18. maí sl. var kynnt á Hótel Selfossi skýrsla Verkefnisstjórnar um Vaxtarsamning Suðurlands með sérstöku tilliti til Vestmannaeyja og Vestur Skaftafellssýslu og hvaða kostir komi helst til greina við að treysta vöxt og samkeppnishæfni svæðisins.
Tillögum Verkefnisstjórnar er skipt í 3 flokka sem eru: 1. Uppbyggingu helstu byggðakjarna s.s. Árborgarsvæðis, Vestmannaeyja og jaðarsvæða 2. Gerður verði Vaxtarsamningur fyrir Suðurland og 3. tillögur eru um beinar aðgerðir á einstaka sviðum. Markmið tillagnanna er fyrst og fremst að auka hagvöxt svæðisins, fjölga atvinnutækifærum og treysta byggðakjarna á svæðinu svo þeir geti enn frekar sinnt því lykilhlutverki sínu að vera miðstöð atvinnu, menningar og þjónustu.
Tillögur skýrslunnar eru um margt nýjung á sviði byggðamála hér á landi, ekki síst hvað varðar uppbyggingu í formi svokallaðs vaxtarsamnings þar sem lögð er áhersla á klasa á sviði mennta og rannsókna, menningar og ferðaþjónustu og sjávarútvegs og matvæla. Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis m.a. frá OECD, þar sem lögð er aukin áhersla á að efla byggðakjarna með markaðstengdum aðgerðum þar sem atvinnulíf ber uppi hagvöxt svæðisins.
Í mars 2005 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir nefnd til að gera tillögu um stefnumörkun í byggðamálum á Suðurlandi, m.a. með sérstöku tilliti til Vestmannaeyja og Vestur Skaftafellssýslu og hvaða kostir komi helst til greina við að treysta vöxt og samkeppnishæfni svæðisins. Í nefndina voru skipuð, Baldur Pétursson, deildarstjóri, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður, Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri, Vestmannaeyjum, Elliði Vignisson, kennari, varaforseti bæjarstjórnar, Vestmannaeyjum, Friðrik Pálsson, hótelstjóri, Reykjavík, Guðrún Erlingsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Vestmannaeyjum, Orri Hlöðversson, bæjarstjóri, Hveragerði, Elín Einarsdóttir, oddviti Mýrdalshrepps, Vík, Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Selfossi Þorvaldur Guðmundsson, formaður bæjarráðs Árborgar og Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri Hönnunar, Reykjavík. Auk þess tók Gunnsteinn Ómarsson sveitarstjóri Skaftárhrepps þátt í störfum nefndarinnar. Með verkefnisstjórninni störfuðu Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri á Iðntæknistofnun og Kristján Óskarsson, sérfræðingur á Iðntæknistofnun, Róbert Jónsson framkvæmdastjóri og Örn Þórðarson sérfræðingur frá Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands og Páll Marvin Jónsson, forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs Vestmannaeyja.
Hlutverk nefndarinnar var að leggja áhersla á stefnumörkun og verkefni sem líkleg eru til að skila árangri í styrkingu atvinnulífs og annarra búsetuskilyrða á Suðurlandi og gera tillögur til ráðherra um aðgerðir til að auka samkeppnishæfni og vöxt svæðisins.
Þar sem þetta eru tillögur verkefnisstjórnar til ráðuneytisins, mun iðnaðar- og viðskiptaráðherra á næstunni yfirfara þessar tillögur og meta þær og kalla eftir samstarfi við viðeigandi aðila, s.s. önnur ráðuneyti, sveitarfélög á svæðinu, atvinnulíf og fl. Einnig má líta á tillögurnar sem einskonar hugmyndabanka að framkvæmdum, sem meta verður með skilvirkum og markvissum hætti á næstunni í samvinnu við ýmsa aðila.