fbpx

Áfangastaðaáætlun Suðurlands var birt í uppfærðri útgáfu um miðjan október síðastliðinn. Áætlunin er byggð á víðtæku samráði fjölbreytts hóps hagaðila tengdum ferðaþjónustu og fjallar um áfangastaðinn Suðurland í heild sinni. Markaðsstofur landshlutanna hafa annast verkefnastjórn áfangastaðaáætlana síðan vinna við þær hófst árið 2016. Þær eru svar við ákalli um svæðisbundna stefnumótun í kjölfar örs vaxtar í ferðaþjónustu.

Markmið Áfangastaðaáætlunar Suðurlands er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi. Þá er mikilvægt að hafa í huga að sjálfbærni felur í sér umhverfismál en ekki síður efnahagslega og samfélagslega þróun. Ferðaþjónustan hefur skapað eftirsóknarverð atvinnutækifæri og fjölbreytta nýsköpun sem ekki væri fótur fyrir án ferðamanna. Með auknum fjölda eykst þó álag á innviði og þess vegna er mikilvægt að landshlutinn vinni saman að markmiðum sínum eins og þau sem birtast í Áfangastaðaáætlun. Áætlunin er verkfæri landshlutans til að efla þessa mikilvægu útflutningsgrein í samlyndi við samfélag og náttúru.

Mikilvægt er að samræmi sé á milli áfangastaðaáætlunar og annarra staðbundinna áætlana, s.s. Sóknaráætlunar Suðurlands sem og áætlana á landsvísu og heimsvísu. Markaðsstofa Suðurlands leggur því áherslu á stöðugt samtal við sveitarfélög og stofnanir um málefni ferðaþjónustunnar. Gögn úr Áfangastaðaáætlun Suðurlands hafa t.a.m. nýst við mótun Svæðisskipulags Suðurhálendis, Samgönguáætlunar SASS og við mat á aðalskipulagsbreytingum. Verkfræðistofur og aðrir greiningaraðilar þekkja áfangastaðaáætlanir og eiga ávallt greiðan aðgang að sérfræðingum á Markaðsstofum landshlutanna.

Hagsmunir íbúa, fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga eru metnir að jöfnu í Áfangastaðaáætlun Suðurlands. Þar er leitast við að skapa jafnvægi á milli og mæta þörfum ólíkra hagaðila, með umhverfislega, efnahagslega og samfélagslega sjálfbærni að leiðarljósi.

Sjá áfangastaðaáætlun Suðurlands hér.