundur mjög upplýsandi.

i. Jöfnun raforkuverðs

Ályktun stjórnar SASS tengt jöfnun raforkuverðs milli þéttbýlis og dreifbýlis.
Stjórn SASS beinir því til ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar að raforkuverð í dreifbýli og þéttbýli verði jafnað. Frá því að skipulagsbreytingar voru gerðar á raforkukerfinu árið 2005 hafa fyrirtæki sem annast dreifingu á raforku í þéttbýli og dreifbýli haft tvær mismunandi gjaldskrár, aðra fyrir dreifingu raforku í þéttbýli og hina fyrir dreifingu raforku í dreifbýli. Þrátt fyrir niðurgreiðslu frá ríkinu, með svonefndu dreifbýlisframlagi, er raforkuverð í dreifbýli enn hærra en raforkuverð í þéttbýli. Frá árinu 2015 hefur dreifbýlisframlagið verið fjármagnað með svonefndu jöfnunargjaldi, sem er lagt á alla almenna raforkunotkun.
Til að ná fullri jöfnun raforkuverðs fyrir alla landsmenn er áætlað að þurfi viðbótarframlag sem nemur um 900 m.kr. á ári. Stjórn SASS telur að nýta megi hluta af arði af rekstri Landsvirkjunar sem framlag til niðurgreiðslu raforkuverðs. Bent er á að í gegnum tíðina hefur verið rætt um að þegar skuldir Landsvirkjunar hafi verið greiddar niður muni arður af henni nýtast í þágu landsmanna. Það liggur beinast við að sá arður verði nýttur á sviði raforkumála og beinlínis í þágu landsbyggðarinnar, þar sem allar virkjanir Landsvirkjunar standa. Tímabært er að íbúar hinna dreifðu byggða sitji við sama borð og íbúar í þéttbýli hvað varðar raforkuverð og í raun hálfhjákátlegt að þeir sem búa næst uppsprettu raforkunnar, nærri virkjununum eða undir raflínum sem flytja orkuna á suðvesturhornið, skuli greiða hærra verð fyrir orkuna en þeir sem fjær búa.

j. Rútuslys við Hof í Öræfum

Stjórn SASS vill færa öllum þeim, sem komu með einum eða öðrum hætti að þeim hörmulega atburði þegar rúta valt við Hof í Öræfunum 16. maí sl., þakkir fyrir ómetanlega vinnu á vettvangi sem og alla veitta aðstoð og aðhlynningu í kjölfar slyssins.
Enn og aftur kemur skýrt í ljós við aðstæður sem þessar hvers megnugir viðbragsaðilar og aðrir eru. Gríðarlegt álag hvíldi á öllum þeim sem að slysinu komu. Það er alveg ljóst að styrkja þarf innviði verulega og þá sérstaklega heilbrigðis- og löggæsluhlutann. Svo ekki sé talað um miklvægi þess að hraða vegaframkvæmdum í landshlutanum.

Næsti fundur stjórnar verður föstudaginn 28. júní nk.

Fundi slitið kl. 20:25.

Eva Björk Harðardóttir
Arna Ír Gunnarsdóttir
Lilja Einarsdóttir
Helgi Kjartansson
Grétar Erlendsson
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Ari Björn Thorarensen
Friðrik Sigurbjörnsson
Njáll Ragnarsson