Á stjórnarfundi SASS sem haldinn var 13. ágúst sl. var eftirfarandi ályktun samþykkt: Stjórn SASS leggur mikla áherslu á að mörk umdæma lögreglustjóra og sýslumanna verði þau sömu og verði innan marka Suðurkjördæmis þ.e. nái frá Ölfusi í vestri og til Hornafjarðar í austri. Mikilvægt er að samræmi sé sem mest á milli stjórnsýslueininga ríkisins á svæðinu, s.s. heilbrigðisstofnana og umdæma lögreglustjóra og sýslumanna og einnig að hagsmunaaðilar á þessu svæði geti leitað til þingmanna kjördæmisins með mál sem snerta málefni umdæma sýslumanna og lögreglustjóra. Þá bendir stjórnin á að Samtök sunnlenskra sveitarfélaga ná til þessa svæðis og eitt af mikilvægustu hlutverkum þeirra er að gæta hagsmuna sveitarfélaganna og íbúa þeirra. Þá er mikilvægt að hafa í huga að sóknaráætlanir landshlutans ná til allra sveitarfélaga landshlutans og mjög mikilvægt að þær nái til allra málaflokka.