fbpx

1. Inngangur


Hér á eftir fer skýrsla stjórnar SASS fyrir starfsárið 2001 – 2002. Eins og undanfarin ár er um að ræða sameiginlega skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra.

Í stjórn SASS sátu á því starfsári sem nú er að ljúka; Valtýr Valtýsson Holta- og Landsveit formaður, Hafsteinn Jóhannesson Mýrdalshreppi varaformaður, Aldís Hafsteinsdóttir Hveragerðisbæ, Ágúst Ingi Ólafsson Hvolhreppi, , Ingunn Guðmundsdóttir Árborg, Geir Ágústsson Gaulverjabæjarhreppi, Sigurður Bjarnason Ölfusi, Sveinn Sæland Biskupstungnahreppi, og Torfi Áskelsson Árborg.

Alls hélt stjórn SASS 15 stjórnarfundi á liðnu starfsári.


2. Störf og ályktanir stjórnar


Hér á eftir verður stiklað á stóru um verkefni stjórnar á starfsárinu og getið helstu mála. Auk þeirra fjallaði stjórnin um fjöldamörg önnur mál og erindi sem henni bárust.

Umsagnir um þingmál

Stjórninni barst mikill fjöldi þingmála til umsagnar. Ekki verða þær umsagnir tíundaðar en þó verður sérstök grein fyrir tveimur þeirra.

Byggðamál

Eftirfarandi umsögn um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum var samþykkt: ,,Stjórn SASS tekur undir þau meginmarkmið sem fram koma í tillögunni, en telur of skammt gengið í beinum aðgerðum í byggðamálum. Stjórnin telur að löngu sé kominn tími til að bregðast við þeirri öfugþróun sem átt hefur sér stað í byggðamálum á undanförnum áratugum og að því sé þörf á aðgerðum strax. Þar má t.d. nefna jöfnun orkuverðs, umbætur í samgöngumálum og fjarskipta- og upplýsingamálum. Varðandi einstök atriði sem fram koma í áætluninni þá telur stjórn SASS að þörf sé að efla starfsemi símenntunarmiðstöðva á jafnréttisgrundvelli hvar sem er á landinu þar sem enginn sérstakur munur er á aðstöðu nemendanna sem sækja þar nám. Að lokum leggur stjórn SASS höfuðáherslu á að ef árangur á að nást í byggðamálum verða allar aðgerðir stjórnvalda að vera samræmdar, ekki aðeins hvað varðar efni þessara tillagna, heldur einnig í atvinnumálum s.s. í sjávarútvegi og landbúnaði.“

Frumvarp til raforkulaga

Eftirfarandi umsögn var samþykkt um frumvarp til raforkulaga:

,,Stjórn SASS tekur ekki afstöðu til frumvarpsins í heild, en leggur áherslu á ekki verði gengið frá nýjum orkulögum án þess að eftirfarandi atriði verði höfð í huga:

1. Eitt af þeim atriðum sem hefur áhrif á búsetuskilyrði er verðlag á raforku. Á undanförnum áratugum hafa orðið miklir búferlaflutningar í landinu frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis og liggja til þess margvíslegar ástæður. Ein þeirra er hærra verðlag á landsbyggðinni , þar sem orkuverðið er einn þátturinn. Því er lögð á það áhersla að jafnhliða nýjum raforkulögum verði gerðar varanlegar ráðstafanir til jöfnunar orkuverðs.

2. Leiðrétta verður þá mismunun sem hefur verið við lýði á milli almenningsrafveitnanna, annars vegar þeirra sem hafa haft bein viðskipti við Landsvirkjun og hins vegar þeirra sem hafa keypt raforku í heildsölu af Rarik. Ekki verður við það unað að dagar löngu úrelts heilsölukerfis verði framlengdir.

3. Ekki verður fallist á þá tillögu sem felst í frumvarpinu um að flytjendur og dreifendur raforku megi ekki stunda framleiðslu né sölu nema með því að skipta fyrirtækjunum upp í fleiri sjálfstæð fyrirtæki. Hér verður að hafa í huga að samrekstur þessara þátta, t.d. hjá sveitarfélagaveitum, hefur um langt skeið skilað fyrirtækjunum og viðskiptavinum þeirra fjárhagslegum ávinningi í formi lægri rekstrargjalda og þar með lægra verði. Því er engin ástæða til breytinga, sem kynnu að leiða til meiri óhagkvæmni og þar með hærra verðs til notenda.“

Fundur með þingmönnum

Haldinn var fundur með þingmönnum í nóvember á síðasta ári um málefni sem tengjast samstarfsstofnunum sveitarfélaga á Suðurlandi, þ.e. SASS, Atvinnuþróunarsjóði , Heilbrigðiseftirliti, Skólaskrifstofu og Sorpstöð. Rætt var um ýmis málefni s.s. viðbyggingu við Sjúkrahús Suðurlands og ástand Ljósheima, íþróttahús við Fjölbrautaskóla Suðurlands, skólabúðir á Skógum samning um menningarmál, þ.m.t. menningarhús, stuðning ríkisins í byggða- og atvinnumálum, hugmyndir ríkisins um stofnun sérstaks matvælaeftirlits og afleiðingar þess fyrir heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, nýja neysluvatnsreglugerð, stöðu sálfræðings við heilsugæslustöðvar á Suðurlandi, málefni Kjötmjöls, o.s.fr. Öll þessi mál eru enn í deiglunni og brýnt að leiða þau til lykta sem fyrst.

Ályktanir um sjúkrastofnanir á Suðurlandi

Sjúkrahús Suðurlands

Á síðasta ári barst erindi frá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, dags. 30. apríl 2001, þar sem óskaðvar eftir að SASS kæmi fram fyrir hönd sveitarfélaganna varðandi fyrirhugaða viðbyggingu við Heilbrigðisstofnunina Selfossi. Stjórnin samþykkti þá málaleitan að höfðu samráði við héraðsnefndir á Suðurlandi. Framkvæmdastjóri hefur farið á einn fund vegna málsins, en því virðist lítið hafa þokast áleiðis.

Á fundi nú seint í vor urðu umræður um nýbyggingarmál Sjúkrahúss Suðurlands í kjölfar óstaðfestra fregna að í fjármálaráðuneyti hefðu menn brugðist ókvæða við andstöðu Árborgar og fleiri sveitarfélaga við að greiða ýmsa reikninga vegna viðhalds á húsnæði og tækjabúnaði sjúkrahússins og að sú andstaða kynni að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við stofnunina. Af þessu tilefni var eftirfarandi ályktun var samþykkt:

,,Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga leggur þunga áherslu á að bráðnauðsynlegar framkvæmdir við nýbyggingu Sjúkrahúss Suðurlands hefjist sem fyrst og tekur jafnframt fram að sveitarfélögin muni taka þátt í kostnaði við nýbygginguna í samræmi við gildandi lög.“

Miklu skiptir að framkvæmdir hefjist strax á næsta ári því algjört ófremdarástand ríkir nú í húsnæðismálum stofnunarinnar.

Rekstrarskilyrði dvalar- og hjúkrunarheimila á Suðurlandi.

Verulega virðist hafa hallað undir fæti varðandi rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila á Suðurlandi undanfarin misseri. Framkvæmdastjóri kannaði ástand þessara mála sem staðfesti það. Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

,, Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga skorar á heilbrigðis- og tryggingaráðherra og fjármálaráðherra að endurskoða nú þegar upphæð daggjalda til dvalar- og hjúkrunarheimila. Stórfelldur halli varð á rekstri slíkra stofnana á síðasta ári sem rekja má til launahækkana sem ekki hefur verið tekið nægjanlegt tillit til í daggjöldum, en launahækkaninar voru í fullu samræmi við samninga sem ríkið gerði við heilbrigðisstéttir. Ekki hefur heldur verið tekið fullt tillit til hærra þjónustustigs sem hefur reynst nauðsynlegt til að geta sinnt því fólki sem dvelur á heimilunum.

Í Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu þar sem hjúkrunar- og dvalarheimili eru rekin á vegum sveitarfélaga nam hallinn á síðasta ári samtals um 45 milljónum króna sem lætur nærri að vera um 10 þúsund krónur á hvern íbúa.

Ekki verður við þetta ástand unað og minnir stjórn SASS á að ríkið á að standa straum af rekstri þessara heimila með daggjöldum og því mikilvægt að tekið sé tillit til eðlilegs rekstrarkostnaðar við ákvörðun daggjaldanna. Einnig er minnt á að lögum samkvæmt ber að hafa samráð við rekstraraðila þessara stofnana áður en ákvörðun um daggjöld er tekin.

Stjórnvöld eru hvött til að bregðast skjótt og drengilega við þessari áskorun.“

Byggðamál

Byggðamál voru sem oftar mjög til umfjöllunar sl. vetur. Annars vegar var um að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum eins og áður er getið. Í því sambandi var mjög athyglisvert að á svipuðum tíma og þingsályktun ríkisstjórnarinnar var samþykkt þá samþykkti þingið ríkisábyrgð upp á 25 milljarða króna vegna fyrirtækis sem hyggst setja sig niður í nágrenni Kvosarinnar í Reykjavík og um líkt leyti skrifaði menntamálaráðherra upp á samning við Reykjavíkurborg um 3 milljarða þátttöku ríkisins í fyrirhuguðu tónlistarhúsi í Reykjavík.

 

Hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga var til umfjöllunar á fulltrúaráðsfundi tillaga frá byggðanefnd Sambandsins um stefnu í byggðamálum og samkvæmt henni var lagt til að ríkisvaldið einbeitti sér fyrst og fremst að kjarnasvæðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og á Vestfjörðum. Stjórn SASS ályktaði um tillöguna með eftirfarandi hætti:

„Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga lýsir ánægju sinni með að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ákveðið að móta sér stefnu í byggðamálum og tekur undir flestar tillögur byggðanefndar Sambandsins. Stjórnin gerir þó alvarlegar athugasemdir við tillögur nefndarinnar um uppbyggingu kjarnasvæða, en þar virðist nefndin einkum beina sjónum að Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Álykta má af því að ekki sé talin sérstök þörf á að efla kjarnasvæði á Suðurlandi, Vesturlandi og Suðurnesjum, væntanlega vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið. Stjórn SASS dregur verulega í efa réttmæti þeirra hugmynda sem að baki þessarara skoðana búa. Vissulega nýtur hluti Suðurlands góðs af nálægð við höfuðborgarsvæðið, en að flestu leyti hafa Sunnlendingar verið að berjast á undanförnum árum við hin klassísku vandamál landsbyggðarinnar; óhagstæða íbúaþróun, einhæfni atvinnulífs og dýr lífsskilyrði. Stjórn SASS telur því ekki síður mikilvægt að byggja upp og treysta öfluga þjónustakjarna í þessum landshlutum sem valkosti við höfuðborgarsvæðið. Ekki má gleyma því að bæði á Suðurlandi og Vesturlandi eru landsvæði sem eiga verulega í vök að verjast s.s. V-Skaftafellssýsla og austurhluti Rangárvallasýslu, þó að þar séu sem betur fer einnig vaxtarsvæði eins og Árborgarsvæðið. Ekki er vafi á því að á Suðurlandi veitir hið vaxandi Árborgarsvæði byggðunum austar aukinn styrk með fjölbreyttri þjónustu og því mikilvægt að efla það kjarnasvæði fremur en að láta það afskiptalaust af hálfu ríkisvaldsins. Stjórn SASS leggur því þunga áherslu á að við mótun kröftugrar byggðastefnu verði lögð á það áhersla af hálfu stjórnvalda að efla byggð í öllum landshlutum þannig að sem flestir landsmenn eigi kost á fjölbreyttri þjónustu og öflugu atvinnulífi.“

Á fulltrúaráðsfundinum var að nokkru komið til móts við sjónarmið okkar en þó alls ekki nægjanlega.

Endurskoðun á starfsemi SASS

Á síðastliðnum vetri var skipuð sérstök nefnd til að yfirfara og endurskoða hlutverk og verkefni SASS. Hana skipa Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Ólafía Jakobsdóttir, Valtýr Valtýsson, Ingunn Guðmundsdóttir, Loftur Þorsteinsson og Hjörleifur Brynjólfsson. Ekki er fjallað hér um störf eða álit nefndarinnar þar sem hún mun sérstaklega gera grein fyrir störfum sínum hér síðar á fundinum.

Aukafundur SASS 30. nóvember 2001

Haldinn var sérstakur aukafundur SASS undir lok síðasta árs vegna þeirrar breytingar sem gerð var á lögum samtakanna á síðasta reglulega aðalfundi, þess efnis að framvegis yrðu aðalfundir haldnir í nóvember ár hvert. Megin rökin fyrir þeirri breytingu voru að þá væri besti tíminn til að afgreiða fjárhagsáætlun næsta árs og í samræmi við sveitarstjórnarlög. Sérstakur aukafundur var því haldinn til að afgreiða fjárhagsáætlanir SASS , Heilbrigðiseftirlits og Skólaskrifstofu. Jafnframt var sérstök umfjöllun um menningarmál á Suðurlandi og gerð samnings á milli sveitarfélaganna og ríkisns um þau mál hliðstæðan þeim sem þegar hefur verið gerður á milli sveitarfélaga á Austurlandi og menntamálaráðuneytisins. Karitas Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu menningarmála í menntamálaráðuneytinu fjallaði um stefnumótun og forsendur slíkra samninga og gerði sérstak grein fyrir Austurlandssamningnum. Fundurinn samþykkti að að fela stjórn SASS að hefja undirbúning að gerð samnings við Menntamálaráðuneytið um menningarmál á Suðurlandi. Í kjölfarið var skipaður sérstakur starfshópur sem í sitja fulltrúar stjórnar auk eins fulltrúa frá hverri héraðsnefnd. Óskað hefur verið eftir formlegum viðræðum við ráðuneytið en í svari þess var þess farið á leit að reynt yrði að ná samstöðu við fulltrúa Vestmannaeyjabæjar um sameiginlegan samning. Vestmannayjabær hefur ekki enn svarað erindi samtakanna þar um. Málið er því í biðstöðu.
Þátttaka í nefndum

Framkvæmdastjóri hefur tekið þátt í störfum tveggja nefnda á síðasta starfsári tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga; samráðsnefnd um málefni grunnskólans en í henni sitja fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, kennarasamtakanna og Menntamálaráðuneytisins, og úrskurðarnefnd vegna ágreiningsmála um grunnskólakostnað. Jafnframt hefur framkvæmdastjóri tekið þátt í viðræðum af hálfu Sambandsins við fulltrúa ríkisins um fyrirætlanir um stofnun sérstaks matvælaeftirlits og einnig setið í starfshóp sem hefur það hlutverk að semja frumvarp um úrvinnslugjald. Þá situr framkvæmdastjóri í nefnd á vegum Sambandsins sem er að undirbúa nám fyrir sveitarstjórnarmenn. Formaður hefur undanfarin ár setið í nefnd um skipulag miðhálendisins tilnefndur af SASS.

3. Rekstur stofnana

Skrifstofa SASS.
Rekstur skrifstofunnar hefur verið með hefðbundnum hætti. Skrifstofan sér um bókhald og annað almennt skrifstofuhald fyrir Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands, Sorpstöð Suðurlands, Atvinnuþróunarsjóð Suðurlands og SASS auk launavinnslu vegna kennara fyrir 15 sveitarfélög. Með fækkun og stækkun sveitafélaga fækkar skólunum þar sem skrifstofan hefur séð um útreikning kennaralauna og er það vel. Vonandi verður þessi þjónustuþáttur skrifstofunnar úr sögunni að fjórum árum liðnum. Skrifstofan mun að sjálfsögðu veita sveitarfélögunum ráðgjöf á þessu sviði til þeirra sen nú eru að glíma við nýtt verkefni. Þá sér skrifstofan um allt almennt skrifstofuhald fyrir Kjötmjöl ehf. og Fræðslunet Suðurlands. Önnur þjónusta skrifstofunnar við sveitarfélögin hefur verið með hefðbundnum hætti, upplýsingagjöf ýmiss konar og aðstoð. Þá hafa samtökin í gegnum tíðina aðstoðað aðra aðila við fundahald sem tengist sveitarfélögunum, nú síðast landbúnaðarráðuneyti vegna kynningar þess á niðurstöðum skýrslu um salmonellu og campylobacter í dýrum og búvörum.

Yfirvinnuorlofsmál

Á árinu 2000 hófust málaferli á hendur samtökunum vegna meints ógoldins orlofs á fasta yfirvinnu, en sá háttur hefur tíðkast um margra ára bil hjá samtökunum og stofnunum þeim tengdum að greiða fasta yfirvinnu í orlofi og hefur það verið talið jafngilda orlofsgreiðslu á fasta yfirvinnu. Málið féll samtökunum í óhag í héraðsdómi og síðan synjaði Hæstiréttur um áfrýjunarleyfi þar sem fjárhæðir sem um ræddi væru undir settum mörkum. Dómur héraðsdóms var því endanlegur og þeim starfsmönnum sem í hlut áttu greitt umrætt orlof. Í kjölfarið kröfðust tveir starfsmenn til viðbótar að fá greitt orlof á fasta yfirvinnu og ákvað stjórn SASS að höfðu samráði við stærstu sveitarfélögin að hafna þessum kröfum, enda var um að ræða kröfu sem var yfir þeim fjárhæðarmörkum sem Hæstiréttur setur. Ástæður þessarar ákvörðunar eru þær að í fyrsta lagi sé ekki hægt að sætta sig við að tvígreiða fólki fyrir sömu vinnuna og í öðru lagi er hér um nokkra milljónatugi að ræða ef allt er reiknað saman því sami háttur hefur verið hafður á hjá stærstu aðildarsveitarfélögum samtakanna. Þessa niðurstöðu studdi einnig lögfræðiálit lögmanns sem fenginn var til ráðgjafar. Að öllu samanlögðu fannst stjórnarmönnum rétt að fá endanlegan dóm um málið hver svo sem niðurstaðan yrði.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.
Afkoma Heilbrigðiseftirlits var á sléttu um áramót, en vegna starfslokasamnings í kjölfar langra veikinda við fyrrverandi framkvæmdastjóra og tilsvarandi afleysingaráðningar þurfti að bregðast við með því að leggja aukagjald á sveitarfélögin. Er það í samræmi við lög nr. 7/1998, sem kveða skýrt á um að sveitarfélög hafi heimild til að leggja á eftirlitsgjöld en þeim beri að greiða það sem upp á vantar í samræmi við íbúafjölda 1. desember næstliðins árs. Að öðru leyti gekk rekstur Heilbrigðiseftirlitsins í samræmi við áætlun.

Nokkur styr stóð um Heilbrigðiseftirlitið á síðasta ári eins og stundum áður en þau mál leystust farsællega og eru vonir bundnar við að nú sé bjart framundan í starfsemi stofnunarinnar. Þó eru blikur á lofti vegna fyrirhugaðrar stofnunar sérstaks Matvælaeftirlits á vegum ríkisins en samkvæmt þeim hugmyndum er gert ráð fyrir að hluti af starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga fari til hinnar nýju stofnunar. Ástæða er til að andæfa þessum áformum, því ef af verður munu þessar aðgerðir veikja starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga bæði faglega og fjárhagslega. Viðræður standa nú yfir á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna um málið og er ekki enn ljóst hver niðurstaðan verður.

Sameiginleg heilbrigðisnefnd fyrir allt kjördæmið tók til starfa á árinu 1998. Í henni sitja fjórir fulltrúar tilnefndir af SASS og einn fulltrúi frá Vestmannaeyjabæ. Atvinnurekendur skipa einn fulltrúa í nefndina. Á þessum aðalfundi liggur fyrir að kjósa fulltrúa SASS í nefndina, en lögum samkvæmt er kosið í nefndina til fjögurra ára. Fyrirkomulag heilbriðiseftirlitsins í Vestmannaeyjum hefur verið á dagskrá að undanförnu. Í gildi hefur verið samningur á milli HES og RFV um eitt stöðugildi út í Vestmannayjum. Óánægja hefur verið með þetta fyrirkomulag af hálfu heilbrigðisnefndarinnar og hefur hún nú sagt upp samningi frá og með næstu áramótum. Stjórn SASS gerði á sínum tíma rammasamkomulag við Vestmannaeyjabæ um þessi mál og hefur óskað viðræðna við Vestmannaeyjabæ en þær hafa ekki komist á enn.

Skólaskrifstofa Suðurlands.

Starfsemi skrifstofunnar hefur fest sig vel í sessi eftir miklar breytingar á starfsmannahaldi. Við skrifstofuna starfa samtals 7 manns, þ.e. forstöðumaður, 3 sálfræðingar, tveir kennsluráðgjafar og 1 talmeinafræðingur. Miðstöð starfseminnar er að Austurvegi 56 Selfossi, en auk þess hafa tveir starfsmenn starfsaðstöðu í Laugarási og Hvolsvelli. Óhætt er að fullyrða að starfsemi skrifstofunnar sé með miklum blóma og ánægja ríkjandi með þá þjónustu sem hún veitir.


Sorpstöð Suðurlands.
Samtökin sjá um um rekstur Sorpstöðvar Suðurlands. Starfsemi stöðvarinnar, en hún rekur eins og kunnugt er sorpurðunarsvæði í Kirkjuferjuhjáleigu. Jafnframt starfar umhverfisfræðingur á vegum Sorpstöðvarinnar og sinnir m.a. ýmissi ráðgjöf við sveitarfélögin.


Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands.
SASS hefur séð um bókhald sjóðsins auk þess sem náin samvinna hefur verið við sjóðinn um ýmis mál sem varða sunnlensk sveitarfélög með einum eða öðrum hætti.

4. Lokaorð
Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga starfsárið 2001 – 2002 þakkar starfsmönnum samtakanna og samstarfsstofnana fyrir gott starf á liðnu starfsári. Stjórnin þakkar einnig öllum sveitarstjórnum og embættismönnum sveitarfélaga á Suðurlandi ánægjulegt samstarf á starfsárinu.