fbpx

Undirbúningur að Safnahelgi á Suðurlandi er hafinn, en að henni standa Samtök safna á Suðurlandi. Í ár verður safnahelgin haldin í fimmta sinn, helgina 2.-4. nóvember. Líkt og áður er það Dorothee Lubecki, menningarfulltrúi Suðurlands sem starfar að undirbúningnum ásamt nefnd sem í sitja tengiliðir af öllum svæðum á Suðurlandi, en um er að ræða starfssvæði menningarráðsins sem nær frá Ölfusi í vestri og allt til Hornafjarðar í austri. Um stærsta sameiginlega menningarviðburð svæðisins er að ræða og tóku á síðasta ári yfir sjötíu aðilar þátt með því að bjóða upp á margvíslega viðburði.

Vel hefur gefist að bjóða veitingaaðilum og lista- og handverksfólki að taka þátt í hátíðinni og verður svo einnig þetta árið. Tónlistarfólk og í raun allir skapandi einstaklingar eru hvattir til að vera með og er vonast til að um safnahelgi verði boðið upp á fjölbreytta viðburði um allt Suðurland.

Þeir sem hafa áhuga á þátttöku eru hvattir til að hefja undirbúning og ákveða upp á hvað þeir ætla að bjóða. Upplýsingar sendist síðan til Dorothee um netfangið dorothee@sudurland.is. Skráningarfrestur til 4. október.

Allar nánari upplýsingar um safnahelgina verða að finna á vefsíðu menningarráðsins á veffanginu www.sunnanmenning.is