fbpx

Inngangur

Í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar árið 1997 að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga óskaði félagsmálaráðherra eftir því með bréfi dags. 20. ágúst sama ár að Samtök sunnlenskra sveitarfélaga beittu sér fyrir skipun landshlutanefndar í því skyni að undirbúa yfirtöku sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi á þjónustu við fatlaða.

Í áðurnefndu bréfi félagsmálaráðherra segir m.a: ,,Framundan er hið umfangsmikla og vandasama verkefni að færa málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, sbr. ávæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/1996. Fella á þjónustu við fatlaða inn í félagsþjónustu sveitarfélaga. Markmiðið er að stíga lokaskrefið í þeirri þróun að fatlaðir séu sjálfsagðir þátttakendur í samfélaginu eins og segir í frumvarpinu“ og síðar í bréfi ráðherra segir: „Yfirtaka sveitarfélaga á málaflokki fatlaðra mun í ýmsum tilvikum kalla á mun víðtækari samvinnu milli sveitarfélaga á vettvangi félagsþjónustu en nú gerist til þess að þau geti veitt lögbundna þjónustu. Eru hér einkum hin fámennari sveitarfélög höfð í huga.“

Í kjölfarið skipaði SASS landshlutanefndina og skilaði hún áfangaskýrslu til aðalfundar SASS í Vík haustið 1998. Ekki voru gerðar neinar ákveðnar tillögur um skipan málefna fatlaðra, enda ýmislegt óljóst, en ýmsir möguleikar reifaðir.

Upphaflega var áætlunin að yfirfærslan yrði um áramótin 1998 – 1999 en henni var frestað um ótiltekinn tíma. Frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga hefur enn ekki verið afgreitt, en líkur eru til að það gerist nú fyrir lok yfirstandandi þings, samkvæmt bestu upplýsingum þegar skýrslan er skrifuð. Yfirgnæfandi líkur eru því á að af yfirfærslu málefna fatlaðara frá ríki til sveitarfélaga verði um áramótin 2002 – 2003.

Þegar ljóst varð á haustmánuðum 2000 að undirbúningur ríkisstjórnar að nýrri löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga og þar með flutningi málefna fatlaðra, var að ljúka, ákvað stjórn SASS að skipa nýja landshlutanefnd sem ætlað var að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið 1998. Í nefndina voru eftirtaldir skipaðir: Karl Björnsson bæjarstjóri í Árborg, Guðmundur Svavarsson oddviti Hvolhrepps, Hafsteinn Jóhannesson sveitarstjóri Mýrdalshrepps, Sveinn Ingvarsson oddviti Skeiðahrepps, Sesselja Pétursdóttir bæjarfulltrúi í Ölfusi og Ólöf Thorarensen félagsmálastjóri í Árborg. Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri SASS starfaði með nefndinni.

Verkefni hennar eru samkvæmt ákvörðun stjórnar SASS ,, að fylgjast með, gæta hagsmuna sveitarfélaga og fjalla um væntanlega yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga á Suðurlandi“. Nefndin hefur fundað alls sex sinnum, kynnt sér ýmis gögn, s.s skýrslur Kostnaðarnefndar vegna tilflutnings þjónustu við fatlaða til sveitarfélaga og Starfshóps um biðlista eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra. Einnig fékk nefndin fulltrúa Svæðisskrifstofu Suðurlands á sinn fund.

Nefndin er sammála um að ef frumvarpið um félagsþjónustu sveitarfélaga verður samþykkt, þá muni það kalla á verulega uppstokkun og endurskipulagningu félagsþjónustu hjá mörgum sveitarfélögum á Suðurlandi, þar sem gert er ráð fyrir samþættri félagsþjónustu við fatlaða sem ófatlaða.

Í skýrslunni sem hér fer á eftir verður fjallað um fyrirhugaðar lagabreytingar og áhrif þeirra á núverandi félagsþjónustu, um félagsþjónustu og umfang hennar í sveitarfélögum á Suðurlandi nú og verkefni Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi. Þá eru reifaðar hugmyndir um hugsanlegt framtíðarskipulag félagsþjónustu sunnlenskra sveitarfélaga.

Fyrirhugaðar lagabreytingar, félagsþjónusta, barnaverndarlög

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segir m.a.:

,, Segja má að í frumvarpinu felist að verulega sé skerpt á skyldum sveitarfélaga til að veita íbúum sínum félagsþjónustu. Tilgangurinn er sá að félagsþjónustan verði ótvírætt jafnvíg annarri velferðarþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Þannig er sveitarfélögum skylt að veita þá þjónustu sem frumvarpið tilgreinir þótt þau hafi sjálfsákvörðunarrétt um út færslu þjónustunnar. Í núgildandi lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er á nokkrum stöðum að finna hvatningu og heimildarákvæði til að veita tiltekna þjónustu, t.d. á sviði húsnæðismála og þjónustu við aldraða. Í frumvarpinu er lögð til breyting á þessu þannig að einungis verði kveðið á um skyldur sveitarfélaganna í félagslegum efnum í stað hvatningarákvæða eða ákvæða með fyrirvara um skyldurnar. Auk þess sem breyting þessi er nauðsynleg til að félagsþjónustan verði jafnvíg annarri velferðarþjónustu er hún óhjákvæmileg til að fatlaðir glati í engu þeim rétti sem þeim er nú tryggður samkvæmt lögum um málefni fatlaðra“.

Skv. frumvarpinu, sem nú er í umfjöllun Alþingis, er markmiðsgrein frá núgildandi félagsþjónustulögum nánast óbreytt að því undanskildu að sett er inn, að lögin skuli stuðla að jöfnum rétti til lífsgæða og er þar skírskotun til fatlaðra. Einnig er breyting í c lið sem kveður á um að veita aðstoð til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu.

Í II. kafla er kveðið á um ábyrgð og skyldur sveitarstjórna og segir að þær skulu með skipulagi á henni og viðbúnaði tryggja framgang markmiða og að þeim sé skylt að veita félagsþjónustu. Í 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ef markmiðum laganna verði ekki náð á annan hátt skuli sveitarfélög sameinast um þjónustuna. Frumvarpið segir hvergi til um lágmarksþjónustusvæði, en það er lagt í hendur sveitarfélaganna að meta á hvern hátt þau vilja sinna þjónustuskyldum sínum. Í því sambandi er vert að hafa í huga að búið er að kynna í ríkisstjórn frumvarp til laga um barnavernd og skv. því skal lágmarksstærð barnaverndarumdæmis vera 1.500 íbúar. Þá komst Kostnaðarnefndin að þeirri niðurstöðu að þjónustusvæði fyrir fatlaða hafi að lágmarki 4000 íbúa til að geta boðið upp á grunnþjónustu. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að minnstu svæðisskrifstofurnar um málefni fatlaðra þjóna nú rúmlega 8000 íbúum. Með þetta í huga er mikilvægt að sveitarstjórnir á Suðurlandi hugi að samvinnuvettvangi í einingum sem séu nægilega stórar til að samskipun barnaverndar og félagsþjónustu gangi eðlilega fyrir sig.

Skylt er skv. félagsþjónustufrumvarpinu að kjósa félagsmálanefnd sem fer með stjórn og framkvæmd félagsþjónustunnar í umboði sveitarstjórnar og ef sveitarfélög ákveða að sameinast um félagsþjónustuna í heild skal kjósa eina félagsmálanefnd.

Félagsmálanefndum er skylt að að hafa hæft og menntað starfsfólk með viðhlítandi menntun til að veita ráðgjöf og í skýringum eru nefnd dæmi um félagsráðgjafa, sálfræðinga, þroskaþjálfa og iðjuþjálfa.

IV. og V. kafli frumvarpsins fjalla um þær grundvallarreglur sem skuli hafðar við framkvæmd félagsþjónustu og verkefni félagsmálanefndar. VII. kafli frumvarpsins kveður á um rétt einstaklinga til þjónustu og að rétturinn fylgi lögheimili í sveitarfélaginu.

Félagsþjónusta sem sveitarfélögum ber skylda til að sinna skv. frumvarpinu er ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, húsnæði og búseta, heimaþjónusta og liðveisla, ferðaþjónusta, skammtímadvöl, dagvist, heimili fyrir fötluð börn og tómstundastarf. Hér er ekki um nýjar skyldur að ræða frá núgildandi lögum um félagsþjónustu og málefni fatlaðra, en ná til fleiri aðila sem skv. mati hafa þörf á þjónustu. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga ákvæði 5. gr. sem segir að ,,félagsmálanefnd tekur, í umboði sveitarstjórnar ákvörðun um rétt manna til þjónustu samkvæmt lögum þessum og sér til þess að hún sé veitt á grundvelli mats á þjónustuþörf“.

Þá eru einnig ítarlegar reglur um málsmeðferð og málskotsrétt, ásamt ákvæðum um reglur og reglugerðir sem ekki verður fjallað nánar um hér.

Grundvallar hugmyndafræðin í frumvarpinu er samskipun og blöndun og að þeir sem hafi þörf fyrir þjónustu fái hana.

Félagþjónusta á Suðurlandi í dag

Skipulag félagsþjónustunnar
Skipulag félagsþjónustunnar er mjög mismunandi á Suðurlandi. Fullburða félagsþjónusta er ekki nema í stærstu sveitarfélögunum þremur, Árborg, Hveragerði og Ölfusi, þar sem starfa formlegar félagsmálastofnanir með föstu starfsliði sem sinnir ýmis konar ráðgjöf og stjórnun. Í uppsveitum Árnessýslu starfar félagsráðgjafi í hálfu starfi og þar er sameiginleg félagsmálanefnd. Framkvæmd flestra þátta félagsþjónustunnar er þó á hendi oddvita. Í öðrum sveitarfélögum eru félagsráðgjafar ekki starfandi. Þjónusta félagsráðgjafa og sérfræðinga er aðkeypt og öll framkvæmd í höndum oddvita eða sveitarstjóra.

Nokkurt samstarf er um barnaverndarnefndir. Þannig eru í Rangárvallasýslu tvær barnaverndarnefndir og í V-Skaftafellssýslu er sameiginleg barnaverndarnefnd. Í Gaulverjabæjar-, Hraungerðis- og Villingaholtshreppum er sameiginleg félagsmálanefnd, sem fer einnig með barnaverndarmál. Annars staðar fara félagsmálanefndir með barnaverndarmál.

Núverandi félagsþjónusta
Samkvæmt lögum eiga sveitarfélögin að skipa félagsmálanefndir til að hafa með höndum yfirstjórn félagsþjónustunnar og hafa heildaryfirsýn yfir félagslegar aðstæður íbúa sveitarfélagsins. Samkvæmt félagsþjónustulögunum skal veita öllum íbúum þjónustu sem þar er kveðið á um. Í meðfylgjandi töflu 1 og nánar í töflu 4, ( í fylgiskjölum ) sem byggðar eru á tölum frá 1999 frá Hagdeild sambands íslenskra sveitarfélaga, sést að sú félagsþjónusta sem sveitarfélögin veita er mjög mismikil. Heimilishjálp er veitt í nánast öllum tilfellum en tómstundastarf aldraðra er aðeins styrkt í 7 sveitarfélögum, svo dæmi séu tekin. Þá er athyglisvert að þjónusta við fatlaða er ekki veitt nema í 11 sveitarfélögum, þ.e. ferðaþjónusta og liðveisla, en fatlaða er hins vegar að finna í 17 sveitarfélögum, sbr. töflu 4. Hafa verður í huga að mismunandi getur verið hvernig kostnaður er bókfærður og því getur taflan gefið villandi upplýsingar í einstökum tilfellum. Heildarmyndin er þó sennilega trúverðug.

Tafla 1

Félagsþjónusta sunnlenskra sveitarfélaga
Veitt þjónusta skv. bókuðum kostnaði
Fjöldi sveitarfélaga Hlutfall
með bókf. kostnað sveitarfélaga
02 FÉLAGSÞJÓNUSTA 1999
01 Félagsm.st./félagsm.fulltr
3
12.0
02 Félagsmálanefnd
18
72.0
03 Barnavernd
11
44.0
1 Félagshjálp:
11 Fjárhagsaðstoð (styrkir og lán)
13
52.0
12 Annað fjárhagsaðstoð
7
28.0
13 Þjónusta vegna barna og unglinga
8
32.0
14 Þjónusta vegna hreyfih./fatlaðra
11
44.0
15 Heimilishjálp
23
92.0
16 Dvalargjöld
5
20.0
17 Leiga félagslegra íbúða
2
8.0
18 Tómstundastarf aldraðra
7
28.0
19 Húsaleigubætur
18
72.0
5 Dvalarheimli aldraðra
51 Íbúðir aldraðra
5
20.0
52 Dvalarheimili aldraðra
7
28.0
59 Önnur þjónusta við aldraða
6
24.0
7 Ýmis lögbundin framlög
73 Framlag til Bjargráðasjóðs
23
92.0
74 Orlofssjóður húsmæðra
24
96.0
75 Varasjóður viðbótarlána
7
28.0
8 Ýmsir styrkir:
81 Ýmsir styrkir
17
68.0
Fjöldi sveitarfélaga: 25

Kostnaður af félagsþjónustu
Þegar kannaður var kostnaður sveitarfélaga á Suðurlandi kom í ljós að hann var mjög mismunandi eins og sést á meðfylgjandi töflu. Hann er allt frá tæplega eitt þúsund krónum á íbúa og upp í rúmlega 15 þúsund krónur á íbúa. Ef reiknuð eru meðaltalsútgjöld á íbúa á ári fyrir allt svæðið vegna félagsþjónustu, þ.e. kr. 166.750.000 á 16.258 íbúa, þá er þau kr. 10.221. Greinilegt er að í stóru sveitarfélögunum, Árborg, Hveragerði og Ölfusi eru útgjöldin hærri á íbúa en í þeim minni. Þó er vert að benda á að á þessu eru undantekningar t.d í Vestur Landeyjum og í Vestur Eyjafjallahreppi. Sérstök ástæða er til að benda á að þessar tölur þarf að taka með ákveðnum fyrirvörum, þannig er kostnaður vegna launa oddvita/sveitarstjóra í minnstu sveitarfélögunum færður á yfirstjórn en ekki félagsþjónustu, enda þótt hluti starfs þeirra snúist um þann málaflokk. Einnig er rétt að benda á til að koma í veg fyrir misskilning, að inni í þessum tölum er ekki kostnaður vegna leikskóla, sem réttara er að telja með skólakostnaði, enda ekki talinn til félagsþjónustu samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi.

Tafla 2

Félagsþjónusta sveitarfélaga á Suðurlandi – kostnaður 1999
Íbúafjöldi Nettókostn. Útgj./íbúa Heildartekjur %af tekjum
A- Eyjafjallahreppur
154
148,000
961
28,763,000
0.5
A- Landeyjahreppur
203
1,633,000
8,044
38,226,000
4.3
Árborg
5,676
85,586,000
15,079
961,636,000
8.9
Ásahreppur
125
935,000
7,480
40,894,000
2.3
Biskupstungnahreppur
508
2,403,000
4,730
100,021,000
2.4
Djúpárhreppur
239
1,196,000
5,004
51,386,000
2.3
Fljótshlíðarhreppur
212
1,211,000
5,712
36,775,000
3.3
Gaulverjabæjarhreppur
119
460,000
3,866
24,327,000
1.9
Gnúpverjahreppur
291
1,446,000
4,969
68,400,000
2.1
Grímsnes- og Grafningshreppur
349
1,567,000
4,490
94,438,000
1.7
Holta- og Landssveit
377
1,319,000
3,499
75,628,000
1.7
Hraungerðishreppur
175
291,000
1,663
33,414,000
0.9
Hrunamannahreppur
726
6,246,000
8,603
146,166,000
4.3
Hveragerðisbær
1,766
18,802,000
10,647
313,683,000
6.0
Hvolhreppur
766
6,144,000
8,021
140,278,000
4.4
Laugardalshreppur
257
2,241,000
8,720
50,083,000
4.5
Mýrdalshreppur
520
2,104,000
4,046
100,539,000
2.1
Rangárvallahreppur
766
4,848,000
6,329
148,653,000
3.3
Skaftárhreppur
585
2,975,000
5,085
105,706,000
2.8
Skeiðahreppur
240
1,697,000
7,071
44,723,000
3.8
V- Eyjafjallahreppur
174
1,974,000
11,345
37,871,000
5.2
V- Landeyjahreppur
158
1,636,000
10,354
21,973,000
7.4
Villingaholtshreppur
176
369,000
2,097
35,930,000
1.0
Þingvallahreppur
49
142,000
2,898
11,321,000
1.3
Ölfushreppur
1,674
18,802,000
11,416
290,789,000
6.5
Samtals
16,258
166,175,000
3,0001,623,000
5.5

Heimild: Hagdeild Sambands íslenskra sveitarfélaga


Verkefni Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi

Þrjú sambýli eru rekin á Selfossi, eitt í Kerlingardal í Mýrdal, eitt í Skaftholti í Gúpverjahreppi og eitt í Bitru í Hraungerðishreppi. Í Bitru og Kerlingardal búa fjórir geðfatlaðir einstaklingar á hvorum stað. Í Skaftholti eru átta fatlaðir íbúar, þroskaheftir, geðsjúkir og atferlistruflaðir. Í Þorlákshöfn eru þjónustuíbúðir og þar búa sex fatlaðir karlmenn. Á Selfossi er heimili fyrir fimm fjölfötluð börn og skammtímavistun sem þjónar börnum og fullorðnum af Suðurlandi. Á Selfossi er rekinn Verndaður vinnustaður, þar sem fram fer vernduð vinna, dagvist og hæfing. Svæðisskrifstofan skipuleggur og sér um framkvæmd frekari liðveislu til tíu einstaklinga í sjálfstæðri búsetu á Selfossi, og einnig er veittur stuðningur í formi frekari liðveislu til tveggja einstaklinga, í Ölfusi og í Rangárvallahreppi. Einnig greiðir skrifstofan frekari liðveislu til íbúa í þjónustuíbúðum í Þorlákshöfn og sér um ráðgjöf og stuðning við íbúa og starfsfólk þar.

Á árinu 2000 nutu alls 121 einstaklingur þjónustu skrifstofu með einum eða öðrum hætti. Ekki eru þó taldir þeir einstaklingar sem einungis eru á biðlista eftir búsetu né heldur þeir sem fengið hafa styrki skv. 27.gr. laga um málefni fatlaðra.

Af börnum sem nutu þjónustu árið 2000 eru fjögur í þjónustuflokki 4, sem alla jafna eiga ekki aðgang að þjónustu svæðisskrifstofa, en vegna eðlis mála var talin ástæða til að skrifstofan veitti þjónustu. Þrjú þessara barna eru búsett í Hrunamannahreppi og eitt í Árborg. Um var að ræða þjónustu í Lambhaga, stuðningsfjölskyldusamninga og ráðgjöf og stuðning við fjölskyldur, skóla og leikskóla.

Samtals eru í rekstri svæðisins 46 stöðugildi, sem 79 starfsmenn gegna. Ekki eru talin stöðugildi sveitasambýlanna þriggja. Á skrifstofu voru árið 2000 4 stöðugildi, þ.e. framkvæmdastjóri, skrifstofustjóri og tveir ráðgjafar (Frá 1.jan. 2001 eru stöðugildi í ráðgjöf 2.7) . Rekstrarkostnaður í heildina árið 2000 var um 176.6 milljónir króna.

Tafla 3

Sveitarfélag Fullorðnir Börn
Skaftárhreppur
1
Mýrdalshreppur
4
2
Austur Eyjafjallahreppur
Vestur Eyjafjallahreppur
1
2
Austur Landeyjahreppur
Vestur Landeyjahreppur
Fljótshlíðarhreppur
1
Hvolhreppur
2
Rangárvallahreppur
2
Holta- og Landssveit
2
Ásahreppur
Djúpárhreppur
1
1
Árborg
35
17
Gaulverjabæjarhreppur
Hraungerðishreppur
4
1
Villingaholtshreppur
Skeiðahreppur
1
3
Gnúpverjahreppur
10
2
Hrunamannahreppur
1
10
Biskupstungnahreppur
2
Laugardalshreppur
Grímsnes- og Grafningshreppur
2
Þingvallahreppur
Hveragerðisbær
1
Ölfushreppur
6
7
Samtals:
66
55

Samantekið í febrúar 2001 af Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi

Framtíðarskipulag félagsþjónustunnar
Í ljósi þess að gerðar verða mun meiri kröfur til sveitarfélaga um félagsþjónusu skv. fyrirliggjandi frumvarpi og þeirrar staðreyndar að félagsþjónusta er víða fremur lítil að vöxtum þá verður ekki undan því vikist að efla hana verulega frá því sem nú er í fjölmörgum sveitarfélögum. Það mun að sjálfsögðu leiðatol aukins kostnaðar í mörgum tilfellum. Jafnframt þarf að að tvinna hið nýja verkefni, þ.e. þjónustu við fatlaða, saman við aðra félagsþjónustu. Annars vegar þarf því að stokka félagsþjónustuna almennt upp, sérstaklega þar sem hún hefur ekki verið sem skyldi, og hins vegar að finna viðeigandi leiðir til að þjónusta við fatlaða verði fullnægjandi.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur einnig fram að ef ,,markmiðum laganna verði ekki náð á annan hátt, t.d. vegna fámennis sveitarfélags, skuli þau sameinast um þjónustuna.“ Ráðning starfsmanns getur verið dæmigert samstarfsverkefni fámennra sveitarfélaga. Hér er um brýnt verkefni að ræða, því að í V-Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu og þremur lágsveitahreppum Árnessýslu eru slíkir starfsmenn ekki til staðar.

Í frumvarpinu kemur einnig fram að sveitarfélögum verður gert skylt að hafa á að skipa hæfu og menntuðu starfsfólki í félagsþjónustunni. Og í athugasemdunum kemur fram að virk, fagleg félagsþjónusta standi og falli með því að sveitarfélög hafi starfsfólk til að annast málaflokkinn. Þá er sérstaklega kveðið á um að félagsmálanefndir skuli hafa á að skipa eða eiga aðgang að háskólamenntuðu fólki til að veita sérhæfða ráðgjöf.

Ljóst er að fjölmörg sveitarfélög eru ekki í stakk búin til að taka við verkefninu án þess að gera töluverðar breytingar á núverandi félagsþjónustu. Einnig má vera nokkuð ljóst að allra minnstu sveitarfélögin geta ekki staðið undir þjónustunni nema í samstarfi við önnur sveitarfélög.

Helstu skipulagskostir
Á síðustu árum hafa ýmis sveitarfélög tekið að sér rekstur málefna fatlaðra, ýmist sem reynslusveitarfélög eða með þjónustusamningum við ríkið. Þar má nefna Vestmannaeyjar, Höfn í Hornafirði og Akureyri. Í Suður-Þingeyjarsýslu, þ.m.t. Húsavík, hafa sveitarfélögin samstarf um félagsþjónustuna á grundvelli héraðsnefndarinnar. Í Hornafirði sér félagsmálasviðið einnig um ráðgjafarþjónustu fyrir grunnskólann. Á Norðurlandi vestra gerðu sveitarfélögin sameiginlegan þjónustusamning við félagsmálaráðuneytið um rekstur á málefnum fatlaðra. Í öllum tilfellum hafa málefni fatlaðra verið felld með einhverjum hætti inn í félagsþjónustu þessara sveitarfélaga, enda þótt skipulag sé mismunandi þ.e. ýmist er um einstök sveitarfélög að ræða eða byggðasamlög.

Ofangreind dæmi geta gefið sunnlenskum sveitarstjórnarmönnum hugmyndir um það með hvaða hætti sé skynsamlegt að skipuleggja félagsþjónustuna, en þjónustusamningar við ríkið verða þó úr sögunni með breyttum lögum.

Hér verða nokkrir möguleikar nefndir og stuttlega reifaðir sem koma til greina við nauðsynlega uppstokkun á f élagsþjónustinni.

Byggðasamlög. Mynduð verði byggðasamlög um þjónustuna, ein félagsmálanefnd væri starfandi og reglur sem unnið væri eftir væru samræmdar, t.a.m. um fjárhagsaðstoð o.fl. Framkvæmdin gæti verið í höndum einstakra sveitarfélaga, en hugsanlega hjá byggðasamlaginu. Bent hefur verið á að því fylgi ýmsir ókostir ef vinnsla mála og endanleg framkvæmd fari ekki saman. Byggðasamlögin geta verið mismunandi stór, en lágmarksskilyrði að mati nefndarinnar er að þau uppfylli ákvæði væntanlegra barnaverndarlaga um 1500 íbúa lágmarksfjölda. Að mati Kostnaðarnefndar eru 4000 manna svæði lágmarksstærð ef svæði á að bjóða grunnþjónustu en 8000 manna svæði lágmarksstærð svo hægt sé að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu. Í þeim valkostum sem Kostnaðarnefndin setur fram í skýrslu sinni er gert ráð fyrir sértækum ráðstöfunum ef svæði eru 2000 manna eða minni svo hægt verði að flytja fjármagn til svæða að þeirri stærð. Niðurstaða nefndarinnar er því að þeim mun stærri sem svæðin eru því auðveldara er að framkvæma þjónustuna á viðunandi hátt og færa fjármagn frá ríki til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðra og framkvæmdar laga á grundvelli félagsþjónustufrumvarpsins.

Sameining sveitarfélaga. Sameinuð sveitarfélög sem sem væru nægilega stór sbr. ofanritað væru betri kostur en byggðasamlögin sem hafa ákveðna vankanta eins og þekkt er. Með slíkri sameiningu fengist ýmislegt annað hagræði og betri þjónusta, en það er önnur saga

Þjónustusamningar. Minni sveitarfélög geta leyst viðfangsefni félagsþjónustunnar með samningum við félagsmálastofnanir stærri sveitarfélaga um tiltekna þætti, s.s ráðgjöf. Þannig mætti hugsa sér að tvær til þrjár félagsmálastofnanir gætu tekið félagsþjónustu fjölmargra sveitarfélaga að sér. Enn og aftur þarf að leggja áherslu á að þjónustusvæðin verði nægilega stór til að hægt sé að veita grunnþjónustu.

Sérhæfð þjónusta. Enda þótt gert sé ráð fyrir að þjónusta við fatlaða verði samþætt annarri félagsþjónustu samkvæmt væntanlegum lögum, þá verður ekki horft fram hjá því að þjónusta við þá er mjög sérhæfð, bæði ráðgjöf og eins húsnæðisúrræði. Því kemur til greina að halda úti að einhverju leyti ráðgjöf sem næði til núverandi þjónustusvæðis Svæðisskrifstofunnar. Þá telur nefndin eðlilegt að komið verði á samstarfsnefnd eða fagteymi, sem sæi um samhæfingu og samræmingu faglegra þátta eftir því sem kostur er, m.a. er nauðsynlegt að tryggja jafnan aðgang allra íbúa, óháð búsetu, að sérhæfðum þjónustu- og húsnæðisúrræðum eins og verið hefur.

Þó að hér hafi verið nefndir nokkrir möguleikar, þá útiloka þeir ekki hver annan, þannig að lausnir sveitarfélaganna geta orðið með mismunandi hætti. Nefndin er þó eindregið þeirrar skoðunar að ekki dugi neinar smáskammtalækningar í þessum efnum og telur að skipulagseiningarnar ættu að vera á bilinu 3 – 5 á Suðurlandi öllu. Því stærri sem þær eru þeim mun betri og fagleglegri þjónustu geta þær veitt.

Að lokum
Mjög brýnt er að sveitarfélögin noti þann tíma sem gefst til undirbúnings sem best. Nefndin leggur til að að nefndarstarfi verði haldið áfram á næstu mánuðum á vegum SASS í nánu samstarfi við sveitarfélögin. Haldið verði málþing næsta haust þar sem farið verði yfir stöðu mála og síðan stefnt að því að vorið 2002 liggi fyrir með hvað hætti sunnlensk sveitarfélög bregðast við kröfum og skyldum nýrra laga.

Yfirlit félagsþjónustu sunnlenskra sveitarfélaga 1999