Þjóðlendunefnd
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, telur að kröfunefnd ríksins hafi farið offari í kröfum sínum á hendur landeigendum í Árnessýslu. Markmið þjóðlendulaganna, þ.e. laga nr. 58/1998, er að skera úr um eignarhald á landi sem enginn geti sannað eignarétt sinn á en með kröfugerð sinni gengur ríkisvaldið þvert á þinglýstar eignarheimildir og starfar þannig alls ekki í anda laganna.
Aðalfundur SASS skorar því á fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisins, að draga kröfulínu ríkisins út fyrir þinglýstar eignarheimildir þannig að óbyggðanefnd geti tekið til við að úrskurða um þau svæði sem henni er ætlað að fjalla um. Jafnframt leggur fundurinn til að þjóðlendunefndin verði endurskipuð og að fleiri ráðuneyti komi að skipan nefndarinnar.
Refa og minkaveiðar
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, beinir þeim tilmælum til stjórnvaldsins/Umhverfisráðuneytis að kostnaður við eyðingu refa og minka verði alfarið á hendi ríkisvaldsins. Jafnframt verði stóraukið fjármagn í málaflokkinn.
Verkefnaflutningur ríkisins út á land
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, skorar á ríkisstjórn Íslands að hún beiti sér í stórauknum mæli fyrir flutningi verkefna á vegum ríkisins út á land. Með þeim stórstígu framförum sem hafa orðið í upplýsingatækni og rafrænum samskiptum á undanförnum árum hafa skapast gjörbreyttar aðstæður að þessu leyti. Einnig hvetur fundurinn til að nýjum stofnunum verði fundinn staður úti á landi ef þess er nokkur kostur og jafnframt verði kannaðir möguleikar á að flytja þær stofnanir út á land sem ekki er nauðsynlegt starfseminnar vegna að hafi aðsetur í Reykjavík.
Þjónusta Íslandspósts
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, mótmælir harðlega áformum Íslandspósts um minnkaða þjónustu og niðurlagningu fjölmargra starfa víðs vegar um Suðurland. Fundurinn bendir á þann tvískinnung ríkisvaldsins að leggja niður störf á sama tíma og ríkið stendur að sérstöku jaðarbyggðaverkefni í V-Skaftafellssýslu sem hefur þann megintilgang að fjölga störfum. Vinstri höndin verður að vita hvað sú hægri gjörir. Þá bendir fundurinn einnig á að samkvæmt skýrslu sem Byggðastofnun lét vinna fyrir um einu ári, þá hefur opinberum störfum fjölgað mjög í Reykjavík á undanförnum árum á sama tíma og slíkum störfum hefur fækkað að sama skapi á landsbyggðinni. Þeirri öfugþróun þarf að snúa við.
Suðurstrandarvegur
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, skorar á Alþingi og ríkisstjórn að gerð Suðurstrandarvegar á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur verði hraðað og litið verði á lagningu vegarins sem sérstakt verkefni í tengslum við fyrirhugaða kjördæmabreytingu, þegar Suðurland og Suðurnes renna saman í eitt kjördæmi. Ein meginforsenda slíkrar breytingar er að hið nýja Suðurkjördæmi verði ein samgönguleg heild. Þar sem aðeins 3 ár eru þar til kjördæmabreytingin tekur gildi er mjög mikilvægt að nú sem allra fyrst verði teknar ákvarðanir um framkvæmdina og fjármögnun hennar. Í því sambandi leggur aðalfundur SASS áherslu á að um sérstaka fjármögnun verði að ræða, utan hefðbundinna fjárveitinga til vegamála. Jafnframt leggur aðalfundurinn áherslu á að gerð Suðurstrandarvegar mun hafa mikla þýðingu fyrir atvinnulífið, ekki hvað síst í ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Þá er ljóst að lagning slíks vegar hefur einnig mikið gildi út frá öryggissjónarmiðum.
Hlutur Suðurlands í samgöngumálum
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, beinir því til þingmanna Suðurlands að beita sér fyrir því að hlutur Suðurlands verði aukinn í samræmi við umferðarþunga og lengd vegakerfis í landshlutanum.
Greinargerð:
Hlutur Suðurlands í vegafé er engan veginn í samræmi við lengd vegakerfis né umferðaþunga. Vakin er athygli á mikilvægi vega við uppbyggingu og tilvist atvinnulífs í landshlutanum umfram aðra landshluta sem byggja mun meira á sjó- og loftflutningum og hafa fengið fjárveitingar til hafna- og flugvallagerðar langt umfram Suðurland.
Gjábakkavegur
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, beinir því til þingmanna Suðurlands að beita sér fyrir því að flýta sem kostur er lagningu Gjábakkavegar að Laugarvatni.
Greinargerð:
Þar sem sveitarfélögin; Þingvallahreppur, Laugardalshreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur og Biskupstungnahreppur stefna að sameiningu haustið 2001, er lagning Gljábakkavegar ein af grundvallarforsendum þess að af þeirri sameiningu geti orðið. Auk þess er þetta er ein fjölmennasta ferðamannaleið landsins og myndi tilkoma vegararins létta mjög á umferðarþunga um Hellisheiði.
Aukin áhrif sveitarstjórna í samgöngumálum
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, beinir því til Alþingis, þingmanna Suðurlands og Vegagerðarinnar að taka upp aukið samstarf við sveitarstjórnir um forgangsröðun verkefna í vegamálum landshlutans, hvað varðar nýbyggingar og viðhaldsverkefni. Kostnaður við snjómokstur á tengivegum sé meðhöndlaður með sama hætti og annað viðhald, en ekki settur að hálfu á sveitarfélögin.
Fundurinn vill vekja sérstaka athygli á mikilvægi þess að sett verði á fót nefnd sem vinni hugmyndir að framtíðarskipulagi og uppbyggingu landsvega á hálendi Íslands.
Greinargerð:
Málefni safnvega og reiðvega þarf að taka til endurskoðunnar hvað varðar framkvæmdarþátt verkefnisins. Fjárframlög til þessara mála hafa verið knöpp og því afar mikilvægt að leitað verði allra leiða til að fjármagn nýtist sem best. Aðkoma sveitarfélaga að verkþáttum verkefnisins myndi gefa möguleika á betri nýtingu og hröðun verkefna þar af leiðandi.
Nauðsynlegt er að hagsmunaaðilar komi að nefnd um landsvegi og er þá sérstaklega vísað til fulltrúa sveitarfélaga, Vegagerðarinnar og Náttúruverndar ríkisins.
Lýsing yfir Hellisheiði og Þrengsli
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og18. mars 2000 fagnar áformum Orkuveitu Reykjavíkur um veglýsingu Suðurlandsvegar um Þrengsli, en leggur áherslu á mikilvægi veglýsingar á Hellisheiði. Um einn fjölfarnasta veg landsins er að ræða og akstursaðstæður á vetrum oft erfiðar. Því er hér um brýnt hagsmuna- og öryggismál allra þeirra sem um veginn fara.
Bætt símkerfi
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, skorar á Landsímann hf., að hraða og treysta uppbyggingu símkerfis um um land allt þannig að það uppfylli þarfir nútíma upplýsingasamfélags.
Greinargerð:
Fjarvinnsla er afar mikilvægur þáttur í okkar samfélagi og getur verið grundvöllur að öflugri byggðaþróun. Æskilegt er að allir landsmenn sitji við sama borð hvað verðlag og þjónustu varðar.
Í ljósi þess að boðkerfi Landsímans verður lagt niður á næstunni, verður að tryggja bætta þjónustu í farsímakerfinu enda er um afar brýnt öryggismál að ræða. Styrkja verður farsímakerfin svo þau geti tekið við þessu þjónustu og öryggismáli.
Stækkun hafnar í Þorlákshöfn
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, skorar á alþingismenn Suðurlands að beita sér af miklum þunga fyrir umtalsverðri stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn. Þær áætlanir, sem nú er unnið að hjá Siglingarmálastofnun um verulega stækkun hafnarinnar, sýna að slík framkvæmd er hagkvæm. Stór hafskipahöfn í Þorlákshöfn, sem sinnt gæti umtalsverðum inn- og útflutningi, auk núverandi þjónustuhlutverks, mun skapa margvísleg tækifæri til atvinnusköpunar og jákvæðrar byggðaþróunar fyrir Suðurland allt.
Styrking landbúnaðar
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, vekur athygli á þeim miklu möguleikum sem Suðurland hefur upp á að bjóða til fjölbreyttrar landbúnaðarframleiðslu. Landbúnaður, úrvinnslugreinar hans og ýmis atvinnustarfsemi tengd landbúnaði er umtalsverður þáttur í lífsviðurværi á Suðurlandi. Aðalfundur SASS lýsir áhyggjum sínum á núverandi afkomu þessarar atvinnugreinar og hvetur til raunhæfrar sóknar, sem styrkt geti atvinnugreinina. Í því sambandi er horft til starfsemi Búnaðarsambands Suðurlands, afurðastöðva bænda á Suðurlandi og jákvæðra aðgerða ríkisvaldsins varðandi samkeppnisstöðu íslenskrar og erlendrar landbúnaðarframleiðslu.
Styrking jaðarbyggða
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000 skorar á ríkisvaldið að tryggja svo sem kostur er, viðgang og vöxt jaðarbyggða. Mörg þau vandamál, sem slíkar byggðir fást við, verða ekki milduð nema með tilstyrk ríkisvaldsins, og leggur aðalfundurinn áherslu á að það verði gert.
Sameiginlegt orkufyrirtæki á Suðurlandi og Suðurnesjum
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, styður eindregið hugmyndir um að sérstakt orkufyrirtæki sem næði til Suðurlands og Suðurnesja verði kannaðar til hlítar.
Jöfnun raforkuverðs.
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, skorar á iðnaðarráðherra og Alþingi að nú þegar verði gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að jafna orkuverð í landinu. Ekki er vansalaust fyrir stjórnvöld hvað lítið er aðhafst í þessum efnum, á sama tíma og herðir á fólksflóttanum til Reykjavíkur, sérstaklega m.t.t. þess að orkufyrirtækin eru öll í opinberri eigu.
Raforkubændur/smávirkjanir
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, hvetur til þess að sköpuð verði skilyrði fyrir eigendur smárra raforkuvirkjana til að þeir geti selt umframorku inn á stærri markað.
Þrífösun rafmagns/styrking dreifikerfis
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, skorar á yfirvöld raforkumála og Rafmagnsveitur ríkisins að undinn verði bráður bugur að styrkingu raforkudreifikerfisins og jafnframt að þrífösun rafmagns.
Tekjustofnar og verkefni ríkis og sveitarfélaga
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, skorar á ríkisstjórn og Alþingi að vinna nú þegar að eftirtöldum verkefnum:
- a) Að 15% kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiriháttar viðhaldi heilbrigðisstofnana falli niður.
b) Að 40% kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði framhaldsskóla falli niður.
c) Að sveitarfélög fái hlutdeild í neyslusköttum.
d) Að sveitarfélögum verði tryggðar sömu tekjur og þau nú hafa af fasteignaskatti verði fyrirkomulag þeirrar skattheimtu breytt.
e) Að tryggt verði að sveitarfélögin fái nægar tekjur til að standa undir kostnaði við framkvæmd nýrra laga um félagsþjónustu.
Sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17.-18. mars 2000 skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til stöðu sálfræðings við heilsugæslustöðvarnar á Suðurlandi til frambúðar.
Fræðslunet Suðurlands
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17.-18. mars 2000 lýsir yfir ánægju sinni með stofnun Fræðslunets Suðurlands. Aðalfundurinn telur brýnt að unnið verði að því markmiði sem stefnt hefur verið að, sem felst í að efla menntun á háskólastigi á Suðurlandi. Aðalfundurinn beinir því til ríkisvaldsins að tryggð verði aukin fjárframlög til Fræðslunets Suðurlands þannig að unnt sé að vinna að framangreindu markmiði.
Fjölbrautaskóli Suðurlands
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17.-18. mars 2000, fagnar þeirri vinnu sem hafin er til undirbúnings byggingu íþróttahúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfoss og hvetur til þess að hraðað verði öllum framkvæmdum við byggingu íþróttahússins.
Aðalnámskrá grunnskóla
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17.-18. mars 2000, skorar á ríkisvaldið að tryggja fullnægjandi tekjustofna til sveitarfélaganna til að mæta kostnaðarauka sem hlýst af nýrri aðalnámskrá grunnskóla.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, fagnar væntanlegri úttekt og endurskoðun á skipulagi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sem miðar að því að það verði áfram í fararbroddi á sínu sviði svo sem verið hefur.
Þá lýsir fundurinn áhyggjum sínum af þeim sýkingum sem upp hafa komið varðandi matvælaframleiðslu í landbúnaði á Suðurlandi og hvetur sveitarstjórnir og alla aðra sem málið varða til að vanda alla umgengni við náttúruna. Nauðsynlegt er að farga hræjum, sláturúrgangi og öðru slíku strax á fullnægjandi hátt. Bæta þarf hreinsun frárennslis og koma í veg fyrir að vargfugl eigi aðgang að æti, t.d. við matvælavinnslu, fiskverkunarstöðvar, frárennslisútrásir og urðunarstaði sorps.
Heilbrigðisstofnunin á Selfossi ( Sjúkrahús Suðurlands)
Aðalfundur SASS, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17. og 18. mars 2000, telur brýnt að hið fyrsta sé gerður samningur milli fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra um framkvæmdaáætlun sem miðar að því að framkvæmdir við viðbyggingu við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi geti hafist árið 2001. Jafnframt verði tryggt að núverandi þjónustustig verði í engu skert.
Þá styður fundirinn framkomnar hugmyndir um að Heilbrigðisstofnunin Selfossi taki að sér kennslu í heimilislækningum á háskólastigi.