Fundargerð
aukaaðalfundar SASS
haldinn á Hótel Selfossi
16. júní 2022
Setning aukaaðalfundar
Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður SASS setur fundinn og býður þingfulltrúa velkomna á aukaaðalfund SASS. Óskar hún fulltrúum til hamingju með kjör til sveitarstjórnar.
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Formaður tilnefnir frá Sveitarfélaginu Árborg Örnu Ír Gunnarsdóttur og Braga Bjarnason sem fundarstjóra og Rósu Sif Jónsdóttur sem fundarritara. Er það samþykkt samhljóða.
Formaður felur fundarstjórum stjórn fundarins.
Bragi Bjarnason fundarstjóri tekur til máls og býður fundargesti velkomna í Sveitarfélagið Árborg og á aukaaðalfund SASS.
Kosning kjörbréfanefndar
Fundarstjóri tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu stjórnar SASS að kjörbréfanefnd.
Kjörbréfanefnd, Sveitarfélag
Árni Eiríksson, Flóahreppur
Ari Björn Thorarensen, Sveitarfélagið Árborg
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Rangárþing ytra
Er tillagan samþykkt samhljóða og tekur kjörbréfanefnd þegar til starfa.
Hver erum við og hvaðan komum við?
Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður og Helgi Kjartansson varaformaður kynna sveitarfélögin sem aðild eiga að samtökunum. Það eru mismörg sveitarfélög í landshlutasamtökum en innan SASS eru þau 15 með tæplega 32.500 íbúa. Farið er yfir sveitarfélögin sem eru aðilar af SASS; íbúafjölda, landssvæði, markverða hluti og helstu atvinnugreinar sveitafélaganna.
Landshlutasamtök eru átta á landinu. Hlutverk landshlutasamtaka er að fara með hagsmunamál hvers landshluta og er samstarfsvettvangur sveitarfélaga og milligönguaðili t.d. við útfærslu og rekstur sóknar- og byggðaáætlunar.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.
Niðurstaða kjörnefndar um lögmæti fundarins
Árni Eiríksson formaður kjörnefndar kynnir niðurstöður um lögmæti fundarins. Kjörnir fulltrúar eru 67. Alls eru 53 aðalfulltrúar mættir, 9 varamenn og 5 fjarverandi. Fundurinn úrskurðast lögmætur.
Arna Ír Gunnarsdóttir fundarstjóri tekur til máls.
Ársreikningur SASS 2020
Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri kynnir ársreikning SASS fyrir árið 2020. Tekjur SASS 2020 voru 164,3 m.kr., rekstrargjöld tæplega 166,8 m.kr. og fjármunatekjur um 100 þús.kr. Rekstrartap ársins var því 2,5 m.kr.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.
Ársreikningur SASS 2020 er borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.
Kosning í stjórn og nefndir
Árni Eiríksson formaður kjörbréfa- og kjörnefndar tekur til máls og ræðir um störf kjörnefndar fyrir fundinn, kjörnefndin leggur eftirfarandi tilnefningar til við fundinn en að kosið verði um formann og varaformann SASS.
Fundarstjóri leggur fram tillögur kjörnefndar að skipan í nefndir og ráð á aukaaðalfundi SASS 16. júní 2022.
Stjórn SASS
Aðalmenn:
Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Rangárþing ytra
Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjabær
Árni Eiríksson, Flóahreppur
Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Arnar Freyr Ólafsson, Sveitarfélagið Árborg
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Hveragerðisbær
Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus
Varamenn:
Gauti Árnason, Sveitarfélagið Hornafjörður
Jóhannes Gissurarson, Skaftárhreppur
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Vestmannaeyjabær
Anton Kári Halldórsson, Rangárþing eystra
Bragi Bjarnason, Sveitarfélagið Árborg
Ellý Tómasdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Jón Bjarnason, Hrunamannahreppur
Sandra Sigurðardóttir, Hveragerðisbær
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus
Fundarstjóri gefir orðið laust, enginn tekur til máls.
Tillaga að stjórn SASS er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Fallið var frá tillögu um kosningu formanns og varaformanns SASS til næstu tveggja ára. Þess í stað er lagt til að Ásgerður Kristín Gylfadóttir verði formaður og að varaformaður verði Grétar Ingi Erlendsson.
Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Formaður: Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Varaformaður: Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus
Ásgerður Kristín Gylfadóttir tekur til máls og þakkar traustið fyrir að fá að stýra samtökunum til næstu tveggja ára. Ræðir hún um að það hafi verið ánægjulegt að starfa með fráfarandi stjórn og hlakkar hún til að starfa með nýrri stjórn.
Kjörnefnd SASS
Aðalmenn:
Eyrún Fríða Árnadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Auður Guðbjörnsdóttir, Skaftárhreppur
Íris Róbertsdóttir, Vestmannaeyjabær
Tómas Birgir Magnússon, Rangárþing eystra
Aldís Hafsteinsdóttir, Hrunamannahreppur
Smári B. Kolbeinsson, Grímsnes- og Grafningshreppur
Kjartan Björnsson, Sveitarfélagið Árborg
Njörður Sigurðsson, Hveragerðisbær
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus
Varamenn:
Hjördís Edda Olgeirsdóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Björn Þór Ólafsson, Mýrdalshreppur
Helga Jóhanna Harðardóttir, Vestmannaeyjabær
Eggert Valur Guðmundsson, Rangárþing ytra
Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Ásta Stefánsdóttir, Bláskógabyggð
Bjarni Ásbjörnsson, Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Halldór Benjamín Hreinsson, Hveragerðisbær
Erla Sif Markúsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus
Lagt er til að Aldís Hafsteinsdóttir verði formaður kjörnefndar SASS og Tómas Birgir Magnússon, Rangárþing eystra varaformaður.
Fundarstjóri gefur orðið laust, til máls tekur Njáll Ragnarsson frá Vestmanneyjabæ og leggur hann fram breytingartillögu um að Íris Róbertsdóttir verði formaður kjörnefndar í stað Aldísar Hafsteinsdóttur.
Fundarstjóri gefur orðið laust, Helgi Kjartansson og Eggert Valur Guðmundsson taka til máls.
Arna Ír Gunnarsdóttir fundarstjóri leggur til að kosið verði í leynilegri kosningu um hvort Aldís Hafsteinsdóttir eða Íris Róbertsdóttir verði formaður kjörnefndar. Gengið er til kosningar.
Óskað er eftir að kjörbréfanefnd telji atkvæðin ásamt Bjarna Guðmundssyni og Sigríði Lind Þorbjörnsdóttur frá SASS.
Kjörbréfanefnd tekur til starfa.
Árni Eiríksson formaður kjörbréfanefndar tekur til máls og tilkynnir niðurstöðu kosningu. Alls kjósa 62 og fer kosning þannig að Aldís Hafsteinsdóttur hlýtur 41 atkvæði, Íris Róbertsdóttir 20 atkvæði og 1 atkvæði er autt. Aldís Hafsteinsdóttir er því kjörin formaður nefndarinnar.
Formaður: Aldís Hafsteinsdóttir, Hrunamannahreppur
Varaformaður: Tómas Birgir Magnússon, Rangárþing eystra
Fræðslunet Suðurlands skipað til 1 árs
Aðalmaður:
Hulda Kristjánsdóttir, Flóahreppur
Varamaður:
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur
Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða
Markaðsstofa Suðurlands skipað til 1 árs
Aðalmenn:
Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus
Til vara:
Árni Eiríksson, Flóahreppur
Ása Valdís Árnadóttir, Grímsnes- og Grafningshreppur
Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Fagráð Upplýsingamiðstöð Suðurlands til 1 árs
Aðalmaður:
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur
Til vara:
Drífa Bjarnadóttir, Mýrdalshreppur
Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Skólanefnd Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu á Höfn í Hornafirði, FAS
Aðalmenn:
Þorgrímur Tjörvi Halldórsson, Sveitarfélagið Hornafjörður
Lars Jóhann Andrésson Imsland, Sveitarfélagið Hornafjörður
Varamenn:
Elías Tjörvi Halldórsson, Sveitarfélagið Hornafjörður
Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Breytingar á sorpmálum um áramótin
Elísabet Björney Lárusdóttir umhverfisfræðingur og ráðgjafi hjá SASS fer yfir helstu verkefni sem hún hefur komið að á árunum 2016-2022.
Hún kynnir verkefnið plastpokalaust Suðurland sem byrjaði á Höfn í Hornafirði árið 2016. Ræðir hún um ráðstefnu sem haldin var á Þingborg í Flóahreppi þar sem úrgangsmál voru rædd og kynnt fyrir sveitarstjórnarmönnum ásamt því að þeim var gefin súpa sem gerð var úr grænmeti frá framleiðendum á svæðinu. Vörur sem ekki uppfylltu útlitskröfur og hefði annars verðið hent í lok dags.
Búið er að kortleggja umhverfismál hvers sveitarfélags á svæðinu en það er mikilvægt að halda utan um þessi mál. Umhverfisvænt Suðurland var stofnað 2018 og er unnið að því áfram. Árið 2019 var farið í stöðumat hjá sveitarfélögunum í landshlutanum um úrgangsmál, það er mjög misjafnt milli sveitarfélaga hversu vel er haldið utan um úrgangsgögn en það hefur þó orðið breyting á og nú þarf einnig að skoða þetta út frá Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og innleiðingu tilskipana Evrópusambandsins. Verkefnið „Zero Waste“ er í gangi í Hveragerði og hefur það gefist vel og verður spennandi að sjá hver framvindan verður. Umhverfisnefndin í Hveragerði hefur tekið upp ákveðið verklag í sinni nefnd tengt þessum verkefnum. Einnig hefur „Crethink“ verkefnið verið í gangi hjá SASS.
Það þarf að finna einstaklinga hjá sveitarfélögunum sem brenna fyrir umhverfismálum og virkja þá aðila til að vinna og kenna hvernig á að innleiða þessa hluti í sveitarfélögum. Sótt hefur verið um styrki í Hringrásarsjóð, og frá sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytinu og fékkst m.a. annars styrkur fyrir uppbyggingu á Úrgangsetri sveitarfélaga á Laugarvatni.
Hún hefur unnið með Hornfirðingum að úrgangsgreiningu og í framhaldi af því kom upp sú hugmynd að nota Umhverfis Suðurlandi sem regnhlífasamtök og stofna hópa í öllum sveitarfélögum sem mun heita „Umhverfis” og heiti sveitarfélags. Þeir sem væru í þessum hópum kæmu svo saman t.d. einu sinni á ári og færu yfir stöðu mála.
LIFE umsókn um úrgangstorgið er í vinnslu og er verið að vinna að koma því verkefni af stað á landsvísu og innleiða og þróa snjalltunnur og vonast er til að styrkur fáist til vinna að því verkefni.
Það eru tvö stór verkefni framundan hjá sveitarfélögunum þ.e. gerð loftlags- og umhverfisáætlunar en sveitarfélögin áttu að skila inn loftslagsáætlun um sl. áramót.
Miklar breytingar eru framundan á lögum um úrgangsmál sem taka gildi 1. janúar 2023. Sveitarfélög þurfa að undirbúa sig vel varðandi flokkun en nú verður flokkað í fjóra flokka, og þarf að setja þá alla í sérstakan farveg. Unnið er að lausn í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélag á hvernig tunnurnar eru uppsettar og hvernig á að flokka úrganginn. Sveitarfélög þurfa að undirbúa gámasvæðin sín í samræmi við ný lög og huga að grenndargámum. Einnig þarf að huga að greiðslureglum en hugmyndafræðin gengur út á greitt sé eftir magni úrgangs sem á ensku kallast „Pay as you Throw“.
Í framhaldi þarf að hafa eftirlit með svæðisáætlun og innleiðingu framleiðendaábyrgðar. Lögbundin fræðsluskylda verður í höndum sveitarfélaga og vill hún benda sveitarfélögum á að vera í sambandi varðandi úrgangsmálin, hún er tilbúin að aðstoða sveitarfélögin að vinna betur sama að t.d. að gerð fræðsluefnis.
Fundarstjóri gefur orðið laust enginn tekur til máls.
Umræður
Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.
Fundarstjóri kynnir að framundan sé aukaaðalfundur SOS og hádegismatur fyrir þingfulltrúa.
Ávarp
Valur Rafn Halldórsson samskiptastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga kynnir sambandið. Í upphafi óskar hann fulltrúum til hamingju með kjör í sveitarstjórn. Sambandið er í miklum samskiptum við 64 stéttarfélög, og fer hann yfir hvaða stuðning sambandið getur veitt kjörnum fulltrúum og sveitarfélögunum. Kjarasamningagerð fyrir sveitarfélögin eru alfarið á borði sambandsins og talsvert er um að aðstoð sé veitt sem tengist mannauðsmálum. Það er með sérfræðinga í flestum málaflokkum sveitarfélaga og ef það er ekki aðili hjá þeim sem getur veitt aðstoð þá beinir sambandið sveitarfélögunum í rétta átt. Ræðir hann um launakjör sveitarstjórnarmanna og segir frá viðmiðunartöflu sem er inn á heimasíðu sambandsins. Ræðir hann um hringrásahagkerfið en sambandið er miðlægt að taka við og koma að framkvæmd þessa verkefnis. Það þarf að tryggja að ný löggjöf skili sér inn til sveitarfélaga. Það má t.d. auðvelda fræðslu til íbúa og að hún sé á einum stað og helst á sem flestum tungumálum. Ræðir hann um stafræna þróun en það er mikil samvinna um þau mál við sveitarfélögin. Farið hefur verið í greiningu á stöðu sveitarfélaga í stafrænni þróun en hún er mislangt komin. Það er verið að skoða m.a. einföldun á skjalamálum og skjalakerfum, verkefni um rafræn skil, umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði og að samræma upplýsingamiðlun.
Sambandið gefur út blaðið Sveitarstjórnarmál, og rafræna fréttabréfið Tíðindi. Ræðir hann um sveitarfélagaskólann sem er starfrænn vettvangur fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga. Hann hvetur sveitarstjórnarmenn til að skoða það vel en stefnt er á að bæta þar inn fleiri námskeiðum. Segir hann frá því að öll störf sem auglýst eru hjá Sambandinu eru auglýst óháð staðsetningu. Ræðir hann um mikilvægi þess að vera með fjarfundi en með því má bæði spara tíma og peninga.
Fjallar hann um helstu viðburði sem framundan eru á vegum sambandsins s.s. fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í október nk. og landsþingi sambandsins í lok september nk. Hann áréttar mikilvægi þess að mæta á landsþingið þar sem stefnumótandi ákvarðanir um starf sambandsins eru teknar til næstu ára.
Að lokum ræðir hann um samstarfsstofnanir og að sambandið er hagsmunaaðili út á við m.a. gagnvart ríkinu og er þjónustustofnun við sveitarfélögin. Hann hvetur sveitarstjórnarmenn til að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna. Til þess er Samband íslenskra sveitarfélaga.
Fundarstjóri gefur orðið laust enginn tekur til máls.
Yfirlit um störf fráfarandi stjórnar / Starfsskýrsla 2021-2022
Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður flytur skýrslu stjórnar. Fer hún yfir skipan stjórnar. Haldnir hafa verið níu stjórnarfundir frá síðasta ársþingi ýmist í fjar- eða staðfundi. Á ársþinginu sl. haust var rætt um að fjölga fulltrúum í stjórn. Sú tillaga kom of seint fram, því hefur verið haldinn upplýsingafundur einu sinni í mánuði með stjórn og framkvæmdastjóra SASS með kjörnum fulltrúum allra sveitarfélaga.
Í COVID hefur stjórnin miðlað upplýsingum um stöðu sveitarfélaga á svæðinu. Unnin hefur verið atvinnuvegagreining með sérstakri áherslu á ferðaþjónustu, ásamt nýrri stöðugreiningu á hjúkrunarheimilum á Suðurlandi sem er að finna á heimasíðu SASS.
Ályktanir umsagnir og kynningarfundir eru um þau verkefni sem eru á borði stjórnar og einnig vinna landshlutasamtökin saman að hinum ýmsu málum, ásamt því að stjórn hefur fundað með þingmönnum kjördæmisins.
Fer hún yfir skipulagið hjá SASS. Ræðir um Áfangastaðastofu og -áætlun en samið var við Markaðsstofu Suðurlands árið 2021 um reksturinn næstu árin. Unnið hefur verið að svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið og eru áætluð verklok árið 2024. Ungmennaráð Suðurlands er verkefni sem við erum stolt af en það eykur samvinnu milli unglinga og sveitarfélaga á svæðinu. Ræðir hún um heimasíðu SASS sem er mjög aðgengileg og hvetur hún sveitarstjórnarmenn til að kynna sér hana.
Fer hún yfir fjölbreytileika áhersluverkefna sem hafa verið unnin en samtals var úthlutað 110,5 m.kr. til 11 verkefna árið 2020, árið 2021 var úthlutað 55,5 m.kr. til 10 verkefna og árið 2022 var úthlutað 42,5 m.kr. til 10 verkefna.
Ræðir hún um ART verkefnið en búið er að tryggja fjárveitingu þess til næstu þriggja ára. Þetta er mjög mikilvægt verkefni og með tilkomu farsældarlaganna er enn mikilvægara að halda því áfram að loknum þessum þremur árum.
Fer hún yfir samninga sem gerðir hafa verið um ýmiss verkefni.
Það hefur verið barist fyrir því að ráðuneytin komi með aukið fé inn í Sóknaráætlanirnar og er vonast til að m.a. umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið taki þátt í því verkefni. Fer hún yfir þjónustusamninga sem gerðir hafa verið.
Helstu áskoranir SASS til framtíðar eru að staða landshlutasamtaka er óljós og hana þarf að skýra. Samtökin eru mikilvægur samráðsvettvangur, en líklegt er að einhverjar breytingar verði með sameiningu sveitarfélaga. SASS vill styðja við nýsköpunarverkefni og nefnir hún sem dæmi stafrænusmiðjuna (FabLab) sem er m.a. í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Öflun og dreifing á raforku er ofarlega í huga, það þarf að huga vel af stefnumörkun í byggðarmálum landshluta þ.m.t. áfangastaðaáætlun og gerð svæðisskipulags. Að lokum sveitarstjórnarkosningum þarf að staldra við, meta stöðuna og horfa til framtíðar.
Það er hlutverk kjörinni fulltrúa og nýrrar stjórnar samtakanna að marka stefnu og skilgreina hlutverk, verkefni, og áherslur samtakanna. Regluleg endurskoðun er því nauðsynleg.
Bragi Bjarnason fundarstjóri gefur orðið laust enginn tekur til máls.
Ársreikningur SASS 2021 og fjárhagsáætlun 2022
Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri kynnir ársreikning SASS fyrir árið 2021. Tekjur SASS 2021 voru 187 m.kr., rekstrargjöld tæplega 227 m.kr. og fjármunatekjur um 100 þús.kr. Rekstrartap ársins var því 40 m.kr. Tapið má rekja til breytingar á lífeyrisskuldbindingum en hún hækkaði um 54 m.kr.
Hann kynnir fjárhagsáætlun SASS árið 2022 og fer yfir forsendur tekju- og gjaldaliða en áætlunin var samþykkt á ársþingi samtakanna 2021.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.
Starfsemi SASS
Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS fer yfir starfsemi samtakanna. Starfsemi SASS er mjög víðtæk og þar á sér stað mikil hagsmunagæsla fyrir allt Suðurland. Fer hann yfir skipulag SASS. Starfsmenn SASS eru átta, en einnig er fjöldi samstarfsaðila og ráðgjafa sem starfa á þeirra vegum og eru dreifðir um landshlutann, en ráðgjafaþjónusta er mikilvægur þáttur í starfi samtakanna. SASS vinnur mikið á sviði atvinnu- og byggðaþróunar í nánu samstarfi við samstarfsstofnanir á svæðinu, mikið er unnið í stefnumótun og greiningu, og samstarfsverkefnum, ásamt því að sinna upplýsingarmiðlun. Sóknaráætlun Suðurlands er sameiginlegt verkefni ráðuneyta og SASS. Unnið er m.a. að því að efla menningar- og listsköpun, ásamt fræðslu, endurmenntun, og atvinnu- og nýsköpun.
Bjarni segir frá verkefnum sem hafa gengið vel. Farið var í hönnun á lýðfræðilegu gagnatorgi sem átti upphaflega að vera aðeins fyrir Suðurland en er nú orðið fyrir allt landið og er aðgengilegt á vef Byggðastofnunar. Þar er hægt að skoða íbúaþróun og hvernig breytingarnar hafa þróast.
Orkídea er samstarfsverkefni SASS, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landsvirkjunar þar sem framtíðarsýnin er að matvælaframleiðsla verði sjálfbær og verði drifin áfram af nýsköpun, endurnýjanlegri orku og verðmætasköpun.
Lava Show er verkefni sem SASS styrkti og hefur nú fengið Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar og er það ört stækkandi verkefni sem byrjaði í Vík í Mýrdal.
Katrín Þrastardóttir teymisstjóri ART verkefnisins kynnir verkefnið
Katrín kynnir ART verkefnið. Helstu hlutverk þess er að halda úti fjölskyldu ART á Suðurlandi en það er mikil samvinna við leik- og grunnskóla og fjölskyldu- og félagsþjónustur þeirra sveitarfélaga sem unnið er með. Verið er að sinna fjölskyldum í vanda en unnið er með félagsfærni, sjálfstjórn og siðferði. Það skiptir máli að allir læri að þekkja tilfinningar og birtingarmynd þeirra. Fjölskyldu ART er þungamiðjan í vinnu ART teymisins, en þar er verið að aðstoða foreldra að nota réttu verkfærin. Unnið er í hópum, með því er hægt að vinna með fleiri einstaklinga á hverjum tíma. Það er einnig boðið upp á ART réttinda námskeið um allt land. Þetta eru tvær annir sem hver tekur. ART teymið sinnir 13 sveitarfélögum og er verið að þróa fjarmeðferðarþjónustu svo að hægt sé að sinna þeim sem eru lengra frá á sem auðveldastan hátt. Þetta úrræði er að skila góðum árangri og það er marktækur árangur samkvæmt rannsóknum sem unnar hafa verið.
Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri Þróunarsviðs fer yfir starf sviðsins
Ræðir hann um þær breytingar sem hafa orðið í byggðarmálum en þær eru jákvæðar. Fer hann yfir þróunarsviðið og kynnir samstarfsaðila sem eru vítt og breytt um Suðurland. Ráðgjafaþjónustan er veigamikil þáttur í starfi samtakanna.
Sóknaráætlun Suðurlands er stefnan sem unnið er eftir og er hún mótuð af sveitarstjórnum og íbúum sem tóku þátt í stefnumótunarvinnu og fór fyrir samráðsgátt stjórnvalda árið 2019. Stefnan skiptist niður í atvinnu- og nýsköpun, umhverfi og samfélag, og byggir mest á tveimur samningum; Sóknaráætlunarsamningi og samningi um byggðarþróun. Vonast er til að fleiri ráðuneyti komi inn í sóknaráætlunarsamninginn.
Ræðir hann um Uppbyggingarsjóð Suðurlands en úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári í tvo verkefnaflokka í hvort skipti þ.e. atvinnu- og nýsköpun, og menning. Gerðar eru þjónustukannanir og einnig fer fram árangursmat á gildi úthlutana fyrir styrkþega. Það skiptir máli að sveitarstjórnarmenn vísi fólki til þeirra og þau geti í framhaldi aðstoðað aðila í framkvæmd.
Ræðir hann um áhersluverkefni en það geta allir sent inn tillögur að áhersluverkefnum. Það eru mörg önnur verkefni og samstarfsverkefni sem koma inn til þróunarsviðs, má þar nefna Ratsjána, Matsjána, íbúa- og fyrirtækjakannanir landshluta o.fl.
Nýjustu áherslubreytingar sem unnið hefur verið að frá byrjun árs fela í sér að horfa á atvinnusóknarsvæði á Suðurlandi sem skipt er upp í sjö svæði og er verið að vinna í að draga fram helstu áherslu hvers svæðis og byggja Sóknaráætlunina á því en það eru sex byggðaþróunarfulltúar sem starfa á svæðunum eða um einn á hverju svæði. Helsta hlutverk byggðaþróunarfulltrúans er að draga fram helstu áherslur svæðisins, sinna ráðgjöf og handleiðslu, verkefnaþróun, þekkingarmiðlun, samráð og stefnumótun, virkja og hvetja samfélagið og efla tengslamyndum og samstarf. Byggðarþróunarfulltrúinn þarf að hafa samráð við íbúa og hagaðila, skoða umhverfis- og samfélagsmál og auka atvinnu og nýsköpun. Þessir einstaklingar eru að vinna fyrir íbúa, fyrirtæki og sveitarfélögin.
Arna Ír Gunnarsdóttir fundarstjóri tekur til máls og gefur orðið laust.
Til máls tekur Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður skólanefndar, Fjölbrautaskóla Suðurlands og ræðir mikilvægi iðnmenntunar og vekur athygli á því að sveitarstjórnarmenn þurfi að huga að stækkun húsnæðis Hamars við FSu fyrir iðnmenntun.
Nú er komið að fundarlokum aukaaðalfundar SASS og gefur fundarstjóri formanni orðið. Þakkar formaður sveitarstjórnarmönnum fyrir góðan, málefnalegan og gagnlegan fund. Einnig er fundarstjórum, starfsmönnum SASS og öðrum starfsmönnum þakkað fyrir góðan undirbúning og Sveitarfélaginu Árborg fyrir viðurgjörning allan. Hvetur hún sveitarstjórnarmenn til að taka þátt í undirbúningsvinnu í nefndarvinnu fyrir komandi ársþing SASS sem fer fram á Höfn í Hornarfirði 27. – 28. október nk.
Fundarritara er falið að ganga frá fundargerð í samstarfi við fundarstjóra og framkvæmdastjóra SASS.
Fundi slitið kl. 14:37
Rósa Sif Jónsdóttir fundarritari