fbpx

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands afhenti menntaverðlaun Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga  (SASS)  fyrir árið 2011 á hátíðarfundi Fræðslunets Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands í gær í hátíðarsal í Fjölbrautaskóla Suðurlands.  Verðlaunin að þessu sinn hlaut Grunnskólinn í Þorlákshöfn  og tók Halldór Sigurðsson  skólastjóri við verðlaununum fyrir hönd skólans.  Þetta var í fjórða sinn, sem verðlaunin eru afhent en það er menntanefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem hefur veg og vanda af verðlaununum. Eydís Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps og formaður menntanefndar SASS, kynnti þau fimm verkefni, sem voru tilnefnd til verðlaunanna og upplýsti hver fengi verðlaunin. Eftirfarandi tilnefningar bárust:
 

Fjölmennt á Selfossi er tilnefnd til menntaverðlauna Suðurlands, fyrir frumkvöðlastarf á sviði fullorðinsfræðslu fyrir fatlaða. Fjölmennt hefur starfað frá  árinu 1994 með meginstarfstöð á Selfossi en hefur einnig farið með námskeið víðar um Suðurland. Nemendur hafa komið frá Sólheimum í Grímsnesi, Hveragerði, Þorlákshöfn, Hvolsvelli, Selfossi og nærsveitum. Þar er mikil áhersla lögð á jafnræði og að fatlað fólk fái alla þá fræðslu, ráðgjöf og stuðning sem getur talist sambærilegur við það sem þykir sjálfsagt og nauðsynlegt að fólk fái almennt.

Foreldrafélag Sunnulækjarskóla á Selfossi fyrir framúrskarandi starf við uppbyggingu foreldrasamstarfs í nýjum skóla. Skipulag tenglastarfs og mjög gott upplýsingaflæði til félaga með   virkum upplýsingavef og reglulegu fréttabréfi. Einkennandi fyrir starfið í heild sinni er jákvæðni, góður skilningur á skólastarfi og framsækni.

Foreldrafélag Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir metnaðarfullt starf og ber þar hæst, Verkefnið „Barnabær“ sem stofnað var af Foreldrafélaginu vorið 2011 í tengslum við vordaga, með það að markmiði að tengja nemendur BES við nærsamfélagið með markvissum hætti. Verkefnið gekk út á það að foreldrar, kennarar og nemendur stofnuðu fríríkið Barnabæ í 3 heila skóladaga. Barnabær var smækkuð mynd af samfélagi með allri þeirri starfsemi,  sem nauðsynleg er til þess að það sé starfhæft, vinnustaðir, kaffihús, verkstæði, vinnumálastofnun, fjölmiðlar, banki og þannig mætti lengi telja. Nemendur fengi svo útborgað í sérstökum gjaldmiðli sem notaður var meðan á verkefninu stóð.

Allir kennarar við Leikskólann Bergheima í Þorlákshöfn fyrir óeigingjarnt starf sitt við skólann og sérstaka áherslu á hreyfingu í öllu starfi. Má þar nefna reglulegar æfingar í íþróttahúsi og sundlaug og vikulega danstímar.

Grunnskólinn Þorlákshöfn fyrir námslegar framfarir og samþættingu á leiklist og tónlistarlífi inn í starf skólans. Ber þar hæst öflugt samstarf við tónlistarskóla Árnesinga sem á sér orðið langa hefð í sögu skólans. Starfið hefur lagt grunn að því menningarlífi sem bæjarfélagið býr að og er einmitt til þess tekið í rökum þeirra sem sendu inn tilnefningar að með starfi skólans hafi verið lagður sterkur grunnur að því blómstrandi menningar og listalífi sem einkennir bæjarfélagið. Grunnskólinn er Grænfánaskóli þar sem nemendur vinna af metnaði að umhverfismálum. Svo sé vitnað orðrétt í tilnefningu móður 4 barna sem stundað hafa nám við skólann frá árinu 1987. Grunnskólinn í Þorlákshöfn er skóli í ungu og barnmörgu samfélagi þar sem fjölmenning er  ríkur þáttur  en um 14 % af nemendum skólans eru af erlendu bergi brotnir og hefur skólanum tekist vel að sameina ólíka nemendur með fjölbreyttu starfi þar sem allir hafa möguleika á að finna sinn farveg.