Í gær , 25. september, var undirritað samkomulag um stofnun Suðurlandsvegar ehf. Stofnendur félagsins eru Sjóvá, Sveitarfélagið Árborg, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grímsnes- og Grafningshreppur, Mjólkursamsalan og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga. Markmið félagsins er að stuðla að umræðu um flýtingu Suðurlandsvegar og benda á nýja valkosti í því samhengi. Hlutafé félagsins er tíu milljónir króna. Á fundinum voru frétta- og blaðamönnum kynnt markmið félagsins nánar, en eitt meginmarkmið þess er að auka umferðaröryggi og fækka slysum, en fram kom að 52 hafa látist í umferðarslysum á Suðurlandsvegi frá árinu 1972. Þá kom einnig fram að umferð um veginn hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og sterkar vísbendingar um að sú þróun haldi áfram. Með sama áframhaldi má búast við að umferðin um veginn tvöfaldist á næstu tíu árum og verði á bilinu 15 – 20 þúsund bílar á dag að meðaltali. Til samnburðar fara að meðaltali um 10 þúsund bílar um Reykjanesbraut daglega.