fbpx

547. fundur stjórnar SASS 
haldinn í Vík í Mýrdal
28. júní 2019, kl. 13:00 – 16:00  

Mætt: Eva Björk Harðardóttir, formaður, Helgi Kjartansson, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Arna Ír Gunnarsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Lilja Einarsdóttir sem varamaður Bjarkar og Brynhildur Jónsdóttir sem varamaður Ara. Björk Grétarsdóttir, Grétar Erlendsson og Ari Björn Thorarensen boðuðu forföll. Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri Þróunarsviðs og Héðinn Unnsteinsson, ráðgjafi hjá Capacent, sátu fundinn undir dagskrárlið 2.c. Einnig sátu fundinn fulltrúar í sveitarstjórn Mýrdalshrepps, þ.e. Einar Freyr Elínarson, Drífa Bjarnadóttir, Ingi Már Björnsson, Páll Tómasson, Ástþór Jón Tryggvason en þau eru kjörnir fulltrúar og sveitarstjórinn Þorbjörg Gísladóttir. Þá sat fundinn Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritaði fundargerð.

Formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna á fundinn í Vík í Mýrdal. Einar Freyr Elínarson oddviti og Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri tók undir orð formannsins og fögnuðu því að stjórnarfundurinn væri haldinn í Vík. Þau voru með kynningu á helstu málefnum sveitarfélagsins sem er m.a. áskoranir sem tengjast því að tæplega 40% íbúa eru með erlent ríkisfang, heimavist við FSu og gerð varnargarða við Vík. Í framhaldi af kynningunum skiptust fundarmenn á skoðunum um málefni sveitarfélagsins og þess sem efst er á baugi hjá samtökunum. Í framhaldi af fundinum var farið í kynnisferð um þorpið..

.1. Fundargerðir

Fundargerð 546. fundar undirrituð.

2. Sóknaráætlun

a. Mat á framkvæmd Sóknaráætlunar 2015 – 2019

Lögð var fram til kynningar skýrsla ráðgjafafyrirtækisins Evris um mat á framkvæmd núverandi sóknaráætlana landshluta 2015 – 2019 en samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fól fyrirtækinu að gera úttekt á framkvæmd sóknaráætlana landshluta frá 2015. Niðurstaða skýrsluhöfunda er að vel hafi til tekist við framkvæmdina.

b. Drög að samningi um Sóknaráætlun 2020 – 2024

Varaformaður og framkvæmdastjóri kynnti drög að nýjum samningi um sóknaráætlun landshlutanna fyrir árin 2020 – 2024. Drögin voru nýlega yfirfarin á fundi stýrihóps stjórnarráðsins með fulltrúum landshlutasamtakanna. Í fyrirliggjandi drögum hefur tillit verið tekið til þeirra ábendinga sem fram komu á fundinum. Almenn ánægja er hjá samningsaðilum með framkomin drög sem eru skýrari og einfaldari en núverandi samningur.

Ekki hefur verið ákveðið hvernig skipta á fjármunum á milli landshlutanna en undirhópur stýrihópsins er að yfirfara það og vonast er til að niðurstaða fáist síðsumars.

c. Stefnumörkun Sóknaráætlunar 2020 – 2024

Þórður og Héðinn kynntu frumdrög að kjarnastefnuþáttum fyrir landshlutann sem byggja á niðurstöðu íbúafunda og fundar samráðsvettvangsins en þeir snúa að atvinna og nýsköpun, umhverfismálum og samfélagi. Gert er ráð fyrir að fyrrgreindir stefnuþættir séu hluti af stefnumörkun Sóknaráætlunar Suðurlands 2020 – 2024. Fjallað var um stefnumörkunina og tengingu við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og loks hugmyndir að árangursmælikvörðum. Á næstu dögum mun Byggðastofnun senda frá sér stöðugreiningu í landshlutunum líkt og gert var 2014. Umræður um framkomin drög. Gert er ráð fyrir að fjallað verði um uppfærð drög á næsta fundi stjórnar í ágúst nk.

3. Almenningssamgöngur

a. Vetraráætlun Strætó

Framkvæmdastjóri kynnti drög að vetraráætlun Strætó 2019 – 2020. Áætlunin er að mestu eins og hún var síðastliðinn vetur en helsta breytingin felst í að hún hefur verið sniðin að breyttri siglingaáætlun Herjólfs.
Framkvæmdastjóri kynnti einnig áætlaðan akstur Strætó fyrir komandi þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Stjórn samþykkti drög að vetraráætlun og að akstur Strætó fyrir komandi þjóðhátíð yrði með svipuðum hætti og í fyrra.

b. Hugmyndir um stofnun félags um rekstur almenningssamgangna

Formaður kynnti minnisblað frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um að Vegagerðin og landshlutasamtökin stofni með sér félag um rekstur almenningssamgangna á landsvísu. Álit ráðuneytisins er að með stofnun félags megi tryggja betur framgang almenningssamgangna.
Stjórn SASS telur afar litlar líkur á því að fyrirliggjandi tillaga hljóti brautargengi hjá sveitarfélögunum. Samgöngur á milli sveitarfélaga eru á ábyrgð ríkisins og þær hafa verið fjármagnaðar af ríkinu, en tillagan gerir ráð fyrir að landhlutasamtökin beri ábyrgð á rekstrinum að hluta. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu eru samtökin tilbúin til þess að eiga áfram í góðu samstarfi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sem og Vegagerðina varðandi skipulag og útfærslu þessa verkefnis.

4. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir stjórna annarra landshlutasamtaka og sambandsins

Lagðar fram til kynningar, fundargerð 777. fundar stjórnar SSS, 471. fundar stjórnar SSH, 45. fundar stjórnar SSNV, 146. fundar stjórnar SSV, 15. fundar Vestfjarðarstofu og 871. og 872. funda sambandsins.

b. Erindi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu – samstarf safna og ábyrgðarsöfn

Formaður kynnti erindi mennta- og menningarmálaráðuneytisins um samstarf safna og ábyrgðarsöfn sem er eitt af verkefnum Byggðaáætlunar (C.14.).
Samtökin hafa í starfi sínu lagt áherslu á samstarf safna en útgáfa menningarkorts Suðurlands, sem er eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar, er dæmi um hvernig samstarf safna í landshlutanum hefur verið aukið.
Framkvæmdastjóra falið að svara erindinu og lýsa yfir áhuga á samstarfi en áréttað er að samtökin eiga ekki söfnin og því þurfi að vinna þetta í nánu samstarfi við stjórnir og forstöðumenn þeirra.

c. Fræðsluferð sveitarstjórnarmanna

Formaður kynnti þrjár ólíkar hugmyndir um mögulegar fræðsluferðir sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi til Norðurlandanna, tvær eru til Danmerkur og ein til Noregs.
Eftir umræður var niðurtstaða stjórnar að stefnt skuli að fjögurra daga ferð til Danmerkur 23. – 26. september nk.
Formanni og framkvæmdastjóra falið að útfæra ferðina nánar.

d. 50 ára afmæli SASS

Formaður kynnti hugmyndir Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar og Fannars Freyrs Magnússonar um að gera 6 – 8 mín. forvarnarmyndband fyrir samtökin.
Stjórn þakkaði fyrir framkomna hugmynd en vill að sinni bíða með gerð þess.

e. Drög að samningum við Kirkjubæjarstofu og Náttúrustofu Suðausturlands

Samtökin hafa gert samning við annars vegar Byggðastofnun og hins vegar umhverfisráðuneytið. Samningurinn við Byggðastofnun er vegna úthlutunar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í sértækt verkefni Byggðaáætlunar til uppbyggingar Þekkingarsetursins í Skaftárhreppi. Samningurinn við umhverfisráðuneytið tengist hins vegar verkefni um greiningu tækifæra og áhrif friðlýstra svæða á nærsvæði þeirra.
Framkvæmdastjóra falið að ganga frá samningi við Kirkjubæjarstofu og Náttúrstofu Suðausturlands.

f. Málefni garðyrkjunnar

Á fundi sem nýlega var haldinn á Hvanneyri kynntu fyrirsvarsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) stefnu um starfsemi skólans en þar eru lagðar til breytingar á inntaki og eðli garðyrkjunáms.
Garðyrkjudeild LbhÍ er eins og kunnugt er staðsett að Reykjum í Ölfusi. Starfsemi LbhÍ er samfélaginu á Suðurlandi mjög mikilvæg enda er garðyrkja einn af drifkröftum í atvinnulífinu í landshlutanum. Allar breytingar á eðli náms við garðyrkjudeild LbhÍ skipta því miklu máli.
Á Reykjum hafa nemendur sótt gott og fjölbreytt starfsnám sem bæði hefur nýst til áframhaldandi náms en einnig sem góður grunnur fyrir störf á vettvangi garðyrkjunnar.

Stjórn SASS hvetur fulltrúa í háskólaráði LbhÍ til að standa vörð um það mikilvæga nám sem fram fer á Reykjum í Ölfusi og í samvinnu við hagaðila, þar með talin sveitarfélögin á svæðinu, leita allra leiða til að efla það enn frekar með það að leiðarljósi að garðyrkja í sinni fjölbreyttustu mynd fái sem best dafnað í landinu öllu.
Í ljósi framgreinds er hér með óskað eftir því að engar ákvarðanir um nýja stefnu verði teknar nema með víðtæku samráði við alla hagaðila og að undangengnu ítarlegu mati á þeim áhrifum sem slíkar breytingar gætu mögulega haft á námið og aðgengi nemenda að því.
Stjórn SASS lýsir yfir fullum vilja til að koma að samráði um mörkun stefnu fyrir garðyrkjudeild LbhÍ og telur að með víðtæku samráði sé hagsmunum garðyrkjunnar best borgið.

Næsti fundur stjórnar verður föstudaginn 16. ágúst nk.

Fundi slitið kl. 16:15.

Eva Björk Harðardóttir
Arna Ír Gunnarsdóttir
Lilja Einarsdóttir
Helgi Kjartansson
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Brynhildur Jónsdóttir