Stjórn SASS hefur fjallað um tillögur fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar annars vegar og fagráðs menningar hins vegar um úthlutun verkefnastyrkja úr Uppbyggingasjóði Suðurlands. Um er að ræða seinni úthlutun sjóðsins árið 2024. Umsóknir voru samtals 86, í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna bárust 23 umsóknir og 63 í flokki menningarverkefna.
Að þessu sinni var 40,125.500 kr. úthlutað, 17,125,500 kr. til 12 verkefna í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar og 23 m.kr. til 41 verkefna í flokki menningar. Samtals eru veittir styrkir til 53 verkefna.
Hæstu styrkina í flokki menningarverkefna hlutu að þessu sinni Sinfóníuhljómsveit Suðurlands fyrir verkefnið Sunnlenskir einleikarar, Herdís Friðriksdóttir fyrir verkefnið Flygill í Skálholtsdómkirkju og Tónlistarskóli Rangæinga fyrir verkefnið Krakkabarokk á Suðurlandi fá verkefnin hvert um sig styrk að upphæð 1 m.kr. Sinfóníuhljómsveit Suðurlands munu halda tónleika þar sem koma munu fram tveir hljóðfæraleikarar úr röðum sunnlenskra tónlistarmanna og leika einleiksverk með hljómsveitinni. Í Skálholtsdómkirkju stendur til að kaupa flygill og mun vera haldin fjáröflunartónleikaröð þar sem aðgangseyrir rennur óskiptur til flygilsjóðs. Í Krakkabarokk munu nemendur Tónlistarskóla Rangæinga kynnast upprunaflutningi barokktónlistar og íslenskum þjóðlagaarfi í gegnum gagnvirkt námsefni og vinnustofur með hljóðfæraleikurum sem starfa við upprunaflutning.
Hæstu styrkina í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar hlutu að þessu sinni Ragnar Guðmundsson fyrir verkefnið Lava Lagoon, Góðir hálsar ehf fyrir verkefnið Cycle sac og Orkídea samstarfsverkefni fyrir verkefnið Smávirkjanir: Hagkvæmni og nýsköpunartækifæri, fá verkefnin hvert um sig styrk að upphæð 2 m.kr. Lava Lagoon verkefnið snýr að því að fjármagna frumhönnun á baðlóni og hótelbyggingu með aðstoð arkitekta. Í verkefninu Cycle sac er unnið með hönnun og frumgerð á töskulínu sem framleidd verður á sjálfbæran hátt þar sem gömul textílhefð er notuð til að skapa framtíðarvörur með full- og endurnýtingu að leiðarljósi. Um einstaka lúxusvöru er að ræða sem gengur ekki á auðlindir jarðar heldur spornar gegn uppsöfnun textílúrgangs. Verkefnið er atvinnuskapandi á Suðurlandi, stuðlar að því að markmið í oftslagsmálum megi nást og er hugsað sem upphaf að stærri tösku- og fylgihlutalínu í framtíðinni. Verkefnið Smávirkjanir: Hagkvæmni og nýsköpunartækifæri snýr að því að auka hagkvæmni smávirkjana á jarðhitasvæðum á Suðurlandi með bættri nýtingu auðlinda og stuðla þannig að frekari atvinnuuppbyggingu.
Lista yfir öll verkefni sem hlutu styrk má sjá hér.