Kosningar í Póllandi verða haldnar 15. október nk. Af því tilefni hefur pólska sendiráðið, í kjölfar hvatningar Tomasz Chochołowicz, formanns enskumælandiráðs Mýrdalshrepps, ákveðið að bjóða upp á kjörstað í Vík sama daga. Allir pólskir ríkisborgarar með kosningarétt geta kosið á kjörstaðnum í Vík með þeim skilyrðum að þeir skrái sig fyrir 10. október. Skráning fer fram á heimasíðu pólska ríkisins, sjá hér.
Í byrjun árs 2022 bjuggu á Íslandi 21.155 pólskir ríkisborgarar og þar af 1.917 einstaklingar á Suðurlandi, sem gerir um 9% af heildinni. Samkvæmt nýlegri frétt á rúv.is segir að 21 milljón Pólverja búi erlendis og þar af hafi aðeins 300.000 þeirra kosið í síðustu þingkosningum sem haldnar voru árið 2019. Í Mýrdalshreppi bjuggu í ágúst sl. alls 971 íbúar, rúmlega 50% þeirra eða 597 eru með erlent ríkisfang. Pólskir ríkisborgarar í Mýrdalshreppi voru á sama tíma skráðir 276 sem er um 28% af heildarfjölda íbúa sveitarfélagsins og 46% erlendra íbúa.
Enskumælandiráð í Mýrdalshreppi frá 2022
Til að gefa nýbúum tækifæri á að hafa aukin áhrif og möguleika á að taka þátt í nefndarstörfum á vegum sveitarfélagsins setti Mýrdalshreppur á laggirnar enskumælandiráð haustið 2022. Eins og segir á heimasíðu Mýrdalshrepps: “Þetta tilraunaverkefni hefur gengið vonum framar og hefur ráðið verið starfsfólki og nefndum sveitarfélagsins innan handar og veitt ráðgjöf og innsýn inn í hagsmunamál nýbúa á svæðinu sem annars hefðu ekki fengist. Ráðið hefur einnig verið ötult við að kynna þjónustu sveitarfélagsins fyrir nýbúum og koma með ábendingar hvar sveitarfélagið gæti komið betur til móts við einstaklinga af erlendum uppruna.“
Lýðfræðiverkefnið – C.1 sértækt verkefni
Árið 2023 fékk SASS í samstarfi við Kötlusetur í Mýrdalshreppi, styrk að upphæð 13,5 m.kr. úr sértækum verkefnum Byggðaáætlunar C.1 til þess að fara af stað með annan hluta af fjórum í verkefnaröðinni „Aðgerðaráætlun um sjálfbæra lýðfræðilega þróun miðsvæðisins“. Í fyrsta hluta verkefnisins voru viðhorf erlendra ríkisborga á svæðinu til samfélagsins, þjónustu og upplýsingamiðlunar skoðaðar og hvað sveitarfélögin á svæðinu gætu gert til þess að ýta undir að erlendir íbúar hér að til lengri tíma. Niðurstöður rannsóknarinnar má nálgast hér.
Annar hluti verkefnisins sem nú er í gangi miðar að því að nýta þessar niðurstöður til þess að styðja sveitarfélögin Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp, Skaftárhrepp og Hornafjörð við gerð móttökuáætlana fyrir sín svæði, ásamt því að vinna að sértækum verkefnum innan sveitarfélaganna til að auka inngildinu nýbúa á svæðinu og minnka íbúaveltu.
Verkefnisstjóri verkefnisins er Hugrún Sigurðardóttir, fyrir frekari upplýsingar má hafa samband við Hugrúnu á tölvupóstfangið fjolmenning@vik.is.
Við hvetjum sveitarfélögin á Suðurlandi til þess að deila upplýsingum um kosningarnar á heimasíðum sínum og miðla þessum upplýsingum áfram til pólskra ríkisborgara sem búsettir eru í þeirra sveitarfélögum í von um að sem flestir geti nýtt sér kosningaréttinn sinn og/eða nýjan kosningarstað í Vík.