Í dag 2. desember var undirritaður samningur á milli Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Hópbíla hf. um almenningssamgöngur á starfssvæði Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og milli Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins. Samninginn undirrituðu Elfa Dögg Þórðardóttir formaður SASS og Gísli Friðjónsson forstjóri Hópbíla. Samningurinn tekur gildi frá og með næstu áramótum. Um verður að ræða eitt samtengt almenningssamgöngukerfi sem nær frá Reykjavík austur að Höfn í Hornafirði.
Samningurinn felur í sér eflingu almenningssamgangna frá því sem verið hefur og þær verða nú allar á einni hendi og akstur og gjaldskrá samræmd. Breytingin felur m.a. í sér að fleiri eiga möguleika að sækja vinnu til höfuðborgarsvæðisins og öfugt. Þegar líður á næsta ár verða teknir í notkun nýir vagnar. Vagnarnir verða auðkenndir í sérstökum litum og í þeim internettenging til þæginda fyrir farþega. Sætaframboð verður þó aukið strax eftir áramót, 20 sæta aukning verður í öllum bílum og einni ferð bætt við snemma morguns frá Reykjavík.
Leiðakerfið og þjónusta við farþega verður kynnt sérstaklega á næstu vikum.