597. fundur stjórnar SASS
Fjarfundur
30. júní 2023, kl. 12:30-14:45
Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Árni Eiríksson, Arnar Freyr Ólafsson, Einar Freyr Elínarson, Brynhildur Jónsdóttir, Njáll Ragnarsson og Grétar Ingi Erlendsson. Einnig taka þátt Minna Björk Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri VISKU – Fræðslu- og símenntunarmiðstöð í Vestmannaeyjum undir dagskrárlið 2 og Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð. Fundarmenn tengjast fundinum í gegnum fjarfundabúnað.
Formaður býður fundarmenn velkomna.
1. Fundargerð
Fundargerð 596. fundar staðfest og verður undirrituð síðar.
2. VISKA – Fræðslu- og símenntunarmiðstöð í Vestmannaeyjum
Minna Björk Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri VISKU, kynnir starfsemina og skipulag hennar í Vestmannaeyjum en stofnunin er með aðsetur í Þekkingarsetri Vestmannaeyja að Ægisgötu 2. Viska hóf starfsemi 2003 og hefur því starfað í 20 ár. Minna Björk fer yfir skipulag framhaldsfræðslu og kynnir helstu kennitölur tengdar starfinu s.s. um fjölda þjónustuþega og hvaða áskoranir stofnunin stendur frammi fyrir í Eyjum en lágmarksfjöldi á námskeiðum er hamlar starfseminni. Árið 2022 voru haldin ýmiskonar námskeið s.s. íslenskunámskeið, þar af ein íslensku námsleið fyrir innflytjendur, tómstundanámskeið og tölvunámskeið. Hún svarar spurningum og hugleiðingum stjórnarmanna.
3. Ársþing 2023 – milliþinganefndir
Formaður kynnir minnisblað tengt starfi milliþinganefnda en nefndunum er ætlað að fara yfir þau málefni sem helst brenna á kjörnum fulltrúum sveitarfélaga og tengjast málaflokki einstakra nefnda. Í minnisblaðinu er farið er yfir markmið, skipulag þ.m.t. hlutverk og tímaáætlun, verklag, umræðuefni og hvenær og á hvað formi skuli skila niðurstöðum nefnda. Gert er ráð fyrir að milliþinganefndir fundi í ágúst og september nk. og skili niðurstöðum í síðasta lagi 5. október nk. þannig að hægt verði að senda þær á þingfulltrúa með öðrum ársþingsgögnum. Stjórn samþykkir að byggja nefndarstarfið á framkomnu minnisblaði.
4. Önnur mál til kynningar og umræðu
a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka
Lagðar fram til kynningar; fundargerðir 559. fundar stjórnar SSH, fundargerð 53. fundar stjórnar SSNE, fundargerðir 10. og 11. funda stjórnar SSA, fundargerð aðalfundar SSA, fundargerðir 138. og 139. funda stjórnar Austurbrúar og fundargerðir 929. – 930. funda stjórnar sambandsins.
b. Skýrsla framkvæmdastjóra
Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni og hvað fram undan er en meðal atriða má nefna: Frágang á gerð samstarfssamninga um byggðaþróun og atvinnuráðgjöf. Auglýst hefur verið eftir ráðgjafa í Uppsveitum Árnessýslu og er umsóknarfrestur til 6. júlí nk. Aðalfundur Eignarhaldsfélags Suðurlands var haldinn í Árnesi 26. júní sl. Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir, sem verið hefur starfsmaður Nýheima þekkingarsetur, hefur verið ráðin sem verkefnastjóri og kynningarfulltrúi hjá SASS með aðsetur á Höfn. Atvinnumálastefna Uppsveita Árnessýslu hefur verið samþykkt.
c. Samgönguáætlun 2024 – 2038
Formaður kynnir að samgönguáætlun 2024 – 2038 sé nú til kynningar á Samráðsgátt stjórnvalda, sbr. hér.
Stjórn felur formanni og framkvæmdastjóra í samráði við Njál, formann samgöngunefndar SASS, og Einar Frey, stjórnarmann, að ganga frá umsögn til samræmis við umræður á fundinum og kalla jafnframt eftir sjónarmiðum aðildarsveitarfélaganna.
d. Kerfisáætlun Landsnets 2023 – 2032
Formaður kynnir að á kerfisáætlun Landsnets 2023 – 2032 sé nú til kynningar á heimasíðu Landsnets, sbr. hér. Umsagnarfrestur er til 30. júní en SASS hefur fengið viðbótafrest til 15. júlí nk.
Stjórn felur formanni og framkvæmdastjóra að ganga frá umsögn til samræmis við umræður á fundinum.
Í orkunýtingarstefnu aðildarsveitarfélaga SASS 2017 – 2030, frá í desember 2017, kemur m.a. fram að markmiðið sé að: Landshlutinn verði þekktur fyrir orkunýtingu sem byggir á gæðum og hreinleika. Staðinn verði vörður um hagsmuni sveitarfélaganna sem snúa að virkjun og nýtingu orku innan svæðisins. Sveitarfélög innan svæðisins njóti ávallt hags af nýtingu orkunnar. Hagur af nýtingu orkuauðlinda getur verið með beinum tekjum vegna framleiðslu orkunnar eða af rekstri sem nýtir orkuna. Ný eftirsóknarverð störf verði til innan svæðisins samhliða orkunýtingu. Tryggð verði ábyrg nýting orkuauðlinda, þ.e. á sjálfbæran hátt í sátt við samfélagið og með virðingu fyrir náttúrunni.
Tillaga að aðgerðum var m.a. að höfuðstöðvar Landsvirkjunar yrðu fluttar í landshlutann enda kemur stór hluti raforkuframleiðslu af Suðurlandi.
Stjórn SASS áréttar þetta sjónarmið nefndarinnar enda telur hún eðlilegt að höfuðstöðvarnar séu þar sem orkan er framleidd. Í ljósi umfangsmikilla framkvæmda við höfuðstöðvar Landsvirkjunar í Reykjavík vegna myglu hvetur stjórn SASS fyrirsvarsmenn Landsvirkjunar til að nota tækifærið til breytinga og byggja upp nýjar höfuðstöðvar Landsvirkjunar á Suðurlandi.
e. Sinfóníuhljómsveit Suðurlands
Formaður kynnir erindi frá Guðmundi Óla Guðmundssyni stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands en þar er óskað eftir frekari aðkomu sveitarfélaganna að rekstri hljómsveitarinnar.
Stjórn SASS þakkar fyrir erindið og vill nota tækifærið til að hrósa hljómsveitinni fyrir gott og metnaðarfullt starf á undanförnum árum sem hefur auðgað menningu á Suðurlandi.
Stjórn óskar eftir nánari upplýsingum frá fyrirsvarsmanni hljómsveitarinnar þ.m.t. rekstraráætlun, útgjöld og sjálfbærniáætlun áður en erindið er sent áfram til sveitarfélaganna.
f. Kynnis- og námsferð
Formaður kynnir erindi frá Jóhönnu Ýr, fulltrúa SASS í stafrænu ráði sambandsins vegna fyrirhugaðrar námsferðar til Eistlands þann 28. ágúst nk. á vegum Samtaka stjórnenda á stjórnsýslu- og fjármálasviðum sveitarfélaga, en fulltrúum í stafrænu ráði sambandsins og faghópi um stafræna umbreytingu hefur verið boðið að koma með í ferðina.
Formanni og framkvæmdastjóra falið að kalla eftir nánari gögnum um námsferðina og afgreiða síðan erindið í samræmi við umræður á fundinum.
Næsti fundur stjórnar verður haldinn í fjarfundir föstudaginn 11. ágúst nk. kl. 12:30 og vinnufundur stjórnar verður síðan haldinn 17. – 18. ágúst nk. í Hveragerði
Fundi slitið kl. 14:45
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Grétar Ingi Erlendsson Einar Freyr Elínarson
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Njáll Ragnarsson
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Brynhildur Jónsdóttir
Arnar Freyr Ólafsson
Árni Eiríksson