fbpx

haldinn Hótel Vík, Vík í Mýrdal fimmtudaginn 20. febrúar 2014, kl. 17.30

Mætt:  Gunnar Þorgeirsson, Sandra Dís Hafþórsdóttir,  Unnur Þormóðsdóttir, Helgi S. Haraldsson, Haukur  Guðni Kristjánsson, Reynir Arnarson, Jóhannes Gissurarson, Elín Einarsdóttir,  Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri og Þórður F. Sigurðsson ráðgjafi sem sem ritaði fundargerð.

Gunnlaugur Grettisson  og  Sigríður Lára Ásbergsdóttir boðuðu forföll.

Dagskrá:

 1. Almenningssamgöngur.

a. Yfirlit yfir farþegafjölda og skiptingu farþega 2013.

Samtals  voru farþegar á sl. ári 187 þúsund.

b. Tillaga að sumaráætlun.

Tillagan samþykkt.  Áætlunin tekur gildi sunnudaginn 18. maí nk. og lýkur laugardaginn 13. september.

 2. Umsagnir um þingmál.

a. Umsögn SASS um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun sem send  var atvinnuveganefnd Alþingis.     Formaður og framkvæmdastjóri gerðu grein fyrir umsögninni á fundi nefndarinnar 17. febrúar sl.:

Umsögnin er eftirfarandi:

1. Ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin eða samtök þeirra við undirbúning tillögunnar þrátt fyrir að í athugasemdum með tillögunni komi fram að ,,stefnt sé að því að núverandi sóknaráætlanir landshluta verði farvegur fyrir samstarf ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd byggðaáætlunar“. Árangurríkara hefði verið að hafa samráð við sveitarfélögin og samtök þeirra frá upphafi við gerð byggðaáætlunarinnar.

2. Megingalli fyrri byggðaáætlana hefur verið að þær hafa aðeins verið vel meintar viljayfirlýsingar án aðgerðaáætlunar og skuldbindingar ríkisins um framkvæmd aðgerða. Það virðist einnig gilda um þessa tillögu. Tillögur um aðgerðir í þessari tillögu eru ómarkvissar og óljósar.  Þá bendir stjórn SASS á að engin tilraun virðist hafa verið gerð til að meta árangur síðustu byggðaáætlunar. Örlög þessarar byggðaáætlunar,  ef hún verður samþykkt óbreytt, verða því þau sömu og síðustu áætlunar; hún dagar uppi  og gleymist.

3. Þar sem það er afdráttarlaus skoðun stjórnar SASS að umskrifa þurfi alla áætlunina er ekki farið í efnislegar athugasemdir eða breytingar á orðalagi og innhaldi tillögunnar.  SASS leggur áherslu á að byggðaáætlun fylgi nákvæmur aðgerðalisti í samræmi við markmið hennar, mælikvarðar settir til að fylgjast með árangri og  áætlunin endurskoðuð að tveimur árum liðnum.  Jafnframt verður, samhliða samþykkt byggðaáætlunar,  að samþykkja nauðsynleg þingmál  til að tryggja framgang hennar.  Þá  leggur SASS áherslu á að sóknaráætlanir landshluta  verði skilgreindar sem hluti byggðaáætlunar og jafnframt  verkaskipting sóknaráætlunar-svæðanna, Byggðastofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.  Þá er brýnt að ætla sóknaráætlunum landshlutanna nauðsynlegt fjármagn en eins og kunnugt er voru framlög til þeirra skorin niður við samþykkt fjárlaga í desember sl.

4. Í ljósi ofangreindra athugasemda leggur stjórn SASS til að tillagan verði dregin til baka og vinna hafin að nýju í samráði við sveitarfélögin og samtök þeirra og hugsanlega fleiri aðila. Ný tillaga verði í framhaldi af því lögð fyrir Alþingi.

b.  Minnisblað  SASS um frumvörp um umdæmi sýslumanna og lögreglustjóra sem lagt var fram á fundi með allsherjarnefnd Alþingis 13. febrúar sl.  Minnisblaðið hafði áður verið samþykkt af stjórn SASS.

,,Samtök sunnlenskra sveitarfélaga leggja áherslu á eftirfarandi atriði vegna frumvarpanna:

1. Samtökin gera ekki athugasemdir við fækkun embættanna en vekur þó athygli á kröfum Bæjarstjórnar Vestmannaeyja varðandi embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum  en þar er áhersla lögð  á landfræðilega sérstöðu byggðarlagsins sem kalli á sérlausn.

2. Samtökin leggja hins vegar höfuðáherslu á  við þessa kerfisbreytingu að þjónusta sýslumanna og lögreglustjóra batni frá því sem nú er og á það ekki síst við um löggæsluna, þrátt fyrir fyrirhugaða fjölgun lögreglumanna.  Samtökin benda í því samhengi á  að ekki er nægilegt tillit tekið til stærðar svæðisins, mikils fjölda frístundahúsa og mikils og sívaxandi fjölda ferðamanna.  Jafnframt skiptir verulegu máli að áfram verði starfsstöðvar/útibú þessara embætta á þeim stöðum þar sem embætti sýslumanna/lögreglustjóra verða lögð niður.  Á þessu er ekki tekið í frumvörpum  heldur falið ráðherra að ákveða með reglugerð.  Í athugasemdum kemur fram að skrifstofur/starfsstöðvar verði fleiri en ein í hverju umdæmi ef þörf krefur  en samtökin leggja áherslu að engar af núverandi starfsstöðvum verði lagðar niður.

3. Í  báðum frumvörpunum er  gert ráð fyrir að  umdæmamörk  verði sett af hálfu ráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.  Samtökin leggja áherslu á að mörkin verði sett í samráði við landshlutasamtök sveitarfélaga sem þekkja að öllum jafnaði betur til aðstæðna.  Heppilegast væri að mati Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga að umdæmamörkin væru í samræmi við starfssvæði landshlutasamtaka sveitarfélaga.  Það myndi auðvelda allt samráð  en  samtökin eru einmitt samráðsvettvangur sveitarfélaga á viðkomandi svæði sem einnig væri hægt að virkja til samráðs við þjónustustofnanir ríkisins.  Þá er vert að benda á heilbrigðisumdæmin hafa sömu mörk og ýmis verkefni sveitarfélaga s.s. sóknaráætlanir (stefnumótandi landshlutaáætlanir) og almenningssamgöngur.  Þá liggur fyrir að Hagstofan mun miða við þessi mörk í vinnslu og framsetningu gagna  í framtíðinni.  Æskilegt væri að mati SASS  að þjónusta ríkisins væri sem mest samhæfð á landshlutagrunni með það að markmiði að bæta þjónustuna.

4.   Í 4. grein frumvarps um framkvæmdarvald og stjórnsýslu í héraði er  kveðið á um að ráðherra geti falið sýslumönnum sérverkefni sem heyra  undir ráðuneytið og jafnframt að sýslumenn geti annast framkvæmd verkefna fyrir aðrar ríkisstofnanir.  SASS  styður þessar tillögur eindregið og hvetur til þess að samhliða afgreiðslu þessa frumvarps verði  sett af stað markviss vinna af hálfu stjórnvalda til að virkja þetta ákvæði og setja upp fjölþættar þjónustugáttir/,,one stop shops” ríkisins á starfsstöðvum sýslumannsembættanna.  Ríkisstarfsmönnum hefur fækkað jafnt og þétt á landsbyggðinni á undanförnum árum á sama tíma og þeim hefur fjölgað í Reykjavík þrátt fyrir yfirlýsta stefnu stjórnvalda um hið gagnstæða.   Með þessu lagaákvæði gefst gott tækifæri til að snúa þróuninni við.

5.  Samkvæmt lögum eru sýslumenn formenn almannavarnanefnda á viðkomandi starfssvæði.  Eðlilegt verður að telja að það hlutverk færist yfir til lögreglustjóra við  fyrirhugaðar breytingar.“

Jafnframt var lögð fram umsögn Vestmannaeyjabæjar um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum.

c. Frumvarp til laga um hafnalög (ríkisstyrkir o.fl.), 234. mál. : http://www.althingi.is/altext/143/s/0342.html

Stjórn SASS gerir ekki athugasemd við frumvarpið en gerir athugasemd við stuttan frest til athugasemda við frumvarpið.

d. Tillaga til þingsályktunar um áhættumat vegna ferðamennsku, 216. mál.  http://www.althingi.is/altext/143/s/0278.html

Stjórn SASS mælir með samþykkt tillögunnar.

e. Skýrsla nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð, 60. mál (lögð fram af iðnaðar- og viðskiptaráðherra). http://www.althingi.is/altext/143/s/0060.html

Lagt fram til kynningar.

3. Afrit af bréfi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi til menntamálaráðherra, dags. 10. febrúar 2014, vegna tillögu ráðuneytisins um skiptingu fjármagns  til menningarsamninga.

a.  Lagt fram til kynningar.

b.  Stjórn SASS leggur áherslu á að tryggð verði sanngjörn skipting framlaga ríkisins til menningarmála.  Stjórn SASS  hvetur jafnframt  ríkisstjórnina til að afgreiða sem allra fyrst fyrirliggjandi tillögu um að framlög ríkisins  til sóknaráætlana, menningarmála, atvinnuþróunar og vaxtarsamninga renni í sameiginlegum farvegi   til landshlutanna samkvæmt   sanngjarnri og gegnsærri skiptireglu.  Þá stefnu boðaði forsætisráðherra á aðalfundum landshlutasamtaka sl. haust og fyrir liggur að landshlutasamtökin öll eru fylgjandi þeim fyrirætlunum.  Því er ekki eftir neinu að bíða og raunar mjög mikilvægt  að taka ákvörðun sem fyrst því sá dráttur sem orðið hefur á málinu er farinn að valda töfum á verkefnum og vinnu  landshlutasamtakanna. 

4. Staða verkefna.

a. Könnun á leiguhúsnæði

Framkvæmdastjóri   gerði grein fyrir bréfi sem sent hefur verið út til sveitarfélaganna þar sem óskað er svara um stöðu mála.  Svör eru þegar tekin að berast og eru þau sveitarfélag sem ekki hafa enn svarað hvött til að senda inn svör fyrir lok mánaðar.  Þá hefur jafnframt verið óskað eftir upplýsingum frá lánastofnunum  um auðar íbúðir í þeirra eigu í sveitarfélögum á Suðurlandi.  Stefn er að því að niðurstöður liggi fyrir fyrri hluta marsmánaðar.

b. Háhraðatengingar á Suðurlandi

Þórður gerði grein fyrir stöðu mála.

c. Könnun um afstöðu sunnlendinga til gjaldtöku á ferðamannastöðu.

Lagðar fram frum niðurstöður en endanlegar niðurstöður verða  kynntar í næstu viku.

5. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga  frá 31. janúar sl.

Til kynningar.

6.  Fundargerðir landshlutasamtaka.

Til kynningar.

Fundi slitið kl. 19.15