fbpx

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga samþykkti á fundi sínum 24. mars úthlutun styrkveitinga úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands, að undangengnu mati fagráða atvinnu og nýsköpunar og fagráðs menningar. Um var að ræða fyrri úthlutun Uppbyggingarsjóðs á árinu 2021. Umsóknir voru samtals 166. Í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna bárust 67 umsóknir og 99 umsóknir í flokki menningarverkefna.

 Að þessu sinni voru tæpum 37 m.kr. úthlutað til 74 verkefna. Úthlutað var 16 m.kr. til 21 verkefnis í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna og tæpri 21 m.kr. til 53 menningarverkefna.

Raföld halut að þessu sinni hæsta styrkinn 1,5 m.kr. í flokki atvinnu og nýsköpunar fyrir verkefnið ,,Fjölnýting jarðvarma til orkuvinnslu í dreifbýli“. Markmið verkefnisins er að fjölnýta jarðhitavatn frá borholunni að Grásteini í Ölfusi fyrir orkuvinnslu, upphitun og iðnað, auk þess sem affallsvatn frá hitaveitunni er nýtt fyrir útiböð og fiskeldi. Gert er ráð fyrir að reynsla af fjölnýtingu að Grásteini verður nýtt fyrir önnur jarhitasvæði á Suðurlandi.

Í flokki menningarverkefna hlutu tvö verkefni styrk að upphæð kr. 900 þúsund. Um er að ræða verkefnin ,,Sumartónleikar í Skálholtskirkju“ og ,,Undirliggjandi minni“.

Cantoque Ensemble að syngja á Sumartónleikum í Skálholti

Markmið Sumartónleika í Skálholti er að stuðla að uppbyggingu sígildrar tónlistar á Íslandi, með áherslu á nýsköpun, á flutning tónlistar fyrri alda og á sögulega upplýstan flutning. Skálholtskirkja er rómuð fyrir hljómburð sinn og myndlist og Sumartónleikar mikilvægur þáttur í því að efla almennt menningarhlutverk Skálholts. Í ár verður einnig lögð sérstök áhersla á að kynna börn og ungmenni fyrir nýrri tónlist og verða því sérstakir tónleikar og viðburðir sniðnir fyrir fjölskyldur. 

Ólafur Sveinn Gíslason hlaut styrk fyrir verkið ,,Undirliggjandi minni“ en verkefnið fjallar um uppruna og hugarheim einstaklinga sem búsettir eru í Flóahreppi. Það eru staðbundnir og persónubundnir þræðir sem verður fylgt eftir í rannsóknum Ólafs og skoðað hvernig þeir endurspeglast í menningararfi svæðisins. Andrúmsloft og hugarfar staðarins mun birtast í samvinnu íbúa í Flóahreppi og atvinnuleikara sem verða virkjaðir í fluttningi verksins. Um er að ræða þekkingarsköpun sem tekin verður til úrvinnslu í gegnum kvikmyndamiðilinn. 

 Lista yfir verkefni sem hlutu styrki má sjá hér.