fbpx

Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS og Þórdís Kolbrún Reykfjörð ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við undirritun samningsins

Bjarni Guðmundsson, framkvæmdarstjóri SASS og Þórdís Kolbrún Reykfjörð, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, undirrituðu samninginn þann 12. febrúar 2021. 

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafa undirritað samstarfssamning um stofnun áfangastaðastofu á Suðurlandi.

SASS eru þar með önnur landshlutasamtökin til að taka ákvörðun um stofnun áfangastaðastofu á starfssvæði sínu. Undirbúningur að stofnun áfangastaðastofa í öllum landshlutum hefur staðið yfir sl. tvö ár á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála og Ferðamálastofu sem hafa í sameiningu leitt vinnuna við undirbúning og framkvæmd.

„Stofnun áfangastaðastofu í nánu samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands mun auka á samstarf ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Stofan mun styrkja undirstöður ferðaþjónustu sem er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs. Vægi greinarinnar á Suðurlandi er mikið og hún hefur mikil áhrif á byggðaþróun. Með stofnun áfangastaðastofu er verið að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar á Suðurlandi, á forsendum heimamanna, enn frekar og gera þar með sunnlenskt samfélag betur búið undir að taka við innlendum sem erlendum ferðamönnum þegar kófinu lýkur. Ég er þess fullviss að þetta á eftir að verða samfélaginu á Suðurlandi til heilla,” segir Ásgerður K. Gylfadóttir formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.

„Ég er mjög ánægð með að við skulum komin með samning um stóra og öfluga áfangastaðastofu á Suðurlandi en þar fer um verulega stór hluti ferðamanna sem hingað koma. Áfangastaðastofan mun starfa á grunni áfangastaðaáætlunar fyrir svæðið og ég er þess fullviss að hún muni stuðla að enn heildstæðari uppbyggingu ferðaþjónustunnar á svæðinu,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Áfangastaðastofur

Áfangastaðastofa er svæðisbundin þjónustueining á vegum opinberra aðila og einkaaðila sem hefur það meginhlutverk að styðja við ferðaþjónustu í viðkomandi landshluta og tryggja að hún þróist í takt við vilja heimamanna þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.

Markmiðið með stofnun áfangastaðastofa er að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi hennar. Áfangastaðastofa starfar í umboði sveitarfélaga viðkomandi landsvæðis og er samstarfsvettvangur sveitarfélaga, ríkis, og ferðaþjónustunnar.

Eitt meginverkefni áfangastaðastofu er að leggja fram áfangastaðaáætlun fyrir svæðið og tryggja að hún sé í samræmi við aðra lögbundna áætlanagerð og aðal- og deiliskipulag. Auk þess mun áfangastaðastofan m.a. hafa aðkomu að þarfagreiningu rannsókna og mælinga á landsvísu, stuðla að vöruþróun og nýsköpun, leggja mat á fræðsluþörf, og sinna svæðisbundinni markaðssetningu. Áfangastaðastofa getur verið stofnuð á grundvelli núverandi markaðsstofa eða annarra starfseininga sem til staðar eru á viðkomandi landsvæði.