fbpx

Þjóðlendumál

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30.-31. ágúst 2002 hvetur sveitarfélög í uppsveitum Árnessýslu til að íhuga vandlega hvort ákveðin ágreiningsmál um mörk þjóðlendna verði tekin upp hjá almennum dómstólum. Tómlæti hvað þetta varðar getur haft ríkt fordæmisgildi. Jafnframt hvetur aðalfundur ríkisvaldið til að beita áhrifum sínum í þá átt að Óbyggðanefnd kalli ekki fram frekari kröfulýsingu um þjóðlendumörk frá hendi ríkisins í öðrum landshlutum meðan niðurstaða dómstóla liggur ekki fyrir.

 

Löggæsla á Suðurlandi

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30.-31. ágúst 2002 krefst þess að ríkisvaldið hækki verulega fjárveitingar til löggæslu á Suðurlandi svo lögreglan nái að sinna lögboðnum skyldum sínum.

Greinargerð: Áætlað er íbúatala tvöfaldist á venjulegum sumardegi í Árnessýslu og jafnvel þrefaldist á annasömustu ferðahelgum, svipuð þróun er í austursýslunum þótt sumarbústaðir séu þar færri. Umferð er jafnframt orðin mikil í sumarbústaði allt árið. Margir fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins eru á Suðurlandi. Íbúafjöldi á bak við hvern lögreglumann á landsvísu er 441. Sem dæmi um stöðu mála á Suðurlandi eru rúmlega 800 íbúar á bak við hvern lögreglumann í Rangárvallasýslu. Í ljósi ofangreinds samanburðar og verulegs viðbótarálags á löggæsluna vegna sumarhúsa og ferðamannastraums hlýtur það að vera meginkrafa að verulega verði aukið við framlög til löggæslu á Suðurlandi.

Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30.-31. ágúst 2002 telur nauðsynlegt að hrinda í framkvæmd verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í samræmi við þá meginreglu að saman fari framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð. Þess vegna er mikilvægt að ríkið yfirtaki sem fyrst allan kostnað af byggingu framhaldsskóla svo og heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa.

Íþrótta- og Ólympíumiðstöð á Laugarvatni.

Aðalfundur SASS, haldinn á Selfossi 30. og 31. ágúst 2002 fagnar þeim stórhuga hugmyndum sem fram hafa komið í nefndaráliti um uppbyggingu Íþrótta- og Ólympíumiðstöðvar Íslands að Laugarvatni. Sveitarfélög á Suðurlandi ítreka að uppbyggingin hefur mikið gildi fyrir íþrótta- og forvarnastarf á Íslandi. Hún styður við starf íþróttafræðaseturs Kennaraháskólans og mun efla hana sem rannsóknar- og menntastofnun.

Aðalfundurinn skorar á menntamálaráðherra að varðveita sögufrægar skólabyggingar á Laugarvatni og vísar í þeim efnum á hugmyndir úr nefndaráliti um endurbætur og framtíðarnot fyrir Héraðsskólahúsið.

Aðalfundurinn samþykkir að taka þátt í viðræðum við ríkisvaldið um uppbyggingu Íþrótta- og Ólympíumiðstöðvar Íslands að Laugarvatni.

 

Háskólanám á Suðurlandi.

Aðalfundur SASS, haldinn á Selfossi 30. og 31. ágúst 2002 beinir því til stjórnar SASS að hún að skipi þriggja manna samstarfsnefnd sem marki skýra stefnu um frekari uppbyggingu háskólanáms á Suðurlandi. Samstarfsnefndin taki upp viðræður við menntamálaráðherra um framtíð háskólanámsins. Framkvæmdin verði unnin í samvinnu við Fræðslunet Suðurlands.

 

Menningarsalur Suðurlands.

Aðalfundur SASS, haldinn á Selfossi 30. og 31. ágúst 2002 fagnar áformum um uppbyggingu menningarsalar Suðurlands á Selfossi og ítrekar nauðsyn þess að ríkisvaldið styðji vel við verkefnið. Aðalfundurinn samþykkir að sveitarfélög á Suðurlandi leggi allt að kr. 10.000.000.- í verkefnið enda verði önnur fjármögnun tryggð.

 

Fjölmiðlar á Suðurlandi.

Aðalfundur SASS, haldinn á Selfossi 30. og 31. ágúst 2002 skorar á sveitarfélög á Suðurlandi að styðja með myndarlegum hætti við fjölmiðla á svæðinu.

 

Fjölbrautaskóli Suðurlands – íþróttahús.

Aðalfundur SASS, haldinn á Selfossi 30. og 31. ágúst 2002 skorar á menntamálaráðherra að ganga nú þegar frá samningi um byggingu íþróttahúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Mikil þörf er á þessu húsnæði því auk skorts á íþróttaaðstöðu býr skólinn við mikil húsnæðisþrengsli enda eru nemendur nú rúmlega 800 talsins, en upphaflega var skólahúsið hannað fyrir 650 nemendur.

Minjavörður á Suðurlandi.

Aðalfundur SASS, haldinn á Selfossi 30. og 31. ágúst 2002 skorar á menntamálaráðherra að tryggja fjárveitingu vegna minjavarðar á Suðurlandi eins og gert hefur verið fyrir aðra landsfjórðunga og gert er ráð fyrir samkvæmt starfsskipulagi Fornleifaverndar ríkisins. Hlutverk minjavarðar er síst minna á Suðurlandi sem hefur að geyma menningarminjar sem nauðsynlegt er að huga að.

Sálfræðingur heilsugæslustöðvar.

Aðalfundur SASS, haldinn á Selfossi 30. og 31. ágúst 2002 skorar á stjórnvöld að tryggja til frambúðar stöðu sálfræðings við heilsugæslustöðvarnar á Suðurlandi. Sú óvissa sem sífellt ríkir um stöðu sálfræðings er óþolandi.

 

Skólabúðir að Skógum.

Starfshópur um skólabúðir að Skógum mun áfram vinna að uppbyggingu á skólabúðum og beinir aðalfundur SASS, haldinn á Selfossi 30. og 31. ágúst 2002 því til landsfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga og til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að unnið verði að framgangi málsins.

Uppbygging tengi- og safnvega

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30 – 31. ágúst 2002 skorar á þingmenn Suðurlands að beita sér fyrir auknu fjármagni til tengi- og safnvega. Tengivegir eru hlutfallslega stór hluti vegakerfis á Suðurlandi og eru í mörgum tilvikum forsenda eðlilegrar byggðaþróunar ekki síst á jaðarsvæðum. Ástand þessara vega er víða í engu samræmi við umferðarþunga. Ljóst er að tengi- og safnvega eru sérstaklega mikilvægir í vegakerfi Suðurlands. Þess vegna er brýnt að huga að því að endurskoða skiptingu fjármagns til tengivega þannig að meira fé komi til þeirra á Suðurlandi í ljósi mikilvægi þeirra.

Aukin áhrif sveitarstjórnarmanna.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30. – 31. ágúst 2002 skorar á þingmenn Suðurlands og Vegagerðina að taka upp aukið samstarf við sveitarstjórnarmenn um forgangsröðun verkefna í vegamálum landshlutans, hvað varðar nýbyggingar og viðhaldsverkefni.

Jafnframt er lagt til að snjómokstur á tengivegum verði alfarið í umsjá og á kostnað veghaldara.

Samgönguþing SASS.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30. – 31. ágúst 2002 skorar á stjórn SASS að boða til sérstaks aukafundar um samgöngumál á Suðurlandi með sveitarstjórnum, þingmönnum, Vegagerðinni og samgönguráðherra með það að markmiði að fundurinn samþykki samræmda samgönguáætlun fyrir Suðurland.

Umferðaröryggi.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30.-31. ágúst 2002, lýsir yfir ánægju með framtak Vegagerðarinnar við að fækka einbreiðum brún og auka þannig öryggi vegfarenda.

Fundurinn skorar á Vegagerðina að hvika hvergi frá framkvæmdum sem auka öryggi á vegum.

Suðurstrandarvegur.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30 – 31. ágúst 2002 leggur áherslu á að hvergi verði hvikað frá áformum um lagningu Suðurstrandarvegar. Vegtenging innan hins nýja Suðurkjördæmis styrkir til muna allt atvinnu- og mannlíf í kjördæminu.

Gjábakkavegur.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30.-31. ágúst 2002 skorar á samgönguráðherra og þingmenn kjördæmisins að tryggja gerð heilsársvegar á milli Þingvalla og Laugarvatns, verði komið á vegaáætlun. Ein af forsendum fyrir því að sveitafélög í uppsveitum Árnessýslu geti unnið saman og atvinnulíf og byggðaþróun verði með eðlilegum hætti er að vegtengingar innan svæðis styrkist. Uppbygging framhalds- og háskóla á Laugarvatni krefst þess að greiðar samgöngur séu á milli höfuðborgarsvæðisins og Laugarvatns. Fyrir ferðaþjónustuna og sumarhúsaeigendur er vegurinn einnig nauðsynlegur og mun hafa veruleg áhrif á búsetu- og atvinnuskilyrði í uppsveitum Árnessýslu.

Breikkun á vegum um Hellisheiði og Þrengsli.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30 – 31. ágúst 2002 skorar á yfirvöld samgöngumála að hraða breikkun á veginum um Hellisheiði og Þrengsli. Jafnframt er skorað á yfirvöld að lýsa veginn.

Vegamál í uppsveitum Árnessýslu, Hvítárbrú.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30.-31. ágúst 2002 lýsir yfir nauðsyn þess að haldin séu gefin loforð í vegaáætlun og henni ekki breytt án samráðs við heimamenn. Fundurinn telur því brýnt að nú þegar verði hafist handa við byggingu brúar á Hvítá til að bæta samgöngur og tengingu milli sveitafélaganna í uppsveitum Árnessýslu. Tengingar þessar eru forsendur sameiningar, grunnur að atvinnuuppbyggingu, menningarlífi og hagkvæmari þjónustu.

Hestamiðstöð að Gaddstaðaflötum.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30.-31. ágúst 2002 skorar á þingmenn Suðurlands, fjárveitinganefnd Alþingis og ríkisstjórn Íslands að koma sem fyrst á samningi við Rangárbakka Hestamiðstöð Suðurlands ehf. um aðkomu Ríkisins að uppbyggingaráformunum á Gaddstaðaflötum þannig að ljúka megi fjármgögnun verkefnisins.

Sameiginlegt orkufyrirtæki á Suðurlandi og Suðurnesjum.

Aðalfundur SASS, haldinn Selfossi á Hótel Selfossi 30. og 31. ágúst 2002, hvetur sveitarfélög á starfssvæðinu og í kjördæminu öllu til að huga að sameiningu orkufyrirtækja í eitt öflugt fyrirtæki.

Jafnframt verði hafnar viðræður við ríkisvaldið um kaup á þeim hluta RARIK sem starfandi er í nýju Suðurkjördæmi. Með þessu verði til sameiginlegur öflugur bakhjarl íbúa og atvinnulífs á Suðurlandi.

Þrífösun rafmagns/styrking dreifikerfis

Aðalfundur SASS, haldinn á Hótel Selfossi 30. og 31. ágúst 2002, skorar á yfirvöld raforkumála og Rafmagnsveitur ríkisins að undinn verði bráður bugur að styrkingu raforkudreifikerfisins og jafnframt að þrífösun rafmagns.

Raforkubændur/smávirkjanir.

Aðalfundur SASS, haldinn á Hótel Selfossi 30. og 31. ágúst 2002, skorar á yfirvöld raforkumála að tryggja Orkustofnun fjármagn til þess að kosta frumathuganir á virkjunarkostum smærri vatnsfalla. Jafnframt eru stjórnvöld hvött til þess að hagstæð fjármögnun fáist til smávirkjanna.

Fjarskipti og gagnaflutningur

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30 – 31. ágúst 2002 skorar á Landsímann að hraða uppbyggingu gagnaflutningskerfis og ADSL tenginga um allt land þannig að það uppfylli þarfir nútíma samfélags á sambærilegu verði um allt land, enda mjög brýnt byggða og atvinnumál. Jafnframt ítrekar fundurinn áskorun á Landsímann að byggja upp GSM farsímakerfið þannig að það þjóni því öryggishlutverki sem því er ætlað sem boðkerfi viðbragðsaðila. Í dag er ljóst að víða á Suðurlandi er kerfið ekki virkt og þjónar því ekki öryggishlutverki sínu.

Flutningskostnaður og þungaskattur.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30 – 31. ágúst 2002 skorar á þingmenn og ríkisstjórn að beita sér fyrir lækkun flutningskostnaðar á landsbyggðinni þannig að allir landsmenn sitji við sama borð. Ljóst er að flutningskostnaður er mjög íþyngjandi rekstri fyrirtækja og búsetu einstaklinga á landsbyggðinni og er því brýnt byggðamál að jafna þennan kostnað.

Atvinnuþróun.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30. og 31. ágúst árið 2002 skorar á Alþingi og ríkisstjórn að auka fjárframlög til Byggðastofnunar til að hún geti m.a. stutt af meira afli við bakið á atvinnuþróunarfélögunum sem sinna atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni. Einnig er nauðsynlegt að Byggðastofnun hafi á hverjum tíma nægilegt lánsfjármagn til atvinnuppbyggingar á landsbyggðinni á hagstæðum kjörum. Stuðningur stjórnvalda er m.a. forsenda þess að rekin sé öflug atvinnuráðgjöf heima í héraði og hvetur einstaklinga og fyrirtæki að byggja upp atvinnurekstur á landsbyggðinni.

Hálendisvegur.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30 – 31. ágúst 2002 beinir því til samgönguráðherra og þingmanna kjördæmisins að mörkuð verði stefna um uppbyggingu hálendisvega. Þeir munu tenga saman landshluta og stytta mjög flutningsleiðir á milli þeirra.

Æfinga- og kennsluflug

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30.-31. ágúst 2002 hvetur samgönguráðherra til að flytja æfinga- og kennsluflug á Selfossflugvöll. Völlurinn er og verður mikilvægur hlekkur í öryggiskeðju kjördæmisins og efling hans styður það öryggishlutverk.

Fráveitumál

Aðalfundur SASS, haldinn 30. og 31.ágúst 2002 fagnar því að loks skuli hafa verið birt skýrsla starfshóps um salmonella og campylobacter í dýrum og umhverfi á Suðurlandi en harmar jafnframt hversu langan tíma það hefur tekið. Fundurinn bendir á að ýmsar úrbætur hafa verið gerðar í umhverfismálum á Suðurlandi á þeim tíma sem liðinn er síðan upplýsingum í skýrsluna var aflað og sýnir hún því ekki rétta mynd af ástandinu í fráveitumálum á svæðinu í dag. Enn eiga sveitarfélög á Suðurlandi þó mikið og kostnaðarsamt verk fyrir höndum í þessum málum og frestur til framkvæmda styttist óðum. Því leggur fundurinn þunga áherslu á að tryggja verði áframhaldandi stuðning ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga. Á Suðurlandi eru nú þegar miklar og fjárfrekar framkvæmdir í gangi og því mikilvægt að staðið verði við skuldbindingar um 20% endurgreiðslu ríkisins. Ásamt því að í sveitarfélögum þar sem landfræðilegar aðstæður eru erfiðar komi til meiri stuðningur frá ríkinu.

Fundurinn beinir því til sveitarfélaga á Suðurlandi að lögð verði sama áhersla á fráveituframkvæmdir jafnt í þéttbýli og dreifbýli.

Skýrsla Heilbrigðiseftirlits og Heilbrigðisnefndar.

Aðalfundur SASS haldinn 30. og 31.ágúst 2002 fagnar þeim góða árangri sem Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur náð á undanförnum tveimur árum við reglubundið eftirlit og lýsir ánægju sinni með gæðavinnu og markmiðasetningu embættisins.

Áætlanir um framtíðarskipan matvælaeftirlits í landinu.

Aðalfundur SASS haldinn 30. og 31.ágúst 2002 lýsir undrun sinni á einhliða ákvörðun stjórnvalda um framtíðarskipan opinbers matvælaeftirlits í landinu en komið er fram frumvarp til laga um matvæli og heilbrigði dýra. Ef frumvarpið verður að lögum mun það veikja heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga en jafnframt margfalda eftirlit og auka skörun opinberra eftirlitsaðila. Þannig mun rekstur heilbrigðiseftirlits verða þyngri og kostnaðarsamari fyrir sveitarfélög og eftirlitsskylda aðila.

Viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi – aðstaða á Ljósheimum.

Aðalfundur SASS haldinn 30 og 31.ágúst 2002 fagnar þeim áfanga sem náðst hefur vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi. Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þessara framkvæmda og bendir fundurinn sérstaklega á þá hraklegu aðstöðu sem sjúklingum og starfsfólki á Ljósheimum hefur verið boðið upp á til margra ára.

Fundurinn leggur áherslu á að nútíminn gerir aðrar kröfur um aðbúnað og umhverfi en áður voru. Ber þar ekki síst að nefna kröfuna um einkarými hvort sem fólk býr í eigin húsnæði eða dvelur á stofnun og telur aðalfundur eðlilegt að horft sé til þeirra staðreynda við byggingu nýrra þjónustustofnana fyrir aldraða.

Rekstrarvandi hjúkrunar og dvalarheimila.

Aðalfundur Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga haldinn 30. og 31. ágúst 2002 skorar á heilbrigðis- og tryggingaráðherra og fjármálaráðherra að endurskoða nú þegar upphæð daggjalda til dvalar- og hjúkrunarheimila. Stórfelldur halli er á rekstri slíkra stofnana. Hann má m.a. rekja til launahækkana, hækkana á lyfjum og fleiri þáttum sem ekki hefur verið tekið nægjanlegt tillit til í daggjöldum, en launahækkanir voru í fullu samræmi við samninga sem ríkið gerði við heilbrigðisstéttir. Ekki hefur heldur verið tekið fullt tillit til hærra þjónustustigs sem hefur reynst nauðsynlegt til að geta sinnt því fólki sem dvelur á heimilunum.

Ekki verður við þetta ástand unað og minnir aðalfundur SASS á að ríkið á að standa straum af rekstri þessara heimila með daggjöldum og því mikilvægt að tekið sé tillit til eðlilegs rekstrarkostnaðar við ákvörðun daggjaldanna. Einnig er minnt á að lögum samkvæmt ber að hafa samráð við rekstraraðila þessara stofnana áður en ákvörðun um daggjöld er tekin.

Stjórnvöld eru hvött til að bregðast skjótt og drengilega við þessari áskorun.

Hlutverk og verkefni SASS

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30.- 31. ágúst 2002 leggur til að álitsgerð nefndar um endurskoðun á hlutverki og verkefnum SASS verði vísað til stjórnar. Hún skipi svo fimm manna nefnd sem verði skipuð þremur fulltrúum úr stjórn SASS, ásamt fulltrúum frá Heilbrigðiseftirliti og Skólaskrifstofu. Í kjölfar þeirrar vinnu verði boðað til aukaaðalfundar eigi síðar en 15. nóvember n.k. þar sem tillögurnar verði teknar til frekari umræðu og afgreiðslu svo og tillaga að breyttu skipuriti sem taki gildi 1. janúar 2003. Einnig verði endurskoðaður stofnsamningur Skólaskrifstofunnar m.t.t. framkominnar tillögu frá stjórn hennar.

Aðalfundur SASS haldinn á Hótel Selfossi 30.-31. ágúst 2002 tekur undir það álit að skoða þurfi vandlega samvinnu SASS og Sorpstöðvar Suðurlands um framkvæmdastjóra og skilgreiningu á hlutverki hans í hvorri starfsemi fyrir sig. Þessi skoðun verði unnin í samvinnu við stjórn Sorpstöðvarinnar.