Lýsing
Safnfræðsluverkefnið undir heitinu: Ratað um safn – Ráfað í tíma, er hluti af safnfræðsludagskrá Byggðasafns Árnesinga og sameinar helstu áherslur úr almennum leiðsögnum fyrir skólahópa.
Verkefnið er ratleikur samtvinnaður tveimur vinnusmiðjum. Leikurinn tekur mið af því að hinn ungi safnagestur rati fram á þá hluta sýningar sem gætu vakið forvitni og áhuga um byggðasögu Árnessýslu. Ratleikur leiðir gestinn í hvert og eitt safnhús, Húsið, Sjóminjasafnið, Eggjaskúrinn og Kirkjubæ og tengir sýningarnar saman. Ratleikurinn verður einnig á ensku og aðgengilegur á vefsíðu safnsins.
Markhópur
Ratað um safn –Ráfað í tíma er ætlað grunnskólakrökkum á öllum aldri. Ratleikurinn er þó helst miðaður við miðstig grunnskóla meðan vinnusmiðjurnar sem falla inní ratleikinn eru breytilegar og hugsaðar út frá öðrum aldurshópum. Aðalnámskrá grunnskóla var höfð að leiðarljósi við gerð verkefnisins. Líkt og í námskrá er lögð áhersla á mikilvægi þess að nemendur skilji betur sitt samfélag, tækniframfarir, náttúruskilyrði, sögu og menningu og staðsett sjálfan sig sem hluti hennar. Innihaldsrík en skemmtileg safnaheimsókn getur aukið félagsvitund, gagnrýna hugsun og virkjað sköpunarkraft og leikgleði.
Afurð
Ratleikurinn um söfnin verður gerður af hönnuði og prentaður í handhægu formi. Leikurinn verður ríkulega myndskreyttur og með korti af safnasvæðinu. Safnagesturinn fær leikinn í móttöku safnsins en einnig er hægt að prenta hann út af netinu. Að leik loknum fær þátttakandi stimpil og litla viðurkenningu.
Meðan flestar þrautirnar í ratleiknum eru til þess fallnar að auka upplifun á sýningum safnsins þá eru tvær vinnusmiður innan ratleiksins hugsaðar sem vettvangur kennslu. Fyrri vinnusmiðjan er tímalína í Kirkjubæ sem veitir tækifæri til að auka við fróðleik barna um ákveðin tímabil í sögunni. Hvenær t.d. kom rafmagn í þorpin eða hvenær lauk seinni heimsstyrjöldinni? Ekki síður er gagnlegt að vinna eigin tímalínu og skoða hvað gerist á eigin líftíma. Seinni vinnusmiðjan er verskrína sjómanns sem er fulla af gripum. Gestir mega skoða og snerta en líka getur kennari eða starfsmaður safnsins nýtt kistuna sem námsgang í leiðsögn með skólahópa.
Ávinningur
Ratað um safn – Ráfað í tíma mun nýtast skólahópum sem og fjölskyldufólki. Með tilkomu ratleiks og vinnusmiðju eykst sveigjanleiki í heimsókn skólahópa. Kennarar geta valið að fá ratleik og/eða vinnusmiðju í viðbót við leiðsögn eða t.d. leiðsögn á einn stað en ratleik í öðru safnhúsi. Nemendur fá fjölbreytta miðlun sem hentar vel sem ítarefni við samfélagsfræði og fleiri greinar. Ratað um safn – Ráfað í tíma er sjálfbært á þann hátt að hver sem er getur gengið að því. Þannig mun það gagnast vel íslenskum og erlendum gestum; þá sérlega fjölskyldufólki. Safnfræðsluviðbótin er vel til þess fallin að lengja dvöl gestsins sem og efla upplifun af safnaheimsókn. Með ratleiknum fær safnið einnig gott kynningarefni og góðan efnivið til að færa saman miðlun í ólíkum safnhúsum stofnunninnar.
Byggðasafn Árnesinga
Verkefnastjóri Linda Ásdísardóttir
Tölvupóstur: linda@husid.com
Heimasíða: husid.com
Sími: 4831504
Hvert og eitt safn kynnti verkefni sín á sameiginlegri kynningu 31. maí 2018 og má finna öll kynningarmyndböndin hér.