fbpx

 

578. fundur stjórnar SASS

Fjarfundur

4. febrúar 2022, kl. 10:00-11:20

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Helgi Kjartansson varaformaður, Arna Ír Gunnarsdóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Ari Björn Thorarensen, Einar Freyr Elínarson, Grétar Ingi Erlendsson og Lilja Einarsdóttir en fundarmenn tengjast fundinum í gegnum fjarfundarhugbúnað. Þá taka þátt Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri Þróunarsviðs og Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna.

1. Fundargerð

Fundargerð 577. fundar staðfest.

2. Samstarfssamningar og skipulag

Framkvæmdastjóri og sviðsstjóri kynna hugmyndir að breyttu skipulagi og áherslum í samstarfi SASS og samstarfsstofnana um byggðaþróun. Tillagan gengur út á að skýra betur hlutverk SASS og samstarfsaðila samtakanna og hvernig aðilar sinni því hlutverki best. Ábyrgð forstöðumanna er skýrð og í stað þess að allir ráðgjafar hjá samstarfsaðilum sinni ráðgjöf, er í tillögunni gert ráð fyrir svæðisbundnum atvinnuráðgjöfum sem hver sinni sínu vinnusóknarsvæði. Þeir og aðrir ráðgjafar hjá samstarfsaðilum geta, eins og verið hefur, sinnt stökum verkefnum fyrir SASS sem verkefnastjórar.

Niðurstaða stjórnar er að staðfesta tillöguna og fela framkvæmdastjóra að halda áfram með útfærslu hennar í samræmi við umræður á fundinum s.s. um sjö vinnusóknarsvæði, kynna hana fyrir samstarfsaðilum og í framhaldi að ganga frá nýjum samstarfssamningum.

3. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka

Lagðar fram til kynningar; fundargerð 33. fundar stjórnar SSNE, fundargerð 166. fundar stjórnar SSV, fundargerðir 534. – 535. funda stjórnar SSH og 36. fundar eigenda SORPU, fundargerð 775. fundar stjórnar SSS, fundargerðir 40. – 43. funda stjórnar Vestfjarðastofu, fundargerðir 71. – 72. funda stjórnar SSNV, fundargerð 77. fundar stýrihóps stjórnarráðsins og fundargerð 905. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélag.

Stjórn SASS tekur undir eftirfarandi bókun sem fram koma á 166. fundi stjórnar SSV sem fram fór 26. janúar sl.: „Stjórn SSV beinir því til Sambands íslenskra sveitarfélaga að standa vörð um endurkröfurétt sveitarfélaga á hendur ríkinu vegna mögulegs launakostnaðar sem hlotist hefur vegna vinnu skólastjórnenda, sem að öllu jöfnu hefðu átt að vera á höndum rakningarteymis Almannavarna.“

b. Skýrsla framkvæmdarstjóra

Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni í liðnum mánuði og hvað framundan sé.

Samþykkt er að reyna að fá Fjólu Maríu Ágústsdóttur leiðtoga stafræns þróunarteymis og breytingastjóra hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga á næsta kynningarfund stjórnar með sveitarfélögunum.

Á kynningarfundinn í mars verði síðan reynt að fá fulltrúa HSU til að ræða m.a. málefni hjúkrunarheimila.

c. Staða og áskoranir Íslands í orkumálum

Formaður og framkvæmdastjóri kynna erindi sem samtökunum bárust í tölvupósti 1. febrúar sl. en þar óskar nýskipaður starfshópur á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis eftir upplýsingum um stöðu og áskorunum Íslands í orkumálum. Með erindinu fylgdi í viðauka ítarlegur spurningarlisti. Um forgangsmál er að ræða hjá ráðherra og óskaði starfshópurinn því eftir að erindinu yrði svarað í síðasta lagi 8. febrúar nk. Þar sem orkumál skipta sunnlenskt samfélag miklu máli var erindið áframsent á sveitarfélögin sem aðild eiga að SASS. Óskað er eftir hugmyndum þeirra um hvaða áherslur þau vilja helst að samtökin komi á framfæri við starfshópinn.

Stjórn SASS telur orkumál mikilvægan þátt í byggðaþróun. Til að samfélagið geti þróast áfram þarf það aðgang að nægri orku enda er hún mikilvæg forsenda byggðar og farsællar atvinnuuppbyggingingar í öllum landshlutum. Stefna skal að sjálfbærri orkuframtíð þar sem verðmætasköpun af endurnýjanlegum orkuauðlindum er ein af undirstöðum lífskjara á Suðurlandi. Svo ekki sé talað um mikilvægi orkuskipta til að vinna gegn loftslagsvánni.

Stjórn SASS áréttar jafnframt eftirfarandi bókanir frá ársþingi SASS sem fram fór í lok október sl.:

„Afhendingaröryggi orku

Staða mála er alvarleg er varða afhendingaröryggi orku og aðgengi að þriggja fasa rafmagni. Krafa þess eðlis var lögð fram á ársþingi SASS árið 2018 en sums staðar á Suðurlandi er staðan enn óbreytt og stendur í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu í landshlutanum.

Kolefnisspor og samgöngur á Suðurlandi

Stjórnvöld og einkaaðilar eru hvattir til að fjölga rafhleðslustöðvum á Suðurlandi svo að sveitarfélögin verði leiðandi landshluti í minnkun kolefnislosunar á hringveginum og hvetja þannig til vistvænni samgöngumáta með umhverfisvænni orkuskiptum í samgöngum.“

Framkvæmdastjóra falið að svara erindi starfshópsins.

 

Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 4. mars kl. 13:00. Ákveðið verður síðar hvort um stað- eða fjarfund verður að ræða.

 

Fundi slitið 11:20

 

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Helgi Kjartansson

Lilja Einarsdóttir

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

Friðrik Sigurbjörnsson

Arna Ír Gunnarsdóttir

Grétar Ingi Erlendsson

Ari Björn Thorarensen

Einar Freyr Elínarson

578. fundur stj. SASS