fbpx

421. fundur stjórnar SASS

haldinn að Austurvegi 56, Selfossi

föstudaginn 9. janúar 2009 kl. 12.00

Mætt: Sveinn Pálsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Margrét Katrín Erlingdóttir, Guðmundur Þór Guðjónsson, Reynir Arnarson, Elliði Vignisson (í fjarfundasambandi) og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð. Unnur Brá Konráðsdóttir og varamaður hennar boðuðu forföll

Dagskrá

1. Bréf frá Samgönguráðuneytinu, dags. 18. desember 2008 vegna endurskoðunar á hlutverki landshlutasamtaka sveitarfélaga, ásamt drögum að svari.

Drögin samþykkt með lítilsháttar breytingum.

2. Erindi frá Alþingi þar sem óskað er umsagnar um eftirfarandi þingmál:

a. Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009 – 2013, 192. mál.

Stjórnin gerir ekki athugasemdir við efni frumvarpsins en bendir hins vegar á nauðsyn þess að formlegt samráð sé haft við sveitarstjórnir við gerð náttúruverndaráætlunar í ljósi þess að sveitarfélög fara með skipulagsvald bæði hvað varðar svæðis- og aðalskipulag. Þá liggur ekki fyrir hvort samþykkt tillögunnar kallar á endurskoðun skipulagsáætlana sveitarfélaganna með tilheyrandi kostnaði. Einnig er mikilvægt að stjórnvöld tryggi nauðsynlegt fjármagn til þeirrar náttúruverndar sem tillagan gerir ráð fyrir.

b. Frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, 187. mál, heildarlög.

Engar efnislegar athugasemdir eru gerðar við frumvarpið að öðru leyti en því að tryggja þarf öflugri stuðning af hálfu ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga. Eðlilegt er að sá stuðningur miðist við að sveitarfélögin fái virðisaukaskatt endurgreiddan vegna fráveituframkvæmda. Stjórn SASS leggur til að ákvæði þar um verði bætt inn í frumvarpið.

c. Frumvarp til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, o.fl., 124. mál, eftirlaunaréttur og skerðing launa.

Lagt fram.

3. Bréf frá Landsvirkjun, dags. 15. desember 2008, varðandi virkjunaráform fyrirtækisins.

Samþykkt að óska eftir viðræðum við forsvarsmenn Landsvirkjunar um málið.

4. Framlög til Suðurlands á fjárlögum 2009.

Lagt fram yfirlit.

5. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og SSV, dags. 15. desember 2008, varðandi kynningarfund um Evrópuáætlanir.

Samþykkt að óska eftir kynningarfundi fyrir sveitarstjórnarmenn, stjórnendur sveitarfélaga og stofnana og fyrirtækja á starfssvæði SASS.

6. Bréf frá Heilbrigðisráðuneytinu, dags. 7. janúar 2009, varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana. Einnig lagðar fram ályktun Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og ályktun fagstjórnenda stofnunarinnar frá í gær, 8. janúar.

Stjórn SASS lýsir mikilli óánægju með þær hagræðingaraðgerðir sem felast í sameiningu heilbrigðisstofnana á svæðinu sem munu skerða þjónustu og fækka störfum á landsbyggðinni. Er það í hróplegri mótsögn við þá stefnu ríkisvaldsins að fjölga beri opinberum störfum á landsbyggðinni ef þess er kostur.

Stjórn SASS mótmælir harðlega þeirri ákvörðun að leggja niður vaktþjónustu á skurðdeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi sem mun leiða til lokunar á fæðingarþjónustu stofnunarinnar þar sem óhugsandi er talið að starfrækja fæðingardeild sem ekki er studd af fæðingarlækni á bakvakt. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að að fæðingar á síðasta ári voru um 200 talsins auk allrar annarrar þjónustu sem fæðingardeildin veitir. Þessi þjónusta færist því til Landsspítalans með öllu því óhagræði sem því fylgir fyrir notendur þjónustunnar. Auk þess er bent á að öryggi sjúklinga og sængurkvenna getur verið ógnað vegna ótryggra samgangna að vetri til.

Stjórn SASS lýsir einnig yfir mikilli óánægju með þá ákvörðun að færa yfirráð Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja frá Vestmannaeyjum. Fordæmin sýna að sú aðferðarfræði að flytja forræði stofnana frá þjónustusvæðunum leiðir jafnan til skerðingar á þjónustu. Samgöngum við Vestmannaeyjar er enn fremur þannig háttað að til þess að komast á Selfoss þurfa Eyjamenn að ferðast í um 4 tíma.

Stjórn SASS telur einsýnt að vegna landfræðilegrar sérstöðu Vestmannaeyja og Hornafjarðar verður ekki um samrekstrarmöguleika að ræða milli þessara stofnana.

Þá leggur stjórn SASS áherslu á að sveitarfélög hafi eftir sem áður möguleika á að yfirtaka rekstur heilbrigðisstofnana með þjónustusamningum við yfirvöld sbr. þann samning sem verið hefur í gildi við Sveitarfélagið Hornafjörð.

7. Önnur mál

a. Lögð fram fundargerð frá fundi forsvarsmanna aðildarsveitarfélaga SASS frá 19. desember sl. um fjármál sveitarfélaganna.

 

Fundi slitið kl. 14.30

Sveinn Pálsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
Reynir Arnarson
Guðmundur Þór Guðjónsson
Margrét K. Erlingsdóttir
Þorvarður Hjaltason