Aðsóknin í Hæfnhringi – stuðningur fyrir konur í fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni, hefur farið fram úr björtustu vonum. Nú þegar 2 umferð Hæfnihringa á netinu, er að fara í gang, hafa rúmlega 40 konur skráð sig. Við munum hefja leik innan skamms í 6 hópum. Verkefnið var sett upp sem samstarfsverkefni milli atvinnuþróunarfélaga og landshlutasamtaka síðastliðið haust;
- Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra,
- Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi,
- Vestfjarðastofa,
- Samtök sveitarfélaga á Norðurlani eystra
- Austurbrú
- Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi
- Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum / Atvinnuþróunarfélagið Heklan
Hæfnihringirnir fara fram í gegnum fjarfundarbúnað sem auðveldar konum af öllu landinu tað taka þátt. Fundirnir verða 6 talsins í þessari umferð þar sem tæpt verður á þeim helstu áskorunum sem konurnar eru að glíma við, svo sem markaðssetning á samfélagsmiðlum og tímastjórnun. Í Hæfnihringjunum fá konurnar tækifæri til að tengjast öðrum konum í svipuðum sporum víðs vegar um landið, mynda tengslanet, deila sín á milli og fá ráð hjá öðrum. Auk þess verða leiðbeinendur hringjanna með viðeigandi fræðslu sem miðuð er út frá þeim áskorunum sem hver hópur á sameiginlegt að standa frammi fyrir. Hæfnihringirnir eru fjármagnaðir af samstarfsaðilunum og stendur því konunum til boða endurgjaldslaust.
Lokaundirbúningur annarar umferðar af Hæfnihringjum er farinn af stað. Gaman að segja frá því að rúmlega 40 konur eru skráðar og verða því hóparnir 6 talsins. Fyrstu fundirnir verða í vikunni 1. – 5. febrúar.
Fyrir frekari upplýsingar um verkefnið má hafa samband við Þuríði Helgu Benediktsdóttur atvinnuráðgjafa á Kirkjubæjarstofu – Þekkingarsetur – framtid@klaustur.is