Í mars sl. auglýsti Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið eftir umsóknum í Lóuna. Lóan er sjóður sem veitir styrki til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni. Eins og segir á vefsvæði Lóunnar hefur sjóðurinn það hlutverk að auka nýsköpun á landsbyggðinni og styðja við eflingu byggða og landshluta með nýskapandi verkefnum. Sjóðurinn styður við atvinnulíf og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni.
Heildarfjárhæð úr Lóu árið 2023 var 100 milljónir króna og bárust alls 97 umsóknir. Umsóknirnar voru á fjölbreyttum sviðum og með ólíkum viðfangsefnum, allt frá hugmyndum á frumstigi til stærri verkefna sem eru komin vel á veg.
Að þessu sinni hlutu alls tuttugu og fimm verkefni styrk úr Lóunni og þar af voru fjögur sunnlensk verkefni; Frostþurrkun ehf., Eden ehf., Öldurhús ehf. og Þekkingarsetur Vestmannaeyja.
Frostþurrkun ehf. hlaut styrk að upphæð rúmlega 6,5 m.kr. fyrir verkefnið Verðmætaaukning hliðarafurða laxa úr landeldi. Verkefnið snýr að þróun afurða úr hliðarafurðum laxa úr landeldi með notkun frostþurrkunar. Frostþurrkun hefur áður hlotið styrk úr Uppbygginarsjóði Suðurlands, m.a. haustið 2022 fyrir verkefnið „Frostþurrkað snarl úr íslensku grænmeti“. Einnig var Frostþurrkun ehf. eitt af þremur sunnlenskum verkefnum sem sóttu fjárfestingarhátíð Norðanáttar á Sigulfirði haustið 2023. Hægt er að fá nánari upplýsingar um Frostþurrkun ehf. á heimasíðu þeirra www.freezdry.is.
Eden ehf. hlaut 2 m.kr. króna styrk til verkefnisins Binding og notkun á íslensku bergi. Verkefni Eden snýst um að nýta grjót sem fellur til við námuvinnslu sem hliðarafurð, binda inn í staðlaðar einingar til útflutnings sem fullbúna vöru sem nýtist t.d sem ýmiskonar vörn gegn áhrifum náttúruvár.
Öldurhús ehf. hlaut 730 þús.kr. styrk fyrir verkefnið Sjálfbærni í mjaðargerð. Markmið verkefnisins er að setja á laggirnar mjaðargerð á Hellu með eigin matjurtagörðum, gróðurhúsum og heimajarðgerð til að sporna við sóun og auka sjálfbærni.
Þekkingarsetur Vestmannaeyja hlaut styrk að upphæð 5 m.kr. króna fyrir verkefnið Veiðar og vinnsla á rauðátu við Vestmannaeyjar. Verkefnið snýst um að kanna möguleika á veiðum og vinnslu á rauðátu við suðurströnd landsins. Talsverðar rannsóknir hafa verið stundaðar síðustu tvö ár í svokölluðu Háfadjúpi og ætlunin á þessu ári er að skala þessar rannsóknir upp með búnaði sem tekinn verður á leigu frá Zoocoa (Calanus AS). Þekkingarsetur Vestmannaeyja hlaut 1,5 m.kr. styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands haustið 2022 fyrir verkefnið „Veiðar á rauðátu við Suðurströndina“.
Eins og sjá má hafa því tvö þeirra fjögurra sunnlensku verkefna sem hlutu styrk úr Lóunni áður hlotið styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Uppbygginarsjóðurinn er samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styðja við menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni sem falla að Sóknaráætlun Suðurlands. Sjóðurinn er kjörið fyrsta skref fyrir verkefni og gjarnan stökkpallur yfir í stærri sjóði og fjárfestingar. Næsti umsóknarfrestur í Uppbyggingarsjóð Suðurlands er 3. október 2023 kl. 16:00. SASS hvetur áhugasama til að kynna sér sjóðinn og ráðgjöf byggðaþróunarfulltrúa á vegum SASS sem sérstaklega er hugsuð til handa fyrirtækjum og frumkvöðlum á Suðurlandi sjá: www.sass.is/radgjof.
SASS óskar styrkhöfum Lóunnar til hamingju með úthlutunina.