Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Atvinnuþróunarfélag Suðurlands sameinuðust undir merkjum SASS á aukaaðalfundi þann 14. desember 2012. Sameiningin tók gildi þann 1. janúar. Í desember var auglýst eftir umsóknum í störf atvinnuráðgjafa og verkefnastjóra, á Höfn og á Selfossi. Alls bárust 24 umsóknir í störfin og er stefnt að því að ganga frá ráðningum í janúar.
Formaður SASS, Gunnar Þorgeirsson, og framkvæmdastjóri, Þorvarður Hjaltason, komu til Hafnar þann 4. janúar til að skrifa undir húsaleigusamning og leggja drög að starfinu. Megin áhersla starfstöðvar á Höfn verður að styðja við íbúa, fyrirtæki og stofnanir í Sveitarfélaginu Hornafirði og Skaftárhreppi. Jafnframt munu starfsmenn SASS, hvar sem starfstöðin er, sinna verkefnum fyrir allan fjórðunginn samhliða því að liðsinna íbúum á nærsvæði starfstöðvanna.
Með tilkomu starfsmanns SASS á Höfn er einnig horft til aukinnar samvinnu við aðra aðila sem vinna að eflingu samfélagsins, eins og Matís, Nýsköpunarmiðstöð, aðila í framhaldsfræðslu, rannsóknarstofnanir og viðkomandi sveitarfélög.