Fundargerð
aðalfundar SASS
haldinn á Hótel Vík í Mýrdalshreppi
26. og 27. október 2023
Setning ársþings
Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður SASS setur fundinn og býður þingfulltrúa velkomna á ársþing SASS, þakkar hún Mýrdalshreppi fyrir móttökurnar.
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Formaður tilnefnir Einar Frey Elínarson og Önnu Huld Óskarsdóttur frá Mýrdalshreppi sem fundarstjóra og Rósu Sif Jónsdóttur sem fundarritara. Er það samþykkt samhljóða.
Í lok máls felur formaður fundarstjórum stjórn fundarins.
Einar Freyr Elínarson og Anna Huld Óskarsdóttir taka til máls og bjóða fundargesti velkomna til Víkur á aðalfund SASS.
Kosning kjörbréfanefndar
Einar Freyr tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu stjórnar SASS að kjörbréfanefnd.
Kjörbréfanefnd Sveitarfélag
Aldís Hafsteinsdóttir Hrunamannahreppur
Sveinn Ægir Birgisson Sveitarfélagið Árborg
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir Rangárþing ytra
Er tillagan samþykkt samhljóða og tekur kjörbréfanefnd þegar til starfa.
Starfsskýrsla 2022 – 2023
Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður flytur skýrslu stjórnar. Fer hún yfir skipan stjórnar og skipurit. Fastráðnir starfsmenn SASS eru átta.
Fimmtán sveitarfélög eru aðilar að samtökunum en starfssvæðið nær yfir 31 þúsund ferkílómetra. Þann 1. janúar 2023 voru íbúar 33.805 og fer fjölgandi.
Grunnstarfsemi SASS snýst um að sinna hagsmunagæslu fyrir aðildarsveitarfélögin. Haldnir hafa verið 14 stjórnarfundir ásamt ýmsum öðrum fundum sem snúa að hagsmunamálum, m.a. hefur verið fundað með atvinnuráðgjöfum, þingmönnum Suðurkjördæmis, stýrihópi stjórnarráðsins og Vegagerðinni. Reglulegir samráðsfundir formanns og framkvæmdastjóra SASS með sveitastjórnarfulltrúum hafa verið gagnlegir. Einnig er fundað reglulega með formönnum og framkvæmdastjórum annarra landshlutasamtaka og með formanni og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Unnið hefur verið að uppfærslu á Samgönguáætlun SASS 2023-2033. Samningur um Sóknaráætlun Suðurlands gildir út 2024, þjónustusamningar eru í gildi við SOS, HSL, EFS o.fl. Á árinu hafa verið undirritaðir samningar við Byggðastofnun um atvinnu- og byggðaþróun, samstarfsaðila vegna verkefna byggðaþróunarfulltrúa og Íslandsstofu. Ýmsar umsagnir og ályktanir hafa verið á borði stjórnar m.a. um þingmál, umsagnir vegna HSu, sýslumanna, lögreglustjóra, einnig hafa komið inn umsagnarbeiðnir frá einstökum sveitarfélögum.
Mennta- og menningarverðlaun Suðurlands voru afhent í janúar sl. og fékk Tónlistarskóli Árnesinga menntaverðlaunin og Chrissie Telma Guðmundsdóttir menningarverðlaun fyrir verkefnið Fiðlufjör.
ART verkefnið gengur vel en markmiðið með verkefninu er að styrkja og efla fjölskyldur á Suðurlandi með kennslu árangursríkra leiða til að draga úr hegðunarvanda barna, fyrirbyggja ofbeldi og auka tilfinningarstjórnun fjölskyldumeðlima og efla félags- og samskiptafærni þeirra. Mikil aðsókn hefur verið og hefur teymið fjölgað plássum í fjölskyldumeðferð en þrátt fyrir það komast færri að en vilja. Tryggja þarf áframhaldandi fjármagn í verkefnið en samningurinn við mennta- og barnamálaráðuneytið (var gerður við félagsmálaráðuneytið) rennur út í lok árs 2024.
Einnig þarf að tryggja fjármagn til atvinnuráðgjafar og sóknaráætlunar en samkvæmt fjárlögum 2024 er raunlækkun á fjármagni til þessara þátta, samtökin hafa sent umsögn á fjárlaganefnd varðandi fjárlögin og einnig var send umsögn með öðrum landshlutasamtökum og tekið undir umsögn Byggðastofnunar.
Á árinu var skrifað undir samning við samstarfsaðila um starfsemi byggðaþróunarfulltrúa. Unnið er út frá skilgreiningu sjö atvinnusóknarsvæða á Suðurlandi og eru sjö fulltrúar á svæðunum.
Helstu hlutverk byggðaþróunarfulltrúa og SASS eru ráðgjöf og handleiðsla, upplýsingaöflun, kynning og upplýsingamiðlun, svæðisbundin verkefnaþróun og verkefnavinna. Haldnir eru reglulegir fundir, en þar er faglegur stuðningur og alltaf hægt að leita upplýsinga. Ýmislegt er tekið út úr þeirri vinnu sem þessir fundir skila og í framhaldi er starfsskýrslu skilað til SASS sem er byggð á áherslum og stefnumótun hvers svæðis með Sóknaráætlun í huga.
Megin markmið Sóknaráætlunar Suðurlands eru þríþætt, vinna að stefnumörkun landshlutans, ráðstafa fjármunum til áhersluverkefna og úthluta styrkjum til menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefna.
Uppbyggingarsjóður Suðurlands er hluti af Sóknaráætlun SASS. Úr honum er úthlutað tvisvar á ári í fyrrgreindum flokkum. Markmið sjóðsins er að styðja við verkefni sem efla fjölbreytileika atvinnulífs og jákvæða samfélagsþróun, efla menningarstarfsemi og listsköpun og styðja atvinnuskapandi og eða framleiðniaukandi verkefni á Suðurlandi. Árangursmat er unnið árlega og er send könnun til þeirra sem hljóta styrki á ákveðnu tímabili og hafa lokið við verkefni sín. Könnunin gefur skýra mynd af upplifun þeirra sem fá styrki.
Úthlutanir úr Uppbyggingarsjóði 2022-2023. Í haustúthlutun 2022 bárust 90 umsóknir og var úthlutað 32,6 m.kr. til 58 verkefna. Í vorúthlutun 2023 bárust 120 umsóknir og var úthlutað 37,7 m.kr. til 62 verkefna. Nú er unnið úr umsóknum haustsins 2023 en 96 umsóknir bárust.
Áhersluverkefni Sóknaráætlunar eru þróunarverkefni fjármögnuð sem hluti af Sóknaráætlun, sem unnin eru af starfsmönnum, byggðaþróunarfulltrúum eða öðrum einstaklingum eða stofnunum sem samið er við. Á árinu 2023 var varið samtals 55,5 m.kr. til 13 áhersluverkefna. Formaður fer yfir verkefni sem eru ýmist til eins árs eða lengri tíma.
Áhersluverkefni 2023 eru: Orkídea, Svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið, Sigurhæðir, Sóknarfæri Suðurlands, Sinfóníuhljómsveit Suðurlands – skólatónleikar, Eldfjallaleiðin II, Skjálftinn – hæfileikakeppni grunnskóla á Suðurlandi, Menntahvöt 2.0, Jafningjafræðsla á Suðurlandi, Starfamessa á Suðurlandi, Umhverfis Suðurland, Íbúakönnun og Nýsköpunargátt Suðurlands.
Meðal eldri verkefna má nefna Innleiðingu loftlagsáætlana sveitarfélaga, Matarfrumkvöðlar og smáframleiðendur á Suðurlandi – handbók, Stórskipakantur í Vestmannaeyjum, Ölfus Cluster, Svæðismörkun Katla Unesco Global Geopark og Þróun ferðamennskusamfélags – fyrstu skref.
Að lokum ræðir formaður um áskoranir SASS á komandi starfsári sem eru: „Hvar liggja ofurkraftar sunnlensk samfélags og hvernig virkjum við þá?“ Áskoranirnar eru margar og lausnirnar líka. Hvetur formaður þingfulltrúa til að fylgja samfélagsmiðlum SASS og deila þeim áfram.
Niðurstöður kjörbréfanefndar um lögmæti fundarins
Aldís Hafsteinsdóttir formaður kjörnefndar kveður sér hljóðs og kynnir niðurstöður um lögmæti fundarins. Kemur fram að kjörnir fulltrúar eru 70. Alls eru 65 aðalfulltrúar mættir, einn varamaður og fjórir fjarverandi. Fundurinn úrskurðast því lögmætur.
Ársreikningur SASS 2022
Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS kynnir ársreikning SASS fyrir árið 2022. Tekjur SASS 2022 voru 192 m.kr., rekstrargjöld 201 m.kr. og fjármunatekjur um 2 m.kr. Rekstrartap ársins var því um 7 m.kr. en skýringin á tapinu felst í breytingum á lífeyrisskuldbindingum á milli ára sem nema 21 m.kr.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.
Fjárhagsáætlun SASS 2024
Bjarni Guðmundsson kynnir fjárhagsstöðuna á yfirstandandi ári og fer yfir helstu veltutölur. Í framhaldi kynnir hann fjárhagsáætlun SASS fyrir árið 2024 og fer yfir forsendur tekju- og gjaldaliða. Gert er ráð fyrir að gjald á íbúa hvers sveitarfélags sem aðild á að samtökunum hækki um 3,6%, almennt hækki gjaldaliðir um 3% en laun um 5% sem er vegna áætlaðra breytinga á launum í komandi kjarasamningum. Gert er ráð fyrir að tekjur og gjöld samtakanna verði um 197 m.kr. og að rekstrarniðurstaða verði réttum megin við núllið. Nánar verður farið yfir áætlunina hjá fjárhagsnefnd af formanni nefndarinnar síðar í dag.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.
Tillaga um laun stjórnar og nefnda/ráða
Bjarni Guðmundsson kynnir tillögu stjórnar um laun stjórnar, ráða og nefnda.
Tillaga til aðalfundar SASS 26. október 2023 um laun stjórnar, ráða og nefnda
- Laun stjórnar skulu nema 4% af þingfararkaupi fyrir hvern fund. Föst mánaðarlaun formanns skulu nema 10% af þingfarakaupi en auk þess fær formaður 4,5% af þingfararkaupi fyrir hvern stjórnarfund. Fyrir aðra fundi í ráðum og nefndum skulu þau nema 3% af þingfarakaupi fyrir hvern fund.
- Laun fulltrúa í ráðum og nefndum skulu nema 3% af þingfararkaupi fyrir hvern fund. Laun formanns ráðs eða nefndar skulu nema 4% af þingfararkaupi fyrir hvern fund.
Fulltrúar í stjórnum, ráðum og nefndum skulu fá greitt fyrir akstur til og frá fundarstað skv. akstursdagbók í samræmi við reglur RSK um aksturskostnað.
Kosning í stjórn og nefndir
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður kjörnefndar SASS, leggur til eftirfarandi tillögur kjörnefndar að skipan í nefndir og ráð samtakanna:
Eftirfarandi er tillaga kjörnefndar að skipan stjórnar Fræðslunets Suðurlands sem skipuð er til eins árs í senn:
Aðalmaður:
Hulda Kristjánsdóttir, Flóahreppur
Varamaður:
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur
Eftirfarandi er tillaga kjörnefndar að skipan stjórnar Markaðsstofu Suðurlands sem skipuð er til eins árs í senn:
Aðalmenn:
Ásgerður Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Varamenn:
Árni Eiríksson, Flóahreppur
Arnar Freyr Ólafsson, Sveitarfélagið Árborg
Eignarhaldsfélag Suðurlands:
Aðalmenn:
Bragi Bjarnason, Sveitarfélagið Árborg
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Rangárþing ytra
Varamenn:
Kjartan Björnsson, Sveitarfélagið Árborg
Nanna Jónsdóttir, Ásahreppur
Stjórn SASS
Í samþykktum SASS er tilgreint í gr. 4.2 að „Enginn skal eiga sæti lengur en 6 ár samfellt í stjórn.“ Í tilfelli tveggja stjórnarmanna, þeirra Ásgerðar K. og Grétars Inga, eru sex ár liðin þann 26. júní 2024 þar sem þau voru fyrst kosin á auka aðalfundi SASS sem haldinn var í Vestmannaeyjum 27. júní 2018. Kjörnefnd er meðvituð um þá stöðu að þau tvö muni ljúka sínu sex ára tímabili þann 26. júní 2024 og því verður að kjósa að nýju í stjórn SASS þegar þar að kemur. Kjörnefnd telur jafnframt eðlilegt að stjórn SASS bregðist við þeirri stöðu með boðun aukaaðalfundar sem halda skal í síðasta lagi 26. júní nk. þar sem kosið yrði um þessi tvö sæti í stjórn og jafnframt um formann og varaformann SASS.
Tillaga kjörnefndar að aðal- og varamönnum í stjórn SASS er eftirfarandi:
Aðalmenn:
Ásgerður Kristín Gylfadóttir Sveitarfélagið Hornafjörður
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Rangárþing ytra
Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjabær
Árni Eiríksson, Flóahreppur
Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Arnar Freyr Ólafsson, Sveitarfélagið Árborg
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Hveragerðisbær
Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus
Varamenn:
Gauti Árnason, Sveitarfélagið Hornafjörður
Jóhannes Gissurarson, Skaftárhreppur
Eyþór Harðarson, Vestmannaeyjabær
Anton Kári Halldórsson, Rangárþing eystra
Bragi Bjarnason, Sveitarfélagið Árborg
Ellý Tómasdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Jón Bjarnason, Hrunamannahreppur
Sandra Sigurðardóttir, Hveragerðisbær
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus
Formaður: Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Varaformaður: Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus
Kjörnefnd SASS
Aðalmenn:
Eyrún Fríða Árnadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Auður Guðbjörnsdóttir, Skaftárhreppur
Íris Róbertsdóttir, Vestmannaeyjabær
Tómas Birgir Magnússon, Rangárþing eystra
Aldís Hafsteinsdóttir, Hrunamannahreppur
Smári B. Kolbeinsson, Grímsnes- og Grafningshreppur
Kjartan Björnsson, Sveitarfélagið Árborg
Njörður Sigurðsson, Hveragerðisbær
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus
Varamenn:
Hjördís Edda Olgeirsdóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Björn Þór Ólafsson, Mýrdalshreppur
Helga Jóhanna Harðardóttir, Vestmannaeyjabær
Eggert Valur Guðmundsson, Rangárþing ytra
Helga Lind Pálsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Ásta Stefánsdóttir, Bláskógabyggð
Bjarni Ásbjörnsson, Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Halldór Benjamín Hreinsson, Hveragerðisbær
Erla Sif Markúsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus
Formaður: Aldís Hafsteinsdóttir, Hrunamannahreppur
Varaformaður: Tómas Birgir Magnússon, Rangárþing eystra
Tillögur kjörnefndar SASS eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.
Skipulag byggðaþróunarfulltrúa
Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri þróunarsviðs SASS, fer yfir skipulag og hlutverk byggðaþróunarfulltrúa.
Suðurlandi afmarkast af sjö atvinnusóknarsvæðum og þar starfa nú sex byggðaþróunarfulltrúar en nýlega bættust við fulltrúar fyrir Uppsveitir Árnessýslu og Rangárvallasýsla í hópinn. Byggðaþróunarfulltrúi styður við þróun byggðar á sínu starfssvæði með virkri þátttöku íbúa, sveitarfélags, fyrirtækja og SASS. Markmiðið er að samfélögin verði sjálfbær og heilbrigð með því að bera kennsl á og vinna að eigin lausnum í viðfangsefnum tengdum efnahag, samfélagi og umhverfi. Megin hlutverk byggðaþróunarfulltrúans eru fjögur þ.e. 1) ráðgjöf og handleiðsla, 2) upplýsingaöflun, 3) kynningarmál og upplýsingamiðlun og 4) svæðisbundin verkefnaþróun og verkefnavinna. Byggðaþróunarfulltrúi veitir ráðgjöf til einstaklinga, frumkvöðla, stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja. Áhersla er á umsækjendur og styrkþega Uppbyggingarsjóðs Suðurlands, þarna fær fólk ráðgjöf og leiðbeiningar og einnig tengingar við fyrirtæki og hópa. Einnig er í boði ýmis fræðsla, fyrirlestrar og námskeið. Verið er að safna saman og greina upplýsingar um þróun byggðar s.s. á sviði atvinnulífs, búsetuþróunar og búsetuþátta ásamt ýmsum öðrum upplýsingum sem koma fram á hverjum stað fyrir sig. Þeir vinna einnig að stefnumörkun svæðisins með sveitarstjórn og vinnur að þróun svæðisbundinna verkefna. Hann fer einnig yfir hlutverk SASS í samstarfinu.
Sýnt er myndband af styrkþegum í Uppbyggingarsjóði Suðurlands þar sem þau segja frá sínum fyrirtækjum og hugmyndum.
Anna Huld Óskarsdóttir tekur við stjórn fundarins.
Hvernig virkjum við rödd ungmenna á Suðurlandi?
Sólmundur Sigurðarson formaður Ungmennaráðs Suðurlands.
Sólmundur kynnir að huga þurfi að endurnýjun í öllum stjórnun og ráðum ungmennaráða í sveitarfélögunum. Það þarf að passa upp á að aðilar úreldist ekki í sínu hlutverki. Endurnýjun er mikilvæg í ungmennaráðum því að það kemur nýr árgangur á hverju ári með nýjar hugmyndir og nýja rödd. Hann hvetur sveitarfélögin til að hlusta á ungmenni. Það þarf að vera starfsmaður á vegum sveitarfélaganna sem vinnur með hverju ungmennaráði. Sá aðili er þá tengiliður við stjórnsýsluna og heldur utan um ráðin, passar upp á fundargerðir o.fl. Það hefur vantað umsjónarmann með ungmennaráði SASS en nú hefur Ingvi Már Guðnason hjá SASS tekið við því hlutverki sem er gleðiefni. Unnið er að því að endurvekja ungmennaráðin hjá sveitarfélögunum þar sem þau hafa fallið út. Suðurland hefur verið leiðandi á ungmennaráðsvettvangi og vill Sólmundur að það verði þannig áfram. Það er mikilvægt að vera með virk ungmennaráð en þau þurfa að hafa greiðan aðgang að ungmennaráðunum á landsvísu sem og sveitarstjórnum. Hann hvetur líka sveitarstjórnir til að birta fundargerðir ungmennaráða á sínum heimasíðum.
Lýðfræðileg þróun – Fjölmenning – Hvernig bregst samfélagið við?
Nicole Leigh Mosty innflytjenda- og leikskólastjóri í Vík
Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps
Nicole ræðir um mikilvægi inngildingar eða fjölmenningarstefnu. Huga þarf að fjölbreytileika. Hafa þarf í huga að fjölmenning er ekki á ábyrgð eins aðila, hún er á ábyrgð alls samfélagsins. Með því að leggja vinnu í að gera fjölmenningarstefnu er hægt að hafa jákvæð áhrif á viðhorf til margbreytileika og vellíðan íbúa um leið og það skapar raunveruleg tækifæri fyrir alla hagsmunaaðila að axla ábyrgð samhliða því að efla samstöðu og þverfaglegt samstarf. Loks þarf að efla sameiginlegan skilning á raunverulegri stöðu samfélagsins varðandi málefni innflytjenda. Þetta er skuldbinding hins opinbera við fjölmenningu og þróun samfélags. Fjölbreytileiki er metinn sem styrkleiki svæðis og sem hvati fyrir inngildingu og virkri þátttöku óháð uppruna.
Það er mikilvægt að virkja öll svið bæjar- og sveitarfélaga, það er ekki einungis velferðarsvið eða velferðarþjónusta sem þarf að bregðast við, það þurfa allir að bregðast við.
Það þarf að greina hvernig staðan er í dag og kanna hvort aðilar nýti sér þá þjónustu sem boðið er upp á. Það þarf að huga að samsetningu bæjarfélagsins, skoða aldur, kyn, menntun, fjölskyldugerð, þjóðerni og stöðu á vinnumarkaði. Einnig þarf að kanna þátttöku innflytjenda og barna af erlendum uppruna í skipulögðu félagsstarfi og samfélagstengdri starfsemi. Með þess konar greiningu er hægt að komast að því hvaða þjónustu vantar hjá bæjarfélaginu.
Nicole fer yfir hvað sveitarfélög þurfa að hafa í huga sem stjórnvald, atvinnurekandi og sem miðstöð þjónustu.
Samfélag þarf alltaf að vera í mótun. Það þurfa að vera fyrirbyggjandi og uppbyggjandi aðgerðir t.d. aðgerðir sem snúa að félagslegri virkni og þátttöku, fræðslu og þjálfun starfsfólks. Huga þarf að því að fá félög s.s. stéttarfélög, fyrirtæki og félagasamtök með í verkefnið.
Hún segir skipta gríðarlega miklu máli að vera með móttökuáætlun, því það skiptir máli hvernig móttakan er og hún þarf að vera eins fyrir alla.
Mikilvægt er að hafa í huga aðgerðir sem stuðla að virkni hjá stéttarfélögum, fyrirtækjum og grasrót í sveitarfélaginu öllu.
Einar Freyr ræðir um lýðfræðilega þróun sem hefur átt sér stað í Mýrdalshreppi. Hlutfall erlendra íbúa í Mýrdalshreppi í dag er yfir 60% samkvæmt nýjustu íbúatölum. Fjölgunin á sér stað mjög hratt, einnig í Skaftárhreppi og Rangárþingi eystra, ástæðan er hröð uppbygging ferða-þjónustunnar sem er mannaflsfrek atvinnugrein en mikil fjölgun á gistirýmum kallar á þjónustu, sinna þarf afþreyingu og veitingastöðum sem ekki er hægt að reka nema að vera með mikinn mannafla. Fjölgunin hefur síðan áhrif á íbúðamarkaðinn því það þarf að útvega starfsmönnunum íbúðarhúsnæði en bæði sveitarfélagið og fyrirtækin eru að leigja húsnæði fyrir sína starfsmenn.
Kosningalögum var breytt fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar en við þá breytingu nærri fjórfaldaðist fjöldi erlendra íbúa á kjörskrá og aðrar áherslur urðu á stjórnsýslu sveitarfélagsins m.a. er nú komið enskumælandi ráð með 7 fulltrúum af 6 mismunandi þjóðernum sem halda fundi mánaðarlega um fjölbreytt málefni. Einar Freyr var sjálfur tortrygginn í upphafi en hann mætir á alla fundi, þar eru ýmis mál rædd, einnig eru tekin fyrir mál frá öðrum ráðum ásamt því að ný mál eru sett á dagskrá. Upplýsingamiðlun skiptir miklu máli en á heimasíðu Mýrdalshrepps er enskur vefur með upplýsingum, en það er mikilvægt fyrir íbúa. Stefnan er að móta samfélagsstefnu til framtíðar, tryggja að fjöltyngd börn fái nauðsynlega þjónustu, auka framboð á leiguíbúðum og efla þjónustu og draga úr íbúaveltu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
Kynning á umhverfis- og orkumálum.
Guðlaugur Þór ræðir um mikilvægi góðra samskipta milli ríkis og sveitarfélaga.
Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna frá 1992 er grunnurinn að allri skuldbindingu Íslands í loftslagsmálum ásamt þremur stórum viðbótum sem gerðar hafa verið við samninginn. Ísland er í samfloti við ESB í markmiðum Evrópu, gagnvart Parísarsáttmálanum. Í upphafi var viðmiðunarárið 2005 og fékk Ísland þá úthlutað 29% samdrætti en árið 2019 voru markmið losunar hert og er hlutdeild Íslands komin í að minnka losun um 40% árið 2030.
Fer Guðlaugur Þór yfir skiptingu losunar á beina ábyrgð Íslands 2022. Þar eru vegasamgöngur, fiskiskip og landbúnaður með stærstan hluta af losun.
Ísland hefur náð að minnka losun um 12% en ætti að vera komið í 26% í ár og árið 2030 eigum við að vera búin að minnka losun um 40%.
Aðeins hefur orðið samdráttur í losun frá fyrra ári hjá fiskiskipum, kælibúnaði (F-gös) og örlítið í landbúnaði en aukning á losun er í fiskimjölsverksmiðjum, rafmagns- og húshitun, vegasamgöngum og jarðvarmavirkjunum. Ríki og sveitarfélög eru ekki að standa sig nógu vel.
En hvað gerist ef við náum ekki 40% samdrætti 2030? Það ríkir enn óvissa um verð á einingum við uppgjör 2030 en samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir mun kostnaður verða á bilinu 1-10 milljarðar króna á ári. Íslenska ríkið hefur selt losunarheimildir vegna ETS kerfisins fyrir 12 ma.kr. á sl. 5 árum.
Það er mikilvægt samvinnuverkefni að aðlaga loftslagsbreytingar. Gefin var út skýrsla um tillögur fyrir gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Í skýrslunni kemur m.a. fram hverjar eru þær fjórar forgangsaðgerðir sem þarf að huga að. Loftslagsatlas Íslands, vöktunaráætlun – átak í rannsóknum, gagnagátt fyrir náttúruvá og kerfislægir loftslagsáhættuvísar. Einnig eru fleiri skýrslur sem gefa upplýsingar eins og vísindanefndaskýrsla frá IPCC.
Græn orkumál, það hefur lítið gerst í þeim málum sl. 15. ár en það eru stórar áskoranir, fer Guðlaugur Þór yfir frumorkunotkun á Íslandi og breytingar á þeim.
Næsta verkefni er að fara í orkuskipti 3. Staðan á landinu í dag er að 2/3 hitaveitna á Íslandi sjá fram á aukna eftirspurn og eru í vandræðum með að mæta henni og tæpur helmingur sér fram á kostnaðarsamt viðhald á dreifikerfi og öðrum innviðum.
Fram undan eru sex stór skref í orkumálum, rammaáætlun samþykkt, aflaukningar- og varmadælu- frumvörp, efla þarf Orkusjóð, átak í jarðhitaleit og Suðurnesjalína 2.
Verkefnalisti vetrarins í orkumálum inniheldur raforkuöryggisfrumvarp, fjórða áfanga ramma-áætlunar, frumvarp um vindorku, tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, sameiningu stofnana og einföldun leyfisveitingaferla, endurskoðun uppbyggingu raforkukerfisins, skoðun á að allir geti selt inn á kerfið en það ætti að vera auðveldara með tilkomu snjallmæla, orkusparnað og skýrslu um orkunýtni.
Guðlaugur Þór leggur áherslu á aukið samstarf við sveitarfélögin en markmiðið er að auka störf í landshlutanum, umhverfisráðuneytið er og hefur verið að gera samninga við landshlutasamtök sveitarfélaga og er bakhjarl ýmissa verkefna í landshlutanum.
Í dag eru stofnanir umhverfisráðuneytisins þrettán og með fjölmörg verkefni.
Ræðir Guðlaugur Þór um nýtt stjórnarfyrirkomulag þjóðgarða en það er mikilvægt að heimamenn ráði för. Óbreytt fyrirkomulag verður í Vatnajökulsþjóðgarði og Þingvallaþjóðgarði.
Guðlaugur Þór ræðir um niðurstöðu starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum. Gerðar hafa verið margar skýrslur og er niðurstaðan alltaf sú sama, tillögur eru gerðar um breytingar. Kerfið er óskilvirkt og þungt og án samræmis. Þær úrbætur sem gerðar hafa verið hafa einkennst af bútasaumi og því er tímabært að fara í heildstæða endurskoðun á núverandi kerfi. Í dag eru heilbrigðiseftirlitssvæðin níu með níu heilbrigðisnefndir.
Sviðsmyndirnar í dag eru þrjár:
- Heilbrigðiseftirlitssvæðum verði fækkað.
- Matvælaeftirlitið verði hjá einni stofnun.
- Allt eftirlitið verði hjá stofnunum ríkisins.
Niðurstaðan er sú að sviðsmynd númer þrjú uppfyllir best kröfur erindisbréfs starfshópsins. Það kallar á markvisst samstarf hlutaðeigenda, ráðuneyta og stofnana en einnig kallar það á tilfærslu á fjármunum og mannauði. Ef sviðsmynd númer þrjú verður fyrir valinu yrðu miklar breytingar á framkvæmd og löggjöf. Sveitarstjórnarfólk og sveitarstjórnir þurfa að skoða skýrsluna vel og mynda sér skoðun á þessum málum og senda umsagnir í samráðsgátt. Hafa þarf í huga að það er ekki vilji til að færa öll störfin á höfuðborgarsvæðið.
Ræðir Guðlaugur Þór um hver ávinningurinn er af sjálfbæru Íslandi. Það er gríðarleg þróun í ferðaþjónustu, áliðnaði og sjávarútvegi.
Að lokum ræðir Guðlaugur Þór um efnahagslegt verðmæti í náttúru Íslands en 89% ferðamanna segjast ferðast til Íslands til að sjá ósnortna náttúru samkvæmt skoðunarkönnun SAF.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Til máls taka Páll Magnússon, Íris Róbertsdóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Sigrún Guðmundsdóttir, Haraldur Þór Jónsson og Hrönn Guðmundsdóttir.
Einar Freyr Elínarson tekur við stjórn fundarins.
Ávörp
Hermann Sæmundsson ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytis
Hermann skilar góðum kveðjum frá Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra sem því miður forfallaðist.
Áður en Hermann varð ráðuneytisstjóri vann hann mikið með byggðaráðum og að öðru því tengdu á sveitarstjórnarstiginu og hefur hann því mikla þekkingu á því sviði.
Nú eru tvö ár frá því að innviðaráðuneytið varð til og hefur verið unnið að stefnumótun í fimm málaflokkum, byggða-, húsnæðis-, samgöngu-, skipulags- og sveitarstjórnarmálum.
Byggðaáætlun var afgreidd á síðasta ári og gildir í 15 ár. Byggðaáætlun skal hafa það að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt.
Mælt hefur verið fyrir Samgönguáætlun til næstu 15 ára á Alþingi. Tekur hún á megin markmiðum um samgöngur og að þær séu greiðar, hagkvæmar og öruggar og umhverfislega sjálfbærar, auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðarþróun. Áætlað er að fjárfesting verði um 1.000 milljarðar á þessum 15 árum fyrir utan Ölfusárbrúna, Sundabrautina og tvöföldun Hvalfjarðarganga.
Innanlandsflugið er einnig innan þessarar áætlunar. Það er stórhugur í áætluninni m.a. að fjölmargir stofnvegir verði með aðskildum akstursstefnum, lagning slitlags og útrýming á öllum einbreiðum brúm á þjóðveginum ásamt jarðgangagerð.
Unnið er að hvítbók um húsnæðismál og er hún nú í lokaundirbúningi, tillaga til þingsályktunar um fyrstu skýru stefnu ríkisins í húsnæðismálum. Það þarf meiri stöðugleika á ákveðnum svæðum, fjölga þarf byggingum og einnig þarf húsnæði að vera á viðráðanlegu verði. Það þarf 4.000 íbúðir á ári næstu 10 árin. Ríkið leggur upp úr að fjölgun verði á almennum íbúðum. Uppbygging á íbúðarhúsnæði á sér stað um allt land og hefur aldrei verið eins mikið um nýbyggingar á landinu eins og nú og eru hlutdeildarlánin að skila sér.
Landsskipulagsstefna til 15 ára hefur verið í vinnslu í allt sumar. Er hún mynduð af gildandi stefnu en tekur hún einnig mið af fleiri áætlunum og opinberum stefnum bæði á Íslandi og einnig alþjóðlegum skuldbindingum sem hafa þýðingu fyrir skipulagsmál. Einnig var ráðist í samráð og samstarf og voru fengnar ábendingar frá hagaðilum.
Mælt hefur verið fyrir Sveitarstjórnaráætluninni en hún er afrakstur af samráði og samtali við sveitarfélögin og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta er áætlun sem er sameign ríkis og sveitarfélaga. Í þessari áætlun kemur m.a. fram að það sé markmið að sveitarfélög verði ekki með færri en 1.000 íbúa og þurfa sveitarfélög að vinna að því að þetta markmið náist. Ef sveitarfélög bregðast ekki við þessu þarf að fara í ákveðið ferli og svara og senda inn greinargerð varðandi það. Stuðningur Jöfnunarsjóðs um sameiningu sveitarfélaga var stórefldur í fyrstu áætluninni. Í nýrri áætlun er ekki gert ráð fyrir stærðum sveitarfélaga heldur eru um 18 aðgerðir sem teknar eru fyrir, m.a. sjálfbær þróun sveitarfélaga, fjárhagslega, félags- og samfélagslega. Verið er að útbúa og fjölga verkfærum og tækjum til að vinna að þessu. Sveitarstjórnarlögin eru í endurskoðun og munu upplýsingar koma fljótlega. Að lokum ræðir Hermann um að tekjustofnar sveitarfélaga sé eilífðarverkefni sem þarf að skoða. Hvað er gott í dag? Þarf að bæta einhverju við? Þetta þarf að ræða og móta.
Heiða Björk Hilmarsdóttir formaður og Arnar Þór Sævarsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga
Heiða Björk, formaður sambandsins, ræðir um breytingar sem gerðar hafa verið hjá sambandinu, hvernig það geti betur unnið að sameiginlegum markmiðum sveitarfélaga. Eitt af því mikilvægasta er að auka samtal og samráð og fá sveitarfélögin til að vinna betur með þeim. Stefnubreytingar ættu að geta átt sér stað oftar en á 4 ára fresti. Fastir fundir með formönnum og framkvæmdastjórum landshlutasamtaka sveitarfélaga hafa gefist vel og þakkar hún fyrir gott samstarf.
Það er mikilvægt að sveitarstjórnarstigið að sveitarstjórnir séu sterkar, ríkið setur á allskonar áskoranir en þeim er ekki auðveldlega náð nema að hafa sterkar sveitarstjórnir. Sveitarfélögin þurfa að koma að ansi mörgum málum og það er gott að tryggja samráð við íbúana til að viðhalda lýðræðinu og til að fá meira út úr samfélaginu.
Sveitarfélög geta gert ansi margt og það þarf að rækta staðbundin gæði. Það þarf að halda í unga fólkið svo að það velji ekki frekar að fara út fyrir svæðið eða af landi brott. Við erum í meiri nálægð við náttúruna, við erum með mikla tæknibyltingu, við vinnum að breytingu í loftslagsmálum og mannréttindum. Það er mikilvægt að vinna þetta með fólkinu í landinu og hafa sameiginleg markmið. Ef Ísland ætlar að vera samkeppnishæft þá þarf að huga vel að hlutunum.
Ræðir Heiða Björg um lóðamál en það er ekki nóg að skaffa lóðirnar, innviðir verða að vera til staðar en það er oft ekki raunhæft. Hún ræðir um komandi kjarasamninga en núgildandi samningar eru fljótt lausir og miklar kröfur allra, það þarf að finna saman út úr þessu í samfélaginu og það þarf að forgangsraða.
Stjórn sambandsins er að huga að hag sveitarfélaga og hún hlakkar til frekara samstarfs.
Arnar Þór, framkvæmdastjóri sambandsins, tekur til máls. Hann sér að það er mikill kraftur í sveitarstjórnarfólki á Suðurlandi. Landshlutasamtökin eru fjölbreytileg að stærð og hlutverk þeirra er misjafnt en SASS tekst á við mjög fjölbreytt verkefni fyrir sveitarfélögin og hvetur hann sveitarstjórnarmenn að styrkja samtökin og nýta sér þau. Fundir forsvarsmanna sambandsins með samtökunum hafa verið góðir og gagnlegir.
Nýlega var samþykkt nýtt skipurit fyrir sambandið en markmiðið er að gera gott samband enn betra, það er verið að fækka sviðum úr fimm í þrjú, það verður meira unnið í teymum og jafnframt verður ábyrgðarkeðjan styrkt. Það eru spennandi tímar framundan. Fyrirhugað er að leggja mikla áherslu á greiningardeild og mun verða kallað eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum. Arnar Þór minnir sveitarstjórnarfólk á að sambandið er fyrir sveitarfélögin.
Stafræn þróun og stjórnsýsla – Hvernig gagnast hún sveitarfélögunum?
Sigríður Magnea Björgvinsdóttir, deildarstjóri Upplýsingatæknideildar, hjá Sveitarfélaginu Árborg.
Sigríður Magnea ræðir um stafræna þróun og stjórnsýslu en það skiptir máli fyrir sveitarfélögin að starfsumhverfi sé einfalt og skilvirkt.
Það liggja mikil tækifæri í að taka rafrænt á móti gögnum og koma þeim sjálfvirkt á milli kerfa, það bæði sparar tíma og gerir alla vinnu einfaldari fyrir utan það að öll skjöl eru á rafrænu formi og það þarf ekki að færa sig á milli kerfa fyrir eitt og sama verkefnið.
Með samtengingu á fjármálakerfi, mannauðskerfi o.fl. er hægt að draga saman upplýsingar og útbúa mælaborð þar sem hægt er að draga saman skýrslur og fá yfirsýn sem nýtist sveitarstjórnarmönnum til stuðnings ákvarðanatöku. Með því að setja upp tengingar milli gagna og vinnuumhverfis er hægt að búa til skýrslu fyrir opið bókhald. Með því að tengja við ytri kerfi eins og Mentor má greina kostnað niður á skóla og sjá t.d. meðaltalskostnað á nemanda í hverjum skóla. Ábendingar sem koma frá íbúum í gegnum staðlað form eins og heimasíðu er hægt að greina með því að búa til skýrslu sem sýnir t.d. hversu oft sama ábendingin berst og hvernig afgreiðslu málin fá, svartíma o.fl.
Gögn eru gull, en það þarf að koma þeim saman svo þau nýtist til skýrslugerðar og fyrir mælaborð.
Ræðir Sigríður Magnea um Strauminn sem er eins konar rafrænt vegakerfi til að senda bréf og önnur gögn á milli stofnana. Með innleiðingu Straumsins verða samskiptaleiðir milli upplýsingakerfa staðlaðar sem eykur hagræðingu og bætir þjónustu við íbúa sem verður skilvirkari og öruggari.
Sveitarfélögum verður skylt að birta íbúum sínum gögn í gegnum pósthólf island.is fyrir árslok 2024.
Nú þegar er í komin í gang samvinna milli ríkis og sveitarfélaga í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga á skilum þessara gagna til island.is í gegnum Strauminn.
Notkun á Snjallmenni er í vinnslu hjá 20 sveitarfélögum og mun þetta verða viðbót til að bæta þjónustu við íbúa auk þess að einfalda leit á vef sveitarfélags sem nýtir lausnina.
Með tilkomu farsældarlaganna myndaðist kjörið tækifæri til að vinna saman að tæknilegri útfærslu, sama má segja um sorpmálin, skipulags- og byggingarmál og önnur verkefni sem öll sveitarfélög þurfa að leysa.
Það er mikilvægt að samvinna sé milli ríkis og sveitarfélaga með áherslu á samnýtingu en samvinnan hefur aukist og tekur Sigríður Magnea fram að þessi samvinna gefi minni sveitarfélögum tækifæri til að vera þátttakendur í stafrænni vegferð hins opinbera.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Til máls taka Eggert Valur Guðmundsson og Fjóla St. Kristinsdóttir.
Hvar liggja ofurkraftar sunnlensks samfélags?
Formenn starfsnefnda kynna niðurstöður nefndarstarfs
Ályktanir og tillögur nefnda kynntar
Umræður
Ályktanir og tillögur ársþings afgreiddar
Samgöngunefnd
Njáll Ragnarsson, formaður samgöngunefndar, tekur til máls og kynnir Samgönguáætlun SASS 2023 – 2033 og tillögur nefndarinnar um helstu áhersluverkefni.
Mikilvægt er að forgangsraða vegaframkvæmdum á Suðurlandi í þágu öryggis vegfarenda s.s með því að breikka vegi, fjölga útskotum, laga vegaxlir, fækka einbreiðum brúm og bæta vetrarþjónustu. Mikill umferðarþungi er í umdæminu, ekki síst vegna mikillar fjölgunar íbúa og ferðamanna.
Efla þarf löggæslu og viðbragð sjúkraflutninga. Sýnileg löggæsla og öflugt umferðareftirlit heldur niðri umferðarhraða og eykur öryggi vegfarenda. Þá er mikilvægt að stytta viðbragðstíma lögreglu og sjúkraflutninga þar sem hann er mestur. Að því marki ber að fullkanna möguleikann á sérhæfðri sjúkraþyrlu á Suðurlandi. Brýnt er að slík þyrla verði staðsett á Suðurlandi og sé hluti af starfsemi HSu.
Nánari umfjöllun má sjá í Samgönguáætlun, sbr. hér: Samgönguáætlun SASS 2023-2033
Fundarstjóri gefur orðið laust. Til máls tekur Helgi Kjartansson.
Tillaga samgöngunefndar um Samgönguáætlun 2023-2033 er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Allsherjarnefnd
Árni Eiríksson, formaður allsherjarnefndar, tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi 2023 en megin breytingin er að nefndin leggur til við aðalfund að gera breytingar á samþykktum SASS. Tillagan felst í breytingu á starfsháttum samtakanna þannig að haldnir verði tveir fundir á ári, þ.e. „aðalfundur“ að vori og „haustfundur“ að hausti. Tíundaði hann rök nefndar fyrir breytingunni. Verði tillagan samþykkt á ársþinginu mun það hafa í för með sér að breyta þarf samþykktum samtakanna en með fundargögnum er búið að færa inn þær breytingar sem gera þarf eða skynsamlegt væri að gera á þeim verði hún samþykkt.
Tillögur að ályktunum fyrir ársþing SASS 2023
- Ársþing SASS skorar á ríkisstjórn Íslands að tryggja áframhaldandi vegferð sóknaráætlana landshluta, með samræmdri aðkomu ráðuneyta, svo hefja megi sem fyrst undirbúning að næstu Sóknaráætlun Suðurlands.
- Ársþing SASS skorar á ríkisstjórn Íslands að tryggja aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningu sveitarfélaga og að staðið verði við gefin loforð í tengslum við sameiningar sveitarfélaga s.s. um bættar samgöngur.
- Ársþing SASS hvetur sveitarfélög á Suðurlandi að horfa til lengri tíma við eflingu sveitarstjórnarstigsins með áframhaldandi samtali um mögulegar sameiningar sveitarfélaga og fækkun byggðasamlaga í landshlutanum.
Ársþing SASS lýsir yfir ánægju sinni með fyrirkomulag byggðaþróunarfulltrúa á sérhverju atvinnusóknarsvæði í landshlutanum og hvetur þá til dáða í sínum störfum fyrir samfélögin okkar.
Tillögur að verkefnum fyrir stjórn SASS
- Allsherjarnefnd leggur til við aðalfund að gera breytingar á samþykktum SASS þannig að framvegis verði haldnir tveir fundir á ári.
- Allsherjarnefnd leggr til við stjórn SASS að viðhalda reglubundnum upplýsingafundum fyrir kjörna fulltrúa, þróa það fyrirkomulag og vinna markvisst að virkri þátttöku á þeim fundum. Þeim tilmælum er hvoru tveggja beint til stjórnar, að skoða útfærslur og tímasetningar funda og gagnvart kjörnum fulltrúum, að samtal á þessum vettvangi sé mikilvægur vettvangur til að þroska og þróa samtal um hagsmunamál landshlutans allt árið um kring.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Til máls taka Helgi Kjartansson, Íris Róbertsdóttir, Bragi Bjarnason, Ása Valdís Árnadóttir, Árni Eiríksson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Iða Marsibil Jónsdóttir, Ásgerður Kristín Gylfadóttir og Aldís Hafsteinsdóttir.
Lögð er fram breytingartillaga Helga Kjartanssonar um tillögu nefndarinnar að breytingum á samþykktum SASS:
Lagt er til að tillaga allsherjarnefndar að breytingum á samþykktum SASS verði frestað til næsta auka- eða aðalfundar SASS.
Breytingartillaga Helga Kjartanssonar um að breytingum á samþykkum SASS verði frestað til næsta auka- eða aðalfundar SASS er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri gefur orðið laust áður en aðrar ályktanir og tillögur allsherjarnefndar eru bornar undir atkvæði. Enginn tekur til máls.
Aðrar ályktanir og tillögur allsherjarnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða og er þeim vísað til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.
Mennta- og menningarmálanefnd
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður mennta- og menningarmálanefndar, tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi 2023.
Helstu áskoranir eða tækifæri í tengslum við málefni nefndar
Mennta- og menningarmálanefnd SASS leggur áherslu á menntamál í landshlutanum árið 2024. Mikilvægi menningar er ótvírætt og er mikil gróska í öllum sveitarfélögum landshlutans og liggja þar fjölbreytt tækifæri.
Áskoranir
Dreifing búsetu er áskorun þegar kemur að innviðum til menntunar í landshlutanum.
Með fjölgun íbúa er aukin þörf á fjölbreyttu námi sem og fjarnámi, stærra verknámshúsi og heimavist við FSu.
Tækifæri
Gríðarleg tækifæri felast í aukinni áherslu á rannsóknir, sjálfbærni og nýsköpun í samstarfi við atvinnulífið.
Tillögur að ályktunum fyrir ársþing SASS 2023
- Ársþing SASS skorar á háskólaráðherra að tryggja jafnrétti til háskólanáms óháð búsetu með auknu aðgengi að fjarnámi á Suðurlandi og þar með færa Háskóla Íslands inn á 21. öldina.
- Ársþing SASS skorar á menntamálaráðherra að tryggja heimavist við Fjölbrautaskóla Suðurlands til að gæta jafnréttis ungmenna til náms óháð búsetu en færri komast að en vilja við núverandi aðstæður. Óvissan um framtíð heimavistarinnar er óviðunandi.
- Ársþing SASS hvetur ríki, sveitarfélög og atvinnulífið til að styðja við íslenskunám fyrir nýbúa og þar með opna dyr þeirra að samfélaginu.
- Ársþing SASS skorar á innviðaráðherra að tryggja að allar akstursleiðir skólabíla séu bundnar slitlagi innan þriggja ára til að tryggja öryggi leik- og grunnskólabarna.
Tillögur að verkefnum fyrir stjórn SASS
- Nefndin leggur til við stjórn að leita leiða til að efla rannsóknir, garðyrkjuskólann, sjálfbærni og stöðu háskólastigsins í landshlutanum meðal annars með tengslum við atvinnulífið.
- Nefndin leggur til við stjórn SASS að starfamessa verði á dagskrá með víðari skilgreiningu á verkefninu með aukinni áherslu á tengsl hennar við atvinnulífið og hagaðila í samfélaginu.
- Nefndin leggur til við stjórn að taka saman upplýsingar varðandi störf í landshlutanum með tilliti til kröfu um menntun.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.
Ályktanir og tillögur mennta- og menningarnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða og er þeim vísað til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.
Umhverfis- og skipulagsnefnd
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar, tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi 2023.
Helstu áskoranir eða tækifæri í tengslum við málefni nefndar
Helstu umræðuefni nefndarinnar voru: Flokkun og skipulag landbúnaðarlands, endurheimt votlendis, sameiginleg svæðisáætlun úrgangs á Suðurlandi, loftslagsáætlanir sveitarfélaga, minka- og refaveiðar og ágangur álfta og gæsa á túnum og í ökrum bænda.
Tillögur að ályktunum fyrir ársþing SASS 2023
- Ársþing SASS hvetur sveitarfélög á Suðurlandi að ljúka flokkun á landbúnaðarlandi. Á Suðurlandi eru um 10 sveitarfélög sem hafa flokkað landbúnaðarland í Aðalskipulagi. Sveitarfélög eru hvött til að hefja þessa vinnu til að hægt sé að fá heildstæða flokkun á Suðurlandsvísu.
- Ársþing SASS hvetur sveitarfélög á Suðurlandi að halda áfram vinnu sinni í samstarfi við SASS um gerð loftslagsáætlana og að sumarið 2024 verði öll sveitarfélög á Suðurlandi komin með loftslagsáætlun eins og lög gera ráð fyrir.
- Ársþing SASS skorar á ríkið að móta stefnu í minka- og refaveiðum og stórauka fjármagn til að halda minkum og refum í skefjum í byggð. Ljóst er að þetta hefur veruleg áhrif á fuglalíf, m.a. grágæsastofninn, mófuglar hafa horfið af vissum svæðum og einnig stafar búfé bænda í byggð hætta af þessum vargi.
- Ársþing SASS tekur undir ályktun Samtaka ungra bænda sem var haldinn á aðalfundi samtakanna að Eiðum á Fljótsdalshéraði þann 14. janúar 2023 og hvetur ríkið til að bregðast við. Ályktunin hljóðar svo: Aðalfundur Samtaka ungra bænda þykir ástæða til að tekið verði til skoðunar hvernig verjast megi tjóni af völdum álfta og gæsa með mögulegum undanþágum frá gildandi lögum og reglum varðandi friðun til bænda, burtséð frá árstíma. Greinargerð: Rannsaka mætti stofn álfta annars vegar og gæsa hins vegar með tilliti til hvaða áhrif tegundin hafi á landbúnað og önnur vistkerfi, þ.á.m. annað fuglalíf. Einnig mætti skoða hvaða áhrif ákveðin veiðitímabil hafa á grágæs og heiðagæs. Bændur verða fyrir gífurlegu tjóni bæði af völdum álfta og gæsa, misjafnt eftir landsvæðum.
- Ársþing SASS skorar á ríkið að ljúka við gerð viðmiða og kortlagningar víðerna á árinu 2024. Samkvæmt náttúruverndarlögum átti kortlagning víðerna að vera lokið 1. júní í ár. Það eru mikil vonbrigði að henni sé ekki lokið og metnaðarleysi að setja fram markmið um að ljúka kortlagningunni á tímabilinu 2024-2026. Það er óásættanlegt, því á meðan eru engin skýr viðmið og kortlagning til að miða við skipulagsgerð. – Þessi lokatillaga að ályktun var ekki send út með fundargögnum en fulltrúar í nefndinni voru sammála um að hún skyldi upp borin á ársþinginu og var það samþykkt.
Forgangsröðun nefndar á lykiláherslum stjórnar SASS 2023 – 2024
- Tengja íbúa af erlendum uppruna betur við samfélagið
- Lausnir á úrgangsmálum sveitarfélaga á Suðurlandi
- Aukið framboð fjarnáms og menntunarstig með áherslu á ferðaþjónustu
- Bætt heilbrigðisþjónusta
- Endurskoðun á samgönguáætlun SASS
Fundarstjóri gefur orðið laust. Til máls taka Aldís Hafsteinsdóttir, Anton Kári Halldórsson og Íris Róbertsdóttir.
Ályktanir og tillögur umhverfis- og skipulagsnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða, þeim er vísað til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.
Velferðarnefnd
Brynhildur Jónsdóttir, formaður velferðarnefndar, tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi 2023.
Velferðarnefnd SASS telur að innan málaflokksins sé að finna miklar áskoranir sem þó fylgja tækifæri. Velferðarmálin eru í flestum sveitarfélögum á landinu stór gjaldaliður og því brýnt að hugað sé vel að framtíðarsýn og stefnumörkun, að þjónustan sé skilvirk og taki mið af þörfum ólíkra hópa.
Innan heilbrigðiskerfisins þarf að tryggja að þjónusta sé í takt við fjölda notenda á hverju svæði og að grunnþjónusta sé tryggð. Mönnun innan heilbrigðisþjónustu er víða mikil áskorun en nefndin sér tækifæri í áframhaldandi þróun tilraunaverkefna eins og heimaspítala og fjarheilbrigðisþjónustu. Þá fagnar nefndin hugmyndum um aðgerðir til að laða heilbrigðisstarfsfólk að störfum á landsbyggðinni, svo sem með niðurfellingu á hluta námslána. Sjúkraflutningar þurfa líka að eflast í takt við fjölgun íbúa og umferð fólks sem fer um svæðið daglega. Velferðarnefnd SASS fagnar tilraunaverkefni HSu í sumar þar sem sjúkrabíll og bráðatæknir var staðsettur í Öræfum og sýnilegur á fjölsóttum ferðamannastöðum.
Velferðarnefnd SASS leggur áherslu á að fyrirkomulag endurgreiðslu vegna ferðakostnaðar innanlands við að sækja heilbrigðisþjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð verði einfaldað og stafrænni innleiðingu flýtt til að auðvelda fólki af landsbyggðinni að sækja þá endurgreiðslu sem þau eiga rétt á.
Geðheilbrigði er ein af grundvallarforsendum heilbrigðis. Áhrifaþættir geðheilbrigðis eru margir og til þess að efla geðheilbrigði þarf skýra stefnu, heildrænar aðgerðir og samvinnu ríkis og sveitarfélaga á sviðum geðræktar, forvarna og geðheilbrigðisþjónustu. Þá telur velferðarnefnd SASS tækifæri liggja í forvörnum þegar kemur að geðheilbrigði og lýðheilsu íbúa landshlutans og hvetur sunnlensk sveitarfélög til að leggja sérstaka áherslu á aðstæður og umhverfi til heilsueflingar almennings á borð við hreystivelli, hjóla- og göngustíga, opnunartíma sundstaða og þess háttar. Góð reynsla er af fjölbreyttum úrræðum á Suðurlandi og má þar nefna mikilvæg verkefni eins og Sigurhæðir og ART verkefnið.
Í málaflokki fatlaðra telur nefndin brýnt að stuðla að auknum mannréttindum og valdeflingu fatlaðs fólks með því að efla réttindagæslu, tryggja skilvirkni í úrvinnslu verkefna sem eru á borði réttindagæslunnar og vinna að lausnum fyrir einstaklinga sem ekki geta nýtt sér grundvallarþjónustu eins og rafræn skilríki.
Velferðarnefnd SASS fagnar þeim breytingum sem urðu við að barnaverndarnefndir lögðust niður og umdæmisráð tóku við hlutverki þeirra. Þessar breytingar voru tímabærar og gott skref þar sem starfið verður faglegra þegar fagfólkið sér um málin sem upp koma. Velferðarnefndin telur hins vegar mikilvægt að kostnaður við hvert mál umdæmisráða verði endurskoðaður og tryggt verði að hægt sé að vinna vel að hverju máli.
Veruleg fjölgun elstu íbúa landsins næstu áratugi mun kalla á umtalsverða fjölgun hjúkrunarrýma með aukinni hjúkrunarþyngd. Rekstrarkostnaður við hjúkrunarheimili muni því vaxa umtalsvert.
Nauðsynlegt er að tryggja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila án tafar samhliða endurskoðun málaflokksins í heild sinni. Efla þarf kvöld- og helgarþjónustu í heimahjúkrun en það er grunnforsenda þess að hægt sé að mæta áherslu stjórnvalda um sjálfstæða búsetu eldri borgara eins lengi og kostur er.
Velferðarnefnd SASS hvetur til þess að horft sé til inngildingar erlendra íbúa á Suðurlandi, þar með talið flóttafólks, með markvissri móttöku- og upplýsingamiðlun til innflytjenda. Styrkja þarf þjónustu sem stuðlar að góðum tengslum innan nærsamfélagsins og að tilgreina þátttöku þessara hópa í samfélaginu fyrir sterkara og fjölbreyttara Suðurland.
Tillögur að ályktunum fyrir ársþing SASS 2023
- Ársþing SASS skorar á ríkið að auka fjárveitingu í heilbrigðisþjónustu sem og löggæslu í takt við vaxandi íbúafjölda og gríðarlegan vöxt í umferð fólks um svæðið.
- Ársþing SASS hvetur heilbrigðisráðherra til að móta sameiginlega verkferla fyrir fjarþjónustu og stafrænar lausnir í heilbrigðiskerfinu á landsvísu.
- Ársþing SASS hvetur heilbrigðisráðherra til þess að hrinda í framkvæmd hið fyrsta áður samþykkt verkefni um rekstur sérhæfðrar sjúkraþyrlu. Brýnt er að slík þyrla verði staðsett á Suðurlandi og sé hluti af starfsemi HSu.
- Ársþing SASS skorar á heilbrigðisráðherra að efla og tryggja bráðaviðbragð sjúkraflutninga HSu. Efla þarf bráðaviðbragð þar sem bráðatilfellum fjölgar í takt við íbúa fjölgun, hækkandi lífaldurs þjóðarinnar og aukinnar viðveru ferðamanna á svæðinu. Tryggja verður bráðaviðbragð á fjölsóttustu ferðamannastöðum Suðurlands öllum stundum sólarhringsins.
- Ársþing SASS skorar á ríkið að skoða alvarlega mannaflaþörf lögreglunnar og hvernig sé hægt að mæta henni með lögreglumenntuðu starfsfólki, sérstaklega þarf að styrkja löggæslu í Skaftafellssýslum og í Uppsveitum Árnessýslu og tryggja að á þeim svæðum verði unnt að halda úti stöðugu eftirliti allt árið um kring.
- Ársþing SASS skorar á heilbrigðisráðherra að einfalda fyrirkomulag og flýta stafrænni innleiðingu á endurgreiðslu ferðakostnaðar innanlands vegna heilbrigðisþjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð.
Tillögur að verkefnum fyrir stjórn SASS
- Velferðarnefnd leggur til við stjórn SASS að tryggja umsjónarmann með ungmennaráði SASS og efla starfsemi ungmennaráða í landshlutanum og samvinnu þeirra á milli. Velferðarnefnd telur einnig mikilvægt að tryggja fjármagn til Jafningafræðslu Suðurlands.
- Velferðarnefnd leggur til við stjórn SASS að unnið sé að verkefnum sem styrkja heilsueflingu allra aldurshópa í landshlutanum. Bætt lýðheilsa tengist jafnt andlegri og líkamlegri heilsu og styrkir samfélagslega virkni.
- Velferðarnefnd hvetur stjórn SASS til að leita leiða til að tryggja áframhaldandi fjármögnun ART úrræðisins.
- Velferðarnefnd hvetur stjórn SASS til að leita og vinna að leiðum til inngildingar erlendra íbúa svæðisins í samfélagið.
- Velferðarnefnd hvetur stjórn SASS til að skoða sérstaklega aðgerð A4 í Byggðaáætlun sem miðar að því að styrkja á heildstæðan máta þjónustu á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála og athuga hvernig og hvort hægt væri að vinna að þeirri aðgerð á starfssvæði SASS.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Til máls taka Einar Freyr Elínarson, Bjarki Oddsson, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Ásgerður Kristín Gylfadóttir og Kjartan Björnsson.
Bjarni Oddsson leggur fram eftirfarandi breytingartillögu um orðalag um mannaflaþörf lögreglunnar:
Ársþing SASS skorar á ríkið að skoða alvarlega mannaflaþörf lögreglunnar og hvernig sé hægt að mæta henni með lögreglumenntuðu starfsfólki og tryggja að unnt verði að halda úti stöðugu eftirliti allt árið um kring.
Tillaga fyrir fund:
Ársþing SASS skorar á ríkið að skoða alvarlega mannaflaþörf lögreglunnar og hvernig sé hægt að mæta henni með lögreglumenntuðu starfsfólki, sérstaklega þarf að styrkja löggæslu í Skaftafellssýslu og í uppsveitum Árnessýslu og tryggja að á þeim svæðum verði unnt að halda úti stöðugu eftirliti allt árið um kring.
Breytingartillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri gefur orðið laust áður en aðrar ályktanir og tillögur velferðarnefndar eru bornar undir atkvæði. Enginn tekur til máls.
Aðrar ályktanir og tillögur velferðarnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða og er þeim vísað til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.
Atvinnumálanefnd
Arnar Freyr Ólafsson, formaður atvinnumálanefndar, tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi 2023.
Helstu áskoranir eða tækifæri í tengslum við málefni nefndar
- Atvinnumálanefnd telur helstu áskorun í málaflokknum tengjast innviðauppbyggingu og viðhaldi. Afnema þurfi dreifbýlisgjaldskrá á flutningi raforku til þess að jafna verð og aðgengi að atvinnutækifærum á Suðurlandi. Atvinnumálanefnd telur jafnframt óstöðugleikann í hagkerfinu ógnun við atvinnulífið á Suðurlandi.
- Atvinnumálanefnd telur mikil tækifæri felast byggðaþróunarfulltrúum og leggur til að atvinnusvæðið verði kortlagt til að koma betur auga á tækifæri til nýsköpunar.
Tillögur að ályktunum fyrir ársþing SASS 2023
- Ársþing SASS skorar á umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að jafna flutningsgjald raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis. Fjarlægja þarf heimild til sérstakrar dreifbýlisgjaldskráar.
- Ársþing SASS skorar á innviðaráðherra að halda áfram uppbyggingu innviða s.s. samgangna og fjarskipta á Suðurlandi. Tryggja þarf stöðugt aðgengi til að halda uppi fólks- og vöruflutningum um Suðurland.
- Ársþing SASS skorar á umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að flýta uppbyggingu á dreifikerfi raforku.
- Ársþing SASS skorar á þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd að taka upp 530. mál, þingsályktunartillögu og ganga frá lagabreytingum þannig að hægt sé að hefjast handa við að safna upplýsingum um dreifingu starfa um landsbyggðina.
- Ársþing SASS skorar á alla aðila sem koma að gerð kjarasamninga, þar á meðal ríkisstjórn Íslands, að stuðla að stöðugleika á atvinnumarkaði í komandi kjarasamningaviðræðum. Það er mikilvægt, ef ná á tökum á verðbólgunni sem sligar á endanum fyrirtæki og heimili landsins
Tillögur að verkefnum fyrir stjórn SASS
- Atvinnumálanefnd hvetur stjórn SASS til að vinna ötullega að jöfnun flutningsgjalds raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis.
- Atvinnumálanefnd leggur til við stjórn SASS að úthluta byggðaþróunarfulltrúum á Suðurlandi það verkefni að kortleggja atvinnulíf á sérhverju atvinnusóknarsvæði á Suðurlandi. Það mætti m.a. nýta sem áframhald á vinnu Svæðisskipulags Suðurhálendis.
- Atvinnumálanefnd fagnar samningum SASS við atvinnusóknarsvæðin um hlutverk byggðaþróunarfulltrúa og hvetur þá til að vera í góðum tengslum við kjörna fulltrúa, atvinnulífið og samfélagið í heild. Ásamt því að vinna ötullega að nýsköpun á sínu atvinnusóknarsvæði.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Til máls tekur Arnar Freyr Ólafsson.
Arnar Freyr leggur til eftirfarandi breytingu á texta um innviðauppbyggingu og að bæta við kafla um dreifikerfi raforku:
Ársþing SASS skorar á innviðaráðherra að halda áfram uppbyggingu innviða s.s. samgangna og fjarskipta á Suðurlandi. Tryggja þarf stöðugt aðgengi til að halda uppi fólks- og vöruflutningum um Suðurland.
Ársþing SASS skorar á umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra að flýta uppbyggingu á dreifikerfi raforku.
Tillaga fyrir fund:
Ársþing SASS skorar á innviðaráðherra að halda áfram uppbyggingu innviða s.s. samgangna, fjarskipta og orku á Suðurlandi. Tryggja þarf stöðugt aðgengi til að halda uppi fólks- og vöruflutningum um Suðurland.
Eru tillögurnar bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.
Fundarstjóri gefur orðið laust áður en aðrar ályktanir og tillögur atvinnumálanefndar eru bornar undir atkvæði. Enginn tekur til máls.
Aðrar ályktanir og tillögur atvinnumálanefndar bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða og er þeim vísað til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.
Anna Huld Óskarsdóttir, tekur við stjórn fundarins.
Fjárhagsnefnd
Einar Freyr Elínarson, formaður fjárhagsnefndar, tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi 2023.
Helstu áskoranir eða tækifæri í tengslum við málefni nefndar
- Fjárhagsnefnd telur helstu áskorun í málaflokknum tengjast mikilvægi þess að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og tryggja nærsamfélögum um allt land eðlilegar tekjur af auðlindanýtingu.
- Arður af nýtingu auðlinda, s.s. til orkuframleiðslu, áfangastaða í ferðaþjónustu, lands til matvælaframleiðslu eða hverju nafni sem þær nefnast, þarf að skiptast með sanngjörnum hætti milli þeirra sem eru hagaðilar við nýtingu auðlindanna. Tryggja þarf með lögum að nærumhverfið, þ.m.t. sveitarfélögin þar sem auðlindin á uppsprettu sína, njóti efnahagslegs ávinnings sem mun styrkja byggð þar. Það er sanngirnismál að tekjur af auðlindum skili sér til í nærsamfélagsins eins og öll önnur atvinnustarfsemi gerir.
- Á Suðurlandi eru fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins sem eru helsta aðdráttarafl stærstu atvinnugreinar landsins, ferðaþjónustu. Tryggja þarf í auknum mæli að tekjur af ferðaþjónustu skili sér til nærsamfélagsins og uppbyggingar innviða þar sem mestur fjöldi ferðamanna fer um.
Tillögur til ársþings SASS
- Fjárhagsnefnd leggur til að ársreikningur SASS fyrir árið 2022, sem kynntur hefur verið fyrir nefndinni, verði samþykktur.
- Að framkomin tillaga að fjárhagsáætlun SASS fyrir árið 2024, sem unnin hefur verið í samráði við nefndina, verði samþykkt. Skýringar fylgja fjárhagsáætluninni.
- Að tillaga að launum stjórnar og nefnda/ráða sem fylgir hlutfalli af þingfarakaupi verði samþykkt en tillagan er unnin í samráði við nefndina.
Tillögur að ályktunum fyrir ársþing SASS 2023
- Ársþing SASS skorar á fjárlaganefnd við afgreiðslu fjárlaga að tryggja hækkuð framlög til Sóknaráætlunar og byggðaþróunar og atvinnuráðgjafar og reksturs áfangastaðastofu.
- Ársþing SASS skorar á sveitarfélög og ríki að hefja viðræður um það hvernig tryggja megi nærsamfélögum um allt land eðlilegar tekjur af auðlindanýtingu, tekjur sem muni styrkja byggð, og þannig skapa skilyrði til búsetufrelsis um land allt. Mikilvægt er að sveitarfélög hafi tækifæri til að byggja upp nauðsynlega innviði svo að nýting auðlinda geti orðið samfélagslega sjálfbær.
- Á Suðurlandi eru mestu orkuauðlindir landsins. Tölulegar staðreyndir staðfesta að nærumhverfið nýtur ekki sanngjarns ávinnings af þeirri orkuvinnslu sem á sér stað á Suðurlandi. Við slíka stöðu er ekki hægt að una lengur með boðuð orkuskipti fram undan. Ársþing SASS hvetur ríkisstjórnina til að tryggja breytingar á lagaumhverfi orkuvinnslu sem tryggir nærumhverfinu ávinning auk þess er mikilvægt að raforkuverð verði það sama í dreifbýli og þéttbýli.
Tillögur að verkefnum fyrir stjórn SASS
- Fjárhagsnefnd leggur til stjórn SASS að kanna fýsileika þess að selja fasteign samtakanna að Austurvegi 56 á Selfossi.
Fundarstjóri gefur orðið laust. Til máls taka Íris Róbertsdóttir, Helgi Kjartansson, Einar Freyr Elínarson, Ari Björn Thorarensen, Haraldur Þór Jónsson og Bjarni Guðmundsson.
Íris Róbertsdóttir leggur fram eftirfarandi breytingartillögu á fjárhagsáætlun 2024:
Lagt er til að aðildargjald til SASS á hvern íbúa verði óbreytt og hækki ekki nema vegna fjölgunar íbúa.
Tillaga fyrir fund:
Að framkomin tillaga að fjárhagsáætlun SASS fyrir árið 2024, sem unnin hefur verið í samræmi við nefndina, verði samþykkt.
Breytingartillaga um fjárhagsáætlun SASS 2024 er borin undir atkvæði og samþykkt með 27 atkvæðum gegn 24.
Ársreikningur SASS 2022
Ársreikningur SASS 2022 er borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.
Tillaga um laun stjórnar, ráða og nefnda
Tillaga um laun stjórnar, ráða og nefnda borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri gefur orðið laust áður en aðrar ályktanir og tillögur fjárhagsnefndar eru bornar undir atkvæði. Enginn tekur til máls.
Aðrar ályktanir og tillögur fjárhagsnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða og er þeim vísað til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.
Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps kynnir sveitarfélagið.
Fjöldi íbúa er 967 og eru yfir 60% íbúa af erlendum uppruna. Það er gríðarlega hröð uppbygging í sveitarfélaginu og er ferðaþjónusta stærsta atvinnugreinin en einnig er fjölbreytt afþreying og mikið úrval af gistingu. Verið er að byggja nýjan leikskóla en einnig er mikil uppbygging á íbúðar- og iðnaðarhúsnæði og er nú verið að hanna þjónustumiðstöð sem m.a. á að hýsa líkamsræktarstöð.
Óvissuþættir og áskoranir eru miklar fram undan. Kjarasamningar eru senn lausir, verðbólgan er mikil og aukinn kostnaður við sorphirðu vegna breytinga á lögum og reglum sem tengjast úrgangsmálum.
Stefnan er að skipuleggja meira af verslunar- og þjónustulóðum og huga þarf að framtíðarhúsnæði grunnskólans. Það þarf að byggja nýja slökkvistöð og hjúkrunarheimili en næst á dagskrá er að stjórnsýslan flytur í nýtt húsnæði.
Samtal sveitarstjórnarfólks og þingmanna Suðurkjördæmis
Pallborðsumræður með þingmönnum Suðurkjördæmis. Umræðustjórar Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður og Grétar Ingi Erlendsson varaformaður SASS
Þingmenn Suðurkjördæmis þau Guðrún Hafsteinsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir, Elva Dögg Sigurðardóttir og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir taka þátt í pallborðsumræðum.
Grétar Ingi Erlendsson, fundarstjóri spyr:
Hversu miklu skiptir fyrir alþingismenn að hitta sveitarstjórnarfólk og hvaða þýðingu hefur ársþing SASS fyrir þingmenn?
Guðrún segir að þessi samvera og það samtal sem á sér stað á þessum vettvangi skipti miklu máli, það eru allir að vinna að því sama.
Oddný segir að ályktanir sem komi frá þingum sem þessu skipti máli fyrir kjördæmið en einnig tengir þetta þingmannahópinn saman.
Jóhann Friðrik segir það skipta máli hvernig ályktanirnar séu framsettar þar sem það eru margar ályktanir sem þau fari í gegnum, þeirra þingsvæði skiptir máli og það er gott að taka samtalið.
Ásthildur Lóa segir mikla samheldni í hópnum gagnvart málefnum kjördæmisins og það er gott að hitta fólkið.
Elva Dögg ræðir um ályktun um upplýsingar um dreifingu starfa en hún og hennar flokkur hyggjast leggja málið fyrir á þingi á næstu dögum.
Ásmundur segist þekkja svæðið vel. Hann heldur vel utan um það sem er í gangi og segir starf sveitarstjórnarmanna gríðarlega mikilvægt.
Eruð þingmenn Suðurkjördæmis tilbúnir að taka af dreifbýlisgjaldið af raforkuliðnum?
Allir þingmenn svara því játandi.
Eru þingmenn Suðurkjördæmi tilbúnir að styðja við Sigurhæðir við fjárlagagerð?
Allir þingmenn svara því játandi.
Njáll Ragnarsson tekur til máls og spyr:
Það stendur ekki til að virkja eina einustu virkjun á næstu árum, eruð þið hlynnt nýjum virkjunarkostum og af hverju ekki verið að virkja?
Oddný segist vilja virkja fyrir grænum orkuskiptum.
Jóhann Friðrik vill virkja er ekki viss um að við getum valið þá kosti sem þarf að virkja.
Ásthildur segist vilja virkja.
Elva Dögg segir að það þurfi að virkja.
Ásmundur vill virkja áfram og það má ekki stoppa framkvæmdir
Guðrún segir að ef við ætlum að nota sjálfbæra orku þá verðum við að virkja.
Guðrún S. Magnúsdóttir tekur til máls og spyr:
Hvernig sjáið þið stöðu íslensks landbúnaðar?
Guðrún sér tækifæri og bjarta framtíð en hún getur ekki orðið ef við sköpum ekki grundvöllinn og það þarf að gerast hjá stjórnmálamönnum. Það þarf að búa til umgjörð fyrir fólk með mikla framtíðarsýn og það á að skapa grundvöll til að framleiða góða vöru, en það hefur ekki verið gert nægjanlega vel. Það þarf að gera eitthvað, spurning um tollaverð. Það verður að horfast í auga við að við erum að niðurgreiða landbúnað minna en önnur lönd gera. Hún hefur mikla trú á bændum og íslenskri framleiðslu.
Ásmundur segir að afkoma bænda sé til skammar og það þarf að verða breyting þar á. Það eru ótrúleg tækifæri hjá bænum og það er furðulegt verðlag á erlendu kjöti. Hann stendur með bændum.
Elva Dögg stendur með bændum og finnst leiðinlegt að það sé ekki borin meiri virðing fyrir þessari stétt.
Ásthildi finnst mikilvægt að við séum sjálfbær í matvælaiðnaði, vaxtahækkanir eru að sliga bændur og sumir hverjir eru að missa vinnu sína og heimilin og það þarf að breytast en hún stendur með bændum.
Jóhann Friðrik talar um mikilvægi landbúnaðarins og mikilvægi matvælaöryggis. Það er alltaf mikilvægt að standa með bændum, það skiptir máli fyrir uppbyggingu landsins í heild að vera með sterka uppbyggingu í landbúnaði. Atorka bænda er slík að það þarf að mynda langtímasýn, það þarf að gera búvörusamninga til lengri tíma. Það er þjóðaröryggi að vera með fæðuöryggi.
Oddný talar um fæðuöryggi og hlutverk bænda til að sjá þjóðinni fyrir mat. Eins að þeir eru mikilvægir í sjálfbærniþróuninni. Það þarf að skoða rekstraröryggi bænda og taka á bráðavanda vaxta og fjárhagsöryggi. Þeir mega ekki leggja upp laupana, það þarf frekar að fjölga þeim.
Hafdís Hrönn var að koma af baráttufundi ungra bænda og þar var gríðarlegur vilji. Það þarf að taka upp annað kerfi. Í Noregi hefur ráðherra leyfi til að taka í taumana til að hjálpa, það þarf að vera með nýliðunarstyrki. Þetta er eitt af því sem verður rætt um á þingi Norðurlandaráðs. Raddir bænda eru mikilvægar og þeir þurfa að láta heyra í sér.
Arnar Freyr Ólafsson tekur til máls og spyr:
Hvað ætlið þið að gera til að beita ykkur fyrir bættum vegasamgöngum á Suðurlandi?
Hafdís segir að það sé verið og er búið að vera að bæta umferðaröryggi á Suðurlandi. Það þarf að forgangsraða verkefnum og þau reyna að beita þrýstingi.
Oddný segir að það þurfi að fara í framkvæmdir og forgangsraða en hún vill ekki skattleggja framkvæmdirnar.
Jóhann Friðrik segir að það þurfi að breyta kerfinu í heild sinni, það þarf að auka fé í framkvæmdirnar. Spyr hann hvort að það geti verið samvinna allra.
Ásthildur segir vegi víða vera til skammar og það þarf að gera eitthvað í því. Það er margt sem þarf að laga, hún er ekki að berjast fyrir vegasamgöngum.
Elva Dögg vill að ríkisstjórnin standi við sitt.
Ásmundur telur mikilvægt að allir taki þátt í að fjármagna vegakerfið af meiri krafti en hingað til.
Guðrún ræðir um að það hafa verið gríðarlega framkvæmdir í kjördæminu upp á síðkastið, Hornarfjarðarbrúin, nýr vegur í Ölfusi og á Reykjanesbrautinni. Það þarf að huga betur að samgöngum á Hornafjörð og til Vestmannaeyja. Það þarf að greiða fyrir að nota vegina, það er að koma minna og minna í ríkiskassann í gegnum olíu- og bifreiðagjöld. Það er mikilvægt að fækka einbreiðum brúm hratt og vel. Varðandi tengivegi þá þarf að fara setja slitlag á þá.
Að lokum vill Guðrún Hafsteinsdóttir fyrir hönd þingmanna þakka fyrir góðar móttökur í kjördæmavikunni, þeim fannst gott að hitta sveitarstjórnarmenn í kjördæminu. Þau komust þó ekki í Vík og á Kirkjubæjarklaustur og Höfn en þau ætla að koma fyrir áramót.
Skilar hún góðum kveðjum frá Sigurði Ingi Jóhannssyni, Vilhjálmi Árnasyni og Birgi Þórarinssyni sem ekki gátu verið á fundinum.
Þingmenn Suðurkjördæmis eru einn hópur sem vinnur saman fyrir kjördæmið. Hún hvetur sveitarstjórnarmenn til að vera í sambandi við þau.
Fundarlok aðalfundar SASS kl. 18:00
Einar Freyr Elínarson setur aðalfund SASS kl. 12:05 föstudaginn 27. október. Þakkar fyrir góðan fund.
Fundarstjóri óskar eftir heimild til handa fundarritara og fundarstjórum að ganga frá fundargerðinni og senda hana til sveitarfélaganna.
Nú er komið að fundarlokum ársþings SASS og gefur fundarstjóri Ásgerði Kristínu Gylfadóttur formanni orðið. Þakkar hún sveitarstjórnarmönnum fyrir góðan, málefnalegan og gagnlegan fund. Einnig þakkar hún fundarstjórum, starfsmönnum SASS og öðrum starfsmönnum fyrir góðan undirbúning fyrir fundinn og Mýrdalshreppi fyrir viðurgjörning allan.
Fundi slitið kl. 12:09
Rósa Sif Jónsdóttir fundarritari.