fbpx

haldinn að Austurvegi 56  Selfossi, miðvikudaginn 13. ágúst 2014, kl. 12.00

Mætt:  Gunnar Þorgeirsson, Elín Einarsdóttir, Unnur Þormóðsdóttir, Sandra Dís Hafþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson ( í síma), Eggert Valur Guðmundsson, Sæmundur Helgason, Anna Björg Níelsdóttir, Ágúst Sigurðsson, Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri og Þórður F. Sigurðsson ráðgjafi sem skrifaði fundargerð.   Einnig sátu fundinn að hluta ráðgjafarnir/verkefnastjórarnir  Finnbogi Alfreðsson, Kristín Hreinsdóttir, Kristín Bára Gunnarsdóttir og Þórarinn E. Sveinsson og skrifstofustarfsmennirnir Alda Alfreðsdóttir, Ragnheiður Óskarsdóttir og Sólveig Sjöfn Ragnarsdóttir.

Dagskrá:

 1. Stutt kynning á stjórnarmönnum og starfsemi SASS

Starfsemin kynnt og rekstur samtakanna. Starfsmenn og stjórnarmenn kynntu sig og þau verkefni sem þeir vinna að.

 2. Fundargerð aukaðaalfundar SASS 2. júlí 2014

Til kynningar.

 3. Fundargerð sumarfundar landshlutasamtakanna 12. – 13. júní ásamt minnisblaði um sóknaráætlanir landshluta.

Formaður og framkvæmdastjóri og skýrðu frá fundinum  og minnisblað um sóknaráætlanir landshluta sem tekið var saman í kjölfar fundarins og sent stjórnvöldum.

 4.  Almenningssamgöngur

a.  Framkvæmdarstjóra falið að taka saman minnisblað um verkefnið frá árinu 2012.

b.  Kæra til Samgöngustofu vegna brota á einkaleyfi ásamt tengdum gögnum.  Samgöngustofa hefur ekki enn gripið til neinna aðgerða í málinu.

c.  Minnisblað vegna fundar með innanríkisráðherra 16. júlí.  Á fundinum var farið yfir lagalegt umhverfi almenningssamgangna og ráðherrann hvattur til að beita sér fyrir löggjöf sem skýrir einkarétt  sveitarfélaganna og tryggir úrræði við brot á honum.

d.  Yfirlit um rekstur  janúar – júlí.  4% halli er á rekstrinum það sem af er ári, sem má rekja til minnkandi framlaga ríkisins og aukinnar þjónustu.  Þá hafa fargjöld ekki hækkað í tvö og hálft      ár.  Vonir standa til að reksturinn komist á rétt ról á seinni hluta ársins.

 5. Sóknaráætlun Suðurlands

a.  Samningur um framlög  til byggðaþróunar á  Suðurlandi 2014 (sóknaráætlunar og vaxtarsamnings).  Til kynningar.

b.  Sóknaráætlun Suðurlands 2014.  Til kynningar.  Megináhersla verður lögð á  menntatengd verkefni.

c.  Nýr verkefnisstjóri.  Kristín Hreinsdóttir hefur verið  ráðin til eins árs frá 1. ágúst sl. og hefur hún tekið til starfa.

 6. Skipan verkefnisstjórnar Vaxtarsamnings Suðurlands 2014

Eftirtaldir voru skipaðir í verkefnisstjórnina:  Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður, Páll Marvin Jónsson, Hjalti Þór Vignisson, Runólfur Sigursveinsson og Guðrún Hafsteinsdóttir.

 7. Bréf frá innnríkisráðuneytinu, dags. 5. júní 2014, varðandi breytingu á umdæmamörkum nýrra lögregluembætta og staðsetningu aðalskrifstofa og  annarra skrifstofa lögreglustjóra.

Stjórn SASS leggur mikla áherslu á að  mörk umdæma lögreglustjóra og sýslumanna verði þau sömu  og verði innan marka Suðurkjördæmis þ.e. nái frá Ölfusi í vestri og til  Hornafjarðar í austri.   Mikilvægt er að samræmi sé sem mest á milli stjórnsýslueininga ríkisins á svæðinu, s.s. heilbrigðisstofnana og umdæma lögreglustjóra og sýslumanna og einnig að hagsmunaaðilar á þessu svæði geti leitað til þingmanna kjördæmisins með mál sem snerta málefni umdæma sýslumanna og lögreglustjóra.  Þá bendir stjórnin á að Samtök sunnlenskra sveitarfélaga ná  til þessa svæðis og eitt af mikilvægustu hlutverkum þeirra er að gæta hagsmuna sveitarfélaganna og íbúa þeirra.  Þá er mikilvægt að hafa í huga að sóknaráætlanir landshlutans ná til allra sveitarfélaga landshlutans og mjög   mikilvægt að þær nái til allra málaflokka.

 8. Tilnefning eins fulltrúa í undirbúningsnefnd vegna stofnunar sýslumannsembættis Suðurlands 1. janúar nk.

Samþykkt var að tilnefna Gunnar Þorgeirsson formann stjórnar SASS í verkefnisstjórnina.

 9. Yfirlit um rekstur SASS janúar – júní

Reksturinnn er innan áætlunar.

10. Starfsáætlun   SASS  ágúst til desember 2014

Lögð fram fundaáætlun stjórnar og einnig uppfærð starfs- og aðgerðaáætlun síðustu stjórnar.  Samþykkt að leggja fram nýja starfs- og aðgerðaáætlun í kjölfar ársþings SASS í október.

11.  Nýting líforku  í landbúnaðarhéruðum á norðurslóðum

Þórarinn E. Sveinsson kynnti verkefnið. Stjórn SASS samþykkir að taka þátt í verkefninu og felur framkvæmdarstjóra að fylgja því eftir.

12.  Afrit af bréfi Flóahrepps til Vegagerðarinnar, dags. 7. ágúst 2014, varðandi slæmt ástand Hamarsvegar.

Stjórn SASS tekur undir sjónarmið sveitarfélagsins. Stjórn SASS lýsir yfir áhyggjum með ástand tengivega í landshlutanum og hvetur Vegagerðina til úrbóta.

13.  Ályktanir sveitarstjórnarvettvangs EFTA frá 29. júní sl.

Formaður kynnti fund EFTA vettvangsins sem haldinn var í Grímsborgum, Grímsnes- og Grafningshreppi, og ályktanir hans.

14. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga  frá 27. júní sl. ásamt  kynningu á fyrirhuguðum námskeiðum fyrir sveitarstjórnarmenn í haust.

Til kynningar.  Stjórn SASS hvetur sunnlenska sveitarstjórnarmenn til að sækja námskeiðin.

15.  Fundargerðir landshlutasamtaka

Til kynningar.

Fundi slitið kl. 15:00