fbpx

565. fundur stjórnar SASS 
Haldinn í fjarfundi 
3. desember 2020, kl. 13:00 – 15:00

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Helgi Kjartansson, Arna Ír Gunnarsdóttir, Lilja Einarsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Ari Björn Thorarensen, Grétar Ingi Erlendsson og Einar Freyr Elínarson. Fundarmenn tengjast fundinum í gegnum fjarfundarhugbúnað. Einnig taka þátt í gegnum fjarfundarhugbúnað Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri Þróunarsviðs SASS og Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð.

Formaður setur fundinn og býður fundarmenn velkomna.

1. Fundargerðir

Fundargerð 564. fundar staðfest en hún verður undirrituð á næsta fundi.

2. Starfsáætlun

Formaður kynnir starfsáætlun stjórnar samtakanna fyrir árið 2021. Stjórnarfundir verða að jafnaði haldnir fyrsta föstudag í hverjum mánuði. Ráðgert að fulltrúar sveitarstjórna á Suðurlandi fari í kynnisferð til Danmerkur 8. – 11. mars n.k. en staðan verður endurmetin þegar nær dregur. Ársþing samtakanna verður haldið í Rangárþingi ytra 28. – 29. október n.k.

3. Sóknaráætlun Suðurlands

Formaður kynnir fjárhagsgrunn Sóknaráætlunar Suðurlands 2021. Með breyttri skiptareglu Sóknaráætlana, sem tók gildi 2020, lækkaði árlegt framlag SASS um tæplega 16 m.kr. frá 2019. Eðli málsins samkvæmt hefur lækkað framlag áhrif á hversu mikið Sóknaráætlun Suðurlands getur stutt við samfélagið í landshlutanum. Gerð var athugasemd við breytta skiptireglu þegar hún tók gildi en ekki var tekið tillit til ábendinga samtakanna. Í sumar þegar ríkið ákvað að veita auknu fjármagni til Sóknaráætlana var hins vegar ljóst að áhrif COVID-19 voru mikil á Suðurlandi enda varð tekjufallið hjá ferðaþjónustunni algjört í upphafi faraldursins. Af þeirri ástæðu m.a. fengu samtökin aukið fjárframlag frá ríkinu s.l. sumar. Í krónum talið er framlag ríkisins til Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir árið 2021 að nálgast framlagið sem veitt var árið 2015.

Farið yfir ólíkar sviðsmyndir varðandi rekstur Sóknaráætlunar árið 2021, m.a. hvort úthluta ætti eins og verið hefur tvisvar á árinu og hvernig skipting fjármuna ætti að vera á milli menningar og atvinnu- og nýsköpunar og loks á milli áhersluverkefna og Uppbyggingarsjóðs Suðurlands.

Þórður Freyr fer yfir samantekt vinnu starfshópa á nýliðnu ársþingi samtakanna en þar komu fram ýmsar hugmyndir að atriðum sem tengjast starfsáætlun og mögulegum nýjum áhersluverkefnum. Hagaðilar í landshlutanum hafa einnig sent inn hugmyndir að áhersluverkefnum s.s. Sigurhæðir, Íslenski bærinn, áhrif COVID-19 á samfélög og þekkingarsetrið í Ölfusi.

Niðurstaða stjórnar er að vinna nánar að útfærslu mögulegra verkefna og yfirfara á fundi stjórnar sem haldinn verður í janúar n.k.

Árangurskannanir meðal styrkþega í Uppbyggingarsjóði Suðurlands á sviði menningar og atvinnu- og nýsköpunar lagðar fram til kynningar. Almennt eru styrkþegar ánægðir og telja að það hafi skipt sköpum að fá styrk til verkefna og í mörgum tilfellum hefðu verkefnin ekki orðið að veruleika ef ekki hefði fengist styrkur úr sjóðnum.

Lokaskýrsla tengd verkefninu Sóknarfæri ferðaþjónustunnar lögð fram til kynningar. Í árangurskönnun meðal styrkþega kemur fram að mikil ánægja var með framtakið og stuðninginn frá SASS og Sóknaráætlun Suðurlands.

Stjórn SASS áréttar mikilvægi Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir sunnlenskt samfélag. Áhrif COVID-19 á ferðaþjónustuna í landshlutanum var algjört í upphafi faraldursins í mars s.l. og höggið var því mikið í landshlutanum. Tekið var tillit til þessara sérstöku aðstæðna í sumar við úthlutun ríkisins á framlagi sínu til sóknaráætlana. Stjórn SASS telur forsendur skiptareglu frá 2019 brostnar í ljósi COVID-19, því sé nauðsynlegt að endurskoða hana eða bæta við verulegu fjármagni til landshlutans líkt og gert var í sumar.

4. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka.

Lagðar fram til kynningar, fundargerðir 510. – 514. funda stjórnar SSH, fundargerð 17. og 18. funda stjórnar SSNE, fundargerð 157. fundar stjórnar SSV, fundargerð 763. fundar stjórnar SSS, fundargerð 65. fundar stýrihóps Stjórnarráðsins, fundargerð 11. fundar Byggðamálaráðs og fundargerð 891. fundar stjórnar sambandsins.

b. Áfangastaðastofur

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur sent landshlutasamtökunum uppfærð drög að nýjum samningi tengt stofnun á áfangastaðastofum í landshlutunum. Vilji er til að gera samstarfssamning við landshlutasamtökin um uppbyggingu og rekstur þeirra.

Svör hafa fengist við fyrri samningsdrögunum en ætlunin er að gera samstarfssamning frekar en viljayfirlýsingu en samningsaðilar gera sér grein fyrir að sveitarfélögin þurfa að staðfesta ráðahaginn. Ekki er gert ráð fyrir þríhliða samningi með atvinnugreininni. Þetta yrðu í raun þrír samningar 1) á milli ANR og SASS 2) á milli SASS, Markaðsstofu Suðurlands og þar með tengist ferðaþjónustan verkefninu 3) og svo yrði gerður þjónustusamningur á milli Ferðamálastofu og Markaðsstofu Suðurlands. Samningsaðilar hafa fjallað um mögulega skiptingu á framlagi ríkisins til verkefnisins en gert er ráð fyrir að það skiptist í grunnframlag og framlag til ákveðinna verkefna sem áfangastaðastofur skuli sinna frá ári til árs. Aðilar eru sammála um skilgreiningu á hlutverkum og hver séu verkefni áfangastaðastofu. Gengið er út frá þriggja ára samningi.

Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna málið áfram en stjórn lýst vel á hugmyndir um stofnun áfangastaðastofu á Suðurlandi en áréttar fyrrgreindan fyrirvara um staðfestingu aðildarsveitarfélaga samtakanna.

c. Laun í stjórnum, ráðum og nefndum

Formaður kynnir málið en fyrir liggur minnisblað sem framkvæmdastjóri tók saman um þóknanir til fulltrúa í stjórnum, ráðum og nefndum hjá stofnunum sem SASS, eða ársþing samtakanna, tilnefnir fulltrúa í. Með undantekningu fá aðilar greidda þóknun fyrir setu á fundum.

Stjórn telur að best færi á að umræddar stofnanir greiði þóknanir til stjórnarmanna sinna. Beðið er viðbragða frá þeim og ef tilefni er til verður málið tekið upp aftur.

d. Orkídea samstarfsverkefni

Fundargerð stjórnarfundar lögð fram til kynningar.

Rætt var um skipan samtakanna í stjórn Orkídeu og var niðurstaðan að framkvæmdastjóri yrði áfram aðalmaður og Arna Ír Gunnarsdóttir yrði varamaður. Einnig var fjallað um skipan aðal- og varamanns í verkefnisstjórn.

Stjórn lýsir yfir ánægju með Orkídeu viðskiptahraðalinn sem verið er að kynna og opnað hefur verið fyrir umsóknir í. Opið er fyrir umsóknir til 17. janúar 2021. Nánari upplýsingar um hraðalinn má sjá á heimasíðunni www.orkidea.is.

e. Vinna starfshópa á milli ársþinga

Umræður um skipulag vinnu starfshópa fram að næsta ársþingi. Verður afgreitt síðar.

f. Verslun í dreifbýli

Ályktun stjórnar SASS tengt lokun dagvöruverslunar á Klaustri. Lokunin er lýsandi dæmi um áhrif ferðamanna á þjónustuframboð og verslun.

„Lokun verslunarinnar Kjarvals á Kirkjubæjarklaustri veldur stjórn SASS verulegum áhyggjum. Lokunin hefur umtalsverð neikvæð áhrif á byggðaþróun í Skaftárhreppi og rýrir samkeppnishæfni sveitarfélagsins sem ákjósanlegs búsetukosts til framtíðar.

Í ljósi þess að þúsundir manna fara um Skaftárhrepp á hverjum degi í eðlilegu árferði hlýtur staðsetning fyrir verslun á Kirkjubæjarklaustri að teljast fýsilegur kostur.

Stjórn SASS áréttar nauðsyn þess að dagvöruverslun sé áfram rekin í sveitarfélaginu og hvetur rekstraraðila til að endurskoða ákvörðun um lokun.“

g. Tillaga að viðauka við landsskipulagsstefnu 2015 – 2026

Lagt fram til kynningar en nánari uppl. eru á síðunni www.landsskipulag.is. Skriflegum athugasemdum er hægt að koma á framfæri við Skipulagsstofnun til og með 8. janúar 2021.

h. Ársreikningur SASS 2020

Hafinn er undirbúningur að gerð ársreiknings SASS fyrir árið 2020.

i. Stafrænt ráð Sambands íslenskra sveitarfélaga

Friðrik sagði frá fundi sem haldinn var fyrr í vikunni þar sem áform sambandsins um stofnun á miðlægu tækniteymi til hagsbóta fyrir sveitarfélögin voru kynnt fyrir aðildarsveitarfélögum SASS og fulltrúum stafræna ráðs sunnlenskra sveitarfélaga. Tryggja þarf fjármögnun til þessara sameiginlegu stafrænu verkefna frá sveitarfélögunum. Verkefnið er tímabundið, til tveggja ára fyrst um sinn, með mögulegri framlengingu. Stjórn SASS hvetur sunnlensk sveitarfélög til að taka þátt í verkefninu.

j. Söfnun upplýsinga um dreifingu starfa

Stjórn SASS hvetur Alþingi til að samþykkja þingsályktun sem lögð hefur verið fram og fjallar um mikilvægi þess að safna upplýsingum um dreifingu starfa. Tillagan hefur verið til umræðu hjá efnahags – og viðskiptanefnd Alþingis.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 15. janúar kl. 13:00.

Fundi slitið kl. 15:35.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Helgi Kjartansson
Arna Ír Gunnarsdóttir
Lilja Einarsdóttir
Einar Freyr Elínarson
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Grétar Ingi Erlendsson
Friðrik Sigurbjörnsson
Ari Björn Thorarensen

565. fundur stj. SASS