Í gær 13. ágúst var undirritaður samningur á milli SASS og Hópbíla hf. um viðbótarakstur almenningsvagna á Suðurlandi. Um er að ræða viðbót við núverandi kerfi sem grundvallast á samningi við Fjölbrautaskóla Suðurlands um akstur með nemendur skólans, samningi við Sveitarfélagið Árborg um akstur á milli þéttbýlisstaða sveitarfélagsins og samningum við Sveitarfélagið Ölfus og sveitarfélögin í Rangárvallasýslu.
Viðbæturnar felast í því að eftirtaldar leiðir verða eknar tvisvar á dag fram og til baka allan ársins hring: Selfoss – Þorlákshöfn, Selfoss – Flúðir, Selfoss – Reykholt og Selfoss – Hella – Hvolsvöllur. Ferðirnar verða opnar öllum bæði nemendum sem öðrum. Ferðir á milli þéttbýlisstaðanna í Árborg verða með svipuðu sniðu og verið hefur. Núverandi leiðir verða óbreyttar nema að ferðirnar í uppsveitir Árnessýslu verða fastar ferðir og pöntunarþjónustan því lögð af.
Ávinningurinn af þessari aukningu er að héðan í frá getur fólk sótt vinnu með almenningsvögnum á þessu svæði því umræddar leiðir verða eknar á morgnana og síðdegis auk þess sem möguleikar fólks í uppsveitum og Rangárvallasýslu aukast á því að komast til og frá höfuðborgarsvæðinu með tengingu við vagnana sem aka á milli Selfoss og Reykjavíkur. Þá mun þjónusta við nemendur skólans verða aukin frá því sem verið hefur því ferðapassi þeirra mun gilda hvar sem er í almenningssamgöngukerfinu, m.a. á höfuðborgarsvæðinu, og geta þeir því nýtt hann um helgar og í skólafríum.
Aksturinn hefst 20. ágúst nk. Upplýsingar um ferðir og tímasetningar þeirra er að finna á strætó.is.